Groove er gróp og fönk er stankur. Stankmúsík er tónlist sem leitar sér að gróp til að setjast í – stankgrúppan vill hjakka í sama farinu, í besta skilningi þess orðtaks. Finna sér góða gróp og hreiðra um sig.
Það er margt gott á plötunni There’s a Riot Goin’ On en líka ýmislegt sem er of mikið fát, of mikið einsog maður sé lentur á djammsessjóni – æfingu – hjá eftirlátssömum tónlistarmönnum sem hugsanlega eru uppteknari af að skemmta sjálfum sér en hlustandanum. Lög þar sem hver eltir annan í kongahalarófu sálartónlistar án byggingar eða meiningar – spunamúsík sem er öll í 4/4, öll í pentatónískum skölum, öll á sirka sama hraða, rétt um 100 BPM held ég, hermir eftir frelsinu en kann illa að umfaðma það, er betri kompóneruð en spunnin – þar sem textarnir eru hipsumhaps, grúvið hipsumhaps skreytt misgóðum riffum og ekkert af því virðist leiða neitt.
Fyrren alltíeinu.
Fyrren alltíeinu að eitthvað gerist.
Fyrren alltíeinu að að hljómsveitin finnur grópina sína, finnur hilluna sína, og stankurinn verður megn. Sly & The Family Stone geta auðveldlega fyllt nokkrar best-of plötur af lögum sem ná þessum galdri, en á þessari tilteknu plötu fannst mér kannski fullmikið bara verið að typpast með fönkgítarana. En svo kemur eitthvað einsog „It’s a family affair“ – þetta annars ofspilaða lag.
Þetta er góð gróp og góður stankur.
Annað „lag“ sem ber að nefna er titillagið – 0.00 sekúndna þögn samkvæmt plötuumslaginu (það er 4 sekúndur á Spotify). Heiti lagsins og plötunnar er svar við plötu Marvin Gaye, What’s Goin’ On, sem kom út nokkrum mánuðum fyrr. Aðspurður um hvers vegna lagið væri merkt svona sagði Sly víst að lengd lagsins væri ósk hans um að það yrðu alls engar óeirðir.
Eiríkur Örn Norðdahl, ritstjóri Starafugls, ætlar næsta árið að hlusta á 100 efstu plöturnar af lista Rolling Stone frá 2003 yfir 500 merkustu plötur allra tíma – á meðan hann hleypur, hjólar eða keyrir – og reyna að hafa á þeim einhverja skoðun. There’s a Riot Goin’ On hlustaði Eiríkur á tvisvar – fyrst í bíl frá Reykjavík til Borgarnes og svo á hlaupum eftir Hnífsdalsvegi.