„Arnar Már Arngrímsson (f. 1972) er tveggja barna faðir og kennari á Akureyri. Sölvasaga unglings er hans fyrsta bók.“ 1
Með þessum orðum, og í einhverjum skilningi án þeirra, lýkur kynningu á frumraun Arnars Más í hringleikahúsi íslenskrar bóksölu. Frumraun sem kom, og fór, að mestu hljóðlaust og ósýnileg á íslenskan markað; hundsuð af gagnrýnendum í talsverðum mæli. Hún var að vísu gagnrýnd á Starafugl.2 Eflaust við mikinn fögnuð höfundar.
Arnar Már Arngrímsson er hinsvegar miklu meira en tveggja barna faðir og kennari. Hann er hugsjónamaður og rauðsokka sem, með verkum sínum, tekst að orða flókinn og augljóslega afar ígrundaðan þankagang á hátt sem jafnvel barn gæti skilið — og í framhaldi velt upp með sjálfu sér. Gott dæmi um texta eftir Arnar sem lýsir hugsjón hans er að finna í Tímariti Máls og menningar 2. hefti árið 2017.3 Þar sést hárbeitt samfélagsrýni Arnars í mun skýrara ljósi en í skáldsögum hans, þar sem er mun meira um kóðanir og fjarlægð.
Undirritaður las Sölvasögu Daníels, sjálfstætt framhald fyrri bókarinnar, á kvöldstund — hlæjandi og grátandi eftir því sem við átti — og hafði í framhaldi ófáar spurningar fyrir höfundinn (sem undirritaður þekkti reyndar lítillega á menntaskólaárum sínum sem heldur reglufastan og ósveigjanlegan kennara sem átti þó góða spretti, sér í lagi ef honum datt í hug að setja tónlist á í verkefnatímum). Brugðið var á það ráð að senda spurningalista póstleiðis, með uglu, á höfundinn og vonast til þess að útskriftarplaggið dygði til að hann sæi sér ekki fært að láta póstinn hverfa milli skips og bryggju. 4 Gæfan brosti við og úr varð þetta stutta viðtal, sem vonandi gefur innsýn í höfundarverk Arnars, sem og hans innri mann (algjört yndi sem var meira en tilbúinn að svara auvirðilegum spurningum undirritaðs á ný eftir margra ára hlé frá því hann þrumaði yfir hausamótunum á undirrituðum í kennslustundum).
– Þessi nýja bók gerist á Akureyri, hvað er Sölvi að vilja þangað?
Sölvi hefur ekki haft vit á því að fara á Dale Carnegie námskeið eða koma sér upp markþjálfa. Hefði hann markmið í lífinu þá væri það að færa sig nær mannfólkinu. Að fara í þennan skóla er lítið skref í þá átt.
– Í fyrstu bókinni er Sölvi sendur í sveit og ferðast eiginlega aftur í tímann þar sem hann fær gamla herbergi pabba síns. Ef að Sölvi er að læra að bjarga sér án tölvu og internets í fyrstu bókinni hvað er það sem hann er að læra í þessari?
Er mögulegt á okkar tímum að læra eitthvað eða þroskast? Erum við ekki bara leiksoppar?
Sölvi er of hornóttur til að finna sér stað. Hugur hans og tilvera er ein óreiða sem stundum finnur sér farveg í skáldskap. Mér finnst líklegra að hann verði leigubílstjóri sem gefur út snilldarljóðabækur á átta ára fresti heldur en stabíll skáldsagnahöfundur á listamannalaunum. Nema kona, einhver á borð við Margréti, eiginkonu Þórbergs, haldi honum í stofufangelsi.
– Nú er Sölvi í lýðháskóla í bókinni, reknum af einhverskonar þurs sem minnti mig óþarflega á einskonar lausaleiksbarn Harðar Grímssonar, rannsóknarlögreglumanns Stefáns Mána, og frjálsíþróttahetju Akureyrar Unnars Vilhjálmssonar. Voru þeir fyrirmyndir Þórs að einhverju leyti? Spratt hann kannski upp án nokkurra utanaðkomandi áhrifa?
Þór er þjálfarinn eða kennarinn sem við kynntumst mörg sem krakkar. Kannski þurs en alltaf á þínu bandi og ekki líklegur til að setja færslu inn á mentor yrði einhver fyrir snjókúlu. Þór er hins vegar nýkominn aftur til Íslands eftir langa dvöl erlendis og það er varla pláss fyrir menn eins og hann í hinu nýja og straumlínulaga Iceland.
– Fyrst við erum byrjaðir að tala um lýðháskóla, vissirðu að það er lýðháskóli á Flateyri?
Sölvasaga Daníelssonar er sjálfshjálparbók fyrir kennarana þar. Fúlasta tegund kapítalismans er búin að grúma okkur/nemendur/alla svo rækilega við fúlsum við alvöru námi og höfnum leiðsögn fólks sem vill okkur vel.
– Ásamt því að framhald Sölvasögu kom út í ár að þá gafstu út ljóðabók. Nú er Sölvi skáld, eru þetta ljóðin hans eða þín og er stór munur þar á?
Sölvi opnaði ljóðadyrnar og ég smeygði mér inn, eða út, eða hvernig sem maður lítur á það. Viðfangsefni okkar Sölva eru svipuð; ofnæmi gagnvart sjálfumglöðu samfélagi sem keppist við að gleyma sér.
– Ljóðabókin þín heitir „Kannski er það bara ég“ sem gefur í skyn vissa einangrun og sjálfsskoðun sem lesendur þínir kannast við í Sölva. Myndirðu segja að þú sért jafn gefinn fyrir sjálfsskoðun og — vegna skorts á betra orðfæri — ofhugsun eigin tilfinningalífs og samskipta?
Við erum báðir útlagar og finnum okkur hvorki í hópi né einir. Eina leiðin er að halda áfram.
– Samband Sölva við foreldra sína er fremur hefðbundið, ef svo má að orði komast, þar sem hann á auðveldara með að skilja og tjá sig við það foreldri sem ekki hefur fundið sér maka — kannski vegna atburðarásarinnar í fyrri bókinni. Heldurðu að skilnaðarbörn hlúi að því foreldri sem frekast þarf á því að halda?
Áhugaverð kenning en ég veit það ekki. Sölvi er meira á bandi föður síns af því að hann fer líka gegn straumnum – allavega þegar á líður. Sölvi er smám saman að uppgötva að Inga er Íslendingur; heillandi og fyndin en efast ekki um skipan mála.
– Er Sölvi yfirleitt bara nánari föður sínum en móður eftir að hafa „gengið í hans skóm“ heilt sumar?
Það er ekki ólíklegt. Sölvi andar að sér því besta úr plötusafni föður síns. Maður treystir fólki með góðan tónlistarsmekk.
– Í bókinni (bls. 231), Sölvasaga Daníelssonar, kemur fram gagnrýni á karlmenn sem ber vott um eitthvað sem kalla mætti innsýn eða jafnvel „ofsafengna samkennd“ — í það minnsta af þeim sem samsama sig „síðasta dónakallinum“ eða útvarpi Sögu — geturðu sagt frá í styttra eða lengra máli tilkomu innskotsins um Rán?
Mér finnast íslenskir „gleðimenn“ óendanlega heillandi. Hvernig menn sem eru kannski að detta í sextugt hefur tekist að leiða hjá sér allar viðhorfsbreytingar síðustu áratuga. Þeir eru enn staddir í búningsklefa eða á sveitaballi anno 1984, segja sömu sögurnar og reyna við stelpur sem eru 30 árum yngri en þeir. Þeir hafa alltaf átt heimtingu á æðstu gæðum og það breytist aldrei. En eitt hafa þeir fram yfir nýju strákana; þetta eru sagnamenn sem eru ekki otandi fyndnum youtube-myndböndum ofan í félaga sína.
– Hvað er næst á dagskrá hjá þér?
Sölvasögu er lokið. Ég get varla sagt að ég sé byrjaður á nýrri bók en ég hripa niður hugmyndir eins og alltaf. Iceland, eins og það er að þróast, æpir á skrif. Og það er heillandi að skrifa á tungumáli sem er að deyja vegna tómlætis og þótta.
1. | ↑ | Tekið af baksíðu Sölvasögu unglings, fyrstu bókar Arnars. |
2. | ↑ | https://starafugl.is/2017/daemigerd-throskasaga/ |
3. | ↑ | https://www.forlagid.is/vara/timarit-mm-2-hefti-2017/ |
4. | ↑ | Eins og svo margir höfundar og ritstjórar gera ef þeir nenna ekki að senda einfalt neitunarbréf. |