Opnað hefur verið fyrir umsóknir í tvo nýja styrktarsjóði sem tengjast íslenskri barnamenningu, Barnamenningarsjóð Íslands og sjóð til útgáfu barna- og ungmennabóka. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Mennta- og menningarmálaráðuneytinu.
„Barnamenningarsjóður Íslands var stofnaður í tilefni af 100 ára afmæli fullveldisins en hlutverk hans er að styðja við fjölbreytta starfsemi á sviði barnamenningar með áherslu á sköpun, listir og virka þátttöku barna og ungmenna. Í starfi hans er m.a. horft til áherslu menningarstefnu um samstarf stofnana, skóla, félagasamtaka og einstaklinga og jafnt aðgengi barna og ungmenna að fjölbreyttum og vönduðum listviðburðum óháð búsetu og efnahag. Verkefni sem stuðla að lýðræðislegri virkni barna í samfélaginu eða taka að öðru leyti mið af inntaki Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna hafa sérstakt vægi. Listamenn, stofnanir, félagasamtök og aðrir lögaðilar sem sinna barnamenningu á einhvern hátt geta sótt um í sjóðinn.
Nánari upplýsingar um sjóðinn. Umsóknarfrestur er til 1. apríl. nk.
Nú er einnig í fyrsta sinn auglýst eftir umsóknum um styrki í nýjan sjóð til útgáfu barna- og ungmennabóka. Markmið með þeim sjóði er að auðga og efla útgáfu vandaðra bóka, sem skrifaðar eru á íslensku, fyrir yngri lesendur. Skort hefur á fjölbreytt úrval barna- og ungmennabóka á íslensku og er nýi sjóðurinn viðbragð við því sem og innlegg í þá vitundarvakningu sem nú á sér stað um mikilvægi læsis og málefni íslenskrar tungu.
Nánari upplýsingar um sjóðinn. Umsóknarfrestur er til 18. mars. nk.
Stjórnvöld leggja sérstaka áherslu á að efla menningu barna og ungmenna og stuðla að því að þau séu virkir þátttakendur í menningarlífinu og er það eitt leiðarstefja í núgildandi menningarstefnu.“