Það verður ekki beinlínis sagt að Aretha Franklin sé með litla og brothætta rödd sem þurfi sérstaklega að halda uppi með nýjustu tækni og vísindum, en það er magnað að hlusta á muninn á upprunalegu útgáfunni á „Chain of Fools“ – sem opnar þessa plötu – og endurhljóðblönduðu og óklipptu útgáfuna sem kemur sem bónusefni í endann. Í þessari stóru og miklu rödd eru svo fáránlega fínir díteilar, eilítið meira rasp hérna, eilítið meira attitúd þarna, hár tónn sem ristir aðeins lengra og holar mann í gegn – það er þessi herslumunur – og maður sekkur dýpra í sálina en mann hafði nokkurn tíma grunað að væri hægt.
Í sjálfu sér eru lagasmíðarnar hérna ekkert stórkostlegar – fyrir utan „Chain of Fools“ – heldur er það hljómsveitin með Arethu í fararbroddi sem gerir Lady Soul að einhverju meira en „hverri annarri soulplötu“ (ég get reyndar hlustað mjög lengi á „hverja aðra soulplötu“ án þess að mér fari að leiðast – en þetta eru samt pínu tilbreytingarlausar lagasmíðar). Nokkur lög eru skemmtilegri en önnur – „Money Won’t Change You“, „Niki Hoeky“ (sem er eins konar fullorðinssoul hókí pókí) og „Good to Me As I Am to You“ – en, já, sem sagt, ég bara endurtek það: það er hljómsveitin sem neglir þetta, útsetningar sem eru passlega ófrumlegar, passlega ýtandi, passlega leikandi en gefa fyrst og fremst rými fyrir Arethu til að rasa út og sýna hvers hún er megnug. Og hún notar rýmið til að flytja fjöll, einsog ekkert væri sjálfsagðara.
Hér er hún í Amsterdam 1968 að spila „Good to Me As I Am to You“.
P.S. Ég er samt með ofnæmi fyrir (You Make Me Feel) Like a Natural Woman – ekkert bjargar þeim óskapnaði, ekki einu sinni Aretha Franklin.
Eiríkur Örn Norðdahl, ritstjóri Starafugls, ætlar næsta árið að hlusta á 100 efstu plöturnar af lista Rolling Stone frá 2003 yfir 500 merkustu plötur allra tíma – á meðan hann hleypur, hjólar eða keyrir – og reyna að hafa á þeim einhverja skoðun. Lady Soul hlustaði hann á á skokki sínu um Bokedalen skammt austur af Gautaborg.