Tanja Rasmussen, Aldís Dagmar Erlingsdóttir, Anton Sturla Antonsson, Jón Magnús Arnarsson, Karitas M. Bjarkadóttir, Oddný Þorvaldsdóttir og Ægir Þór Jähnke.
Skandali er nafnið á nýju – eða réttara sagt væntanlegu – menningartímariti sem mun sérstaklega ætlað yngri eða nýrri höfundum og óhefðbundnum og framúrstefnulegum verkum. Tímaritið er á vegum sjö manns á aldrinum 18 til 34 ára. Öll nema eitt þeirra eru nemendur við Háskóla Íslands – í heimspeki, bókmenntafræði og íslensku. En auk háskólanemanna er grafískur hönnuður í hópnum. Skandali er í hópfjármögnun á Karolina Fund og vantar lítið upp á að það nái fjáröflunarmarkmiðum sínum. Starafugl hitti einn af ritstjórum tímaritsins, Ægir Þór Jähnke, á veraldarvefnum á dögunum og spurði hann spjörunum úr.
– Sæll Ægir. Segðu mér frá Skandala – kannski fyrst bara hver standa að þessu og hver tilgangurinn er? Ætlið þið að uppfylla þörf eða búa hana til – er kallað á ykkur eða ætlið þið að kalla á fólk?
Sæll Eiríkur. Skandali er ýmislegt og ekki allt af því niðurnjörvað eða skilgreint til fullnustu, þetta er dýnamískt verkefni. Ég er ritstjóri fyrsta tölublaðs en ritstjórnin er ansi fjölbreyttur hópur. Jón Magnús er 34 ára, Karitas aðeins 18 en aðrir dreifast á bilið þar á milli. Margir ritstjórnarmeðlimir þekkjast heldur ekki innbyrðis, það er þó að breytast. Það sem sameinar er fyrst og fremst áhugi á hinu skrifaða orð og löngun til að aðstoða fólk við að koma sér á framfæri, og auðvitað koma okkur á framfæri um leið. Tilgangurinn er sem sagt að skapa vettvang fyrir minni spámenn að opna sig og stíga fram. Við teljum klárlega þörf á slíkum vettvang, þó svo aðeins tíminn muni leiða í ljós hvort það stemmi hjá okkur. Við erum að reyna að kalla fólk út, og það virðist vera að ganga.
– Ætlið þið að leggja áherslu á umfjöllun, rýni, frumsamdan skáldskap?
Blaðið á að vera mjög opið. Ungir höfundar eru í forgrunni, en við viljum líka fá aðra til að kannski dusta rykið af einhverjum tilraunaverkum, einhverju framúrstefnulegu. við viljum vera einskonar mótvægi við fágunina í Tímariti M&m. En fyrst og fremst viljum við fjölbreytni. Allskonar textaverk (mega gjarnan vera soldið öðruvísi), ljóð, þýðingar, örsögur, smásögur, prósaljóð, leikþættir, framhaldssögur, myndljóð, greinar, ritdómar, menningarrýni. Því meira, því betra. Og einnig myndlist, ljósmyndir, grafísk verk.
– Það hefur ekki kitlað ykkur að skrifa fyrir þau prentuðu tímarit sem eru þarna fyrir – TMM, Stínu, jafnvel dagblöðin? Hvernig mun Skandali skilja sig frá öðrum miðlum – fagurfræðilega, meina ég, fremur en hverjir skrifa í það? Nafnið gefur til kynna ákveðna afstöðu – verður skandalös efni í Skandala?
Nafnið auðvitað býður uppá þá túlkun og það er viljandi gert. Við erum búin að vera að nota þessa tagline í kynningum að bjóða fólki að „gera skandala“.
Og varðandi hin tímaritin. Bæði ég og Anton (allavega) höfum birt í Stínu oftar en einu sinni, en þessi tvö blöð með samtals sex tölublöð á ári er bara ekki nóg. Og ekki er maður oft að sjá mikið skapandi í dagblöðum. Svo er Stína kannski nokkuð opin fyrir nýjum nöfnum en TM&M birtir nú sjaldnast aðra en kanónur.
Svo, einsog ég sagði, er þetta opið og dýnamískt verkefni. Skandali er blaðið, en ekki bara blaðið. Við stöndum líka fyrir viðburðum, upplestrum (næsti á fimmtudaginn) og höfundarkvöldum; og í framtíðinni er á dagskrá að stofna bókaklúbb og ljóðaklúbb þar sem fólk gæti komið saman í mjög nánu umhverfi og deilt efni og hugmyndum. Þá er jafnvel á dagskrá þegar fram líða stundir að sækja um styrk til að halda ritsmiðju. Og jafnvel í enn lengra framhaldi að geta stofnað til bókaútgáfu, eitthvað í líkingu við Meðgönguljóð (bara betra).
Ekki síst er langtíma markmiðið að skapa samfélag þar sem fólk getur fundið sér ritvini og komist í tengsl við fólk sem hefur hæfileika á öðrum sviðum, fengið ráð, yfirlestur og almenna hvatningu; í raun er markmiðið að stofna grasrótarkollektív skapandi fólks.
Við það má bæta að við fengum einmitt í gær 150.000 styrk úr grasrótarsjóð Bókmenntaborgarinnar
– Nafnið kveikir einmitt hugrenningartengsl við eitthvað einsog Evergreen Review – sem leitar uppi gagnrýnar hugmyndir sem annars heyrast ekki. Og dvelja svolítið í skandalarýminu þess vegna – þora þegar aðrir þegja, eða þannig.
Fagurfræði blaðsins er auðvitað enn verk í vinnslu og mun fara talsvert eftir því efni sem berst. En ég í það minnsta að hugsa þetta sem smá svona uppreisnar/and-menningar fílíng. Og ég er jú stofnandi og ritstjóri þannig að ég ætla að ná því í gegn að einhverju leyti, en ekki þannig að það takmarki um of tækifæri skúffuskáld að finna sinn fyrsta birtingarmöguleika. Þess vegna er heldur ekkert yfirlýst þema. Aftur á móti vil ég að áferð blaðsins, og alls þess sem því tengist, öskri do it yourself.
– En vantar rými fyrir DIY? Sem ritstjóri á Starafugli finnst mér meira skorta DIY-fólk en rými fyrir það – og í sjálfu sér vera of mikið af okkur litlu amatörunum/ launalausa hugsjónafólkinu, allir í sínu horni, sundruð frekar en sameinuð. Offramboð af skoðunum – lítið af fagurfræði og skortur á ritstjórn og ritstjórnarstefnu (meira að segja stóru fjölmiðlarnir virðast bara drifta). Og svo auðvitað fagmennskuna sem við getum ekki boðið uppá.
Það er dagsatt að það er mikið af verkefnum og viðburðum, og oft slök þátttaka. Og einsog ég segi verður soldið að koma í ljós hvernig þetta gengur. En við viljum einmitt reyna að draga þessa hópa saman, skapa sameiginlegan vettvang. Þannig erum við búin að vera að leita eftir samstarfi við mörg vefrit (Starafugl, Skáld.is, Lestrarklefinn) og aðra vettvanga einsog t.d. Rauða skáldahúsið um sameiginlega viðburði, og auglýsa hvort annað. Þetta er auðvitað de-centered stefna í eðli sínu, en e.t.v. með því að gefa út fysíkal blað má skapa einhverskonar tengingu. Held það séu nefnilega margir sem eru að gera eitthvað en vita ekki af neinu af þessu. Sjálfur var ég á sínum tíma í Fríyrkjunni, það var kannski það sem kom mér af stað í skrifum á ný og opnaði nýjar brautir. Upplestrarkvöldin þar voru eitt allsherjarfyllerí og útgáfurnar mjög … tja… misjafnar. En það var einhver sköpunarkraftur í gangi engu að síður, og það var helvíti mikið af fólki sem átti þátt í því.
– Mun Skandali greiða fyrir birt efni?
Skandali er tilraun til að reyna að skapa orku, og kannski beisla hana aðeins og reyna að beina henni í átt sem gefur af sér. að því sögðu getum við ekki enn sem komið er lofað greiðslu fyrir efni, en hver veit með framtíðina. Í það minnsta vonumst við til að geta greitt eitthvað smá fyrir forsíðumynd síðar meir.
Sjálf erum við öll að gera þetta í sjálfboðastarf og það er auðvitað bullandi mikil vinna. Þess vegna er líka hugmyndin að ritstjórnin sé fljótandi, að nýjir aðilar get stigið inn og aðrir stigið til hliðar þannig að álagið dreifist.
– Hvenær er von á fyrsta tölublaðinu? Og hvað á það að koma oft út?
Blaðið mun koma út tvisvar á ári, vor og haust. Fyrsta tölublað er væntanlegt seinnipartinn í maí og næsta í okt/nóv. Fjármagn fyrir fyrstu tvö blöðin er nokkurnveginn til staðar og svo er hugmyndin sem sagt að ágóði af sölu og auglýsingar geti gert okkur kleyft að halda þessu gangandi. En blaðið verður eins ódýrt og kostur er, ekki yfir 1000 krónum, og því sömuleiðis eins ódýrt í framleiðslu og kostur er. En við munum hins vegar leggja okkur fram við ritstjórn.
Skandali tekur á móti efni í fyrsta tölublað til 31. mars næstkomandi. Netfangið er skandali.timarit@gmail.com og fjáröflunarsíðan er hérna. Þar eru líka ítarlegri upplýsingar um verkefnið.