Skapandi goðsögn: 20.000 days on Earth

Guðfræðileg orðræða um nýja heimildamynd um Nick Cave

Höfundarverk tónlistarmannsins og kúltúrgoðsagnarinnar Nicks Cave er óneitanlega margslungið og víðfeðmt. Nýjasta púslið í heildarmyndina vekur upp mun fleiri spurningar en það svarar – enda heimildarmynd með nýstárlegu sniði sem felur í sér endursögn, editeringu og mythologiseringu, á hugarheimi sem er skapaður úr atburðum í lífi og innblásnum texta listamannsins um sjálfan sig. Það má nánast halda því fram að um leikna heimildarmynd sé að ræða, en heildarhughrifin halda manni þó þeim megin línunnar að maður trúir öllu sem í henni er haldið fram, eins og nýju neti. Og í því er galdur myndar Ians Forsyth og Jane Pollard fólgin. Goðsögnin Nick Cave er svo larger than life í þessari mynd, kemur svo hreint til dyranna og bætir svo miklu við vefnaðinn sem skapar goðsögnina í þessari mynd að það kemur manni t.a.m. ekkert á óvart að í Brighton sé hann búinn að koma upp safnahúsi (archives) um sögu sína og list. Það virðist hreinlega hvert snifsi af krafsi á kreditkortanótu, sem Cave hefur hripað niður á sínum innblásna ferli, skipta meginmáli þegar farið er að púsla saman heildarmyndinni. Eða þannig líður manni eftir að hafa horft á þessa mynd, og reynir að ráða í táknin eða veðrið. Hvaðan sprettur þessi innblásna veröld eiginlega?

Kynning á myndinni 20.ooo days on Earth: „With startlingly frank insights and an intimate portrayal of the artistic process, the film examines what makes us who we are, and celebrates the transformative power of the creative spirit.“Það er virkilega aðkallandi forsenda þegar tekist er á við höfund & listamann eins og Nick Cave að átta sig á hans eigin tilhneigingu til að vefja sjálfan sig goðsagnarkenndum hjúp dulúðar og ofurveruleika. Sem karísmatíker, hrífandi sjálfsöruggur en jafnframt einlægur töffari, hefur Cave skapað sína eigin ímynd af meiri sjálfsdáðum en margur og er nýjasta heimildarmyndin um líf hans og list minnisvarði um slíka sjálfs-ímyndarsköpun; svo theatríska að fullyrðingin um að „sjálfsævisagan sem æðsta skáldskaparformið“ bliknar raunverulega í samanburði við „heimildamyndina sem sannferðugustu blekkinguna.“ 20.000 days on Earth er mögnuð heimildamynd og í alla staði sjálfsævisöguleg. Fylgst er með einum degi af karnívalískum skáldskap listamannsins, en kvikmyndagerðarfólkið og myndlistarmennirnir Ian Forsyth og Jane Pollard sem gera myndina ásamt Cave hafa unnið með ýmsum rokkgoðum í gegnum tíðina að verkum sem byggja á ofurveruleika og endurvinnslu goðsagnakenndra augnablika í rokksögunni. Myndin sver sig í raun og veru fullkomlega í ætt við slíkar hugmyndir, hún er stútfull af lagskiptum veruleika, draumkenndum senum sem eru leikur með ímyndir og ímyndun; og óhætt væri að ganga svo langt að segja Cave leika sjálfan sig í myndinni, nákvæmlega eins og hann sjálfur vill birtast og vera.

Mynd um úrvinnslu og editeringu; Shaping of a myth

Margt sem kemur fram í myndinni er kunnuglegt og enn fleira þó fyrst og síðast skemmtilegt og gengur upp algjörlega burtséð frá því hvort að áhorfandinn er einhverskonar sérfræðingur í lífi og starfi Caves, þó meginstefin séu við það sama. Snemma í myndinni er tekist á við einhverskonar erfiðar spurningar sem varða æsku og uppeldi, en þær gefa tóninn á einhvern undarlegan hátt fyrir þann vefnað sem síðan er í framhaldinu spunninn. Senurnar hjá hinum freudíska sálgreini þar sem kafað er á lendur kynferðislegra óra, sambandsins við föðurinn og heilagleika sambandsins við Susie Bick, núverandi eiginkonu Caves, afvopna áhorfandann en gera hann um leið afslappaðan gagnvart þeim hástemda og karísmatíska Cave sem var farinn að tala svo mikið um Guð á tímabili að sumum þótti það bæði miður kúl og vandræðalegt. Það nýstárlegasta í þessari mynd snýr þó einmitt að þessum punkti, þar sem úti í heimi og jafnvel hér á landi hafa guðfræðingar keppst við að fanga þennan spámannlega og frískandi tón í „a theology of popular culture“ – til að geta greint hann í samhengi við strauma í samtímaguðfræði. Þær rannsóknir og greining hófust e.t.v. sem tilraunir til að merkja sér og eignast boðandi listamann sem myndi efla og styrkja guðs kristni og kirkju, en fljótlega varð þó ljóst að Cave yrði seint talsmaður stofnanavæddrar trúariðkunar þó sjálfur leitaði hann oft í faðm ritúals og hugarhægðar klassískrar messu, þegar hann var sem verst staddur með fíkn sína (að eigin sögn). Og þó að hann „afneiti“ í þessari mynd tendensum sínum til trúariðkunar eða trúar á persónulegan Guð þá má með nokkurri staðfestu halda því fram að það breyti engu um að Nick Cave gengur út frá skýrri heimsmynd sem kalla má trúarlega og höfundarverk hans býr því yfir ákveðinni guðfræði. Hvar hann er staddur í þróun guðfræði sinnar er aftur á móti hin áhugaverða spurning sem kviknar við áhorf myndarinnar, þar sem hann heldur því svo eftirminnilega fram að þörf hans fyrir Guð og glíma við guðsmynd og innblástur, hafi staðið í beinum tengslum við þann sálfræðilega vanda sem stafaði af neyslu fíkniefna og skort á uppgjöri við guðsmynd Gamla testamentisins.

„Guðdómnum verður að gefa frelsi til að flæða gegnum okkur, gegnum samskipti, tungumál, gegnum sköpun.“ – Nick Cave„Susie said to me, you are doing something very dangerous and life-threatening here, and made me vow to her that I’d never go to church again,“ segir Cave í myndinni og almennt held ég að það hafi verið svona hlátur-punktur myndarinnar, þar sem hann talar trúaratferlið niður sem hegðun sem sé bæði skylt fíkni-og áráttuhegðun. Það á vel við í hinum al-veraldlega glansheimi sem Cave býður upp á í þessari mynd. Þegar að er gáð má þó segja að það hafi lítið sem ekkert breyst í þeirri afstöðu sem Cave virðist hafa til trúarlegrar heimsmyndar sinnar, utan þess grundvallaratriðis sem sett er fram í opnunarlínu myndarinnar, að í lok 20.aldarinnar hafi hann hætt að finna til sín sem manneskja (ceased to be a human being).

Mennska Krists og mennska Cave

Það má tæknilega lesa margt útúr upphafsstaðhæfingu Cave í myndinni en í raun eðlilegast að ganga út frá þeirri tvískiptingu sem hann setur sjálfur fram; að hann sé einfaldlega orðin að sköpunarvél, einstaklingi sem „á sér vart líf“ utan hins skáldaða heims, lifir í ímynd, er goðsögn og þarf að sinna henni af skyldurækni og trúfesti. Handan þess sé aðeins um að ræða prívatlíf, einkalíf konunnar hans, venjubundið og glamúrlaust fjölskyldulíf sem komi engum við og sé ekki til umfjöllunar. En það er og nauðsynlegt að hafa „stærri mynd“ í huga þegar vikið er að ofurtilvist sköpunarvélarinnar. Cave er kynntur til sögunnar sem culture icon í myndinni, rokkgoð, einhverskonar secular-saint, og er þar á pari við goðsögulegar stórstjörnur vestrænnar menningar. Í því ljósi er margt áhugavert og merkilegt sem hægt væri að kafa í til að skýra þræði persónudýrkunar og goðaheims stjarnanna í menningunni en ég mun ekki dvelja við þá hér að svo stöddu. Það sem skiptir máli er nefnilega þessi persónulega yfirlýsing sem felur í sér „afneitun“ á skipulögðum trúarbrögðum (sem eru í sjálfu sér ekkert nýjar fréttir) vegna óskar eiginkonunnar þar um, í samhengi við heim skáldskaparins þar sem Cave trónir yfir höfundarverki sínu líkt og skapari, heim þar sem er bæði rými og kraftmikill boðskapur um alvitran dómara, hátt upp hafinn Guð sem útdeilir blessun og bölvun með óræðum hætti (fólk kallar að vísu bölvunina yfir sig í breiskleika sínum, syndugt og vonlaust). Í þessum heimi skáldskapar á myndin 20.000 dagar á jörðu algjörlega heima að mínu mati. Og þessvegna verður að skoða þá guðfræði sem í henni birtist út frá því að hún standi í beinu samhengi við fyrri hugmyndir Cave.

„In creating his Son, God the Father had evolved, he had moved on… Christ came to right the wrongs of his father… Christ is the imagination, at times terrible, irrational, incendiary, and beautiful; in short, Godlike.“ – Nick Cave Að mati fræðimanna eru rúm 16 ár síðan Cave endurskilgreindi trú sína og efasemdir í sérstæðri guðfræði sinni – sem þó á sér hliðstæður í hugsun margra kristinna hugsuða samtímans – á plötunni Boatman‘s Call (1997). Á sama tímabili kom út stór ævisaga (Ian Johnston) og Cave tók til við að gangast við trúarlegum þráðum í höfundarverki sínu til að mynda í fyrirlestrinum The Flesh Made Word en þar að auki skrifaði hann formála að Matteusarguðspjalli fyrir útgáfu guðspjallanna á nútímalegu formi smárita (Cannongate). Í raun og veru endurskilgreinir hann þetta tímabil í myndinni 20.000 days on Earth, breytir sögunni þannig að allt frá því að hann kynnist Susie Bick, konu sem er holdgervingur allra drauma hans um meyhóru og heilaga móður, þá hafi hann af virðingu við hana sagt skilið við þetta andlega fikt. Að mínu mati ber þó að hafa tvennt í huga, annarsvegar að Nick Cave hefur alla tíð haft ímugust á að aðrir skilgreini hann eða túlki með öðrum formerkjum en hans eigin – en sú er sér í lagi raunin á síðustu tíu árum þar sem guðfræði Nick Cave hefur orðið sérstakt rannsóknarefni. Hins vegar að hinn andlegi og spíritíski þáttur í dags daglegu lífi hans er alveg jafn ríkulegur í þeim heimi sem er varpað upp, ef maður tekur mið af því að hann er bæði goðsögulegur og undir valdi utanaðkomandi afls sem hefur áhrif á heiminn í gegnum vinnu skapandi einstaklinga. Innblásturinn er með öðrum orðum ennþá sjálfstætt utanaðkomandi afl sem finnur sér farveg í gegnum sköpunina; og kallast þar með á við fjölmargar guðfræðilegar hugmyndir sem fagna ágætum vinsældum í fræðilegri orðræðu og breyttum áherslum í grasrót kirkjunnar.

Hin Theo-dramatíska heimsmynd Cave

„Guð talar til okkar í sköpunargáfu okkar og öðlast tilveru í þessum heimi með útrás hennar. Ef við leyfum sköpunargáfu okkar að blómstra, hefja sig til flugs þá lyftir hún okkur með og færir okkur nær guðdómnum. Við getum fundið þennan skapandi anda Guðs í því sem færir okkur innblástur, það sem hreyfir við okkur, hvort sem við erum listamenn, kennarar, smiðir eða hagfræðingar. Það sem skiptir máli er að finna og fylgja köllun okkar. Ekki láta reglur og norm samfélagsins draga úr og kæfa sköpunargleði okkar.“ Nick Cave – þýð. KÁK.
Til að glöggva sig á þessu samhengi og helstu niðurstöðum guðfræðinga um guðfræði Cave og tengsl hennar t.a.m. við frelsunarguðfræði Suður-Ameríku (Cave bjó í Brasilíu á tíunda áratugnum, átti þar konu og soninn Lúkas) má glöggva sig á BA-ritgerð Kristjáns Ágústs Kjartanssonar frá því í fyrra sem gefur ágætt yfirlit yfir hugmyndir guðfræðinga um efnið. Aftur á móti vil ég bæta við þær pælingar sem þar koma fram þræði sem er að mínu mati mjög mikilvægur og má rekja t.a.m. í gegnum myndlistarmanninn Joseph Beuys aftur til Anthroposophiu Rudolfs Steiners; en þar má finna grunn guðspekilegra hugmynda um Krist sem hreyfiafl allra hugmynda, anda sem gegnumsýrir veröldina og birtist einmitt í gegnum skapandi verk mannanna. Beuys talar um Christ-Impulse Steiners sem þennan hvata að verknaði listamannsins, hvötinni til að umbreyta og heila heiminn með læknandi afstöðu, valdeflandi boðskap um hið frjálsa og uppreista mannkyn sem stendur í beinu sambandi við hið guðlega afl á bakvið tilveruna. Niðurbrot „trúarkerfa“ með öllum þeim hierarchisku strúktúrum valds og lögmáls, sem Jesús Kristur einmitt setti sig upp á móti, er leiðarljós þessarar túlkunar á þeim óumræðanlega kærleiksboðskap sem Kristur stendur fyrir, út frá sjónarhóli Steiners, Beuys og Cave, ef grannt er skoðað. Niðurstöður guðfræðinga um guðsmynd Cave í þessu ljósi, þar sem Hinn skapandi kraftur (The Creative Spirit) er lykilatriði, Guðsaflið á bakvið tilveruna, standast því enn fyllilega að mínu mati. Kristsmyndin flækist aftur á móti ögn við þá mynd sem varpað er upp í 20.000 days vegna þess að Cave kýs að stíga sjálfur útúr myndinni sem spámaður eða Kristsgervingur, og samsamar sig á ný við frumstæðari trúarbrögð sem ganga út frá goðum í mannsmynd, idols of veneration, ellegar jafnvel skurðgoðadýrkun fjölgyðistrúarbragðanna.

Miðillinn Nick, farvegur Krists

„Kristur, maður af holdi og blóði sem var í svo mikilli tengingu við innri sköpunarkraft að hann varð holdgervingur þessa krafts, Guðs. Og þar í Kristi var fyrirmyndin og möguleiki okkur gefinn, að við sjálf getum orðið lík Guði.“ – Nick Cave
Ef að hlutverk prests, miðils eða spámanns er skoðað í ljósi sögunnar má þó greina þræði þess hlutverks sem Cave finnur sig í. Hann er gjörsamlega forlagatrúar að eigin sögn og virðist í einu og öllu treysta innsæi sínu í þeim efnum. Það er að segja, innsæið er það tæki sem einu má treysta þegar kemur að hinu skapandi ferli, til þess að verða fyrir innblæstri og geta haldið áfram því verki sem hafið er, sköpun goðsagnarinnar – hans sjálfs. Hann er jú Jesús að einhverju leyti, hinn karismatíski leiðtogi sem frelsar undan lögmáli pólítísks rétttrúnaðar og hann talar ex ousia – eins og sá sem valdið hefur – en það er hið falska sjálf; mýrarljós sem hann veit að raungerist aðeins mögulega um stund á meðan á atburðinum stendur, þegar performansinn uppi á sviðinu á sér stað. Þá umbreytist Nick, það er, þráir að umbreytast; opnast og umbreytast því að sköpunarkrafturinn á bak við allt taki yfir og flæði í gegnum hann. Það er vissulega athæfi sem kallast á við margt sem við þekkjum úr arfi trúarbragðanna, þó heldur hinna frumstæðu, þar sem töfrapresturinn eða shamaninn tekur á sig mein samfélagsins, sjúkdóma og brenglun og hreinsar út hið illa, heilar heiminn, með þeim galdri sem framinn er. Við viljum kannski ekki kannast við hið góða í þessum gjörningi, því andi óreiðu og sefjunar vomi yfir; en það er nú einu sinni eðli þess þegar hinn útskúfaði tekur á sig þjónshlutverkið og þjáist fyrir okkar hönd. Það er hins útvalda að stíga inn í hið helgaða svæði, snerta hið ósnertanlega og brjóta bannhelgina þannig á bak aftur. Kannski fórnar hann sjálfum sér – og kannski fórnar hann öllu nema sjálfum sér – en þannig getur fórnarpresturinn Cave litið á sjálfan sig sem hefur fyrir löngu hafið sig yfir mennsku sína. Hann er „syndugur dýrlingur blekkinga og hindurvitna“.
„Guð er því ekki að finna í Kristi, heldur í gegnum Krist. Konungsríkið er innra með þér og utan við þig.“ Túlkun Nick Cave

Það hefur löngum verið ein túlkun þeirrar myndar sem Biblían birtir okkur af sköpun mannsins, að hann sé skapaður í Guðs mynd, sem stendur mér fyrir hugskotssjónum þegar vikið er að guðfræði Nicks Cave. Skaparinn skapar í apanum sköpunarkraftinn, tjáningarþörfina og tengslin við upptök hugsunarinnar. Hvernig vitum við hvort það erum við sem fáum hugmyndir eða hvort okkur eru gefnar þær? Imago Dei-ið í manninum er sköpunarkrafturinn og því er Kristur í manninum einmitt það sem Cave segir hafa verið Guð í Jesú, t.a.m. í hinni frægu túlkun hans á Jóh. 8.6-8 (í The Flesh Made Word). Hvort að þessi túlkun telst veraldleg eða hættuleg kristindóminum skal ég ekki dæma um en hana ber þó ekki að afgreiða út af borðinu eingöngu vegna þess að hún feli í sér að sá Guð sem kirkjan boðar upprisinn á Páskum sé of mannlegur. Því að þessi túlkun felur líka í sér annan möguleika sem er sá að við fögnum því á Páskum að Kristur sé upprisinn í okkur, við minnum okkur á Guðsneistann í manninum með því að opna okkur fyrir vorinu og sköpuninni, fyrir innsæinu og þeim kærleika sem læknar samskipti, þeim vonum sem virkja viljann. Því það er ekki bara fagnaðarerindi Nicks Cave, heldur og þeirrar túlkunar fornra sanninda sem tala til hjarta mannsins.

Hann er upprisinn, svo sannarlega er hann upp risinn. Gleðilega páska.