Ég mölbraut gleraugun mín á Prodigy tónleikum 1998. Á þeim tíma sat ég á aftasta bekk í grunnskóla og sá ekkert í rúmlega mánuð eftir viðburðinn. Þetta voru góðir tónleikar en ég fann mig samt knúinn til að skippa yfir lagið Serial Thrilla af plötunni The Fat of the Land, næstu vikurnar á eftir. Það minnti mig of mikið á það þegar mergðin traðkaði taktfast ofan á gleraugunum mínum.
Keith Flint var svo margt. Keith Flint var maðurinn sem sameinaði; hann var seiðmaður uppá sviði, með dans og hróp í sjálfvirkum meðvitundarstraum. Hann var hirðfífflið sem stökk fram af sviðinu, og var gripinn af samferðafólki sínu, til þess eins að reyna stökkva aftur. Ekki að nokkur skynsamur maður hafi álitið hann fífl, en orkan sem hann gaf frá sér var svo hrá og sterk, að það var óhjákvæmlilegt að maður hugsaði annað en að hún væri sjálfsprottin, úr engu, þetta gæti bara ekki verið öðruvísi, einsog heilagur maður að tala tungum.
Hann var allra. Hvort sem fólk voru mellupoppaðir djammarar eða límsniffandi unglingar sem misstu af pönkinu. Fólk að æfa þolfimi með Magnús Scheving, lúðar á aftasta bekk í Russell Athletic peysu, fólk sem æfði handbolta, strákarnir í Skítamóral. Allir fíluðu Keith Flint.
Það er eflaust auðveldast að þakka góðu gengi hljómsveitarinnar Prodigy, taktsmiðnum Liam Howlett, sem samdi og semur öll lögin. En Keith Flint var fronturinn, hann var táknmyndin sem fékk okkur til að trúa á hljóðheim hljómsveitarinnar, sem var svo miklu meira en bara danstónlist, raftónlist eða rokk-innskotið-elektró. Þetta var Prodigy.
Þegar ég var unglingur og einu miðlarnir mínir voru útvarpstöðvarnar FM957 og Bylgjan var rödd Keith eitt af því sem minnti á að það væri einhver von og fyrir það er ég afar þakklátur.