Söngleikurinn Fun Home, Útfjör í íslenskri þýðingu, er nýr söngleikur byggður á sjálfsævisögu Alison Bechdel teiknimyndasöguhöfundar. Verkið sjálft er margslungið, spennandi og mjög fyndið. Það fjallar aðallega um æsku Alison og flókið samband hennar við föður sinn. Íslenski titillinn Útfjör á að visa í að heimilisfaðirinn rekur útfararstofu. Þó finnst mér enski titillinn mun betri þar sem titillinn Fun Home, (funeral home) segir okkur miklu meira því verkið er fjölskyldudrama og á lítið skylt við jarðarför. Svo látið ekki titilinn blekkja ykkur!
Alison og fjölskylda hennar búa í undurfallegu húsi í Pennsylvaniu. Í fyrstu minnir stemmningin í verkinu á þættina „This is Us“ með fallegum augnablikum milli foreldra og barna þar sem farið er fram og aftur í tíma. En fljótlega kemur í ljós að eitthvað er ósagt. Alison uppgvötvar að ekki var allt sem sýndist, að æska hennar var ekki svo áhyggjulaus eftir allt saman. Saklaus fjölskylduferð til New York var kannski í raun flótti frá einhverju og fjölskylduvinurinn var í raun enginn vinur. Og afhverju fer faðir hennar út að sækja blaðið um miðja nótt?
Alison leitar að vísbendingum í fortíðinni og reynir að koma auga á það sem henni yfirsást sem barn. Spurningin er í raun hvort að barn geti nokkurn tíman þekkt foreldra sína og hvort að foreldrar eigi rétt á að fela sannleikann fyrir börnum sínum. Hver atburður rekur annan og Alison reynir að átta sig á því hver faðir hennar er í raun, er hann hetjan sem hún dáði og elskaði eða skúrkur sem særir að tilefnislausu þá sem standa honum næst?
Aðalhlutverkin eru í raun ekki fleiri en Alison á barnsaldri, Alison á unglingsaldri, Alison fullorðin og faðir Alison. Önnur hlutverk eru móðir Alison, tveir bræður hennar og vinir fjölskyldunnar.
Alison yngsta er leikin af Eik Haraldsdóttur. Þessi leikkona er sú yngsta í leikarahópnum og er algjörlega engri lík! Alison á unglingsaldri er leikin af Jónu Margréti Guðmundsdóttur sem er einn besti grínisti sýningarinnar. Alison á fullorðinsárum, leikin af Telmu Lind Bjarkadóttur, blómstrar í enda sýningarinnar en er heldur hæglát framan af. Faðirinn er leikinn af Ara Orrasyni. Það er ekki nokkur maður í salnum sem trúir því að þarna sé á ferð unglingur í menntaskóla. Röddin og útlitið eru fullkomin í hlutverkið. Móðir Alison, leikin af Áslaugu Erlingsdóttur, er í aukahlutverki þar til hún opnar sig eftir hlé í hjartnæmu söngatriði. Oddur Hrafnkell Daníelsson og Júlíus Þór Björnsson Waage leika bræður Alison og fara að mestu vel með sín hlutverk þó að Júlíus hefði mátt fara yfir danssporin einu sinni enn.
Þótt efnið sé alvarlegt og átakanlegt á köflum þá er alltaf stutt í gleðina og þar hjálpar tónlistin og dansinn mikið til, því að þetta er vissulega söngleikur. Lögin eru ekki of mörg og þau eru í alvörunni skemmtileg (enda fékk verkið Tony verðlaunin 2015 fyrir bestu tónlistina). Í mörgum laganna eru flott dansatriði fléttuð inn í. Leikararnir hafa flestir bakgrunn í söng og það heyrist vel. Tónlistarflutningurinn í sýningunni var frábær. Hljómsveitin var fjölmenn og búin ólíkum hljóðfærum sem gerði mikið fyrir heildarupplifunina.
Sviðsmyndin er áhugaverð og í raun eru alltaf að minnsta kosti tvö atriði í gangi á sviðinu. Ljós og hljóð eru notuð til að gefa til kynna fjarlægð persóna eða fortíð. Þetta virkar mjög vel þó að stundum hafi það gerst, þegar eitthvað var að gerast aftast á sviðinu, að mótleikararnir snéru sér þangað og töluðu með bakið í áhorfendur, sem þeir ættu að forðast. Einnig mætti spara reykvélina því það var sama hvaða atriði var í gangi, alltaf var bæði sviðið og salurinn kjaftfull af reyk, sem bætir í raun litlu við verkið.
Þetta verk er ótrúlega krefjandi og það er svo æðislegt að þetta litla leikfélag hafi haft kjark til þess að setja það upp. Mér þykir líklegt hér hafi hin leikhúsin verið of sein að grípa gæsina, því að það er í raun litlu hægt að bæta við þessa uppsetningu hjá Leikfélagi Menntaskólans á Akureyri.
Sýningin er fagmannleg á allan hátt og hér erum við komin mjög langt frá áhugamannaleikhúsinu með sínum gloppótta leik, óstyrkum söng og vandræðalegum augnablikum. Það var ekki fyrren að sýningunni lauk og ég gekk út og sá aðalleikarana faðma foreldra sína tárvotum augum að ég mundi að þetta voru allt menntaskólanemar.