Goðsagnir eru þess eðlis að erfitt getur orðið að leggja á þær trúnað séu þær lagðar á mælistokk rökhyggju og raunsæis. Samt gerist það einstaka sinnum að listir bregða á goðsögur alls óvæntu ljósi sem verður til þess að hugur manns gengur sögninni á vald og flýgur handan allra hversdagslegra raka. Sú saga að Jesús hafi fæðst í þennan heim af óspjallaðri meyju er ein þessara sagna úr goðheimum sem tæpast er nokkur leið að leggja trúnað á. En þegar ég stóð frammi fyrir málverki Leonardo da Vinci af Boðun Maríu í Uffizisafninu í Flórens fann ég í hjarta mér að þrátt fyrir alla visku í vísindi sótt þá væri þessi ótrúverðuga frásögn um þungun af völdum andans áreiðanlega sönn.
Leikslokin í sýningunni á Þórbergi í Tjarnarbíói minntu mig á þessa reynslu af krafti listarinnar. Ekki svo að skilja að ég trúi því að myndirnar sem kviknuðu á sviðinu undir lok sýningarinnar standist allan samjöfnuð við fágað handbragð og listræna andagift da Vinci en uppljómun hugans við að horfa á persónur verksins renna saman við skuggana á astraplaninu var af sama toga og þegar ég leit í fyrsta sinn frummynd endurreisnarmálarans af því þegar Gabríel kíkti við hjá Maríu í Nasaret níu mánuðum fyrir vetrarsólhvörf.
Þórbergur er bæði falleg og skemmtileg sýning. Efnið er sótt í orð og ævi skáldsins og ritsnillingsins frá Hala í Suðursveit. Ramminn utan um sýninguna er frægt sjónvarpsviðtal Magnúsar Bjarnfreðssonar sjónvarpsskjássjarmörs við Þórberg Þórðarson þar sem viðmælandinn fór á sínum alþekktu kostum. Spurningarnar sem lagðar eru fyrir Þórberg í leikritinu munu þó margar vera sóttar í viðtalsbók Matthísar Johannessen við skáldið.
Viðtalið í leiksýningunni Þórbergi berst víða en eilífðarmálin, líf og dauði; og hvað verður um mannsins sál að loknu þessu jarðlífi eru síendurtekin stef í sýningunni sem nær hámarki í fyrrnefndri lokasenu og það er langt síðan ég hef séð jafnfallegt atriði á íslensku leiksviði. Aðalkonurnar tvær í lífi Þórbergs, eiginkonan Margrét og ástkonan og barnsmóðirin Sóla, koma töluvert við sögu í þessari sýningu og gæða hana mun meira lífi en sjónvarpsviðtalsramminn einn hefði boðið upp á.
Blásið í strá
Mér fannst handritið sem leikstjórinn, Edda Björg Eyjólfsdóttir, og Sveinn Ólafur Gunnarsson sem leikur Magnús eru skrifuð fyrir ásamt leikhópnum renna ljúft og leikandi fyrir augum áhorfenda og eyrum svo úr varð svolítið heillandi frásögn af Þórbergi Þórðarsyni, skáldinu sem heyrði steinana tala. Og gott ef hann var ekki líka málkunnugur stjörnunum. Inn í sýninguna vefjast á áreynslulausan hátt óteljandi brot úr íslenskri menningarsögu svo hugur manns átti nóg með að hafa stjórn á alls konar tilfinningum sem kviknuðu í brjóstinu. Þetta á ekki síst við um tónlistina sem Stefán Már Magnússon valdi. Heyra mátti upptöku af leik Franks Aarniks á sög og melódían engin önnur en Frændi þegar fiðlan þegir, en það lag Péturs Sigurðssonar og texti Friðriks Hansen hafa eignast óteljandi framhaldslíf í íslenskum skáldskap og þegar alþýða landsins kemur saman. Píanóspil Karls Olgeirssonar og gítarleikur Stefáns Más hljómuðu líka afar vel og það var sama hvert tónarnir voru sóttir, til Megasar, Debussy, Jóhanns Sebastíans eða Philips Glass. Þetta átti einhvern veginn svo vel við allt saman. Söngur Ingibjargar Þorbergs og Alfreðs Clausen var svo einn af hápunktum sýningarinnar – en það stafar líkast til af því að við tóna lags Ingibjargar, Á morgun, dönsuðu þau Margrét og Þórbergur taktfastan dans sem Birna Björnsdóttir hefur líkast til samið. Alla vega er hún skrifuð fyrir kóreógrafíu sýningarinnar. Annað ógleymanlegt augnablik er þegar Sóla birtist nakin í baksviðsmynd Sigurðar Guðmundssonar málara úr sýningunni á Útilegumönnum Matthíasar fyrir bráðum eitt hundrað og fimmtíu árum. Þá var eins og Kjarval væri mættur með sínar álfkonur í hrauninu og fugla sem lifna þegar blásið er í strá.
Sveinn Ólafur er stjarna sýningarinnar
Leikararnir voru allir á heimavelli í þessari sýningu. Friðrik Þór Friðriksson leikur Þórberg og fellur hvergi í þá freistandi gryfju að fara að herma eftir skáldinu. Mér fannst það virka vel að í sýningunni varð Þórbergur að mun venjulegri manni en sá Þórbergur var sem skáldið frá Hala sviðsetti í lifanda lífi fyrir þjóðina. Friðriki óx ásmegin þegar á leið sýninguna og sé á allt litið gerði hann Þórbergi sannfærandi skil, þótt að ósekju hefði mátt vinna meira með texta hans í fyrstu atriðum verksins. María Heba Þorkelsdóttir fór leikandi létt með hlutverk Margrétar svo afar gaman var á að horfa. Birna Rún Eiríksdóttir lék Sólu og gerði það mjög vel, bar með sér allan þann dramatíska þunga ástargleði og ástarsorgar sem býr í barmi þessa karakters sem sækir á huga skáldsins frá Hala. En þótt þessir þrír leikarar gerðu flest mjög vel þá kom mér mest á óvart hversu góð skil Sveinn Ólafur Gunnarsson gerði Magnúsi. Ekki af því að ég viti ekki að Sveinn Ólafur er fínn leikari – og stundum mikið meira en fínn – en mér fannst með ólíkindum hversu vel honum tókst að sýna manninn á bak við sjónvarpsmanninn; þennan karakter sem auðvitað vill líka fá að sjást og verða eftirminnilegur þeim sem á horfa. Það er ekki oft sem mér finnst ég hafa getað lesið hug persónu á bak við orð og æði leikara með jafnauðveldum hætti og raunin var á með Svein Ólaf í hlutverki Magnúsar.
Ég hef ekki minnst á búninga Maríu Th. Ólafsdóttur, leikmynd Stígs Steinþórssonar og Bjarna Þórs Sigurbjörnssonar, né förðun Fíu Ólafsdóttur og Hildar Ingadóttur eða lýsingu Kjartans Darra Kristjánssonar; en í stuttu máli þá sá ég ekki annað en að þetta væri allt alveg hreint sallafínt. Edda Björg Eyjólfsdóttir leikstýrir Þórbergi og mér þótti að stundum hefði hún mátt nýta betur möguleika leiksviðsins hvað staðsetningar varðaði og þó kannski miklu fremur að gera skuggaspilið í sýningunni allri markvissara. En eftir sem áður er þetta leiksýning sem er vel unnin og bæði gleður og hlýjar hug og hjarta. Og það er gott til þess að vita að Þórbergur íslenskusnillingur virkar enn í íslensku leikhúsi.
Enskusmituð leikskrá
En vei, óvei! Í leikskránni má greina mengandi óværusmit úr enskum rithætti. Viðtalsbók Matthíasar við Þórberg heitir Í kompaní við allífið en ekki Í Kompaníi Við Allífið eins og það er ritað í leikskránni– og bók Péturs Gunnarssonar um skáldið Þórberg heitir Í fátæktarlandi en ekki Í Fátæktarlandi. Sá ritháttarimperíalismi enskunnar að vera alltaf að klína upphafsstöfum á óviðeigandi staði í fyrirsögnum og heitum hins og þessa er bráðsmitandi og bráðdrepandi. Hann má nú sjá í næstum hvaða dagblaði sem er á degi hverjum að ógleymdum öllum þeim aragrúa matseðla sem gestum er boðið að velja sér rétti af á íslenskum veitingahúsum. Mér finnst þessi meðferð á íslenskum rithætti helvítis fokkings fokk. Og þykist vita að Þórbergur hefði verið mér sammála í því efni.
Grasrót í Gaflarabæ og gamla góða MH
Mig rekur minni til þess að hafa heyrt útvarpsviðtal við Þórberg Þórðarson þar sem hann sagði frá bernsku sinni í Suðursveit og frjóu starfi andans á þeim árum. Gylfi Gíslason myndlistarmaður tók þetta viðtal og spurði rithöfundinn hvað svo hefði tekið við að bernskunni liðinni.Svar Þórbergs við spurningunni var klárt og skýrt: Andlegur dauði. Með kynþroskanum og fleiri slíkum fyrirbærum sem gera fólk fullorðið dofnaði að mati Þórbergs mjög það frjóa ímyndunarafl sem einkennir bernskuna.
Þetta er ósköp sorglegt en í svari Þórbergs er fólginn nokkur sannleikur og umtalsverð viska. Það er erfitt að iðka frjálst hugarflug þegar allar þær kröfur samfélagsins sem kalla á unglinginn hefja upp hávaðasamar raustir sínar og margir lenda í vandræðum með að fóta sig í þessum forgarði fullorðinsvítisins. Þess vegna er öðru mikilvægara að veita hinum ungu óendanleg tækifæri til þess að leyfa sköpunarkraftinum og leikgleðinni að lifa áfram. Sigurður Hallmarsson, leikari og leikstjóri á Húsavík – og margreyndur skólamaður – , áleit að enginn vettvangur væri til betri en leiklistarstarf til þess að leysa úr læðingi gleði og efla félagsþroska. Og nýlega sá ég tvær leiksýningar sem styðja mjög við þessa skoðun Sigurðar; Like-con 2017 hjá Leikfélagi Menntaskólans við Hamrahlíð og Hetjuna í Bæjarbíói í Hafnarfirði.
Fallbyssufóður í bíóhúsi og bíóstíl
Hetjan heitir nýtt íslenskt leikrit eftir Önnu Írisi Pétursdóttur sem hún hefur sjálf sett á svið og sýnt var í Bæjarbíói í Hafnarfirði. Leikararnir í þessari sýningu voru allir ungir, flestir undir tvítugu en sá elsti í hópnum og eini skólagengni leikarinn, Ingimar Bjarni Sverrisson, er rétt rúmlega hálfþrítugur.
Leikrit Önnu Írisar gerist á erlendri grund þar sem stríðsástand er viðvarandi og ungviðið er alið upp í hetjulund og föðurlandsást svo það gangi óttalaust gegn fallbyssum og öðrum drápstækjum til þess að deyja fyrir ættjörðina. Margt er kunnuglegt í þessari sögu og hefur flest verið sagt áður en sýning Önnu Írisar er eigi að síðður býsna fagmannlega unnin og leikararnir ótrúlega fimir og fjölhæfir í túlkun sinni. Á sviðinu í Bæjarbíói, því fallega og töfrandi húsi sem á árum áður gegndi mikilvægu hlutverki í bíómenningu þéttbýlisins við Faxaflóa, kviknuðu margar vel sviðsettar myndir meðan á sýningunni á Hetjunni stóð. Leikmyndin var haganlega og smekklega útfærð og sama er að segja um búninga og lýsingu.
Tónlist var áberandi í þessu verki og minnti mjög á kvikmyndamúsík. Hið sama má segja um handritið, einkum þegar fór að líða á sýninguna. Senurnar eftir hlé voru afar stuttar eins og skot í bíómynd og nutu sín ekki vel á leiksviði. Þarna er leikritinu sjálfu um að kenna. Það er ekki nógu vel skrifað til þess að úr því geti orðið sterk leiksýning. Þetta var svolítil synd því að vinnan að sýningunni og öll umgjörð um hana var býsna fagmannlega af hendi leyst. Það væri gaman að sjá eitthvert gott og gilt leikrit sem Anna Íris veldi sér að viðfangsefni sem leikstjóri og setti á svið með sínum öfluga leikhópi.
Tölvan er lífsförunautur vor
Leikfélag Menntaskólans við Hamrahlíð sýnir nú á vormisseri Like-con 2017, verk sem leikhópurinn hefur sjálfur sett saman undir stjórn og leikstjórn Guðmundar Felixssonar með aðstoð Jökuls Smára Jakobssonar.
Í sýningunni leika sautján nemendur skólans og auk þeirra kemur fjöldi annarra Emmháinga við sögu í hlutverki tæknistjóra, förðunarmeistara, sviðsmanna, hljóðmeistara, pródúsenta og þar fram eftir götum.
Þetta er öflugur hópur og bar ekki á öðru en þeir sem þarna komu fram hefðu lifað af andlegan bernskudauða. Viðfangsefnið er brýnt og snertir hversdagslíf þessa unga fólks mjög. Undraheimar internets, tölvutækni og símaafþreyingar – sem myrða auðveldlega andann sé ekki allrar varkárni gætt.
Sýningin í MH er þaulhugsuð, vel sviðsett, skemmtileg og áleitin – allt þetta í senn. Sviðsrými og forsalir eru nýtt af hugkvæmni og leikgleðin er mikil og smitandi. Blöndal-fjölskyldan tengir sýninguna saman með nokkrum afar smellnum og vel unnum atriðum. Áhorfendur fá að fylgjast með því hvernig rafrænir miðlar ná smám saman öllu valdi á þessari veslings fjölskyldu. Og lokasenan þar sem Blöndalarnir híma hver í sínu horni leikrýmisins meðan internetstjörnurnar Sandra og Nói eru bundin saman í hjónaband af con-stjóranum vélræna er beinlínis hjartaskerandi.
Sköpunargleði og gagnrýnin hugsun þessa leikhóps MH gefur okkur von um að enn sé ekki öll nótt úti og mannkynið megni ef til vill að bjarga sjálfu sér frá eigin græðgi og efnislegri og andlegri spillingu. Jafnframt undirstrikar sýningin á Like-con 2107 mikilvægi kennslu í leiklist en á því sviði var Menntaskólinn við Hamrahlíð lengi í forystuhlutverki.
Hitt er spurning hvort dönskukennslu í skólanum er jafnábótavant og ávarp oddvita leikfélagsins í leikskrá bendir til. Það er geggjuð hugmynd að bregða fyrir sig dönsku á enskuöldinni en ég á erfitt með að átta mig á því hvort Katla Ársælsdóttir skrifar svona brogaða dönsku af ráðnum hug eða hvort hún bara kann ekki tungumálið betur en þetta. Reglur um skiptingu orða milli lína eru líka síbrotnar í ávarpi leikstjórans í leikskránni. Það stafar held ég af því að prófarkalesarar og umbrotsmenn annað hvort kunna ekki reglurnar eða gefa bara skít í þær. Hvorugt er góð latína hjá menntaskólanemum.
Allir hlæi
Í Borgarleikhúsinu er búið að frumsýna Úti að aka. Uppskriftin er pottþétt – enskur farsi eftir Ray Cooney, þýðing og staðfærsla í höndum Gísla Rúnars, Magnús Geir leikstýrir og einvalalið leikara stígur á svið. Þetta getur varla klikkað og allir sem hafa hug á því að skemmta sér vel og hlæja dátt í leikhúsi ættu að drífa sig í Borgarleikhúsið. Hinir geta svo bara rekið nefið upp í loft og sopið sitt lattekaffi með gáfulegum fýlusvip á kaffihúsunum í 101.