Af heimasíðu Volksbühne.

Þjóðerniskennd fegurðarþrá

– Hugleiðing um Der Klang der Offenbarung des Göttlichen, eftir Ragnar Kjartansson.

Ragnar Kjartansson er nýjasta óskabarn Volksbühne leikhússins. Sýning hans Der Klang der Offenbarung des Göttlichen var gríðarlega vel kynnt í Berlín – sannkallaður stórviðburður í borg þar sem frægustu listamenn heims troða upp nánast á hverju kvöldi.

Verkið ber undirtitilinn nach „Weltlicht“ von Halldór Laxness eða byggt á Heimsljósi eftir Halldór Laxness. Fyrir þá sem þekkja bókina vel var sú tenging mjög skýr. Þetta er myndasýning þar sem tónlist eftir Kjartan Sveinsson blandast sviðsmyndum eftir Ragnar – myndirnar eru byggðar á ákveðnum köflum úr Heimsljósi og eru því frekar upplifun Ragnars á fegurðarstefi bókarinnar heldur en tilraun til að segja skáldsöguna, sem er rúmlega 500 síður, í heild sinni.

Þar með er sýningin strax búin að mynda sér sérstöðu – að minnsta kosti í samhengi við íslenska leikhúshefð. Verkið er í raun fyrsta stóra afbyggingin á skáldverki eftir Halldór Laxness á sviði. Íslenskir leikhúsmenn hafa borið mikla virðingu fyrir texta skáldsins í gegnum tíðina, jafnvel of mikla virðingu myndu einhverjir halda fram. Textinn hefur verið í forgrunni, jafnvel þó verk Laxness séu oft gríðarlega myndræn og náttúran iðulega sjálf í burðarhlutverki. Hefðbundin Laxness sýning er þannig yfirleitt í lengri kantinum því fáu má sleppa. Til að mynda var Sjálfstætt fólk sem Kjartan Ragnarsson, faðir Ragnars, setti upp í byrjun síðasta áratugar skipt í tvö kvöld (Ragnar hefur einnig talað um í viðtölum að uppsetning Kjartans á Heimsljósi í Þjóðleikhúsinu fyrir fáeinum árum, þar sem fegurðarþráin var í aðalhlutverki, hafi verið innblástur hans við gerð verksins).

Að þessu leyti fer Ragnar gegn öllum fyrri tilraunum til að hemja Halldór Laxness á sviðinu. Það eru engir leikarar að berjast við ódauðlegar setningar á sviðinu. Í staðinn tala myndirnar sínu máli og það er undir áhorfendum komið að fylla upp í eyðurnar. Reyndar syngur kórinn einstaka hendingar úr bókinni en sá texti myndar ekki rökrétta framvindu heldur er í eðli sínu eins og myndirnar – síendurtekin stef sem leita á áhorfandann og krefja hann um búa til eigin frásögn.

Fjaran, þar sem Ólafur Kárason, er ákveðinn að leggjast til hinstu hvílu í sjónum af því hann sér enga leið úr vandræðum sínum gæti verið efniviður fyrstu myndarinnar – enda hættir Ólafur við að fremja sjálfsmorð, rís upp úr fjörunni og heldur áfram leit sinni að fegurð og ást.

Skógurinn, hið eilífa tákn um hið dulræna, um annan heim, er einnig viðfangsefni Ragnars. Líka brunninn kofinn í Sviðinsvík og jöklagöngu Ólafs er gerð skil í lokamyndinni þar sem kórinn endurtekur síðustu setningu bókarinnar, sem verður líkt og mantra: „Og fegurðin mun ríkja ein.“

Ragnar Kjartansson. Mynd: visir.is

Mynd: visir.is

Höfuðborg afbyggingarinnar

Volksbühne leikhúsið í Berlín er líklega eitt frægasta og umdeildasta leikhús Þýskalands síðustu tvo áratugi. Eftir fall múrsins þurfti leikhúsfólk í gamla austurhluta Berlínar að finna sinn eigin tón, sína eigin sjálfsmynd. Sú vinna kom í hlut Frank Castorf sem var ráðinn leikhússtjóri árið 1992 (Theater Heute valdi Volksbühne leikhús ársins strax árið eftir) Hann bjó til byltingarkennt leikhús, hans frægustu sýningar hafa ferðast um allan heim (Endstation Sehnsucht – A Streetcar named Desire var sýnd í Borgarleikhúsinu fyrir hálftómum sal) og honum tókst að skapa leikhúsinu sérstöðu – Volksbühne hefur verið heimavöllur afbyggingarinnar, póstmódernismans og hins póstdramatíska leikhúss, hins tilraunakennda draslleikhúss, stórra leikstjóra og enn stærri leikara.

Í Volksbühne fær maður að sjá nýjustu verk heimsfrægra leikstjóra á borð við René Pollesch – á síðasta ári setti hann upp hið frábæra Kill Your Darlings sem síðar í greininni verður vikið að – Christoph Martaler og hópa á borð við Gob Squad sem margir á Íslandi þekkja. Volksbühne gefur alþjóðlegum listamönnum rödd, leikhúsáhorfendur á Theatertreffen 2012 stóðu á öndinni yfir hinni tólf klukkutíma löngu Borkmann sýningu Vegard Vinges og Idu Müllers. Myndlistin hefur líka átt heimili í Volksbühne. Fjöllistamaðurinn Christoph Schlingensief frumsýndi fjölmargar sýningar og kvikmyndir í leikhúsinu, og mér er sérstaklega minnisstætt þegar myndlistarmaðurinn Jonathan Meese fékk sviðið í sýningunni De Frau árið 2007. Það var fyrsta sýningin sem ég sá í Volksbühne, aldrei áður hafði ég setið í fimm klukkutíma í leikhúsi, horft á risavaxnar sviðsmyndir rifnar niður og hálfnakinn mann hlaupa um sviðið og öskra „Hvað er póstmódernismi, það veit enginn!“ þar til enginn var eftir í salnum nema nokkrir íslenskir leiklistarnemar sem létu flösku af viskíi ganga á milli sín og hvöttu leikarann til dáða.


TRADITION + POPULARITÄT + GETREIDE + OVERKILL = ERZREVOLUTION
(DE FRAU + DE MANN + DE KIND + DE TIER = TOTALES THEATER)
(IHR SEID NIMMERMEHR AUSSER GEFAHR)
*Úr De Frau eftir Jonathan Meese

Fyrir okkur Íslendinga er áhugavert að lesa sýningu Ragnars út frá uppsetningarsögu á verkum Halldórs Laxness í leikhúsinu. Að mínu mati er um stórviðburð að ræða. Kannski þurfti myndlistarmann til að sigrast á óttanum við texta Laxness, nálgast verk hans á póst-dramatískan hátt – sýning Ragnars er leikstjóraleikhús, lestur hans á bókmenntaverkinu og sjálfstæð túlkun á sviðinu. Og kannski liggur nálgun Ragnars nærri ætlunarverki Halldórs Laxness sjálfs – þegar hann ritaði fjórða bindi Heimsljóss skrifar Laxness: „Lesa mikla lýrik undir hreinritun Fegurðarinnar … einustu kaflar bókarinnar eru lýrik, sem orkar á lesandann einsog töfrandi brjálsemi.“ Laxness vildi að ljóðrænan tæki völdin, að atburðarásin viki, stemningar tækju við, raunsæið myndi smátt og smátt hverfa.

Með þetta í huga rímar leiksýning Ragnars fullkomlega við ætlunarverk höfundar – rökrétt framhald af Heimsljósi á sviði og eflaust er hægt að færa rök fyrir því að virðingin fyrir nóbelskáldinu sé síst minni í sýningu Ragnars þrátt fyrir að hið talaða orð sé hvergi að finna á sviðinu.

„Die Rolle des Publikums besteht nicht drin, zu reagieren, sondern zu schauen. Sein Verstummen während der langen Stunden der Aufführungen bezeugt, dass es Fühlung mit der Kunst aufgenommen hat. […]” Der erläutende Programmzettel, der sich seit den fünfziger Jahren auch im Theater immer mehr durchsetzte, entsprach eben jenem Publikumsbedürfnis, das im Theater auf unmittelbare Durchschauberkeit (…) Wert legte.”
*Úr leikskránni. Verfall und Ende des öffentlichen Lebens. Die Tyrannei der Intimität. Richard Sennet

Þýskir áhorfendur hafa þó margir hverjir líklega lítið verið að hugsa um gamlar uppsetningar á verkum Halldórs Laxness á Íslandi. Og sem betur fer var verk Ragnars nógu sterkt til að vekja upp hughrif án þess að áhorfendur kunni Heimsljós afturábak og áfram. Reyndar hefur leikritið valdið ýmis konar hughrifum hjá þýskum áhorfendum – hin íslenska fegurð á misvel upp á pallborðið hjá gagnrýnendum sem margir hverjir hafa gefið verkinu misgóða einkunn (jafnvel falleinkunn). Reyndar er slíkum dómum yfirleitt tekið með fögnuði í Volksbühne – það er leikhús sem vill ganga fram af fólki, sjokkera, vekja upp umtal og spurningar og fara gegn hinu hefðbundna borgaralegu leikhúsi. Slíkt leikhús getur ekki búist við stjörnuflóði fyrir allar sýningar sem þar fara á svið. Oft dæmir sagan gagnrýnendur harðar en listaverkin.

Að því sögðu er áhugavert að skoða hvað það er við verk Ragnars sem „fer í taugarnar“ á þýskum áhorfendum. Ragnar brýtur meðvitað nokkrar meginreglur sem leikhúsið hefur skapað sér. Til dæmis er sýningin mjög stutt, aðeins fimmtíu mínútur meðan „hefðbundin lengd“ á Volksbühne sýningu er þrír til sex tímar. En eflaust fer sú staðreynd meira í taugarnar á þýskum áhorfendum að verk Ragnars er „bara fallegt“. Hann gerir ekki tilraun til að „afbyggja“ fegurðina. Tónlistin er falleg, sviðsmyndirnar eru fallegar og engin þróun sem slík er í verkinu, ekkert samtal sem á sér stað milli mismunandi listforma. Tónlistin er sykursætt undirspil fyrir myndirnar en bætir í raun litlu við þær.

Þetta er í andstöðu við það sem einkennir helst þýskt leikhús og sérstaklega Berlínarleikhúsið – það er að segja afbygging á klassíkinni – en fáar þjóðir hafa togað og teygt sín frægustu listaverk líkt og Þjóðverjar. Upphafningin á fegurðinni snertir líka aðra taug þar í landi, Ragnar spilar inn á innbyggðann ótta Þjóðverja við fegurðarhugmyndina. Í raun mætti segja að nasistarnir hafi eyðilagt fegurðina í þýsku leikhúsi. Með gegndarlausri upphafningu á „hreinni list“, fögrum tónverkum Wagners, hinum þýsku gildum, skóginum, varð fegurðin hluti af áróðursmaskínu nasistaflokksins – þessi misnotkun á fegurðinni hefur gert hana að hálfgerðu tabúi í þýskri menningu (kannski þar sé að finna ástæðuna fyrir miklum áhuga þýskra túrista á Íslandi – hér þykir enn í lagi að tilbiðja fegurðina, gera út á hana í tónlist, leikhúsi og kvikmyndum). Í Þýskalandi hefur kynslóð eftir kynslóð þurft að glíma við samviskubit stríðsins og því er ekki að undra að afbygging sé meginstef þýska leikhússins.

Gott dæmi um þetta er sýning ársins í Volksbühne á síðasta ári – Kill Your Darlings eftir René Pollesch. Hún gekk út á að skapa fallegar myndir á sviðinu en um leið og fegurðin tók yfir braut aðalleikarinn stemninguna upp og sagði „nei, nei, nei. Þetta gengur ekki, þetta er of fallegt. Þetta er of gott.“ Þannig var hver mynd eða stemning brotin upp og eyðilög um leið og áhorfandinn hafði leyft sér að njóta hennar.

Að búa til heila leiksýningu sem er ekkert nema falleg gengur því gegn þeirri estetík sem er ráðandi í þýsku leikhúsi. Það gengur gegn þeirri hefð að hugsa hverja einustu senu og hvert einasta leikrit út frá bæði uppsetningarsögunni og sögu þjóðarinnar, misnotkun á list og hlutverki listarinnar í samfélagi sem þarf að byggja upp frá grunni. Það sem í huga mínum var róttæk afbygging á íslenskri skáldsögu er í huga þýskra áhorfenda upphafning á „hreinni fegurð“ sem er illa séð í þýsku samfélagi og sérstaklega leikhúsinu.

Gengur tilraun Ragnars Kjartanssonar upp? Þessi frumraun hans á einu stærsta leiksviði Evrópu vakti óskipta athygli í Berlín. Vakti upp deilur meðal leikhúsfólks og áhorfenda. Nokkrir íslenskir leikstjórar hafa gert sig gjaldgenga í evrópskum leikhúsheimi en sjaldan hefur jafn „íslensk“ sýning verið sett upp í jafn stóru leikhúsi og Volksbühne. Það verður áhugavert að sjá hvernig íslenskir áhorfendur taka verkinu þegar það kemur hingað heim á Listahátíð. Að mínu mati er stór hluti af gæðum verksins það samhengi sem það fær í hinum þýskumælandi leikhúsheimi. Ég óttast að hér heima muni fegurðardýrkun sýningarinnar verða allsráðandi og verkinu hampað sem dýrkun á íslenskum gildum og vekja upp þjóðerniskennd hjá andstæðingum alþjóðavæðingar. En kannski verður verkið jafn mikil frelsun fyrir íslenskt leikhúsfólk frá hinum heilaga texta nóbelskáldsins og það var fyrir mig. Ragnar Kjartansson óttast ekki að mistakast og vonandi taka íslensk leikhús því ekki illa þó einstaka gagnrýnendur gefi leikritinu falleinkunn – sums staðar er slík einkunn gæðastimpill – merki um að listin skipti máli.