Myndlistarhópurinn IYFAC
Halla Birgisdóttir
Ragnheiður Harpa Leifsdóttir
Ragnheiður Maísól Sturludóttir
Sigrún Hlín Sigurðardóttir
Steinunn Lilja EmilsdóttirSýningarstjóri: Marta Sigríður Pétursdóttir
Veðrið hefur verið á allra vörum þetta sumarið. Ekki aðeins veðurleysan sem átti sér stað á Íslandi í sumar heldur einnig öfgarnar í veðrinu sem birtist í skógareldum í Svíþjóð og 50 gráða hita í sunnanverðri Evrópu. Veðrið, loftslagið er að breytast og blikur er á lofti hversu lífvænleg plánetan verður næstu aldirnar. Skemmtilegt er frá því að segja að þema sýningarnar var ákveðið áður en þetta öfgakennda veðursumar átti sér stað. Hinn fjölbreytti hópur listakvenna „International Young Female Artists Club“ kannar ólíkar hliðar veðursins en þó má sjá sameiginlega þræði í veðurkvíða gagnvart yfirvofandi breytingum og pólitískum vilja til þess að sporna við hlýnun jarðar. Með myndlistina að vopna sýnir hópurinn okkar bæði nýjar tengingar við veðrið og hjálpar okkur að enduruppgötva aldagamla visku fólks um veðrið. Starafugl fékk sýningarstjórann, Mörtu Sigríði Pétursdóttur til þess að segja okkur frá sýningunni.
– Nú er veðrið á einhvern hátt lægsti sameiginlegi samnefnari fólks, kannski bæði á góðan og slæman hátt. Góðan, því alltaf er hægt að tengjast öðrum með umræðu um veðrið en jafnframt á slæman, þar sem svoleiðis samræður eru oft hreinlega ekkert annað en vandræðalegar og kannski yfirborðskenndar. Hvernig nálguðust þið þennan lægsta samnefnara?
– Veðrið er rótgróið í félagsveruleikanum og það í raun skýlir okkur fyrir vandræðalegheitum, fyrir tilstilli veðursins höfum við eitthvað að segja við fólk sem við hittum á förnum vegi. En veðrið er líka bara svo miklu stærra heldur en manneskjan, veðrið var á undan okkar og verður á eftir okkur. Maður ímyndar sér að þegar að tungumálið verður til í heiminum, á milli fólks, að það myndist til þess að tala um veðrið, í trúarbrögðunum holdgervast guðirnir í hinum ólíku veðurháttum og þær myndlíkingar sem við notum í hversdagsleikanum sækja efnivið sinn í veðrið.
Bók Timothy Mortons Hyperobjects hafði mikil áhrif á mig þegar við vorum að „heilastorma“ um sýninguna, hnattræn hlýnun er dæmi um svona ofur-hlut eða ofur-fyrirbæri sem hefur áhrif á allt annað og breytir í raun skilningi okkar á, ekki bara veðrinu, heldur lífinu sjálfu. Þótt allra veðra sé von hér á Íslandi þá þykjumst við þekkja einhverja veðurhringrás. En nú er eins og allt sé að ruglast og það kemur okkur á óvart þegar breytingin er fastinn en ekki öfugt. Þannig held ég að veðrið sé myndlíking fyrir það að vera til, veðrið minnir okkur á að allt er í flúx og breytingin er eini stöðugleikinn. Þetta finnst mér koma mjög sterkt fram í myndlist þeirra allra í IYFAC.
Síðan eru líka óvæntir þættir sem hafa komið í ljós við undirbúning sýningarinnar, við höfum velt fyrir okkur svo ólíkum þáttum, allt frá samanburði við tilfinningalífið til veðurs á öðrum plánetum! Haraldur Ólafsson, veðurfræðingur sem skrifar grein í bók sýningarinnar bendir á að veðrið er alltaf í samtali við yfirborðið, það kemur ekki að ofan heldur einnig að neðan. Þetta fær mann til að hugsa um hve lengi mannkynið hefur verið að hafa áhrif á veðrið, kannski allt frá því að akuryrkja fór að breyta yfirborðinu. Á sama tíma þykir mér það jaðra við hroka að við séum farin að tala um okkur sjálf, mannfólkið, sem jarðsögutímabil þegar talað er um anthroposcene eða mannöld, þessi klassíska tvíhyggja hvað varðar náttúru og manninn (sem endurspeglast svo í hinu kvenlega og karllæga) virðast endurróma í gegnum þessa jarðsöguskilgreiningu.
Annað atriði sem kemur mjög sterkt í gegn í sýningunni er hvað veður hefur mikil áhrif á líkamann, við byggjum okkur skýli eins og verk Sigrúnar Hlínar Sigurðardóttur sýnir svo glöggt, risastór úlpa, en verkið kallast mea maxima culpa; okkar stærsta sök. Örplastið úr flíspeysunum okkar og öðrum gerviefnum er þegar farið að hafa áhrif á vistkerfið og þetta fær mann til þess að staldra við og huga að því hvaða efni og hluti við erum að nota. Á sama tíma er svo ömurlegt að ábyrgðin sé sett yfir á einstaklinginn þegar um pólitískt vandamál er að ræða.
– Hvað kom til þess að veðrið varð þema sýningarinnar?
– Þessi hugmynd varð til í svona frjálsu flæði á milli okkar sem að sýningunni standa. Myndlistarkonurnar hafa allar starfað saman áður sem IYFAC en þetta er í fyrsta sinn sem ég starfa með þeim og í raun sem sýningarstjóri þannig að þetta er búið að vera mjög áhugavert ferli að því leyti. Í raun fólst sýningastjórnunin í því að vera í samtali við listamenninna og var á einhvern hátt skemmtilega hversdagslegt.
Hugmyndin kom á undan sumrinu. Svona er myndlistarfólk; þær eru veðurfræðingar sem skynja að eitthvað er að koma svona eins og bændur og sjómenn sem bjuggu yfir mikilli þekkigngu á veðri. Ég var að lesa merkilega bók eftir Shelley Wright Our Ice is Vanishing/Sikuvut Nunguliqtuq, sem segir frá því hvernig að þekking Inúita, sem barst frá kynslóð til kynslóðar um hegðun veðursins, er skyndilega ekki lengur gild út af því að veðrið er búið að breytast svo mikið, hvíti maðurinn er búinn að valta yfir jörðina. Að einhverju leyti hefur vísindaleg þekking ekki tekið þess lags þekkingu nægjanlega með í reikninginn en á sama tíma kemur það spánskt fyrir sjónir þessa dagana að hversu miklu leyti, aftur hvítir karlmenn, eru að hafna vísindum og öllum þeim vitnisburði sem við höfum um hnattræna hlýnun af manna völdum.
– Hvernig myndirðu lýsa ólíkum verkum myndlistarkvennanna og hvernig þær koma saman á sýningunni?
– Þær eru mjög ólíkar myndi ég segja en verkin þeirra spila vel saman. Halla Birgisdóttir kallar sig myndskáld og fjallar fyrst og fremst um tilfinningalífið í gegnum myndasögur og ljóðrænan texta sem hún skrifar beint á vegginn. Veðrið er eins konar myndlíkingartæki því það er svo stór hluti af reynsluheiminum og kannski hægt að segja að hið innra og hið ytra sameinast þar. Verkin hennar minnir mig aftur á hugmyndir Timorthy Mortons um að myndlist sé einhvers konar sorgarúrvinnsla, bæði sem eins konar mælitæki á samfélagið og sem þerapía. Það er unnið með innsæi og allt má í myndlistinni. Mér finnst ég sjálf tengjast veðrinu mun nánari böndum eftir sýninguna! Halla og Sigrún eiga það sameiginlegt að vinna náið með samband manneskjunnar við veðrið en bæði verkin þeirra og hugmyndir koma úr ólíkum áttum, Halla teiknar upp margbreytilegan heim tilfinningalífsins á meðan Sigrún birtir okkur eitt stórt tákn kannski um það hvert það hefur leitt að skýla líkamanum fyrir náttúrunni.
Ragnheiður Maísól vinnur með veðurlesturinn og skoðar veðurdagbækur. Hún vinnur með myndir sem tjá veður án þess að skýra það beint eins og þaninn vindsokkinn á flugvelli sem sýnir okkur strax að það er vindur eða tré sem hafa vaxið á ská. Ragnheiður Harpa tekur sólina fyrir sem hefur allt aðra merkingu á íslandi en annars staðar, hér táknar hún bjartsýni og fegurð en annars staðar ógn og hættu. Ragnheiður Harpa hefur unnið mikið í leikhúsi við að skapa hughrif, til dæmis búið til veðurofsa á sviði og nær að fanga það óreiðukennda sem við tengjum kannski við veðrið og náttúruna en ekki tilbúin listaverk.
Steinunn Lilja er að vinna beint með kvíðann, veðurkvíðann – en hún breytir dramatískum ljósmyndum af veðri sem eru kannski hættar að hafa áhrif á okkur því við sjáumst þær svo víða í fjölmiðlum. Hún breytir þeim í abstrakt og geometrískar klippimyndir með hreinum og beinum línum sem gefa allt aðra upplifun. Þannig reynir hún að fara nær viðfangsefninu en verkin hennar kallast einnig á við verk Höllu, báðar skrifa þær texta beint á vegg sem fjalla um kvíðann og tilfinningalífið.
– Um þessar mundir er verið að fara í loftslagsgöngur hér á Íslandi og víða um heim til þess að krefjast tafarlausra aðgerða af hálfu stjórnvalda til þess að minnka útblástur kolvísýrings, hvernig mætti segja að sýningin taki þátt í slíkum kröfum?
– Sýningin nær kannski að fanga þennan kollektíva kvíða yfir framtíðinni og yfir veðurbreytingum. Ég held að hún sé þáttur í því að við reynum að læra að koma fram af auðmýkt gagnvart þessari plánetu sem við búum á. Það er gríðarlegur mannfjöldi í heiminum, það skiptir öllu máli hvernig við nálgumst umhverfismál og til þess held ég að við þurfum að tala um þennan kvíða sem við höfum gagnvart viðfangsefninu.