Dæmigerð þroskasaga

Unglingabókin Sölvasaga unglings eftir Arnar Má Arngrímsson kom út árið 2015. Hún var tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna sem og Bókmenntaverðlauna Norðulandaráðs sem Arnar vann. Þetta er hans fyrsta skáldsaga. Sögur útgáfa gefur út.

Í stuttu máli sagt þá fjallar bókin um Sölva sem hefur nýlokið 10. bekk grunnskóla með afskaplega slökum árangri. Foreldrar hans telja vandamálið liggja í ofnotkun Sölva á vefnum og ákveða að senda hann í sveit til ömmu sinnar án símans eða annarra leiða til aðgangs að internetinu. Önnur ástæða fyrir sveitardvölinni eru svo bágar fjárhagsaðstæður foreldra hans, sem þurfa fara á sjó og til Noregs til að skrapa saman nægum aur til að eiga von til þess að laga málin.

Í sveitinni er honum komið fyrir í æskuherbergi föður síns innan um gamlar vínylplötur, Morgan Kane bækur og einhver eintök af Tígulgosanum. Fyrir þá sem ekki vita var Tígulgosinn klámblað með sögum sem var vinsælt á Íslandi á árum áður. Amma hans ætlast svo til þess að hann vakni á morgnanna og vinni allan dagin við tiltekt á bænum. Hann kynnist einnig öldruðum nágranna ömmu sinnar á næsta bæ og afastelpunni hans en hún er á svipuðum aldri og Sölvi.

Hann tekur breytingunum illa til að byrja með en fer svo að jafna sig og taka þátt í lífinu í sveitinni. Hann mistígur sig nokkrum sinnum en nær að lokum að fóta sig í þýfi lífsins.

Þetta er sem sagt dæmigerð þroskasaga. En nálgunin er fersk og grípandi. Textinn er lipur og það tók mig ekki nema þrjá tíma að lesa bókina, sem var reyndar ekki nógu gott í fimm tíma löngu flugi. Öðru hvoru brýtur Arnar form textans á hátt sem minnir talsvert á bók Mark Z. Danielewski House of Leaves. Annars staðar lífgar hann upp á textann á nokkuð óhefðbundin hátt með t.d. mjög skemmtilegri fótboltalýsingu. Tungutak bókarinnar er svo hressandi, oft nokkuð gróteskt sem maður á kannski ekkert sérstaklega von á í bók ætlaðri unglingum en má vera að lýsi veruleika þeirra betur en ella.

Persóna Sölva er vel mótuð og trúverðug að mestu. Hann er skúffuskáld sem langar soldið að verða rappari og semur misgóðar rímur. Sumar rímurnar hans Sölva eru ágætar meðan aðrar eru verri og enn aðrar pínlega vondar. Hann er strákur sem er á skjön við heiminn, á aðeins einn vin, ef vin skildi kalla, og er algjörlega úr sambandi við foreldra sína. Í upphafi sögunnar hefur hann ekki metnað til neins og er mjög bældur tilfinningalega. Aðrar persónur eru trúverðugar en mér finnst að það hefði að ósekju mátt finna þeim meiri vídd og dýpt.

https://www.youtube.com/watch?v=6h_BJ-G48AU

Helstu gallar sögunnar þykir mér að ég er ekki að kaupa hvar tónlistaráhugi Sölva liggur. Hann er í byrjun sögunnar helst fyrir rapp og vitnar stöðugt í lög sem hefðu komið út þegar hann var lítið barn en lítið er, ef nokkuð, um tilvitnanir í það sem er í gangi í nútíma hans. Eins þá er ég ekkert viss um að strákur eins og hann yrði svona yfir sig hrifinn af Disintegration hljómsveitarinnar The Cure eða þá að Joy Division myndi ná svona til hans. Það er samt sjálfsagt ekki ómögulegt.

Annað er að ég hélt að við sem bókmenntaþjóð værum búin með þennan „borgin/nútíminn er vond sveitin/fortíðin er góð“ pakka. Við vitum öll að freistingar er að finna alls staðar og ef Sölvi vildi virkilega komast í nettengingu myndi hann finna sér leið til þess.

En, heildarmyndin er góð og saga Sölva er mun áhugaverðari og betur gerð en flestar unglingasögur sem ég las á sínum tíma. Það er mikið hugmyndaflug að finna hér og kostir sögunnar eru mun sterkari en gallarnir og ég mæli hiklaust með henni fyrir unglinga sem og fullorðna.