Það eru tveir listamenn, að mínu viti, sem hafa lengi haft nokkurs konar tangarhald á bandarískri þjóðarundirmeðvitund. Það eru kvikmyndaleikstjórinn David Lynch og rithöfundurinn Stephen King. Báðir áttu erfitt uppdráttar í fyrstu, David Lynch gekk illa að fóta sig í Hollywood og Stephen King sló ekki almennilega í gegn fyrr en skáldsaga hans Carrie náði gríðarlegri úbreiðslu í kiljuútgáfu og bækur hans tóku sér bólfestu á metsölulistum þar sem hans helsti keppinautur var Tom Clancy. Sem er stúdía í sjálfu sér. Það er vart hægt að hugsa sér ólíkari höfunda en þá tvo. Tom Clancy er þekktur fyrir öfga hægrisinnaðar skáldsögur þar sem hernaðarmaskína Bandaríkjanna og föðurlandsást er oftar en ekki viðfangsefnið.
Það er nánast ómögulegt að horfa á miniseríuna Stranger Things án þess að hugsa til Stephen King og David Lynch. Mig grunar að höfundar þáttanna hafi á mótunarárum sínum sökkt sér í verk þessara tveggja listamanna. Allt frá titlunum til aðalsögupersónanna er komið úr hugarheimi þeirra. Höfundar þáttanna segja seríuna vera, með réttu, óð til George Lucas, Steven Spielberg og Stephen King. Matthew Modine leikur í hlutverk í þáttunum og það er bara til að auka á nostalgíuna enda átti Matthew Modine miklu fylgi að fagna sem leikari á níunda áratugnum. Við nánari skoðun er fátt þar sem hann þarf að skammast sín fyrir. Hann lék burðarhlutverk fyrir leikstjóra á borð við Robert Altman og Stanley Kubrick en þó er hann sennilega ennþá þekktastur fyrir að hafa hafnað aðalhlutverkinu í Top Gun.
Í Stranger Things er sögð saga um fólk úr bandarískri verkamannastétt í smábæ sem berst við yfirskilvitlegt skrímsli sem býr í nokkurs konar hliðarvídd við grámóskulegan veruleikann. Sú hliðarvídd lítur út eins og eitthvað sem David Lynch gæti einn skapað og verkamannastéttin er fólkið hans Stephen King. Sem ráfar um stórmarkaði, þvær þvottinn sinn í laundromati, vinnur við að skúra menntaskóla, kastar mæðinni á Dunkin Donuts á meðan eitthvað illt situr í fylgsnum í ljósaskiptunum.
Aðalsögupersónur Stranger Things eru börn. Sem eru iðulegar þær persónur sem Stephen King velur til að segja sögur sínar. Sjálfur hefur Stephen King sagt að þegar hann var að ströggla við að verða rithöfundur á áttunda áratugnum þá áttu hann og kona hans þrjú, lítil börn og barnauppeldið var það sem hann þekkti og því nærtækast að leita í þann rann.
Stranger things gerist árið 1983 í bandarískum smábæ og fjallar um hvarf ungs pilts og stúlku með yfirskilvitlega krafta sem hjálpar vinahópi hans að rannsaka hvarfið. Eldri bróðir drengsins og móðir hans, sem leikin er af Winonu Ryder, hefja líka sína eigin rannsókn á hvarfi drengsins með aðstoð lögreglustjóra smábæjarins. (Ég ætla ekki að rekja söguþráðinn frekar af virðingu við þá sem hafa ekki ennþá séð þættina. )
Allt við þættina frá titlum til tónlistar er til fyrirmyndar. En það sem gerir Stranger Things ánægjulegast er hversu frábærlega aðalpersónurnar; stúlkan með yfirskilvitlegu kraftanna og vinahópur horfna drengsins eru dregnar upp og túlkaðar. Það er galdurinn við Stranger Things. Winona Ryder er líka í fantaformi og hefur eiginlega aldrei verið betri. Það sama má segja um Matthew Modine sem leikur persónu sem gæti auðveldlega verið andhverfa Private Joker úr Full Metal Jacket á efri árum. Kominn til áhrifa í hinni trylltu og ofsóknarbrjáluðu hermaskínu Bandaríkja Ronalds Reagan. En um leið persóna sem maður gæti átt von að sjá í höfundarverki David Lynch.
Þó að maður gæti fundið verri leiðir til að drepa tímann en að hlamma sér fyrir framan Stranger Things þá er eftirbragðið engu að síður pínu súrt. Hér er nefnilega ekkert nýtt á ferðinni. Það vill oft gleymast að áhrifavaldarnir sem vísað var til hér að framan voru allir sporgöngumenn á sínum tíma. Sérvitringar sem óðu eld og brennistein til þess að koma sköpun sinni á framfæri. Að því leyti til finnst mér Stranger Things vera dálítið eins og stílæfing eða endurtekið efni. Höfundarnir hafa engu við að bæta. Maður verður einskis vísari annars en að maður ætti kannski að horfa aftur á Matthew Modine í Birdy, grafa upp Eraserhead eða lesa Pet Cemetary. En lengra nær það ekki. Það er ekki um neina stóra enduruppgötvun að ræða. Hér er ekki verið að færa fram eitthvað sem náði ekki máli á sínum tíma eða matreiða á nýjan leik einhverja snilld sem við misstum af. Ég man þetta. Ég var þarna. Ég horfði á Eraserhead á fermingardaginn minn. Las King spjaldanna á milli. Þið voruð þarna líka. Og ef ekki þá er þetta allt í boði. Ennþá og alltaf. Það er tákn tímanna sem við lifum.
Eins og effektinn sem við getum sett á símavídeóin okkar og þar með látið þau lúkka eins og þau komi úr stóru klunnalegu vídeóvélum æsku okkar sem voru teknar fram á stórhátíðum. Þegar það var eitthvað þess virði að taka upp á vídeó.
Stranger Things er svo sem ekkert að reyna að stinga sér í samband við tímana sem við lifum. Enda er það ekki krafa sem áhorfendur gera í dag. Það er alltaf allt í boði á hinum póstmóderníska ruslahaug. Það er um að gera að halda áfram að grafa. En ég man hins vegar hvernig það var að vera nörd í kjallara. Að lesa Tolkien í fyrsta skipti. Kveikja á Sinclair Spectrum tölvunni og bíða þolinmóður í heila viku eftir næsta Twin Peaks þætti. En það sem dreif mann áfram var möguleikinn á því að sjá eitthvað nýtt. Eitthvað sem var ekki Reykjavík árið 1984. Stranger Things er hörkugott sjónvarp en reynir aldrei að halda loforðið um að koma manni á óvart.