Listahópurinn Vinnslan samanstendur þegar hér er komið sögu af Völu Ómarsdóttur, Hörpu Fönn Sigurjónsdóttur, Guðmundi Inga Þorvaldssyni, Bigga Hilmars, Maríu Kjartans, Arnari Ingvarssyni og Starra Haukssyni. Hópurinn kom fyrst fram þegar hann hélt Vinnslu #1 í Norðurpólnum í maí árið 2012. Þar ægði saman ýmsum listgreinum í krókum og kimum byggingarinnar og gengið var út frá því að allt væri uppi á borðinu. Eins og var svo skemmtilega orðað í kynningarefninu þá vissu „fremjendur og njótendur“ lista að þarna væru þreifingar í gangi en ekki tilbúin verk. Þannig skapaðist einlægt andrúmsloft þar sem fólk gekk opinmynnt milli rýma og lét koma sér á óvart án þess að gera sér nokkrar væntingar. Ég veit ekki hvernig aðrir upplifðu þessi Vinnslukvöld en þetta var frelsandi upplifun fyrir mig.
Eftir að hafa haldið þónokkrar Vinnslur í viðbót, kom „sýningin“ Strengir frá hópnum og var hún nýlega sýnd í Tjarnarbíói. Mér finnst þægilegra að tjá mig um uppákomuna þann 31. október með aðstoð gæsalappa vegna þess að það var ekki verið að sýna mér neitt. Það var verið að spyrja mig. Listafólkið sem var búið að dreifa sér í hin ýmsu rými Tjarnarbíós var að mínu mati ekki með einhvern allsherjar sannleik sem það setti fram í snotrum umbúðum til að breyta heiminum. Þau spurðu sjálfan sig og mig hvað þau græddu á því að hamast þarna sveitt, hlæjandi, pirruð, upptendruð, leiðinleg, orkumikil, uppgefin og einlæg.
Þegar þessi fjögurra klukkustunda upplifun (með valfrjálsri útgöngu) hófst var okkur boðið að ganga inn við fyrstu sætaröðina í salnum og velja þaðan um þrjár gönguleiðir. Ein lá upp í tæknirýmið fyrir ofan salinn og tvær baksviðs. Einnig mátti velja að sitja í salnum og horfa á myndband á tjaldi. Þessi afneitun á sviðinu sem miðju hins lífvænlega í ferðalaginu, gaf strax tóninn. Hlutverk okkar sem áhorfenda varð óræðara. Eins og segir í kynningarefninu: „Án áhorfenda er listin til lítils. Komdu og taktu þátt í að finna strenginn á milli okkar“. Að tala um „okkur“ í þessu samhengi fannst mér nýbreytni frá öðrum þátttökusýningum sem ég hef séð. Í Strengjum erum við öll jafn týnd í tilraunamennskunni á meðan ég hef oftar en ekki séð áhorfendur teymda í gegnum svipaðar uppsetningar.
Þarna var engin rétt eða röng leið. Listafólkið var búið að koma sér fyrir hvert í sínu rými og hafði sett sér ýmis viðfangsefni, sem var unnið úr með spuna á sýningarkvöldunum fjórum. Það er að vissu leiti gott að þau voru ekki fleiri því þá hefði verið hætta á því að hráleikinn gæti glatast. Á meðan upplifuninni stóð gengu gestir m.a. fram á leikkonuna Guðrúnu Bjarnadóttur þar sem hún sat á kaffistofu og baslaði við að skilgreina hvort hún væri í hlutverki eða í alvörunni, fyrst það voru áhorfendur nærri. Fegurðin í þeim kringumstæðum fólst í varnarleysi hennar gagnvart forvitnum augum okkar hinna sem röðuðum okkur í kringum hana til að fylgjast með henni gera eitthvað áhugavert fyrir okkur. Smám saman leið manni eins og maður væri farin að vera með henni, en ekki bara hjá henni. Annað rými sem vakti athygli mína var dimmt og iðnaðarlegt rými þar sem gestir röðuðu sér með veggjum í kringum Guðmund Inga og Völu Ómarsdóttur. Þau voru með samansafn náinna hreyfinga sem þau endurtóku ásamt textabrotum og ýmsum spunnum atriðum. Þau tóku gesti inn og leyfðu þeim að hafa áhrif á framvinduna hjá sér með því að spyrja þá t.d. álits eða leyfa þeim að taka þátt í kringumstæðunni sem þau voru að ganga í gegnum. Þau litu út fyrir að vera að reyna að ofkeyra sig gjörsamlega og það var ótrúleg upplifun að fylgjast með þeim, þau bara hættu aldrei. Þessi tilraun í að halda bara áfram, áfram, áfram var mjög metnaðarfull og kom sífellt á óvart. Þriðja rýmið sem ég dvaldi hvað lengst inni í innihélt dramatúrg „sýningarinnar“, Hinrik Þór. Hann sat við virðulegt borð, sligað af bókum um listir, heimspeki og bókmenntir. Maður skyldi ætla að það væri erfitt að skálda upp birtingarmynd á starfi dramatúrgs, en þarna var það gert með fantagóðri aðferð. Hinrik hafði penna og ógrynni af kartonpappír sem hann gat skrifað á skilaboð til allra hinna í verkinu. Þessa miða bað hann ýmist gesti, listafólk eða starfsfólk Strengja um að bera áfram á rétta staði. Þetta voru innlegg til að kynda undir spuna víðsvegar í húsinu og hjálpa til við að láta verkið þróast. Sérstaklega þótti mér fagurfræðilega vel útfært hvernig Hinrik kom skilaboðum áleiðis yfir til Guðmundar og Völu. Það var einskonar þvottasnúru-færiband hangandi á milli þeirra glugga og Hinriks og þar yfir voru dregin skilaboð um tillögur að breytingum á áherslum þeirra hverju sinni. Undir þessum þremur rýmum sem og öllum öðrum var lifandi tónlist frá tónlistarfólki sem skipti reglulega um staði til að ljá hverju rými ferskan andblæ. Þessi mallandi stemningartónlist gerði upplifunina á verkinu þéttari og náði að aftengja mann öllu öðru en bara gjörðinni að vera viðstaddur þarna.
Það var takmarkaður fjórði veggur í flestum rýmum, það var augljóslega í boði að gestir og listafólk ættu í samskiptum og skoðanaskiptum. Samspil spunans og nándarinnar gerði upplifunina mikið litríkari og margslungnari en ef gestir hefðu einungis gengið fram á útreiknaðar og uppstilltar myndir eða senur. Rýmin smituðust meira að segja út í hvort annað þegar á leið og leitunin að einhverju nýju varð áberandi hjá þátttakendum. Þannig var alls ekki hægt að átta sig á neinu ákveðnu mynstri eða finna út neina ákveðna merkingu. Okkur var þannig gert nánast ómögulegt að gera nokkuð annað en að dvelja í núinu með listafólkinu. Við vorum öll saman í þessu. Við bjuggum upplifunina til saman. Við dvöldum saman í spurningum um hindranir, efasemdir og einlægni. Við og við. Ekki við og hinir.
Ég setti fram spurningu hér að ofan varðandi það hvað þau og við græddum á því að hamast þarna í fjórar klukkustundir. Því get ég aðeins svarað fyrir mig sjálfa; ég sá þrautseiga listamenn takast á við það sem hræðir þá mest; ótta við endurtekningu, ótta við ófrumlegheit, ótta við leiðindi og ótta við að sýna hið persónulega og brothætta sem fer alla jafna ekki á svið. Eftir fjórar klukkustundir inni í þessum ýkjuheimi leið mér eins og eftir gott grátkast, ég var uppgefin en endurnærð. Ég þakka öllum þeim sem komu að sýningunni fyrir að reyna svona vel á sín eigin þolmörk og mín í leiðinni.