Er hann með GSM? hrópar drukkin stelpa að samferðarfólki sínu á mannfáum götum Blönduósar undir hábjartan sumarmorgun. Til bæjarins eru mættir nokkrir aðkomumenn af mölinni, íklæddir hallærislegum lopapeysum, vopnaðir tækjum og tólum til upptöku myndar og hljóðs; og þeir segjast vera að gera heimildamynd um þá iðju fólks að safnast saman á tilteknum stað, sýna sig (og sinn bíl með öllum tilheyrandi herlegheitum) og sjá aðra (og þeirra bíla, einnig með öllum tilheyrandi herlegheitum), og keyra síendurtekið sömu leiðina — nánar tiltekið: fara rúntinn — skýrt skilgreinda hringrás sem hefur á sér hálf-helgisiðakenndan blæ og virðist um leið fela í sér nokkurskonar lífæð þess bæjar sem keyrt er um. Stelpan sem hrópar nældi sér víst fyrir stuttu í nýjan kagga, að hennar sögn þann flottasta í bænum, og vill auðvitað ólm fá að sýna gestunum — og þar með umheiminum — gripinn. En þar sem hún gerði þau afdrifaríku mistök að sitja við drykkju og vanrækja rúntinn þetta kvöld hinna ófyrirséðu tækifæra — og er þar af leiðandi ekki í kroppslegu ástandi til að sækja hann sjálf — grípur hún til þess neyðarúrræðis að leita uppi ökuhæfa manneskju til að sannreyna yfirlýsingar hennar.
Ofangreint atriði er að finna í nýútkominni heimildamynd Steingríms Dúa Mássonar, Rúnturinn I. Atriði myndarinnar voru fest á filmu á Akranesi og Blönduósi og í Keflavík tæpu korteri fyrir (órana um) 2000-vandann — nánar tiltekið sumarið 1999 — sem eftir á að hyggja er vafalaust sögulegri tímasetning en ætla má að höfundurinn hafi gert sér grein fyrir meðan á tökunum stóð: þetta er stuttu áður en margsjónvarpað fall tvíburaturnanna hringdi inn 21. öldina, um það leyti sem „íslenska efnahagsundrið“ fór að taka á sig (ó)efnilega mynd í takt við útflutningsvæðingu íslenskrar tónlistar, á tíma þar sem ekki var óeðlilegt að segjast ætla að „fara á netið,“ forskeytið far- stóð enn þungt og óhaggað fyrir framan snúrulausa síma, og símboðar voru enn festir á krakka sem af einhverjum ástæðum þóttu þurfa að vera ínáanlegir allan sólarhringinn. Í aldamótunum 1999-2000 fólust ekki síst síðustu dreggjar hinna ungu og stuttlifuðu endaloka sögunnar — og kvikmynd Steingríms Dúa, sem kemur nú út tæpum tveimur áratugum síðar, er líkust sýni eða sönnunargagni, einskonar leifturljósi að handan, innrömmuðu augnabliki hvers framtíðarverðmæti lá kannski allra síst í augum uppi þegar innrömmunin sjálf átti sér stað. Sautján ár eru ekki langur tími, en sökum þeirra gífurlegu tæknibreytinga sem orðið hafa í millitíðinni virka filmur Steingríms Dúa að vissu leyti sem fornleifar. Og það er ekki síst þessi furðulega fjarlæga nálægð — eða nálæga fjarlægð — sem gerir myndina svo heillandi og eftirminnilega.
Myndin, sem ku vera sú fyrsta í þríleik, kjarnast um rúntrannsóknarferðir þeirra Viðars Hákons Gíslasonar og Ólafs Jónssonar vítt og breitt um landið, en auk ofangreindra bæja heimsóttu þeir Akureyri (í áttina þangað halda þeir raunar undir lok myndarinnar, sem gefur til kynna að sú næsta komi til með að hefjast þar), Egilsstaði, Hólmavík, Ísafjörð, Höfn og Vestmannaeyjar — auk þess sem þeir tóku upp í Reykjavík. Hlutverk þeirra Viðars og Ólafs liggja einhverstraðar á mörkum hins uppdiktaða og hins raunverulega: samkvæmt kynningartexta sem Steingrímur Dúi sendi frá sér í tengslum við (mislukkaða) hópfjármögnun myndarinnar — sem þá átti reyndar að verða tíu þátta sjónvarpssería — smíðaði hann tvíeykinu ákveðinn ramma, til að mynda hvað varðaði fatnað (engin tískuföt) og áhugamál (bílar, rúnturinn o.s.frv.). Hér er þó ekki um hefðbundinn leik að ræða, heldur er staða þeirra skyldari stöðu tónlistarmanns sem spinnur út frá fyrirframgefnum hljómagangi: út frá ákveðnum, lauslega mótuðum grunni imprófísera þeir framhaldið, frjálsir en um leið að einhverju leyti bundnir við rammann, með augu og eyru opin fyrir þeim framvindumöguleikum sem rúmast innan hljómagangsins. Engin formleg viðtöl eiga sér stað — engir talandi hausar birtast uppstilltir á skjánum — heldur ganga hinar sumpart skálduðu aðalpersónur beint inn í raunverulegar aðstæður og leita þar uppi viðmælendur sem geta ekki gert ráð fyrir öðru en að um raunverulega bíla- og rúntáhugamenn úr Reykjavík sé að ræða. Upptökutækin rúlla viðstöðulaust meðan á samskiptunum stendur og í stað þess að einblína á að ná „góðum“ römmum virðist sem óhamlaður hreyfanleiki myndavélarinnar sé meginmarkmiðið. Þannig er opnað upp á gátt fyrir óreiðukennda fagurfræði og organíska framvindu — hið skyndilega, óvænta og ófyrirséða ræður för.
Þetta tekst í stuttu máli afar vel. Þeir Viðar og Ólafur eru báðir sannfærandi í hlutverkum sínum og virðast — þrátt fyrir stöku efasemdir og lágstemmdan en síviðloðandi ríg milli landsbyggðar og höfuðborgar — nokkuð lunknir við að selja heimamönnum hugmyndina. Þeir setjast upp í annarra farartæki, höfða á snjallan hátt til hégómans og fá þannig menn til að monta sig dálítið af hestöflum og hljóðkerfum, bjóða til teitis í ameríska húsbílnum sem þeir sjálfir eru á og ná að kitla forvitni heimamanna nóg til að koma í veg fyrir vandræða- og formlegheit. Samskiptin snúast að nafninu til um rúntinn og það sem honum tengist — um bílana, leiðirnar, hefðirnar og þar fram eftir götunum — en um rúntinn hefur Steingrímur Dúi í millitíðinni skrifað mastersritgerð sem líklega varpar öllu akademískara ljósi á menningarfyrirbærið rúntinn. Í myndinni sjálfri endar þó rúnturinn sem slíkur uppi sem hálfgert aukaatriði: aðferð að (óljósu? ómeðvituðu? undirmeðvituðu?) markmiði frekar en sem markmið í sjálfu sér. Með því að einblína í orði á afmarkaðan útgangspunkt sem um leið verður samskiptalegur ísbrjótur (semsagt: rúntinn — sem ófáum viðmælendunum virðist hálf-fáránlegt viðfangsefni en að vissu leyti fyndið í senn) tekst Steingrími Dúa að opna útsendurum sínum nær hindranalausan aðgang að lókalnum og sækja sér þannig sýni af tilteknu samfélagi — sýni sem undir flestum kringumstæðum gæti reynst aðkomumönnum torfengnara. Á sama tíma og áhorfendur sjá vissulega áhugaverða mynd af rúntinum sem marglaga menningarfyrirbæri kalla samskipti Viðars og Ólafs við heimamenn ekki síður — og kannski fyrst og fremst — fram einskonar lifandi málverk af nokkrum kimum íslensks samfélags síðustu andarslitra 20. aldarinnar.
Þarna má með einhverju móti segja að áferðin yfirbugi innihaldið — það er að segja: hið sagða inntak. Ekki í þeim skilningi að orðin missi marks, verði óeftirminnileg eða virki óþörf, heldur þvert á móti þannig að orðin, hljóðin, hreyfingin, myndin og klippingin — með öðrum orðum allir þættir framkvæmdarinnar — renna að mestu átakalaust saman og mynda þannig sannfærandi heild sem hvergi er slitinn í sundur af plássfrekju eins ofangreindra þátta umfram hina. Úr verður nokkurskonar fljótandi mynd af mennsku landslagi — stundum abstrakt og stundum hlutbundin — sem augljósast virðist að njóta án þess að taka stöku þætti þess sérstaklega út fyrir sviga. Það hversu stór hluti myndarinnar gerist inni í bifreiðum — það er að segja: bókstaflega á hreyfingu — ýtir svo enn fremur undir hina fljótandi áferð, sem og reyndar fjölmargir aðrir fítusar myndarinnar á borð við sögumannsleysið og þá staðreynd að ekki er gerð nein tilraun til flókinna eftirá-útskýringa á því sem ber fyrir augu og eyru áhorfandans sautján árum síðar.
Á sama tíma er minninu auðvelt að ramma sérstaklega inn ákveðin atvik úr myndinni, þá helst vegna þess hversu eftirminnilega þau stimpla inn hina fyrrnefndu furðulega fjarlægu nálægð — eða nálægu fjarlægð — á milli útkomu myndarinnar og þeirra atburða sem hún sýnir og segir frá. Áður hefur verið minnst á drukknu stelpuna sem vildi sýna þeim Viðari og Ólafi nýja bílinn sinn, en finnur á endanum engan til að sækja hann og lýsir í kjölfarið yfir frati á heimildamyndargerðinni. Er hann með GSM? hrópar hún hátt og minnir áhorfendur framtíðarinnar ómeðvituð á að nú ganga á þessari sömu jörð unglingar sem aldrei hafa upplifað farsímalausan tíma — en hafa á sama aldrei heyrt minnst á forskeytið GSM. Hróp hennar verður þannig eins og úr dýri í útrýmingarhættu sem er fangað og fest á filmu rétt í tæka tíð áður en tegundin deyr út. Önnur sérlega eftirminnileg sena á sér stað í Keflavík þegar þeir Viðar og Ólafur bjóða í partí í ameríska húsbílnum sem fyllist fljótt af líflegum rúnturum, en það sem fer á milli gestanna og gestgjafanna er þess eðlis að það flýtur inn um eitt skynfæri og út um hið næsta — eða tekur sér kurteisa bólfestu einhverstaðar þeirra á milli. Og skyndilega áttar áhorfandinn sig á því að honum er starsýnt á eitthvað órætt sem ekki er í mynd: ákveðna hegðun sem ekki er ástunduð þarna — og hefði alls ekki verið hægt að stunda — en væri það absólútt í dag, vafalaust og pottþétt, undantekningalaust og alltaf, án nokkurra fyrirvara.
Þarna tala saman ólíkir tímar — og myndin segir áhorfendum eitthvað sem hún sjálf hafði ekki hugmynd um þegar hún tók að mótast fyrir tæpum tveimur áratugum. Að klippingunni ótalinni er lítið sem ekkert fiktað við myndefnið, engar nýjar senur eru heldur teknar upp þar sem lagt er einhverskonar akademískt mat á atburði fortíðarinnar, og eins og áður sagði er engum sögumanni troðið inn á milli atburðanna. Frásögnin virðist einfaldlega verða til um leið og atburðirnir fæðast hver á fætur öðrum — og án hverskyns óþarfa eftiráviðbóta verður til mynd sem leyfir fortíðinni er vera að mestu óviðfiktuð fortíð. Einmitt þess vegna talar hún svo sterkt til áhorfenda dagsins í dag. Þannig er ljóst að Steingrími Dúa og meðhjálparar hans hafa verið búnir eftirsóknarverðum kosti sem ófáa heimildamyndagerðarmenn skortir því miður alltof oft: trausti — að treysta annarsvegar efninu sem hann er með í höndunum alveg hundrað prósent, hinsvegar að treysta áhorfandanum til að taka við efninu og innbyrða það án óþarfa milliliða. Og þegar nafnalistinn tekur að renna niður skjáinn, um það leyti sem þeir Viðar og Ólafur halda af stað til Akureyrar, virðist ekkert eðlilegra en að ferðalagið haldi áfram — áhorfandinn vill helst dvelja í sætinu og fljóta áfram í leit að næsta rúnti.
Eflaust væri áhugavert — og þá sér í lagi eftir útkomu hinna tveggja hluta þríleiksins — að bera hringveginn saman við innanbæjarrúntinn: sá fyrrnefndi er auðvitað nauðsynlegur kvikmyndaliðinu til að þefa uppi þann síðarnefnda og hlýtur því ekkert síður að lauma sér inn í þá áferð sem einkennir myndina/myndirnar. Hugsanlega má segja að með ítarlegri skoðun á hringveginum sé mögulegt að varpa einhverskonar makrókosmísku ljósi á íslenskan veruleika, en aftur á móti sé skoðun á rúntinum helst til þess fallin að kalla fram míkrókosmískt ljós; geimflaugin vs. smásjáin — eða eitthvað á þá leið. Slíkar athuganir verða þó að bíða fram yfir útkomu síðari myndanna tveggja, hvort sem það raungerist á næsta ári, því þarnæsta, eða eftir önnur sautján ár — og svo enn önnur sautján til viðbótar. Það breytir þó engu um þá sérlega ánægjulegu staðreynd að heimildamyndin Rúnturinn I stendur fyllilega í lappirnar ein og sér — sjálfsörugg og keik — og það í fullum rétti. Allt það sem síðari myndirnar tvær kunna svo að — og munu vonandi/væntanlega — bæta við það gúrmei sem í þeirri fyrstu er að finna: allt slíkt verður bara bónus.