Kvikmyndin París Norðursins minnir á Hal Hartley myndir níunda áratugarins, fjallar á einhvern hátt um karlmenn í tilfinningalegri kreppu, viðkvæma karlmenn og hörundssára, karlmenn sem virðast jafnvel ekki hafa yfirsýn á grunngildin í lífinu og þess vegna ekki stefnu í lífinu. Við kynnumst aðstæðum þeirra í raun og veru ekki í gegnum lífið í þorpinu og samskipti þeirra við aðra bæjarbúa, heldur er um látlausa sögu að ræða þar sem fjórir karlmenn og ein kona eru í forgrunni. Og hún er áhrifavaldurinn í lífum þeirra allra á einhvern hátt. Þetta kallast á við efnistök áðurnefnds höfundar, Hal Hartleys á þann hátt að sagan er á köflum „leikræn“ – henni gæti verið miðlað í leikhúsi og verið nokkurskonar stofudrama.
Sem dæmi um hvað myndin er „skrifað verk“ þá lýsa nöfn persónanna einhverskonar eiginleikum þeirra, í raun á aðeins of augljósan hátt (aðalpersónan Hugi hugsar of mikið, faðir hans Veigar drekkur of mikið o.s.frv.). Að mörgu leyti er tengingin við efnistökin í myndum Hal Hartleys oflof, þar sem hinar tilvistarlegu spurningar, heimspekilegar vangaveltur, eru í forgrunni í þeim myndum sem ég er að hugsa um, og slíkt kjöt vantar dáldið á beinin í texta þessarar myndar, sem hefði borið mun dýpri vangaveltur um aðalpersónu myndarinnar, bæinn Flateyri.
Heimspekital Svans, persónu Sigurðar Skúlasonar er aðeins of loftkennt og ætlað sem comic relief, til þess að skila því að áhorfandinn átti sig á einhverri sýn höfundarins á hvers vegna fólk velur sér að lifa og starfa í bæjarfélagi þar sem jafn litlir möguleikar eru á að auka lífsgæði sín og raun ber vitni.
Lausnin sem við þráum
Ég ætla ekki að láta eins og málið sé mér ekki skylt og tel að það væri óheiðarlegt að setja upp gagnrýni á myndina út frá mínum eigin skoðunum um það hvernig mynd um „bæinn minn“ og unga karlmenn sem þar búa ætti að vera. Og kannski verð ég að taka inn í myndina þá gagnrýni sem myndin hefur hlotið, til að skapa díalóg eða umræðu um þau sjónarmið sem upp hafa komið um myndina.
Við væntum alltaf einhvers þegar við förum á nýja íslenska mynd í bíó. Gagnrýnandi Fréttablaðsins fékk bara ekki þá tegund af mynd sem hana langaði að sjá og Silja hjá TMM var bara ánægð með allt. Og þetta er vandamál gagnrýninnar, það má ekki skjóta niður það sem við viljum að nái eyrum og augum fólks, þó t.d. einhver saga feli ekki í sér „uppgjörið“ eða lausnina sem við þráum að listaverk miðli okkur á hverjum tíma. París Norðursins er ekki mynd sem miðlar „von“ í venjubundnum skilningi þess orðs. Hún miðlar ekki þeirri gleði sem getur falist í því að vera frjáls undan kapphlaupi borgarsamfélagsins, þeirri hugarhægð sem fólk í fábreyttum aðstæðum getur búið yfir í amstri dagsins.
Vandi myndarinnar í augum þess sem þráir hasar og skemmtun er e.t.v. sá að þó hún sé tragíkómísk – það er, hún leitast við að setja upp skondnar hliðar á dapurlegum aðstæðum – þá eru engar senur í henni „villtar“ og þannig sprenghlægilegar. Hugi er ráðvilltur, eins og raunar faðir hans sem dúkkar upp út úr blánum; en óljós saga um hvers vegna Hugi er lentur þarna gerir raunar lítið úr því að förin þangað er lausn í aðstæðum sem voru verri. Hversu mikið verri vitum við ekki, því að persónan sem við fylgjumst með er líka að farast úr því sem við köllum meðvirkni á tæknimáli umhyggjufræða samtímans. Við þurfum að samsama okkur þessari tragíkómísku heimsmynd ef við ætlum að njóta myndarinnar, og það er einmitt það sem er ekki hægt að ætlast til af öllum að þeir geri; ef við skoðum tilvikið í rýni Fréttablaðsins/Vísis. Sum okkar þola nefnilega ekki meðvirkni og fyrirlíta það ástand sem einstaklingar sem hrærast í stefnuleysi þess eru í.
Látlaust sunnudagsbíó
Það er fullkomlega ósanngjarnt að segja að engin samkennd kvikni með persónunum og að ekki sé unnið með persónusköpun á margræðu leveli. Það sem er bara erfiðast að horfast í augu við er að það er æðrulaus ungur drengur sem er sterkasta persónan í myndinni, leikinn listilega vel af Haka Lorenzen, og þá um leið er það „sögn“ myndarinnar að fullorðna fólkinu í myndinni hafi öllum mistekist dáldið að verða að heilum manneskjum sem bera ábyrgð á sjálfum sér og geta miðlað af heilindum sínum.
Svanur, persóna Sigurðar Skúlasonar, afa drengsins, er líka listilega skrifuð og leikin, og heldur þráðunum í myndinni saman að því leyti að þó viðkomandi sé breysk og brotin manneskja þá er honum annt um að reyna að bæta sig og heiminn. Hann er andlegur leiðtogi „sinna manna“ þó hann sé um leið bljúg og breysk manneskja. Og slíka menn má finna víðs vegar í samfélaginu, sem einmitt nýta sér þau hjálpartæki sem ýmis 12 spora samtök bjóða uppá.
Þess vegna má segja að myndin og sagan fjalli meira um þann heim, heim sjálfshjálparinnar, karlmennsku og vináttu, heldur en nokkurntíma lífið í litlu þorpi úti á landi. Það vill bara þannig til að sögunni er valið sögusvið í þessu tilviki. Þannig verður þessi litla „lókal“ mynd sem virðist fjalla um lífið í smábæ, að allegóríu fyrir glóbal-vanda vestræns samfélags; þá kreppu sem samtíma-karlmaðurinn er í þegar hann stendur frammi fyrir þeim vanda að bera ábyrgð á sjálfum sér, tilfinningum sínum og því vali sem krefst fórna, áræðis og þess að mæta aðstæðum sínum með opið hjarta. Það er nefnilega vandamál Huga, hann þorir ekki að opna hjarta sitt, hann hugsar of mikið, og heldur því alltaf áfram að flýja aðstæður í stað þess takast á við þær.
Þetta er því engin „Braveheart“ mynd, heldur látlaus sunnudagsbíó sem hjálpar okkur að brosa að úrræðaleysi okkar sjálfra.
Við erum ekki öll hetjur
Svanur, persóna Sigurðar Skúlasonar er ein þeirra eftirminnilegu persóna sem lifa með manni eftir áhorf myndarinnar og þáttur hans mikilvægastur í að gera AA-funda þríeykið trúverðugt. Gott að sjá að myndin er tileinkuð minningu eiginkonu Sigurðar, Drafnar Guðmundsdóttur, sem lést á meðan tökum stóð á Flateyri síðasta sumar.
Það sem ef til vill er undarlegast við að ræða mynd sem er tekin upp í því þorpi sem manni stendur næst, og er lítt dulbúið sem annað þorp, er að maður fer að bera saman og leita fyrirmynda. Slíkar tengingar eru ekki fyrir hendi og þess vegna er mat manns á myndinni fyrst og fremst háð því hvernig maður metur hana sem listaverk. Og hún er gott verk, heiðarlegt og einlægt, sem bætir vídd í íslenska kvikmyndaflóru sem þörf var á. Hún er persónuleg, að því leyti sem hún gefur okkur innsýn í sjálfsmynd höfundar og leikstjóra mun fremur en sjálfsmynd smáþorpsins og í henni er nostrað við trúverðuga þræði í samskiptum fullorðinna, sem og tengsl Huga við drenginn sem hann langar að ganga í föðurstað en getur ekki, því hann hrífst ekki nægilega af móður hans.
Við erum ekki öll hetjur og við hugsum of mikið. Og kannski vitum við alltaf færra og færra eftir því sem við sjáum meira og ferðumst víðar.