Það þarf ekki mikið til að maður fari að hugsa um Tracey Emin. Það dugir að setja dýnu í gallerí. Dýnan er Tracey Emin það sem hlandskálin er Duchamp – það eru bara ómenntaðir plebbar sem míga án þess að hugsa til Marcels eða leggjast til hvílu án þess að hugsa til Tracey. Og það er skítug dýnan á miðju gólfinu á sýningu Freyju Eilífar, Sýndarrými / Virtual Space Gallerí Úthverfu á Ísafirði sem fyrst vekur athygli manns og hertekur um stund. Þetta er spartneskara fleti en hið breska stórvirki – engin ábreiða, engin sæng, engin koddi, bara einfalt teygjulak og fátt sem gefur til kynna að í því hafi nokkur legið eða lifað, einsog í My Bed. Þess í stað er fletið umkringt miðlun – tveimur skjám þar sem okkur (eða ímynduðum íbúa dýnunnar) er drekkt í myndmáli – á öðrum skjánum er mynd af þremur höndum sem svífa yfir lyklaborð, á hinum alls kyns net- og tölvutengd symból.
Á vegg er síðan vörpun þar sem listamaðurinn/listmælandi (sem einnig er ljóðskáld/ljóðmælandi) drekkir okkur í texta.
tölvuandar eru leiðsögumenn og hjálpartæki
þeir gefa frá sér gríðarlega mikla orku
notaðu hana til að melta vélbúnaðinn
finndu hvernig hugbúnaðarhúðin þekur ljóslíkama þinn
við opnum sýndarveruleikann núna
Með textanum er mynd af eins konar „smily“ með @-merki fyrir augu.
Auk þess má heyra í bakgrunni sýningarinnar lága muldrandi tölvurödd – ég náði samt aldrei neinu af því sem hún var að segja.
Í öllum tilvikum snýr miðlunin að sjálfri sér – tilvist eða veruleika eða virkni stanslausrar miðlunar og þess lífs sem viðtakandinn sem á heima á dýnunni lifir umkringdur miðluninni. Þetta er miðlun um miðlun, miðlun miðlunar – hér hangir viðtakandi ekki á netinu, hán hangir á nethangsinu, hangir fast í hugmyndinni um nettilvist frekar en nettilvistinni sjálfri. Á sama tíma og netveruleikinn verður andlegri og háleitari og meira ávanabindandi verður kjötveruleikinn líkari fangelsi eða þrældómi – Matrixlegri ljóstillífun. Sýningunni fylgir líka plakat af holdi sem er baðað hvítri fitu (sjá mynd efst) sem flytur hugann enn nær Neo Anderson í batteríispúpunni, þegar bert, nakið holdið tekur við af og rekst utan í síðmódernískan tölvuhreinleikann.
https://www.youtube.com/watch?v=xE6q5T9bXyI
Viðtakandi les um það sem hán gerir – sítengt – og skoðar myndir af því sem hán gerir – sítengt – og gerir það í rými sem er gersneytt því sem við höfum hingað til kallað „líf“. Hér eru bara hvítir veggir og einföld dýna og lítill skúlptúr í glugganum sem minnir á skít, þar sem glitta má í eitthvað sem gætu verið lyklar af lyklaborði. Skíturinn er einsog undantekningin sem sannar regluna – því þar sem er skítur er þrátt fyrir allt smá líf. Skjálífið er hins vegar gersneytt slíku lífi – þar er hugsunin hrein og ósnert, andleikinn alger, rafrænan fullkomin og symbólisminn dómínerar og trompar ómerkilegt holdið sem býr á dýnunni, trompar hið fjarverandi líf, skítuga dýnu og saurinn í glugganum.
Sýndarrýmið á Sýndarrými/ Virtual Space er eins konar ekki-rými – staður sem fyrirfinnst bara í höfði okkar á meðan við sökkvum okkur í skjálífið, en raunrýmið sem er vettvangur þessa sýndarrýmis minnir á fíklarými. Það er þekkt að gamer-fíklar eigi svo bágt með að yfirgefa tölvuskjáinn í miðjum leik að þeir mígi í flöskur og skíti í fötur og svelti sig jafnvel frekar en að fara í búð. Dýnan gæti átt heima í Trainspotting-partí og umgjörðin ber þess öll merki að manneskjan sem á heima á dýnunni (ég, þú, gestir gallerísins) er hætt að „sinna sjálfri sér“, einsog það heitir. Íbúi dýnunnar hefur fátt étið nema tölvulykla og hann á ekkert eftir nema að veslast upp í eigin skít og volæði og verða svo eitt með stafrænni eilífðinni, nirguna brahma, amen, enter, control-alt-delete.