Þriggja manna hljómsveitin Suð gaf út sína aðra breiðskífu, Meira suð, 23. september síðastliðinn. Útgáfa hljómsveitarinnar, Gráðuga útgáfan, á veg og vanda að útgáfunni. Þríeininguna skipa Helgi Benediktsson sem syngur og leikur á gítar, Kjartan Benediktsson er bassaleikari og Magnús Magnússon trymbill. Önnur hjóðfæri, eins og fiðla, hljómborð, hristur, munnorgel, píanó og skellitromma eru að mestu leyti í höndum meðlima.
Er um vínylskífu að ræða sem gefin er út í 250 tölusettum eintökum. Má nálgast verkið hér með því að panta það. Einnig er þar mögulegt að kaupa hana á stafrænu formi eða hlaða niður einstökum lögum gegn gjaldi. Verkið er einnig fáanlegt í plötubúðum. Alfreð Finnbogason úr Grísalappalísu fór með upptökustjórn grunna og hljóðblöndun.
Suðarar eru ekki nýjir af nálinni í íslenskri tónlistarflóru. Samkvæmt viðtali við Árna Matthíasson í Morgunblaðinu 3. október árið 1999, í tilefni fyrri breiðskífunnar og frumburðarins, Hugsanavélarinnar, var hljómsveitin sett á laggirnar árið 1996. Suð var allvirk sveit á þessum árum og tróð nokkuð oft upp á öldurhúsum Reykjavíkur auk þess sem Suð var tilnefnt til verðlaunanna bjartasta vonin á Íslensku tónlistarverðlaunum 1999. Árið 2001 gaf sveitin út stuttskífuna 44 gátur. Árið 2003 hætti Suð að suða en árið 2014 tóku meðlimirnir þá ákvörðun að meira Suðs þyrfti við og tóku upp þráðinn á ný. Eru 46 mínúturnar og lögin tólf á Meira Suði afrakstur þess tíma frá því meðlimir tóku upp þráðinn á ný. Lögin eru samin í sameiningu en Helgi Benediktsson setti saman textana.
Áður en breiðskífan leit dagsins ljós sendu Suðarar frá sér tvö myndbönd við lög af plötunni til að gefa fólki forsmekkinn af komandi skífu. Það voru lögin „Plastgea“ og „Á flótta“.
Þegar þetta er skrifað eru Suðarar að troða upp utandagskrár á Iceland Airwaves á Pönksafninu og munu og stíga á svið næstu tvo daga á eftir. Má og eiga von á tækifæri til að hlýða á Suð oftar á næstu misserum.
II
Suð og Meira suð fellur, eins og frumburðurinn, að DIY-skilgreiningunni (gerðu það sjálfur) enda hafa meðlimir sjálfir veg og vanda af útgáfunni og markmiðið er líkast til ekki að öðlast heimsfrægð og humar. Slíkt má einnig álykta af þeirri staðreynd að hægt er að hlusta á fyrri verk ókeypis á netinu. Bjuggu hljómsveitarmeðlimir sjálfir þannig um hnútana. Jafnframt geta áhugasamir hlustað á Meira suð án endurgjalds á bandcamp-síðu síðu sveitarinnar.
Eins og raunin er oft og tíðum með DIY-tónlistarútgáfur (DIY þarf ekki endlega að einskorðast við tónlist) eiga þær sjaldnast mikið sammerkt pompi og parkt fjöldapoppsins né suðandi síbylju. Þær skera sig jafnan frá þeirri tónlist er allajafna nýtur mestrar lýðhylli. Enda er hægt að tengja DIY við hljóðfæraflokka spyrta við stjórnleysi sem hafa iðulega, vægt til orða tekið, allt á hornum sér hvað stjórnmál og stjórnkerfi varðar og vanda því ekki kveðjurnar. Eins og gera má sér í hugarlund er DIY ósjaldan með miðfingurinn á lofti og beinir honum oft að neyslusamfélaginu. Ágætt dæmi um DIY-hljómsveit er sjórnleysingjasveitin Crass[i] sem var iðin við að senda stjónvöldum reiðitóninn á áttunda og níunda áratug síðustu aldar. Crass er líkast til ein reiðasta hljómsveit sem um getur.
Tónar Suðs eru þó langt í frá eins reiðir og áreitnir, þótt textar sumra lagana, bæði á fyrri og seinni breiðskífunni, hafi gagnrýnitón. Í flestum tilfellum eru lagasmíðarnar frekar grípandi og hljómþýðar. Meðlimir sjálfir hafa og látið frá sér fara að þeir setji saman dægurlög. Dægurlög geta jú verið af margvíslegum toga.
En til þess að draga Suð endanlega í dilk þá er dlikurinn sá markaður því sem á ensku kallast indie og alternative rock og gerir út á sjálfstæði, annars konar nálgunarleiðir tónlistarlega séð og að leggja ekki ofuráherslu á tilbúin markaðslögmál neyslusamfélagsins.
III
Þegar hljómsveit kemur saman með nýja breiðskífu eftir sautján bið er freistandi að notast við klisjur á borð við: „hafa engu gleymt“ eða „kunna enn að rokka feitt“ og þar fram eftir götunum. Í þeim felst þá samanburður við fyrri verk og í þessu tilfelli er óhætt að segja að þráðurinn hafi verið tekinn upp þar sem frá var horfið. Suð hefur sumsé ekki vent sínu kvæði í kross og tekið upp á að spila sveitatónlist. Suð er enn á indie-rokk- eða nýbylgjuslóðum og lög þeirra sverja sig í ætt við bandarískar hljómsveitir á borð við Pavement og Guided By Voices. Suð er því hvað hljóm og hugblæ áhrærir tímalega á tíunda áratugnum; það er suðandi fortíðablær yfir þessu.
Hugsanavélin er fínt verk og Meira suð er það líka. Ef finna á meginmun á verkunum mætti segja að seinni skífan sé léttari og rokkaðri. Stemmning Hugsanavélarnar er enda allþunglyndisleg. Meira suð býr yfir meiri kerskni að segja má. Á Meira suði eru lög sem svipa til léttleikandi Pavement-laga, grípandi popplög svo og pönkuð keyrsla, stundum allt í sama laginu. Það eru bjagaðir gítarar, píanókaflar og hristur að ógleymdum smekklegum röddunum. Sem sagt allskonar. Eitt lag, án söngs, sker sig þó hressilega úr. Lagið atarna, sem heitir „SUГ, samanstendur af píanói og óhljóðum og er skemmtilegt uppbrot fyrir miðju skífunnar. „SUГ er sjötta lag skífunnar.
Titillagið „Meira suð“ er grípandi lag, rokkari. Textalega er sú staðreynd að bandið hefir tekið saman á ný umföðmuð og kallast textinn jafnframt á við þá lýsingu sem á undan er gengin
„já það er satt / við þurftum eitthvað
við að vera […]
það lá eitthvað eftir ósagt
já það er satt“.
Hér verður ekki kafað ofan í saumana á hverju lagi fyrir sig heldur látið nægja að draga upp heildarmynd. Ekki verða textarnir (allir á íslensku) heldur teknir sérstaklega fyrir. Um þá nægir að segja að þeir flakka inn og út; leitað er inn á við og út á við, frá áðurnefndu „MEIRA SUÐI“ og „Í JAFNVÆGI“ (titillinn segir meira en mörg orð) til „Á FLÓTTA“ sem fjallar, eins og nafnið gefur til kynna, um flóttafólk. Hið Pavement-lega „PLASTGEA“ greinir frá skipum „sem sigla um heimsins höf […] [og] brotna öll á einni strönd“ og mætti spyrða við neysluhyggju samtímas og svo er það „ÞRÆLAKISTAN/FÁLMA“ þar sem unnið er „í yfirvinnu inn í þrælakistu/ já“. Um sönginn verður ekki annað sagt en að hann falli vel að lögunum .
IV
Til að draga þetta lauslega saman að lokum er ekki hægt að segja annað en að Meira suð sé vel heppnað verk með sinni nýbylgjulegu pönkuðu rokkstemningu, með hröðum köflum, hægum köflum og klifunum, þar sem klifað er á texta og tónum (sumpart einkenni sveitarinnar). Og við þetta má bæta að umslagið, með því fylgja textarnir, fellur eins og flís í rass áðurnefndra skilgreininga og er vel úr garði gert þótt einhverjum kynni að þykja upplausn myndanna miður góð
Þannig að við segjum bara Meira suð/Suð, já takk!
[i] Sannlega má hvetja alla tónlistaráhugamenn og konur sem ekki hafa heyrt í Crass að hlýða á reiða tóna sveitarinnar.