Það er löngu orðið þreytt að tönnlast á því hversu mikil tónlistarjól Iceland Airwaves er orðin í lífi tónlistarunnenda í borginni. Ég ætla samt að segja það bara hér, til að koma því frá og demba mér í umfjöllun um þær hljómsveitir sem ég sá í ár, að heilt yfir er hátíðin eitt merkilegasta menningarframlag sem allt okkar menningarlandslag státar af. Og reyndar virðist hún líka vera viðskiptalegt afrek, en það er önnur saga sem býður þess dags þegar ég sé mér siðferðilega fært að skrifa pistla af þessu tagi í Viðskiptablaðið.
Hátíð hinna glötuðu tækifæra
Mig langar líka að koma því frá að á margan hátt var þetta hátíð hinna glötuðu tækifæra fyrir mig, því þessu missti ég af: múm og Kronos-kvartettinum í Eldborg (engin pössun), Björk (enginn miði) og PJ Harvey (veik börn). Og miðað við umsagnir frá vinum og kunningjum sem náðu að fara á þessa tónleika er alveg ljóst að missirinn var mikill.
Sóley – Einarindra – JFDR
Vegferð mín í gegnum tónlistargúllasið í miðbæ Reykjavíkur hófst á fimmtudagskvöldinu. Spenntur sótti ég armbandið í Hörpu og hugsaði með mér að ég myndi byrja kvöldið á einhverju rólegu sem byrjaði snemma og yrði ekki of fjölmennt. Ég hafði rekið augun í að Sóley var með tvenna tónleika í Mengi kl. 19 og kl. 21 og ég hugsaði mér gott til glóðarinnar á leið upp Skólavörðustíginn. Vanmat mitt var algert. Það var aðeins fyrir náð og miskunn dyravarðarins í Mengi (og blaðamannapassans) sem mér var hleypt inn í troðfullt tónleikarýmið. Fyrir utan þessa perlu íslensks tónleikahalds stóðu eldheitir Sóleyjar-aðdáendur í langri röð sem náði niður hálfa Óðinsgötuna í suður. Ég smeygði mér inn í hitamolluna, stóð þar aftast, horfði á tuttugu hnakka hreyfast í takt við angurværa tónana og naut þess að hlusta á tvö lög frá þessari frábæru tónlistarkonu. Á leiðinni út heyrði ég nokkra enskumælandi gesti horfa til himins, reyna að reikna út veðrið og hvort ekki væri raunhæft að bíða eftir næstu tónleikum Sóleyjar – eftir tvo klukkutíma.
Hugur minn stóð annars að miklu leyti til tveggja erlendra tónlistarkvenna sem áttu að koma fram í Hafnarhúsinu síðar um kvöldið. Og í einhverjum biðraðaótta ákvað ég að vera á tímanlega á ferðinni. Í leiðinni renndi ég við í Kaldalóni í Hörpunni, hugðist þar næla mér í svolitla ljóðlist en hitti því miður ekki á hana. Einhver seinkun hafði orðið á dagskránni í Kaldalóni og ég náði að hlusta á Einarindra flytja tvö lög. Ég vissi engin deili á þessum tónlistarmanni, sem er eiginlega það besta við hátíð af þessu tagi; að geta látið koma sér fullkomlega á óvart. Það gerði Einarindra því miður alls ekki. Lögin báru mjög mikinn keim af Ásgeiri Trausta, eins og útvötnuð útgáfa af honum, og svo grillti inn á milli í náfrænda Ásgeirs, snillinginn Bon Iver. Einarindra var einn á sviðinu með ýmsar tölvugræjur og hljómborð – nokkurs konar eins manns hljómsveit eins og tíðkast. Og það gilti um hann eins og allnokkra fleiri í þessum flokki að lagasmíðarnar voru afar bágbornar og rislitlar, hvorki fugl né fiskur og án dýptar eða kjarna. Nú er ég ekki að biðja um að tónlist á rafgrunni sé jafnmelódísk og Maggi Kjartans, en ef þú ætlar ekki að byggja á laglínu þarftu að bjóða upp á ansi afgerandi hljóðheim eða seiðandi tóna í staðinn. Því náði Einarindra ekki.
Úr Kaldalóni hljóp ég á aðalstað kvöldsins, Listasafn Reykjavíkur í Hafnarhúsi, og náði að heyra lokatónana hjá JFDR, sem er sólóverkefni Jófríðar Ákadóttur úr Pascal Pinon og Samaris. Tónlistin skilaði sér vel og gaman að sjá hvernig Jófríður hefur þróast sem öflug tónlistarkona á örfáum árum. Þó var ljóst á þessu setti að hljóðið í Hafnarhúsinu var í einhverju ólagi og það kom sér afar illa fyrir tónlist JFDR, sem á köflum er ómstríð og krefjandi.
Julia Holter – Margaret Glaspy
Þá var loksins komið að því sem ég hafði beðið mest eftir á þessari hátíð. Fyrir einhverja fáránlega guðs lukku höfðu verið settar, hvor á eftir annarri, tvær stórkostlegar listakonur sem ég hafði hlustað stöðugt á í marga mánuði. Þetta voru þær Julia Holter og Margaret Glaspy, báðar bandarískar, ferskar en afar ólíkar. Julia Holter náði fyrst virkilega eyrum heimsbyggðarinnar með plötunni Have You In My Wilderness sem kom út árið 2015 og rataði á marga topplista poppskríbenta um allan heim. Þetta var fjórða plata söngkonunnar, en hinar fyrri voru töluvert meira krefjandi og tilraunakenndar en umrædd plata. Have You In My Wilderness er nánast hin fullkomna artí-poppplata, létt en þung á sama tíma, textar djúpir og gefandi, útsetningar safaríkar og oft óvenjulegar. Það var því mikil tilhlökkun í mér þegar Julia steig á sviðið með fríðu föruneyti – sjálf spilaði hún á hljómborð og hafði með sér kontrabassaleikara, saxófónleikara, víóluleikara og trommara.
Lagalistinn var afar blandaður og greinilegt að Holter var ekki mætt til að spila bara „smellina“ af nýju plötunni. Hún byrjaði t.d. á löngu og þrungnu lagi af eldri plötu en dembdi sér eftir það beint í lagið Feel You, upphafslag nýju plötunnar. Og þá lifnaði yfir salnum, enda margir aðdáendur mættir sérstaklega til að berja söngkonuna augum. Þannig gekk lagalistinn, sitt á hvað smellir og eldri lög sem voru miklu meira abstrakt og tilraunakennd, auk þess sem hún spilaði eitt nýtt lag. Hápunkturinn, fyrir utan Feel You, var svo án efa lagið Betsy On The Roof.
En heildarútkoman? Hún olli því miður vonbrigðum. Tónlist Juliu Holter er kraftmikil, en hún er það á ljóðrænan og viðkvæman hátt sem kallar á uppbyggingu stemmningar. Tónlistin er líka gjarnan ómstríð, og einhverra hluta vegna náði performansinn hjá Holter og félögum sér ekki fyllilega á strik. Satt best að segja vil ég kenna hljóðinu í Hafnarhúsinu um það, svona mestanpart. Af handapati Holter og víóluleikarans í átt að hljóðmanninum að dæma voru mónitorar eitthvað vanstilltir og það vita þeir sem þekkja til að þétt samspil byggist á því að hljóðfæraleikarar heyri vel hver í öðrum. Annars getur allt farið í handaskolum, sem aftur skilar sér í óöryggi innan sveitarinnar, sem aftur skilar sér í óþéttum flutningi. Ég hef a.m.k. horft á nógu margar tónleikaupptökur frá Juliu Holter til að vita að hún kann sitt fag.
Eftir að hafa náð andanum og undirbúið mig andlega kom ég mér rækilega fyrir framarlega við sviðið (og vinstra megin, þar sem hljóðnema hafði verið komið fyrir) til að tryggja mér gott útsýni og hljóm til að hlusta á Margaret Glaspy. Þessi bandaríska söngkona og gítarleikari er að sigra heiminn akkúrat þessa mánuðina eftir útkomu plötunnar Emotions And Math, þar sem hún semur bæði lög og texta og sinnti einnig upptökustjórn (sem er afrek, því að platan sándar eins og ég veit ekki hvað). Tónlist Glaspy er einfalt, tilfinningaþrungið og blússkotið rokk, drifið áfram af rödd söngkonunnar, sem er bæði seiðandi og einfeldningsleg en líka rokkandi rám þegar með þarf. Undir þessu og ofan á öllu er svo lifandi og lokkandi rafmagnsgítarleikur Glaspy sjálfrar, og það verður að segjast að ég hef ekki fengið svona mikla tónlistarást á flytjanda síðan ég heyrði fyrst í Önnu Calvi fyrir tveimur árum og það var ást við fyrstu heyrn. Þarna er auðveldlega hægt að greina hjá mér ákveðið blæti fyrir söngkonum sem líka spila á rafmagnsgítar og semja eigin tónlist – en förum ekki dýpra í þann pytt.
Í stuttu máli stóð Glaspy fullkomlega fyrir sínu og ég stóð sem dáleiddur allan tímann sem hún spilaði. Hún byrjaði á titillaginu Emotions And Math (enda er það fullkomið opnunarlag) en virkaði svolítið óörugg, ekki laust við að örlaði á hljóðvandamálum eins og áður. En um leið og fyrsta laginu var lokið og hún hafði ávarpað áhorfendur var allt komið í gang og hún linnti ekki látum fyrr en yfir lauk. Hljóðfæraskipanin var einfaldari og rokkaðri en hjá Holter – með Glaspy voru aðeins trommari og bassaleikari, ekkert annað, enda er það hún sjálf sem ber tónlistina alla uppi með rödd sinni og öruggum gítarleik.
Glaspy spilaði auðvitað mestmegnis lög af nýju plötunni (áður hefur hún aðeins gefið út smáskífur) og áhorfendur kunnu vel að meta þau. Auk þess tók hún tvær ábreiður, sú fyrri var Fruits Of My Labor eftir Lucindu Williams og sú hin síðari féll vel í kramið – Who Is It eftir okkar ástkæru Björk. Lokalag tónleikanna var svo hið einlæga lag Somebody To Anybody, en þar fékk Margaret Glaspy að njóta sín til fulls, alein á sviðinu með gítarinn eftir að félagar hennar höfðu yfirgefið sviðið. Aðrir hápunktar voru tiltekin off-beat gítarsóló, t.d. í lögunum Anthony og Memory Street, sem ég var sérstaklega að vonast eftir að heyra í lifandi flutningi.
Þetta var töfrandi klukkutími í Hafnarhúsinu. Margaret Glaspy er aðeins 27 ára og án nokkurs vafa stórstjarna í fæðingu. Hún hefur einnig þá náðargáfu að geta tjáð sig með djúpri tilfinningu, bæði með röddu og gítarleik, og það skilar sér á endanum til áhorfenda og hlustenda. Tignarleg rokkdíva er eina rétta lýsingin.
Fufanu – Högni
Ég hefði í sjálfu sér a) getað farið alsæll heim að sofa eða b) dáið glaður eftir tónleikana í Hafnarhúsinu. En nóttin var ung og því brá ég mér yfir í Hörpu, sem bókstaflega iðaði af lífi og fjöri í öllum sölum. Spenntastur var ég að sjá Högna spila nýtt efni eftir sjálfan sig, en fyrst lá leið mín á rokksveitina Fufanu, sem spilaði fyrir troðfullu Silfurbergi.
Og þvílíkt rokk! Eins og með margt annað á þessari hátíð hafði ég heyrt ýmislegt um Fufanu, en aldrei heyrt eitt einasta lag. Þessi fjögur lög sem ég heyrði komu mér því skemmtilega á óvart. Sveitin er í meira lagi þétt og hún spilar dáleiðandi rokk sem má alveg kalla óvenjulegt. Vissulega er skyldleiki við ýmsar aðrar sveitir greinanlegur – s.s. Strokes, Mínus, Velvet Underground og Singapore Sling – en mér fannst ég samt vera að hlusta á eitthvað úr nýrri nýbylgjuátt. Söngvarinn Kaktus Einarsson sýndi óborganlega takta sem „rokkhetja“ á sviðinu, ber að ofan, dillandi rassinum og spúandi út úr sér öllum stælum í rokkhandbókinni. Það virkaði, þótt í grunninn hafi þetta líklegast allt verið gert með kaldhæðnum undirtóni.
Að lokum lá leið mín í Norðurljós til að sjá Högna. Eins og aðrir Íslendingar hef ég fylgst með Högna allar götur síðan fyrsta plata Hjaltalín kom út árið 2007. Þar var strax ljóst hvers kyns afburðatónlistarmaður hann var (með fyllstu virðingu fyrir öðrum meðlimum þeirrar frábæru sveitar), ekki síst fyrir blæbrigðaríka söngtjáningu. Þessa sömu tjáningu notaði hann síðar með Gus Gus, þótt því samstarfi sé nú lokið.
Salurinn í Norðurljósum var þéttsetinn og greinilegt að margir aðdáendur biður spenntir eftir sólóefninu frá Högna. Undir þéttum raftónlistartöktum steig hann inn á sviðið – eða öllu heldur leið inn á sviðið í mjög hægri leiðslu, dandsandi stælóttan dans eins og honum einum er lagið. Úti í horni stóð ungur maður sem ég kann ekki nánari deili á, hans hlutverk var að stjórna raftónlistarflaumnum á meðan Högni baðaði sig í sviðsljósinu og lét ljós sitt skína.
Eftir eitt lag var ég efins, eftir tvö var ég óþreyjufullur og eftir þrjú lög var ég orðinn frekar vonlítill um að láta heillast. Í seinni tíð hef ég lært að meta ótal ólíkar tónlistarstefnur og sem betur fer líka hreinræktaða raftónlist. Margt af því hefur heillað mig – en það gerði Högni alls ekki þetta kvöld. Lagasmíðarnar voru óskýrar, rislitlar, ómelódískar, frasinn „stafrænt muldur“ kom ítrekað upp í hugann. Ég get auðvitað alls ekki talað fyrir hönd áhorfendenda í salnum, en engu að síður fannst mér Högni ekki „eiga“ salinn … ekki fyrr en hann tók U-beygjuna í fjórða laginu. Þá var skipt um lýsingu á sviðinu sem beindist öll að píanói á því miðju, Högni settist, spilaði eitt fallegt, melódískt, beinskeytt og öflugt lag þar sem röddin fékk sannarlega að njóta sín – og þá small allt saman í það sem mér finnst vera hans náttúrulega element.
Undanfarnar vikur hef ég hlustað í ógrynni skipta á nýtt lag frá Högna, InnSæi/Sea Within, úr samnefndri heimildamynd. Það kann að vera að skynjun mín þarna um kvöldið hafi litast af þessum áhrifum; þarna finnst mér allt passa svo vel, einfaldleiki, klifun og geysileg raddtjáning Högna, sem ég saknaði mest í raftónlistinni.
Frábært kvöld sem lengi verður í minnum haft var á enda.