Hljómsveitin Skakkamanage æfir

Tónlist vikunnar: Þessi nýja Skakkamanage plata er frábær

(ÓTRÚLEGA LANGT VIÐTAL)

Ég fékk tölvupóst um daginn frá hljómsveit sem vildi láta mig vita að hún hefði gefið út plötu. Svoleiðis er tiltölulega algengt, ég er af einhverjum ástæðum á alveg nokkrum póstlistum fólks sem gefur út plötur og fæ því reglulega tíðindi í innhólfið þegar plötur koma út. Það er ágætt, ég er mikill áhugamaður um plötur og tölvupósta (oft er að hlusta á plötur og lesa og skrifa tölvupósta það eina sem ég geri allan daginn).

Þessi póstur var samt aðeins öðruvísi en flestir plötupóstar sem ég fæ. Hann var frá hljómsveit sem hefur verið í sérlegu uppáhaldi hjá mér síðast áratuginn eða svo, hljómsveit sem ég var eiginlega viss um að væri hætt og myndi aldrei nokkurntíman gefa út plötur eða senda mér pósta um svoleiðis aftur.  Og svo kom bara alltíeinu einhver póstur og hljómsveitin var bara eitthvað: „Hæ, við erum ennþá til!“ (umorðað).

Hér er það sem stóð í alvöru:

Sæll minn kæri

Laugardaginn næstkomandi þann 1. mars gefur hljómsveitin Skakkamanage út sína þriðju hljómplötu. Hún heitir Sounds of Merrymaking.

Mig langar mig til þess að gefa þér eintak af plötunni en það getur þú nálgast með því að fylgja þessum hlekk hér: [hlekkur fjarlægður, þú getur bara keypt plötuna].

Hljómsveitin Skakkamanage var stofnuð árið 2004 og eftir hana liggja plöturnar Lab of Love frá 2006 og All Over The Face frá 2008. Auk þess nokkrar smáskífur, jólaplata, og sjötomma.

Í ársbyrjun 2009 fór að fjara undan sveitinni. Svavar og Berglind bjuggu þá á Seyðisfirði þar sem Svavar samdi flest lögin, en þau fluttu til Reykjavíkur um haustið og stofnuðu menningarafurðastöðina Havarí.

Þegar lítið var um að vera í Havarí fór Svavar niður í kjallara og hóf að hljóðrita lögin. Þormóður Dagsson kom og lék á trommur og Berglind söng og lék á hljómborð. Sú vinna átti sér stað með hléum þar til Gunnar Örn Tynes (múm) tók verkið yfir og hófst handa við að hljóðblanda og pródúsera.

Pétur Már Gunnarsson og Þórunn Hafstað hafa gert myndband við lagið Free from Love. Þau sátu fyrir á umslaginu á All Over the Face. Myndbandið má sjá hér:

Verði þér að góðu
Svavar P

Hljómsveitin heitir semsagt Skakkamanage og ég var handviss um að hún væri hætt, því forsprakkinn Svavar Pétur hefur undanfarin ár einbeitt sér að því að gefa út músik undir nafninu Prins Póló (sú músík er líka æðisleg sko, en hún er aðeins öðruvísi en Skakkamanage).

Hvílík gleði! Hvílík ánægja sem ég upplifði þarna við tölvuna! Og svo náði ég í plötuna og hlustaði á hana þrjúhundruð sinnum og varð ennþá glaðari. Það er gagnslaust og glatað að reyna fanga tónlist og persónulega upplifun af henni í orðum – tónlist er enda gerð til að segja það sem orð ná ekki að fanga –  en ég mun samt láta þess getið að fyrir mér kjarnar tónlist sú er Skakkamanage skapar einhverja ákveðna stemmningu og aðferðafræði og upplifun sem ég tengi sterklega við allt það besta og göfugasta sem skapandi angar Reykjavíkur hafa fram að færa (í þeirri mynd sem ég kynntist þeim og varð ástfanginn af sem heimspekinemi, nýr Reykvíkingur, við upphaf aldarinnar (hljómsveitin múm orkar svipað á mig). Vá, rosa hæp í gangi! En þetta er bara eitthvað sem mér finnst. Það verður bara að hafa það.

(OK skilja allir að ég elska Skakkamanage og það er tæpt að ætla finna óhlutdræga umfjöllun í þessum texta? Gott).

Plötukápa Sounds of Merrymaking

Umslagsmynd plötunnar Sounds of Merrymaking, eftir Valdísi Thor

Platan Sounds of Merrymaking er jafn frábær og hún var óvænt. Fólk sem hefur gaman af gítarmúsík mun njóta hennar. Hérna getur þú niðurheilað lagi af plötunni (það heitir Animals og er æði) og ákveðið sjálf hvað þér finnst (engar áhyggjur, hljómsveitin leyfir þetta. Þetta er fullkomlega löglegt niðurhal). Ef þú meikar ekki að dánlóda lagi þá er hér rétt að ofan jútúb embed af mynbandi við annað lag af plötunni. Þú getur hlustað á það í staðinn.

Nema hvað, ég vil að allir frétti af þessari plötu og ákvað í því skyni að taka smá viðtal við manninn að baki Skakkamanage, Svavar Pétur Eysteinsson. Við skiptumst á tölvupóstum fram og aftur í nokkra daga og það sem eftir fer er lítillega niðursoðin útgáfa af spjalli okkar. Þú ættir endilega að lesa það, enda segir Svavar ákaflega margt skemmtilegt þarna. Sorrí annars hvað inngangurinn var langur. Ég gleymdi mér eitthvað.

Svavar Pétur Eysteinsson og Berglind Häsler stilla sér upp. Mynd eftir Jóa Kjartans

Svavar Pétur Eysteinsson og Berglind Häsler stilla sér upp. Mynd eftir Jóa Kjartans

Að góðra blaðamanna sið vildi ég undirbúa mig áður en ég tæki viðtal við Svavar Pétur. Sendi ég í því skyni á hann skeyti þar sem ég falaðist eftir því að hann sendi mér lagatexta plötunnar góðu. Svarið var ekki eiginlegt viðtalssvar, en það var svo huggulegt að ég vil endilega láta það fylgja.

Þetta skrifaði Svavar:

Textarnir eru samdir í frekar miklu flæði þar sem ég, eða við þegar svo ber undir, erum að reyna að segja einhverja sögu, en reynum að láta orðin flækjast ekki of mikið fyrir okkur. Þannig verður sagan kannski óskiljanlegri, en við sögumennirnir eigum betra með að segja hana.

Mér finnst gaman að nota tungumálið sem hljóðfæri frekar en að reyna að koma hlutunum rétt orðuðum frá mér. Það er stundum auðveldara og skemmtilegra í ensku, sérstaklega fyrir mig sem er mun slappari í ensku en íslensku.

Mér finnst gott að geta notað tungumálið óheft og óritskoðað til þess að koma ákveðinni stemmingu frá mér líkt og maður gerir þegar maður spilar á hljóðfæri. Stundum segir maður sögu á hljóðfæri, eða í söng, og þá er maður í rauninni bara að gefa hlustandanum í ljós stemminguna sem býr í sögunni og leyfir honum að fylla í eyðurnar og búa til sína eigin sögu.

Í ljósi þessa eru textarnir af plötunni ekki birtir, og ég held meira að segja að þeir séu hvergi til á prenti.

Og svo byrjuðum við viðtalið almennilega!

Hæ Svavar,

Hæ Haukur

nýja Skakkamanage platan er frábær. Ég er búinn að vera hlusta á hana ofsa mikið síðan ég komst yfir hana um daginn. Ég er mjög ánægður með þessa plötu.

Gaman að heyra!

Það er kannski ekki svo ótrúlegt þegar nánar er að gætt: víst er að ég hef alltaf verið mjög hlynntur Skakkamanage og jafnvel má ímynda sér að ég hafi spilað plötur sveitarinnar meira en aðrar íslenskar um einhver skeið.

Hún kom svolítið eins og þruma úr heiðskíru lofti, platan. Skakkamanage hefur ekki verið virk um árabil og meðlimir sveitarinnar hafa verið iðnir við önnur verkefni. Ber þar helst að nefna Tilbury verkefni Þorra trommara og Prins Póló, sem er þitt verkefni. Ég hefði skrifað sólóverkefni, en maður er ekki alltaf viss. Eftir því sem ég heyri sameiginlega vini okkar tala vinnur þú mest af Prins Póló plötunum eins þíns liðs, en hinsvegar hafa tónleikar sveitarinnar verið þekktir af góðu og þar kemur Prins Póló fram sem sterk heild, samansafn af einstaklingum.

OK hér er fyrsta spurningin: er Prins Póló sóló? Er Skakkamanage sóló? Hver er munurinn á Prins Póló og Skakkamanage? Já og Létt á bárunni? Og hvernig yrði sólóplata frá þér? Finnst þér nauðsynlegt að flagga mismunandi gerfum eftir því hvaða stemmningu þú eltist við í þinni listsköpun?

Prins póló

Prins Póló

Það er von að þú spyrjir. Þetta getur líklega virkað mjög flókið úr fjarlægð.

Skakkamanage byrjaði sem sólóverkefni síðasta veturinn minn í LHÍ árið 2003 og gaf ég út eina plötu undir þessu nafni. Nafnið má þó rekja allt aftur til ársins 1996, þá stofnaði ég útgáfufyrirtækið Skakkamanage utan um sjötommu Múldýrsins—en það er önnur saga.

Skakkamanage varð hljómsveit árið 2004 þegar ég, Berglind Häsler og Þormóður Dagsson fengum okkur æfingarhúsnæði. Skakkamanage varð fljótlega frekar lýðræðisleg sveit og sömdum við mörg lög saman, þó svo að ég hafi á einhverju tímabili haft mig mest frammi í lagasmíðum. Platan All Over The Face er frekar mikið samvinnuverkefni, en þar var Örn Ingi Ágústsson kominn í bandið á bassa. Lögin á Sounds of Merrymaking eru þó öll eftir mig, og samin eftir að sveitin lagðist í dvala. Þannig hefur Skakkamanage gengið í gegnum bæði einræði og lýðræði.

Hvað Prins Póló varðar þá sem ég öll lögin og hljóðrita sjálfur, en leita oftar en ekki til annarra þegar kemur að eftirvinnslu. Læf einingin er hinsvegar mikið samvinnuverkefni og þar eru Kristján Freyr, Berglind Häsler, og Benedikt Hermann hvað virkust. Þannig að í grunninn eru þetta sólóverkefni sem virka líka sem hljómsveitir.

Svo kemur Létt á bárunni til sögunnar og öll eru þessi verkefni að fást við mjög ólíka hluti. Mér finnst mikilvægt að búa til mismunandi persónulegt gervi fyrir tónlistina hverju sinni. Það er mjög gaman að hanna hljómsveit, og aukasjálf. Það er partur af fjörinu.

Prins Póló sprella á góðri stundu. Trommarinn Kristján Freyr bregður sér í gerfi Ólafs Ragnars og Svavar og Berglind brosa, enda alltaf gaman af eftirhermum Kristjáns

Skakkamanage sprella á góðri stundu. Trommari Prins Póló og Reykjavík!ur, Kristján Freyr, bregður sér í gerfi Ólafs Ragnars og Svavar og Berglind brosa, enda alltaf gaman af eftirhermum Kristjáns

Þetta með aukasjálfin – það meikar ótrúlega mikinn sens ef maður spáir í því. Sami maður gæti viljað gera melankólíska reiðimúsík einn daginn og glannalega gamantónlist hinn. Og kannski er sniðugt að leyfa hverri hlið að standa fyrir sjálfa sig. Þannig kannski setur maður sig í aðrar stellingar þegar maður hlustar á Skakkamanage en Prins Póló.

Einhverntíman vorum við að tala um Prins Póló í gamladaga og ég vék eitthvað að textunum, að mér þætti þeir stundum aðeins of grínlegir, með orðaleikina og gúmmelaðið og það allt, og að það hyldi kannski hversu djúpt væri á sumu þar. Ég held ég sé ekkert sammála mér lengur, en dettur samt í hug að spyrja: er Prins Póló svona meira hressilegra verkefni en Skakkamanage? Ég upplifi einhvernveginn meiri alvöru í Skakka.

Prins Póló er líklega vettvangur fyrir mig til að láta gamminn geysa á annan hátt en í Skakkamanage, þó svo bæði verkefnin séu að sumu leyti grín hvert á sinn hátt. Meginmunurinn er að Skakkamanage er hörð nýbylgja á ensku meðan Prins Póló er aðeins léttara efni á íslensku. Ég hef þörf til að búa til hvort tveggja, en ég get ekki blandað því saman. Ég reyndi á tímabili að syngja á íslensku í Skakkamanage en það gekk ekki upp, þannig varð Prinsinn og Létt á bárunni til sem svar við þessari þörf.

Það er líklega alveg rétt hjá þér að stundum hefur verið of grunnt á gríninu og ríminu í textum Prins Póló. En mér líður alltaf best þegar ég næ að standa á einhverri hárfínni línu gríns og alvöru þar sem ég veit ekki einu sinni sjálfur hvað er hvað. En ég skal játa það að stundum missir maður jafnvægið.

Er ég kannski eitthvað ruglaður að vera spá svona mikið í textagerðinni hjá þér? Finnst þér textar kannski ekkert mikilvægir í músík? Mörgum finnst það sko, að söngurinn eigi bara að vera eins og hvert annað hljóðfæri og mikilvægi textans einskorðist við grípandi upphrópanir og stemmningspælingar. Það er alveg gilt sjónarmið sko, ég var lengi í þeim hópi sjálfur.

Flest lög höfða til mín á mússíkinni eingöngu, og stundum er ég búinn að digga lag í mjög langan tíma, kannski mörg ár, þegar ég átta mig á því um hvað lagið er. Svo eru önnur lög þar sem ég dett beint inn í textann og mússíkin skiptir minna máli fyrir mér. Í flestum tilvikum hlusta ég á tónlist út frá fíling, grúvi og stemmingu.

Áttu þér einhverjar fyrirmyndir hvað svona hliðarsjálf varðar? Í fljótu bragði minnist ég þess ekki að hafa orðið var við marga músíkanta sem skipta um nöfn eftir viðfangsefnum. Will Oldham gerði þetta jú. Og hann þarna Lou Barlow úr Sebadoh.

Hvað varð um Smog? Hver er munurinn á honum og Bill Callahan? Mér finnst það gott dæmi um vel heppnað aukasjálf því munurinn er nánast enginn, og enginn veit hver er hvað.

Hvað varð annars um Örn Inga?

Örn Ingi lifir góðu lífi í Hafnarfirði. Hann er að eigin sögn show-biz maður og nennti ekkert að mæta í hljóðverið, þannig að ég spilaði bara bassann á plötunni. En hann verður vonandi tilkippilegur ef við spilum einhverntíman á tónleikum. Hann er líka með bláu gormasnúruna, sem er mjög mikilvægt element.

Show-biz maðurinn Örn Ingi bregður á leik í Japan

Show-biz maðurinn Örn Ingi bregður á leik í Japan

Ég aðdáandi flestra þeirra gerfa sem þú hefur tekið upp, frá Skakkamanage (eða þúveist Rúnk) til Prinspóló—auk hönnunar og myndlistar, auk tilrauna með listmiðlun/verslunarstörf (hin frábæra menningarstofnun Havarí) og matreiðslu (Bulsur) SVO FÁTT EITT SÉ NEFNT. Ég velti því fyrir mér í framhaldi af fyrri spurningu hvort að það sé einhver rauður þráður í verkum þínum. Eiga t.d. Bulsur eitthvað sameiginlegt með laginu Niðrá strönd?

Bulsur og Niðrá strönd eiga það sameiginlegt að vera sprottinn upp úr sömu þrá til að skapa, búa eitthvað til. Það er í manni einhverskonar sköpunarblaðra og þessi blaðra fyllist með tímanum. Það er mjög gott að semja lag á vel þrútinni sköpunarblöðru. Þá rennur lagið upp úr manni tilbúið með texta og öllu á kannski hálftíma. Og eftir á er maður dúnmjúkur og slakur. En ef blaðran er tóm þá getur maður setið við heilan dag og hlutirnir gerast hægt. Ef maður hinsvegar tæmir ekki blöðruna með jöfnu bili þá eru afleiðingarnar leiðindi. Tilfinningin, þessi þrá til að skapa, hún er alltaf eins, en markmiðið, sjálft sköpunarverkið, getur verið mjög mismunandi—allt frá því að vera tónlist, pulsa, eða eitthvað annað.

Mér þykir ákveðinn andi eða stemmning fylgja þér hvert svo sem verkefnið er, einhver DYI stemmning, tignun á lo-fi aðferðafræði (kalla ekki Arnar Eggert og Árni Matt það lágfitl?) og einfaldleika. Þetta sést jafnvel best þegar þú klæðir þig í hönnunargallann (kannski ekki þegar þú ert að hanna corporate peningadjobb, en svona þegar þú ert að gera auglýsingar fyrir Havarí og plötukápur fyrir hljómsveitir eins og Reykjavík! til dæmis).

Er þetta rétt ályktað? Er þetta einhverskonar fagurfræði/aðferðafræði sem heillar þig? Af hverju/af hverju ekki?

Þetta er hárrétt ályktað. Ég hef mikið dálæti á hinu ófullkomna og hef ekki gefið mig mikið út fyrir fágun eða fullkomnun í vinnubrögðum. Að einhverju leyti er það vankunnátta, ég einfaldlega get ekki betur. En ég hef alltaf haft meiri áhuga á verkinu sjálfu frekar en fræðunum að baki verkinu. Ég hef samt í laumi dáðst að þeim sem „mastera“ ákveðna hluti, velta sér upp úr smáatriðinum og einblína á eitthvað afmarkað.

Ég hef líka haft löngun til að gera fágaða og fallega hluti, en hið ófullkomna lágfitl hefur hentað mér betur, og þá á mörgum sviðum frekar en einu afmörkuðu. Pönk var fyrsta stefnan sem greip mig og flest sem ég geri er að einhverju leyti smitað af því. En auðvitað er þetta ekki algilt. Ég hef kannski náð að temja mér aðeins meiri natni og þolinmæði í seinni tíð. Kannski er það þjálfun.

Hljómsveitin Rúnk meðan allt lék í lyndi. Frá hægri: Borko, Benni Hemm Hemm, Hildur Guðnadóttir, Svavar Pétur, Óbó

Hljómsveitin Rúnk meðan allt lék í lyndi. Frá hægri: Borko, Benni Hemm Hemm, Hildur Guðnadóttir, Svavar Pétur, Óbó

Er asnalegt að biðja þig um að lýsa svona týpískri lagasmíðastemmningu hjá þér? Hvernig semurðu músík? Breytist ferlið eitthvað eftir því hvern/hvað þú ert að semja fyrir?

Lagasmíðaferlið er mjög svipað hvort sem ég er að semja fyrir Prins Póló eða Skakkamanage, eða eitthvað annað. Oftast er það þannig að ég er fullur af þrá til að búa til lag en hef kannski ekki snert hljóðfæri í einhvern tíma, er búinn að vera upptekinn við annað, eða á ferðalagi. Þá sest ég niður í stúdíói, eða með gítar, eða við píanóið, og bý til einhvern vísi að lagi. Þá fanga ég einhverja stemmingu og texabrot sem er búið að vera að krauma í mér og það gengur mjög hratt fyrir sig. Ég tek upp hrátt demó á símann eða í tölvuna og kem svo aftur að laginu síðar og klára það.

Þetta er svona þægilegasta og skemmtilegasta ferlið. En það eru líka til aðrar erfiðari fæðingar.

Þegar Svavar Pétur er ekki að semja lög semur hann gerfipylsur fyrir mölbúa sem þora ekki að borða dýr. Hér má sjá hann grilla svoleiðis á góðri stundu.

Þegar Svavar Pétur er ekki að semja lög semur hann gerfipylsur fyrir mölbúa sem þora ekki að borða dýr. Hér má sjá hann grilla svoleiðis á góðri stundu.

Hefur músíkin þín eitthvað verið gagnrýnd? Fylgistu með umfjöllun um hana? Og hefur hún einhver áhrif á a) andlega líðan þína b) líkamlega c) hvernig þú nálgast lagasmíðar og spilamennsku í kjölfarið?

Ég hef fengið allskonar gagnrýni og einhverntíman á ferlinum hef ég látið slæma gagnrýni slá mig út af laginu, þó svo að síðar hafi ég séð að hún hafi átt fyllilega rétt á sér. Ég fylgist minna með því í seinni tíð, en mér finnst samt alveg svakalega mikilvægt að fá hreinskilnislega gagnrýni á verk mín.

Sum verk mín eru þannig að ég bíð spenntur eftir gagnrýni, því þá er gagnrýnin hluti af þróunarferlinu. Þannig er það með sum verk Prins Póló og sérstaklega með Bulsurnar, því þær eru í þróunarferli og ég vil fá gagnrýni svo ég geti látið hana hafa áhrif á þróunina.

Svo eru önnur verk sem þarfnast ekki gagnrýni, nema þá kannski í auglýsingaskyni, t.a.m. Sounds of Merrymaking. Það er ekkert á þeirri plötu sem ég hefði viljað gera öðruvísi eða er ekki viss með, en góð gagnrýni gæti kannski haft einhver áhrif á söluna.

Þú ert greinilega mikill áhugamaður um tónlist. Ég meina, það er augljóst. Finnst þér gaman að lesa um tónlist? Finnst þér t.d. tónlistargagnrýni einhvers virði? Hvað með viðtöl við tónlistarmenn, eða pressubíó—hefur svoleiðis áhrif á hvernig þú upplifir músíkina þeirra?

Svavar Pétur hyggur að ímyndarsköpun í gerfi Prins Pólós

Svavar Pétur hyggur að ímyndarsköpun í gerfi Prins Pólós

Sem unglingur lá ég yfir blöðum, bókum, og bíómyndum um tónlist og saug í mig stemminguna. Í seinni tíð hef ég verið aðeins latari við það. En ég horfði á Walk The Line um daginn, hún er frábær.

Ég les mjög sjaldan gagnrýni eða viðtöl við tónlistarmenn, en mér finnst mjög gaman að lesa um ævi tónlistarmanna. Mér finnst gaman að lesa um ævi allra manna og kvenna, listamanna, uppfinningamanna, og bara allra. Ég nenni eiginlega ekki að lesa neitt eða horfa á neitt nema það sé satt. Ég get ekki lesið skáldskap og ég hef varla horft á bíómynd síðustu ár, nema hún sé annaðhvort sannsöguleg eða heimildarmynd. Þannig er það nú bara.

Svo við víkjum aðeins aftur að ímyndarsköpun, þá finnst mér liggja í augum úti að ímynd og ára sem umkringir tiltekna listamenn hefur talsvert mikil áhrif á hvernig maður upplifir verk þeirra. Gummi frændi sagði einhverntíman að músík væri svona allavega 40% attitjúd og ég hallast að því að það sé rétt hjá honum.

Er þetta eitthvað sem þú ert að kaupa? Leggur þú einhverja hugsun í það hvernig þú presenterar þína músík, hvort heldur er með fréttatilkynningum, í viðtölum eða á tónleikum? Þarna er ég að hugsa um hvort að þú íhugir þetta eitthvað fyrirfram, eða látir bara vaða af einhverri tilfinningu…

Ég er alveg sammála þessu. Ef ég held mikið upp á listamann þá vil ég helst ekki hitta hann í persónu vegna hræðslu við að persónuleikinn, þ.e.a.s. attitjúdið, standist ekki væntingar. Ég komst fullnálægt Yo La Tengo fyrir nokkru og við hjónin vorum lafandi hrædd um að þau væru leiðinleg, því við höldum mikið upp á þau.

Hvað mig persónulega varðar þá hugsa ég aldrei um þetta fyrirfram, en ég er mjög oft vitur eftir á. Sé eitthvað sem ég hef látið frá mér opinberlega og hugsa: „Það var nú frekar glata að segja þetta.“ Í seinni tíð hef ég reynt að segja sem minnst, því fæst orð bera minnsta ábyrgð og það er lang best að skapa sér ímynd úr sem minnstum efnivið.

Hér er plaggat sem Svavar Pétur hannaði einhverntíman. Það ber fagurfræði hans gott vitni

Hér er plaggat sem Svavar Pétur hannaði einhverntíman. Það ber fagurfræði hans gott vitni

Hvað með hvernig annað tónlistarfólk ber sig á torg. Veitirðu því einhverja athygli, hefur það áhrif á upplifan þína af verkum þess?

Oftast finnst mér best að sjá eina töff ljósmynd og hlusta svo á tónlistina. Ég þarf ekki meira. Of miklar upplýsingar geta hæglega skemmt fyrir góðum listamanni. Nú er ég tildæmis búinn að segja alltof mikið og gjörsamlega rústa eigin ímynd. Getum við farið að tala um eiturlyf??!!

Já, góð hugmynd! Hvað finnst þér um eiturlyf?

Sjitt, hvað er ég búinn að koma mér út í! Ókey, það er alkunna að listamenn, fræðimenn, og bara fólk almennt hefur talið að eiturlyf komi því nær sannleikanum, nær upprunananum, nær kjarna málsins. Fyrir mína parta þá kemst ég algerlega til botns í minni sköpun vel hvíldur á átta kaffibollum. Það er hámarks hugvíkkandi ástand sem ég hef upplifað og ég fæ að upplifa það án allra eftirmála oft í viku. Þetta ástand heldur mér gangandi frá degi til dags. Þannig að skoðun mín á eiturlyfjum er einföld. Mér finnst þau óþörf, heimskuleg, og færa fólk fjær kjarnanum.

Aha! En hvað með hópa tónlistarfólks og svona ímyndarsköpun? Nú tíðkast t.d. að safna íslensku tónlistarfólki saman undir einhverjum hatti, sem hluta af ímyndarherferð íslendinga. Hefurðu einhverjar skoðanir á svoleiðis? Gæti svoleiðis dilkadráttur haft einhver neikvæð eftirköst? Er erfiðara að finna og þróa eigin rödd ef henni er alltaf samstundis mixað inní einhvern kór?

Það er búið að vera mjög hörð ímyndarsköpun í gangi hjá nokkrum íslenskum stórfyrirtækjum, þar sem efniviðurinn er meðal annars sóttur í íslenska bóndann og sjómanninn. Þetta er svo harður áróður að ég get ímyndað mér að það sé erfitt að vera íslenskur karlmaður í dag ef manni vex ekki skegg og á ekki köflótta skyrtu.

Það er auðvitað frábært að æ fleiri skuli kveikja á því hvað tónlistarsenan er mögnuð og vilji bendla sig við hana. En þetta er varasamt og viðkvæmt því auðvitað verður svona ímyndarsköpun alltaf agalega klisjukennd á endanum. Það má þó ekki gleyma ábyrgð listamannanna, þeir velja að taka þátt þó fyrirtækin borgi slikk fyrir. En enn sem komið er hef ég ekki fundið fyrir því að þetta bitni á sjálfri tónlistinni og það skiptir auðvitað höfuðmáli.

Svavar og trommarinn Þorri gleðjast í Lundúnum einhverntíman í gamladaga. Takið eftir skegginu, sem nú hefur verið hagnýtt af auðmönnum og auglýsingstofum

Svavar og trommarinn Þorri gleðjast í Lundúnum einhverntíman í gamladaga. Takið eftir skegginu, sem nú hefur verið hagnýtt af auðmönnum og auglýsingstofum

AUKAEFNI! FLEIRI MYNDIR! 

Verslunin Havarí þegar hún var og hét. Núna er hótel þar sem Havarí var áður. Allir verða að sofa einhversstaðar, en það er aðeins minna spennandi samt

Verslunin Havarí þegar hún var og hét. Núna er hótel þar sem Havarí var áður. Allir verða að sofa einhversstaðar, en það er aðeins minna spennandi samt

Svavar hefur hlotið verðlaun fyrir að vera duglegur að hanna. Til dæmis fyrir þessa bókarkápu. Á hún einhverja hliðstæðu í tónlist þeirri er Svavar smíðar?

Svavar hefur hlotið verðlaun fyrir að vera duglegur að hanna. Til dæmis fyrir þessa bókarkápu. Á hún einhverja hliðstæðu í tónlist þeirri er Svavar smíðar?

Prinspóló með töffarastæla. Frá vinstri: Benni Hemm Hemm, Berglind Häsler, Kriss Rokk, Svavar Pétur

Prins Póló með töffarastæla. Frá vinstri: Benni Hemm Hemm, Berglind Häsler, Kriss Rokk, Svavar Pétur

Hljómsveitin Skakkamanage er samrýmd og þau eru líka voða fín öll. Frá vinstri: Svavar, Berglind, Þorri, Örn Ingi

Hljómsveitin Skakkamanage er samrýmd og þau eru líka voða fín öll. Frá vinstri: Svavar, Berglind, Þorri, Örn Ingi

PS – aðalmyndin hérna að ofan var tekin af Matthíasi Árna Ingimarssyni, þeim ágæta Hafnfirðingi.