Bert á milli er samsýning Jóhönnu Kristbjargar Sigurðardóttur og Guðjóns Ketilssonar og jafnframt fyrsta sýningin í sýningarröð sem kalllast Eitt sett. Fyrirhugaðar eru fleiri sýningar undir heitinu Eitt sett í Harbinger, sem er sýningarrými sem rekið er af listamönnum.
Fyrir mér er Eitt sett tvær tegundir af fullunnum vörum sem pakkað var saman í plast og selt dýrar en það kostaði að kaupa sitthvora vöruna og setja saman og borða. Auðvitað á maður ekki að leggja svona djúpar pælingar í nafngift á sýningarröð sem er rétt að hefja göngu sína og spannar marga listamenn og sýningar. Bíðum samt hæg, ég setti enga pælingu í þetta, heldur flaug þetta gegnum hugann um leið og ég heyrði nafnið á sýningunni. En höldum okkur við skýringuna sem aðstandendur sýningarrýmisins gefa sjálfir;
(listamennirnir) vefa saman greinum sínum svo úr verði bragðgóð heild sem minnir á súkkulaðistykkið gamalgróna Eitt sett.
Æ, ég er strax kominn í vandræði, ég er ekki kominn á sýninguna og ég á strax í útistöðum við hana … í fyrsta lagi er „Eitt sett“ ekki súkkulaðistykki, það er samsetning af lakkrís og súkkulaði. Í öðru lagi er ekki hægt að vefa neitt úr greinum, það er hægt að vefja saman greinum, en ætli maður að vefa úr þeim … æ hættessu, tittlingaskítur, ekki festast í smáatriðum. Förum á sýningu.
Sýningin fer fram í Harbinger, sem er á Freyjugötu 1. Þegar ég kom var þar nokkuð margmenni. Reyndar svo margir að bæði herbergi Harbinger voru þéttsetin, þó að allir stæðu í lappirnar reyndar. Annað herbergið er sýningarrými en hitt virðist notað til að sýna bækur og varning sem er til sölu, ljósin í því herbergi voru slökkt og augljóst að athyglin var sett á sýningarrýmið, enda verið að opna nýja sýningu. Verkin sem þar gat að líta voru fjögur og ekki merkt og því ómögulegt að sjá hvort tilheyrði „eikartrénu“ og hvort „ungtrénu“ sem eru nafngiftir sem listamönnunum voru ljáðar í frómri fréttatilkynningu fyrir atburðinn.
Eitt verkanna er staðsett á gólfi sýningarrýmisins og fest þar með málmteinum sem virðast þó hluti af verkinu, því þeir ná í gegnum verkið og koma upp úr því ofantil. Verkið sjálft er einhverskonar samloka tveggja viðarplatna sem svo eru sagaðar í bylgjulaga skurði, stálteinarnir áðurnefndu liggja í gegnum báða hluta og halda þeim á lofti hvorum yfir öðrum. Manni dettur í hug módel af jarðlögum, semsagt, ekki jarðlög, heldur módel af þeim. Svona ódýr kennslumódel sem notuð eru til að sýna hvernig jarðfræðileg fyrirbæri eru, hversu þykk jarðskorpan er í samanburði við hversu þykk hraunlög eru eða eitthvað slíkt. Það er reyndar engar slíkar upplýsingar að fá af verkinu, enda er það ekki að lýsa jarðlögum, það bara minnir lauslega á slík módel. Tveimur hlutum hefur verið komið fyrir á þessum sundurskornu samlokum, annars vegar steini á stærð við útflatta appelsínu og svo hestaskeifu, sem er of smá til að nota á nokkurn hest.
Á vegg getur að líta bláa rönd sem við fyrstu sýn virðist vera flísalögn af þeirri tegund sem sjá má í suðrænum arkitektúr. Þegar baðherbergjum er skipt í tvennt með litaðri rönd sem aðskilur efri og neðri hluta herbergisins. Við nánari skoðun eru „flísarnar“ alls ekki flísar heldur mynstur ferhyrninga sem eru handteiknaðir á blað og litaðir í mismunandi útgáfum af bláum lit. Inn á meðal ferninganna eru svo ýmsar nafngiftir á bláum lit ritaðar með smáu letri og hughrifin sem ég fékk við að skoða þetta voru þau að einhver hafi verið að reyna að fá innblástur með því að skoða litapallíettu í byggingarvöruverslun og svo ákveðið að nota bara litapallíettuna, velja út bláu litina, rugla aðeins í ferningunum og dreifa svo skrýtnum litaheitum hér og þar og kalla það verk. En sennilega er mun dýpra á þessu.
Á öðrum vegg má sjá sprungu, sem er við það að kljúfa herbergið í tvennt. Hún liggur frá veggnum niður á gólf og yfir herbergið en endar í súlu. Súlan er úr einhverskonar pappaefni en hún minnir á grjótvörðu eða annað mannvirki hlaðið úr grjóti. Sögnin í þessu verki er óskýr, allavega fyrir þeim sem hér ritar, en verkið er samt ævintýralegt og skemmtilegt. Já grjótið er blátt á litinn og því má eflaust tala um að það „kallist á“ við bláa litinn í ferhyrningaverkinu, allavega eru þau nokkuð samstæð í stíl, þó þau séu sannarlega misvel heppnuð.
Seinasta verkið fær svo öndvegisplássið, stóra vegginn í rýminu. Þar getur að líta samskonar viðarsamloku og í verkinu sem er á gólfinu. Í þetta sinn hefur þó hlutum eitthvað verið ruglað eftir bylgjuskurðinn og raðað saman án þess að augljóslega sé hægt að láta þá passa saman aftur. Þessi mátun sem verkið beinlínis öskrar á tekur meðalmanninn sennilega 10-15 sekúndur að finna út úr, þetta tók mig sirka 40 sekúndur og á meðan horfði ég á verkið frá nokkrum sjónarhornum. Það er eflaust einhver handavinna á bakvið þetta verk en ég get ekki sagt að það hafi náð að opna svo fyrir rás næringarefna að þær flytu óheft á milli minna heilastöðva, en það var eflaust ekki tilgangurinn hvort sem er.
Eins og áður er minnst á, þá fer sýningin fram í litlu rými, þessi fjögur verk eru bókstaflega hvert ofan í öðru og sá sem nýtur (horfir, skynjar) er alltaf mjög nærri verkunum, það er enga fjarlægð að fá í jafn litlu sýningarrými en þó tekst að „vinna með rýmið“ að einhverju marki og er það vel. Frítt er á sýninguna og er það hverrar krónu virði.