Góðan dag og velkomin til fyrstu tónlistar vikunnar sem vefritið Starafugl birtir á föstudegi. Hvílík bylting fyrir humar!
Til þessa hefur tónlist vikunnar aðallega samanstaðið af ótrúlega löngum viðtölum við tónlistarfólk (tvo stráka og eina stelpu) og grein um mann sem semur lög um allt sem er til í heiminum (hann er strákur) og grein um Nine Inch Nails (strákar líka). Í dag – þar sem það er föstudagur og þar sem allar þessar breytingar hafa komið tónlistarumsjónarmanni fuglsins í opna skjöldu – mun ekki verða birt slík ítarleg grein.
Nei. Ef þig langar að lesa langa grein um tónlist, þá geturðu til dæmis farið og skoðað viðtalið við Gunnar í Grísalappalísu eða Steinunni í Eldflauginni. Það er nóg hérna að lesa.
Í dag er gott veður og allir eru í góðu skapi (sjáðu!). Því er tilvalið að huga aðeins að rapparanum Joey Bada$$ (dollaramerkin eru með í nafninu, en hann virðist þó ekki vera gallharður kapítalisti eins og t.d. 50 Cent og aðrir sem skíra sig eftir peningum, allavega af textunum að dæma). Joey var fæddur árið 1995 og er því 19 ára í dag. Hann er mjög ungur. Það er þó ekki að heyra á rappinu hans, því það er þroskað og þrungið, vandað og fallegt. Hér að ofan má hlýða á lagið ’95 Till Infinity, en titill og þema lagsins vísa skemmtilega í hið indæla vesturstrandarapp Souls of Mischief, sem gáfu út lagið ’93 Till Infinity í gamladaga.
Það er alveg frábært lag. Til dæmis má hlusta á það hér að neðan:
En hver er þessi Joey Bada$$? Og af hverju er ég að tala um hann?
Tja, internetið segir mér að Joey sé 19 ára gamall og hið besta skinn. Foreldrar hans og fjölskylda eru innflytjendur (til BNA) frá Jamaica og mun Joey vera sá fyrsti innan fjölskyldunnar sem fæddur er í landi allsnægtanna.
Hér er annað gæðalag með Joey vini okkar, sem þú getur hlustað á meðan þú lest meira:
(lagið heitir Hilary Swank, líklega í höfuðið á samnefndri leikkonu).
Flestir (sem ég þekki allavega) heyrðu líklega í Joey í fyrsta skiptið á breiðskífu A$AP ROCKY, LONGLIVEA$AP (það er greinilega í tísku í dag að vera með dollaramerki í nafninu sínu), en þar á hann magnað vers í laginu 1Train (sem reyndar státar af ansi mörgum frábærum röppurum af yngri kynslóðinni, eins og Kendrick Lamar, Danny Brown og Action Bronson). Síðan fór hann að dúkka upp hér og þar í hiphopsenu þeirra New York-manna, á mixteipum og smáskífum og í útvarpsþáttum. Og óhætt er að segja að hann hafi vaxið í hvert skipti sem hann setti efni á band, bæði textalega og hvað varðar flutning og framkomu. Hér að neðan má heyra lagið góða, 1Train.
Eins og áður sagði er Joey vinur okkar bara nítján ára gamall. Það er ótrúlegt. Í alvöru. Ef hann heldur dampi eigum við hlustendur gott í vændum, svo ekki sé meira sagt. Hér er eitt annað lag með honum, ef þú ert í stuði:
—
Ef þú vilt endilega lesa rosa langar greinar um músík og fólk að rífast um músík og hvað það er asnalegt að margir ungir haldi að tónlistarblaðamenn og gagnrýnendur eigi bara alltaf að vera ánægð með þá, þá er hérna skemmtileg grein um eipið í Lorde. Og svo önnur um annað eins eip.
Gleðilegt sumar!