„Djöfull hata ég dyraverði!“ Tvær stúlkur í yngri djamm-kantinum arka á móti mér við hafnarbakkann. Ég kem því ekki fyrir mig hvort það er vindurinn eða Bakkus sem stýrir göngulaginu. „Nei nú gleymum við þessu og fáum okkur hvítvín!“ Klukkan er hálftólf á miðvikudegi og ég, sem er dottin út úr íslensku tónlistarlífi og nýt því Airwaves sem túristi, er á leiðinni heim.
Bökkum aðeins.
„Helvíti er annað fólk“ hugsa ég. Ástæðan er maður á miðjum aldri sem segir dömu hreykinn frá því hvað hann er mikill aðdáandi Ásgeirs. „Ég hlusta sko alltaf á hann á leiðinni til útlanda“ segir hann hátt og snjallt þó konan standi þéttingsfast upp við hann. „Hvernig væri þá að halda kjafti og njóta helvítis tónleikanna“ er mér skapi næst að segja en gef þeim bara illt auga í staðinn. Á sviðinu er risastór hljómsveit, óaðfinnanleg og meðfylgjandi ljósa-show er til marks um að hér fari band sem er vant því að markaðssetja sig á erlendri grundu. Ef heyra mætti betur í strengjum og lúðrum og annað fólk hefði sans á því að hlusta þegar það er á tónleikum væri upplifunin fullkomin.
En byrjum á byrjuninni.
Ég sit á kaffihúsi Tjarnarbíós og hlusta á Vára. Við sessunautur minn veltum fyrir okkur hvað þeir séu gamlir, en missum áhugann á því þegar Björk birtist í dyrunum og hverfur aftur innan skamms. Áhorfendur eru brosmildir, foreldrar og vinir styðja við strákana sína og þó að þeir séu stressaðir er full ástæða til að klappliðið finni til stolts. Hljómur sveitarinnar er stór og fagur, fullur innblásturs frá síð-rokkinu en þó engin eftiröpun.
Á eftir þeim setja tvíeykið Bergmál upp kúrekahatta. Svona eins og til að koma í veg fyrir misskilning, ef einhver skildi efast um að hér væru á ferðinni grínarar. Textarnir gera gys að þessu klassíska, guði, prumpi, rassgötum og kúrekum, svo fátt eitt sé nefnt. Raddir söngkvennanna tveggja eru mjög góðar en þó að grínið sé á köflum skondið er erfitt að taka þær alvarlega sem tónlistarmenn.
Rigningin heimtar að ég fái mér pulsu og kók. Ég er næstum búin að kaupa mér Prins Polo en finnst það leim þar sem ég er á leið að sjá nafna þess, Póló á Loft Hostel. Að ég sjái bandið er ofsögum sagt, en með mikilli þolinmæði tekst mér að mjakast innfyrir flöskuhálsinn og heyra meira en óminn úr fjarska. Það er með öðrum orðum stappað. Það er erfitt að segja til um hvort að hljómsveitinni sé brugðið, Prinsinn endurtekur hvað hann sé glaður að vera þarna og hipster herinn kann að meta það. Einn og einn virðist hafa nóg pláss til að dilla sér við seiðandi bassalínurnar en restin stendur eins og síld í tunnu og hausar ganga fram og aftur eins og hjá einstaklega taktföstum hænsnahóp. Allir ganga sáttir út.
Ég stend næst við hlið vinkonu minnar á 1860 í Hörpu. Við horfum á hvora aðra með vantrú í augum og frekar bjöguð andlit af grettum. Getur verið að þetta sé hljómsveitin sem við höfum heyrt svona mikið um? Út á hljóminn er ekkert að setja, þannig, en er hægt að semja svona mörg lög um gang sólarinnar? „Þetta minnir mig á Magic Numbers. Og ekki á góðan hátt“, segir vinkonan og við höldum áfram að furða okkur á því sem birtist okkur. Veit ekki við hverju við bjuggumst en engu svona væmnu.
Reynum Hide Your Kids en höfum takmarkaða þolinmæði fyrir annars ágætlega spiluðu safni tilvitnana í hljómsveitir sem okkur þykir of vænt um til að þær séu kóperaðar. Sveitin hefur nægan tíma til að finna eigin hljóm og mun án efa gera það með sóma einhvern daginn.
Benny Crespo’s Gang veit hinsvegar nákvæmlega hvernig þau vilja hljóma og þó að hljóðmaðurinn sé ekki alveg jafn sjálfsöruggur nær hljómsveitin að draga áhorfendur á tálar.
Eins er Lára Rúnars hrikalega sannfærandi, bandið þétt, uppbygging tónleikanna með góðan stígandi og hatturinn sem fyrst dró að sér alla mína athygli vandist ótrúlega vel.
Og þá erum við komin að Ásgeiri.
Á leiðinni út úr Hörpu tekur við okkur röð niður að smurbrauðinu. Note to self, mæta snemma næstu kvöld.