2017-12-14 15:13 GMT+00:00 Eiríkur Örn Norðdahl to Jóel Enok Kristinsson
Fórstu á Star Wars? Eigum við að skrifa samræðurýni um hana og birta á mánudag? Í þremur pörtum: 1) Rifja upp söguþráðinn 2) Skiptast á skoðunum 3) Skoða hvað aðrir hafa sagt og 4) Ræða „fyrirbærið“ Star Wars. Jafnvel með stuttum inngangi um við hvaða aðstæður við sáum myndina.
Bestu,
Eiríkur
On 14 December 2017 at 18:48:44, Jóel Enok Kristinsson to Eiríkur Örn Norðdahl:
Já, endilega.
Þetta yrðu jómfrúarsamræður mínar á þessa vegu.
Láttu mig bara vita hvernig þetta fer fram. Ég vinn leiðinlega margar stundir til að eiga fyrir glæsilegri tilvist minni innan kapítalísku vélarinnar, frá 10 á morgnana til 10 á kvöldin næstu daga. Get þó alltaf rætt eða skrifað í símann á vinnutíma, það er ekki svo mikið að gera í útivistarbúðinni. Ef þú ert svo á Akureyri getum við tekið kaffi og gert þetta.
Þú ræður ferðinni, ég legg mitt af mörkum.
kveðja,
Jóel Enok
„Þurfa þeir alltaf að byrja á bardaga?“
EÖN: Ég fór með átta ára syni mínum, Aram Nóa. Hann átti að fá miðann í skóinn en vegna handvammar við skriffinnsku og frágang endaði miðinn í húsdagatalinu – trédagatali með gluggum sem maður getur sett hvað sem maður vill í (svo fremi sem það passar). Við höfum horft á allar Star Wars myndirnar (nema jólamyndina) síðasta árið eða svo og það var talsverður skjálfti í mínum manni. Hann er heldur ekki vanur að fá að vera úti fram á nótt (komum heim korter í ellefu).
Það eru tvö ár frá því The Force Awakens var frumsýnd en varla sekúndubrot frá því henni lauk þegar The Last Jedi hefst. Ég verð alltaf ringlaður þegar ég dett svona út úr sögum og kem inn í þær aftur. Tekur mig venjulega hálfa vertíð af Game of Thrones að átta mig á því hvar allir eru.
Í The Last Jedi 1 er Rey komin að endimörkum alheimsins þar sem hún finnur Loga Geimgengil, sem hefur sagt skilið við máttinn, sökum hættunnar sem felst í að beita honum. Logi þjálfaði á sínum tíma Kylo Ren – eða Ben Solo, son Lilju og Hans – sem gekk í lið með myrkrahliðinni, og er sem sagt dálítið trámatíseraður fyrir vikið. Honum finnst lífið mjög erfitt. „I came here to die“, segir hann. (Er of seint að setja spoiler alert hérna? Ég ætla allavega ekkert að gæta mín.)
Á sama tíma eru Lilja, Dameron og Finn öll eitthvað að kljást við Frumregluna (ég þarf alltaf að stoppa mig af til að segja ekki „keisaraveldið“) sem ætlar að sprengja skipið þeirra í loft upp.
Er þetta ekki sirka rétt?
JEK: Þetta hljómar allt eins og ég man eftir myndinni. Ég er einmitt alveg eins hvað varðar að fylgja söguþræði eftir langt hlé; sem betur fer byrja allar stjörnustríðsmyndirnar á endurliti í stuttu máli, sena sem ég ímynda mér að myndi þreyta kvikmyndaáhorfendur almennt ef hún hefði ekki jafn epíska stöðu innan stjörnustríðssamfélagsins.
EÖN: Einmitt. Aram Nói tilkynnti mér einmitt gríðarlega stoltur þegar endurlitinu lauk að hann hefði lesið það allt. Frá byrjun til enda, hvern einasta staf.
JEK: Ég ímynda mér að þessi stjórnvaldsmistök hafi snúið heimilishaldinu þann daginn alveg á haus — minnist þess óljóst sjálfur hvernig upplifunin var að horfa á Star Wars sem barn. Það er ekkert sem nær alveg sömu töfrum, þ.e.a.s. þessum sömu tengingum milli kynslóða, þar sem einhver sem ólst upp með upprunalegu myndunum sýnir börnum sínum, svo þeir sem ólust upp með framhaldsmyndunum og nú þeir sem munu alast upp við að fara á nýju myndirnar í bíó.
Sjálfur fór ég á myndina fyrir hreina tilviljun. Af miklum mótþróa hafði ég ætlað mér að bíða þess að bíósalurinn yrði ekki troðinn út að dyrum en klukkutíma fyrir sýninguna fékk ég símhringingu og þar með var teningunum kastað. Reynslan af því að sitja svo í troðfullum sal með allradyggustu aðdáendum myndanna, sumir hverjir í búningum, var upplifun út af fyrir sig. Ég flissaði skömmustulega þegar múgurinn rauk upp stigann í átt að salnum augnabliki eftir tilkynningu — tja, örvinglaðri bón — starfsmannsins um að hlaupa hana ekki niður.
EÖN: Það fyrsta sem Aram sagði, þegar myndin hófst, var samt gagnrýni: „Þurfa þeir alltaf að byrja á bardaga?“ Ég man ekki hversu margar Star Wars myndir byrja á bardaga og þetta var hvorki staður né stund til þess að fara að ræða það, auk þess sem mér var hreinlega brugðið: Ætlaði drengurinn að byrja ferðina á neikvæðu nótunum, hann sem hafði beðið svo lengi – var þetta eitthvað sem við fjölskyldan þyrftum að skoða nánar, einhver streitueinkenni kannski?
Hann kvartaði vel að merkja ekkert eftir að myndin var komin í gang.
Að trompa ranglætið
EÖN: Star Wars hefur alltaf verið farartæki fyrir frekar einfaldan boðskap – gott og illt – en nýju myndirnar hafa gert út á að dýpka grynningarnar aðeins. Í Rogue One eru sumir uppreisnarhermennirnir gersamlega miskunnarlausir og aðrir beinlínis spilltir af vonsku. Ég gæti svo best trúað því að það sé sett intergalaktískt met í sjálfsmorðsárásum „góða fólksins“ í The Last Jedi. Ég man ekki í svipinn eftir neinum sjálfsmorðsárásum á vegum keisarahersins eða frumreglunnar, sem stundar „vestrænni“ hernað. Þegar ég horfði á atriðið í upphafsbardaga The Last Jedi, þar sem beitiskipi er tortímt í sjálfsmorðsárás, sá ég hreinlega fyrir mér 9/11 jihadistana loka augunum og láta vaða í illskuna – turnarnir á Wall Street eru beitiskip kapítalismans. Þessi líking nær svo enn betur yfir eitt af lokaatriðunum, þar sem beitiskipi andspyrnunnar er beinlínis keyrt í gegnum móðurskip frumreglunnar 2.
Í einum plottboga myndarinnar fara síðan Dameron, Finn og Rose – þybbinn vélstjóri af asískum ættum, sem er af einhverjum orsökum orðinn orrustuflugmaður áður en yfir lýkur – og þá kannski sérstaklega Dameron, á bakvið aðmíral Holdo, sem uppnefnir hann alltaf „cocky flyboy“ 3 og vill ekki hleypa honum jafn nærri sér og Lilja gerði, áður en hún skaddaðist og lenti í dái. Dameron treystir því ekki að hún bjargi áhöfninni og býr til sitt eigið plan sem endar með uppreisnartilraun (í uppreisnarhernum, sem er fyndið). Hans plan klúðrast og í ljós kemur að Holdo var alltaf með besta planið.
Boðskapurinn hér er frekar áhugaverður og að einhverju leyti í andstöðu við Star Wars ethosið einsog það birtist okkur hingað til – ethos uppreisnarinnar. Dameron og Finn 4 hefðu átt að hlusta á Holdo og hlýða yfirmönnum sínum, en ekki efast um réttmæti valdsins þótt það starfi í krafti ógagnsæis og hörku, frekar en samráðs og demókratískra strúktúra. Viðsnúningurinn á ethosinu er svo réttlættur með feminísku twisti – hálfgerðum bleikþvotti – því auðvitað á maður að hlýða yfirmanni sínum ef hann er kona og maður er sjálfur bara „cocky flyboy“. Eitt rétt trompar eitt rangt.
Svipað er uppi á teningnum þegar Finn og Rose heimsækja spilavítisbæinn og fagna því að hafa hleypt óðri hjörð af einhverjum geimuxum í gegnum hótel þar sem þeir leggja allt í rúst og traðka niður gríðarlegan fjölda „saklausra borgara“, sem réttlættist með því að þeir væru sennilega flestir vopnasalar, því öðruvísi verði maður varla ríkur í þessum ömurlega heimi. Hér mætti auðvitað líka nefna maka vopnasala, börn þeirra, fólkið sem er ríkt á að selja vopnasölum geimflaugar, geimsteina og geimboytæki, og annað fólk sem líklegt er að sækja spilavíti. Og, svo rifjuð sé upp hin fræga samræða úr bíómyndinni Clerks, hvað með sakleysingjana, fólkið sem vann í spilavítinu (asísku skúringakonurnar í Tvíburaturninum)?
Fólkið í spilavítinu átti skilið að láta troða sig niður vegna þess að það var spilltir vesturlandabúar tilbúnir til þess að gera hvað sem er fyrir peninga. Þessi mynd er svo flækt enn frekar þegar sínískur dulmálsbrjótur – leikinn af Benicio del Toro – bendir þeim á að þessir vopnasalar hafi líka selt uppreisnarhernum sín vopn, og lýsir þessum kapitalíska stríðsleik sem fullkominni sturlun sem borgi sig að taka sem minnstan þátt í.
Við erum ábyggilega enn að fást við gott og illt, vel að merkja, svart og hvítt – það er bara verið að færa til línurnar örlítið.
Tuggan tuggin
JEK: Já, það sem sat í mér eftir myndina er hve mikil áhersla er lögð á að spegla upphaflega þríleikinn. Ég minnist þess í The Force Awakens hvernig Snoke er, framan af, nefndur eins og einhverskonar trompspil sem minnir ógurlega á nærveru keisarans í A New Hope. Einnig má sjá margar hliðstæður í nýju myndinni, hvernig vissar baráttur og innri átök eru hin sömu. Ég hélt því fram að ef framhaldið ætti ekki að verða endurtekningarsamt og fyrirsjáanlegt þyrfti að draga úr þessum speglunum, verulega, í næsta kafla. Það er ekki þar með sagt að svo verði, uppskriftin er auð ávísun, svo lengi sem biðin er til staðar og myndirnar eru nógu vel pródúseraðar. Gott dæmi um það eru Marvel myndirnar sem, að mér finnst, eru afar fyrirsjáanlegar og barnalegar myndir — fullar af þversögnum og vafasömum söguþræði sem hulinn er með húmor og magnþrungnum senum — sem þó raka inn meira fé fyrstu helgina en margar virkilega góðar myndir munu nokkurntímann þéna.
Sú staðreynd að Disney eigi bæði fyrirtækin er svo sem engum hulinn, það breytir þó ekki því að Lucasfilms varð til vegna þess að George þorði að taka áhættur, hann eyddi miklu meira fé í þá þætti fyrstu kvikmyndarinnar sem kvikmyndaverið hefði helst viljað halda fjármagni til í lágmarki. Að ógleymdri ótrúlegri sögunni um hvernig hann þénaði nóg til að stofna sitt eigið kvikmyndaver. Því mætti alveg Disney við því að vera ekki svona ógurlega íhaldssamir og miklar undirlægjur aðdáenda sem vilja eitthvað nýtt sem segir þeim sömu gömlu tugguna.
EÖN: Ég man eftir að hafa tekið eftir þessari speglun á A New Hope og The Force Awakens en er ekki minna um líkindi milli The Last Jedi og The Empire Strikes Back? Speglar hún kannski frekar Return of the Jedi – þriðja hluta þríleiksins – en The Empire Strikes Back? Snoke er drepinn einsog Keisarinn í Return of the Jedi, Rey fer að læra hjá meistara í fjarlægum heimi, einsog Logi fór til Yoda á Dagobah. The Empire Strikes Back endar, ef mig misminnir ekki, í lausu lofti – Han Solo tekinn til fanga og allt í mínus. The Last Jedi endar á fullnægjandi máta, og þótt enn sé eitthvað smotterí eftir af sögunni, eftir að drepa nokkra ljótukalla, þá erum við orðin nógu vön endalausu epíkinni í Star Wars, eilífri endurkomu hins illa, til að það myndi ekki trufla mann neitt að missa af því. Kylo Ren er enn að reyna að sigra uppreisnarherinn en þegar hann er dauður kemur bara einhver annar, eitthvert nýtt Helstirni eða annars konar dauðageislar – við, sem áhorfendur, erum löngu hætt að gera ráð fyrir að það taki við einhver viðvarandi friður. Í stjörnustríðsmyndunum verður augljóslega alltaf að vera stríð. Annað væru svik.
JEK: Speglunin er nefnilega dálítið áhugaverð. Það er atriðið á plánetunni með AT-AT vélunum og ryðdollunum sem ég man ekki hvað voru kallaðar (svifflaugar?), sem er náttúrulega keimlíkt byrjunaratriði The Empire Strikes Back, með einhverjum breytingum auðvitað. Svo eru, eins og þú nefnir, atriðin í krúnusal Snoke t.d. sem speglar klárlega Return of the Jedi. Þegar ég hugsa um endann á The Empire Strikes Back sé ég samt alltaf fyrir mér Luke í sjúkrahúsflauginni, að láta setja á sig vélhönd og stara út í tómið, ákveðinn á svip. Það er visst traust og von sem fylgir slíkri senu, þó auðvitað sé það ekkert á við þann tilfinningalega sigur sem býr innra með manni í lok The Last Jedi. Einnig mætti spegla örlög Luke og Han í þessum tveim myndum, ef vilji er fyrir hendi. Ef spegla ætti samt örlög Luke þá er Yoda eflaust kandídat sem fleiri myndu nefna, en örlög Yoda og Han’s — með þeirri vitneskju sem við höfum fyrir hendi nú — eru kannski ekkert svo frábrugðin í lok The Empire Strikes Back?
Er Logi illmenni?
JEK: Hvað varðar siðferðislegar pælingar í kvikmyndunum er ég afar sáttur með að þær séu orðnar heimspekilegri. Hinsvegar er það vitað mál að myndirnar — eins og þú nefnir — eru enn að kljást við þá barnalegu hugmynd að góðu kallarnir stríði gegn þeim vondu. Svo má nefna að þrátt fyrir að spyrja dýpri spurninga og velta upp dýpri pælingum eru svörin af skornum skammti, að mér finnst, en sitt sýnist eflaust hverjum um það.
Kvikmyndin er með ansi þéttan söguþráð, persónurnar halda dýpt sinni og þó að sonur þinn nefni réttilega að afar fáum sinnum byrji myndirnar ekki á bardaga — sú eina sem kemur upp í hugann er Return of the Jedi — þá er það viðbúið á þessum tímapunkti, enda leyfi ég mér að efast um að það hafi svekkt hann mikið að myndin byrji á hasar. Svo fremi sem bardagarnir eru ekki allir steyptir í sama mótinu er hægt að segja að það sé eitt þeirra einkennandi atriða sem gera Star Wars að þeim menningarrisa í augum svo margra.
Þjálfun Rey og samband hennar við Kylo Ren er nýr vinkill á gamla hugmynd og, í raun, skemmtileg leið til að gera línurnar milli góðs og ills örlítið daufari — þó ekki nema örlítið eins og skýrist þegar dregur á myndina. Allt ýtir það svo undir kenningar þeirra allrasvæsnustu sem þorðu að halda því fram að Luke yrði opinberaður sem illmenni myndarinnar. Kannski viss túlkun bjóði upp á það að kalla hann Illmenni myndarinnar?
EÖN: Ég get alveg keypt kenninguna um Loga sem illmenni, eða uppreisnarherinn sem algeran reðurvöndul – kannski skárri en Frumregluna en samt fyrst og fremst einingu sem þrífst á kerfisbundnu ofbeldi. Uppreisnarherinn er auðvitað tilgangslaus án Frumreglunnar. Og þá er opið fyrir að Logi – og dulmálsbrjóturinn – hafi rétt fyrir sér, stríðið og kerfið geri ekkert nema magna hatrið í sjálfu sér og heiminum, og eina leiðin til þess að fást við það sé að skilja sig algerlega frá því. Logi gerist einsetumaður og útlagi, lokar sig af frá Mættinum, en dulmálsbrjóturinn hættir einfaldlega að láta sig aðra varða – slekkur á samviskunni, því ekkert af þessu skiptir neinu máli hvort eð er, lífið er horror alla daga hvað sem maður gerir. Og þá er Logi illmenni fyrst, eða á ný, þegar hann snýr aftur til þess að mata kerfið á enn meira kaosi – þegar hann viðheldur stríðinu með þátttöku sinni.
Að myrða feður, mæður og geimkjúklinga
EÖN: Það er líka áhugavert að velta því fyrir sér hvar siðferðislínurnar eru svarthvítar, einmitt vegna þess að þær eru það ekki alltaf – senum einsog þegar Loðinn fær ekki af sér að éta einhvern geimkjúkling því annar ógrillaður og þar með krúttlegri geimkjúklingur er að horfa á hann. Það er sena sem ég á bágt með að láta ganga upp í hausnum á mér, því Loðinn hefur sennilega ekki keypt geimkjúklinginn í frystinum á Geimkaupum, eða heilgrillaðan af teini í kjötborðinu, heldur einmitt veitt hann, fláð hann og verkað, og svo grillað – það er tímafrekt að grilla svona skepnui, þótt ég útiloki ekki að í Fálkanum sé betri eldunaraðstaða var í það minnsta gefið í skyn að hann hefði gert það þarna fyrir utan, yfir opnum eldi – og það er ekki fyrren hann ætlar að fá sér bita sem það grípur hann eitthvað veganskt samviskubit? Ha? Og þetta er sennilega eitthvað sem hann hefur gert milljón sinnum áður. Í kjölfarið ættleiðir hann svo krúttlega kjúklinginn – eða einn þeirra – og tekur með sér í orrustu og áhorfendur skellihlæja meðan skepnan þeytist um flugstjórnarklefann og skellur á gluggum (einsog það sé mannúðleg, loðnúðleg, meðferð á dýrum – var synd Loðins kannski að matreiða hann ekki á krúttlegri máta?)
JEK: Skondið að nefna siðferðislínurnar á þennan veg, á sumum stöðum augljósar en á öðrum óljósar. Því hvað er óljósara en að vera ófær um að myrða sína eigin móður en láta það ekkert á sig fá að einhver annar drepi hana — sem vitaskuld er fylgt eftir með þessari fallegu deus ex machina — og í framhaldi af því vill ekkert frekar en að drepa frænda sinn og útrýma uppreisnarhernum. Atriðið með Chewbacca og fuglinum var vanhugsað, afar fyndið en mjög veikt andartak í söguþræðinum. Áhugaverð þversögn eiginlega við það sem er að gerast á nákvæmlega sama tíma á spilavítisplánetunni. Tvær söguhetjur (eða ein söguhetja og aukahlutverk sem mögulega verður söguhetja næstu myndar ef viðtökur eru nógu góðar) frelsa dýr sem lifa við illa meðferð á sama tíma og Chewbacca myrðir dýr en gerist svo vegan?
Ég er hræddastur um að þessi nýtilkomna heimspeki Star Wars myndanna geri níhílista úr áhrifagjörnum bíógestum um heim allan. Þessar hugmyndir, sem hljóma svo djúpar og fágaðar, um að stríð sé gróðavél yfirstéttar ogstríðandi fylkinganna á kostnað þeirra sem eru svo óheppnir að búa á vissum stað eða þéna ekki alveg nóg til að geta komist í skjól; þessi úr sér gengna uppgjafarhugsun um að stríð sé óhjákvæmilegt í kapítalísku ríki og hinir undirokuðu séu hlekkjaðir við dauðann og tortíminguna sem mun óhjákvæmilega liðast í átt til þeirra er heldur dimm og í raun heldur gömul tugga. Það er ekki þar með sagt að ég sé ósammála hugmyndafræðinni, hún kemur mér bara fyrir sjónir sem óboðinn gestur í Star Wars. Myndirnar voru mun bjartari, fullar af von.
Samsæriskenningar fertugra manna
EÖN: Já, það er alltaf spurning hvað ævintýramyndir þola mikinn samtíma. Augljóslega þurfa þær að taka mið af heiminum í kringum sig – einhverjum nýjum og öðruvísi móral, þar sem maður þarf að minnsta kosti að geta ímyndað sér að heimsýn okkar sé ekki nærri jafn svarthvít og heimsýnin þarna við lok áttunda áratugarins, þetta séu ferskari og meira krefjandi tök – en á sama tíma getur söguheimurinn svo auðveldlega hrunið undan samtímavísunum. Hver og ein þeirra er nefnilega áminning um dæmisöguna og þótt hún geti verið frjó fyrir það sem vilja fyrst og fremst hugsa um verkið, þá truflar hún söguna, hún er líka áminning um að þetta sé saga og þá hrekkur maður upp úr heiminum og fer að rýna frekar en njóta. Sem er það síðasta sem maður vill gera á meðan myndin er í gangi – maður vill að hún sökkvi sér í hjartað á manni af nógu mikilli heift til þess að maður geti síðan seinna rýnt í hana, reynt að skilja hvers vegna hún hafði þau áhrif á mann sem hún hafði.
Og hvaða áhrif hafði hún á mig? Mér fannst hún frábær. Mér fannst frábært að fara á hana með syni mínum og honum fannst hún líka frábær. Hún er hrikalega löng – tveir og hálfur tími, langlengsta Star Wars myndin til þessa – og ekkert æðislega frumleg og mórallinn í henni er á köflum bara einhverjar klisjur, og á öðrum köflum útfærslur af einhverri amerískri kampus-sektarkennd, og það voru alveg dauðir punktar hér og þar en sægur af eftirminnilegum senum, skemmtilegur heildarbogi – Roger Ebert benti á að plottið er á hvolfi, þau eru ekki að reyna að vinna, þau eru bara að reyna að láta ekki þurrka sig af yfirborði … stjörnuhiminsins – persónurnar eru kannski meira sjarmerandi en djúpar eða átakanlegar, húmorinn er skemmtilegur, geimbardagarnir æsilegir og hver hefur ekki gaman af geislaskylmingum?
JEK: Eins innilega og ég væri til í að vera ósammála þér (þó ekki væri nema bara upp á jafnvægið að gera), þá er ég alveg sammála. Myndin virkilega náði taki á manni, þó ég hafi vissulega tekið eftir þessum nokkru speglununum milli myndanna – aðallega því að The Force Awakens var svo augljóslega ástaróður til upprunalegu myndarinnar – þá sökk ég algerlega ofan í söguþráðinn. Ég varð sex ára aftur, í tvo og hálfan tíma, sitjandi í sófanum með pabba og bróður mínum að horfa á A New Hope og The Empire Strikes Back; óskandi mér að ég gæti hreyft hluti með huganum og fengi sent geislasverð með póstinum. Myndin gerir allt til að uppfylla helstu kröfur hins eðlilega aðdáanda á sama tíma og hún kynnir yngri kynslóðir fyrir myndunum. Eftir The Force Awakens hafa margir aðdáendur verið orðnir ansi vissir um að arfleifð Star Wars væri í öruggum höndum, svo ekki sé einu orði minnst á viðtökur Rogue One og traustið sem Disney fékk eftir að sú mynd var frumsýnd, ég var enn örlítið smeykur en held að ég geti treyst á það að næsta mynd muni ekki vera hörmuleg vonbrigði. Þar til eitthvað út af ber þá má bíða næsta kafla með fiðring í maganum og ótal samsæriskenningar fertugra manna sem hafa beðið þess að sjá hvað tók við af dauða keisaraveldisins í nærri fjörtíu ár.
1. | ↑ | Er ekki áhugavert að í fyrstu myndinni eftir að „mátturinn“ vaknar sé farið að tala um endalok Jedi-reglunnar? |
2. | ↑ | Ég er áreiðanlega að fara rangt með þessi skipahugtök – í trausti þess að það verði leiðrétt í kommentakerfinu. |
3. | ↑ | Er þetta einhver Top Gun vísun? |
4. | ↑ | Rose þvælist eiginlega með í þetta óvart og erfitt að álasa henni. |