Ég er jazz-maður, þar fyrir utan mikill jazz-trío maður, þekki til Agnars og hlakkaði mikið til að heyra Svif. Trommarinn geðþekki Scott McLemore opnar plötuna með nice introi áður en laglínan af titillagi plötunnar Svif líður af stað, stutt og auðsyngjanleg yfir spennandi hljómagang. Fyrsta sóló á kontrabassaleikarinn Valdimar Kolbeinn Sigurjónsson: mjög flott. Agnar heilsar áheyrendum sínum með flott uppbyggðu píanó-sólói og Scott heldur laginu skemmtilega saman með steady backbeati, æðislegur opener.
Við fyrstu hlustun heyrir maður að hljóðblöndun hefur tekist afar vel. Það er mjög flott sound á kontrabassanum, náttúrulegt sound og trommurnar mjög nálægar og hreint sound á flyglinum.
Mistur er annað lag plötunnar. Scott burstar okkur inn í mistrið og Valdi teiknar upp byggingu lagsins með melódísku bassariffi sem færir hugann á flug. Vel heppnuð útsetning á melódíu lagsins. Agnar á fyrsta sóló, Valdi annað, bæði vel heppnuð og saman loka þeir með laginu með hugleiðingu yfir hið mystíska upphafstef lagsins leikið á kontrabassa.
Valdi Kolli opnar Sjúbbí dú á flottum einleik. Titillinn heillar mig ekki og laglínan ekki nándar nærri jafn spennandi og það sem Agnar hefur áður kynnt. Þetta er, eins og nafnið kannski gefur til kynna, léttara og hraðara lag en þau draumkenndu tvö sem opnuðu diskinn. Hér á Agnar frábært ferskt sóló, sem endar snögglega. Scott á skemmtilega opið sóló yfir laglínuna og Valdi á það síðasta. Að mínu mati er lagið ágætur filler.
Agnar er æðislegur á þessu meðalhæga tempói og Eyði er lag sem leyfir honum að sýna það. Laglínan dökk og einmanaleg. Ég sé hann fyrir mér raula þetta fyrir munni sér, undir hausttungli við eyðibýli í hnéháu hrímuðu grasi. Scott og Valdi tipla varlega í kringum hann eins og til að trufla ekki hugleiðsluna. Valdi á frábært fyrsta sóló. Agnar opnar á frekari sögu staðarins sem hann stendur á, eða skrifar til. Frábært lag, Frábær flutningur.
Agnar opnar Ildi. Þetta er lagið sem ég syng með. Þetta er lagið sem ég raula þegar ég vaska upp. Mjög melódískt og flott útsetning með skemmtilegt spot fyrir Scott.
Flott bassariff heldur Sæmd saman. Fallegt lag á fullkomnum stað á plötunni, setur mann aðeins á núllpunkt aftur sem er gott veganesti fyrir lagið Garri, því þá blæs úr öllum áttum. Falleg melódían er brotin og óræð eins og um norðangarra væri að ræða, sem blæs inn undir ermarnar. Mjög skemmtilegar rythmapælingar, frábært sóló hjá Agnari, og traust support frá Valda og Scott.
Nitur. Aftur leikur Agnar sér með undirleikinn og skrifar út rythmískar hljómahreyfingar sem verða einskonar riff sem hann leikur sér að. Skemmtilegar pælingar.
Agnar, Valdi og Scott loka plötunni með frábæru lagi, Stilla, sem er rólegt og boðar uppgjör og enda, melódían syngur takk og farvel.
Agnar Már Magnússon hefur með Svif sent frá sér afar sterka tríó-plötu. Þetta eru feyki flottar tónsmíðar, spennandi og ólíkar útsetningar og hágæða hljóðvinnsla.