„Heftugur andskoti má það vera“: Stórtíðindi í íslenskum bókmenntum

Magnaður andskoti má það vera hvað skáldskapur og veruleiki geta átt í margslungnu sambandi, furðulegu alltaf hreint, úr forneskjunni til nútímans, dulúðugu jafnvel. Því segi ég það að mér var að berast bréf að handan. Frá átjándu öld. Eða öllu heldur: Það var að finnast stórmerkilegt handrit. Kominn er í leitirnar eini ritaði textinn sem til er eftir kraftaskáldið Látra-Björgu.

Þetta gerbreytir stöðu hennar sem höfundar. Hingað til hefur jafnvel verið erfitt að telja hana til skálda því ekki var vitað til þess að hún hafi skrifað neitt, þótt mörg kvæða hennar hafi lifað með þjóðinni. Er ekki skáld einhver sem skrifar? Það hefur ekki einu sinni legið fyrir hvort hún hafi verið læs og skrifandi. Björg hefur fremur verið talin til ólærðra skálda, enda þótt fá skáld hafi verið alin upp í öðru eins menntaumhverfi, forfeðurnir ýmist sýslumenn, prestar eða biskupar, menntuðustu menn landsins búsettir á sama bæ og hún, á Látrum á Látraströnd, þeim magnaða stað, þar sem mestir reimleikar hafa verið á Íslandi.

15226396_10154751241238390_1999185912_n-png

Ég læt öðrum eftir að tíunda öll rökin fyrir því að eigna Látra-bréfið Björgu Einarsdóttur (1716-1784). Á þrjú hundraðasta afmælisári hennar sendi ég nýlega frá mér skáldsöguna Bjargræði sem hefur Björgu að sögumanni. Á einum af fyrstu upplestrunum spurði mig íslenskufræðingurinn Aðalsteinn Eyþórsson hvort ég kannaðist við Látra-bréfið. Ég gerði það ekki. Næsta dag færði Aðalsteinn mér ljósrit úr splunkunýrri bók Guðrúnar Ingólfsdóttur, doktors við Árnastofnun, Á hverju liggja ekki vorar göfugu kellíngar: bókmenning íslenskra kvenna frá miðöldum fram á 18. öld. 1 Aðalsteinn sló fram þeirri tilgátu að þar færi texti eftir Látra-Björgu.

Bók Guðrúnar fjallar um safnhandrit úr eigu kvenna á öldum áður og þar er farið í saumana á einu slíku handriti þar sem Látra-bréfið er að finna. Guðrún birtir sem sé tvö brot úr gömlum texta, Látra-bréfinu, sem hún hefur grafið upp og finnur upprunasögu textans eftir ábendingu frá Yelenu Sesselju Helgadóttur. Til að tengja bréfið við Björgu þarf að hafa mörg púsl í hendi, enda hefur textinn alltaf verið eignaður séra Þorláki Þórarinssyni, sem var uppeldisbróðir Bjargar á Látrum. Hins vegar greinir Guðrún frá því að samkvæmt Ólafi Davíðssyni hafi bréfið fundist „á skemmuvegg á Látrum við Eyjafjörð í júlí 1740“. Þorlákur fluttist barn að aldri frá Látrum og hvorki hann né foreldrar hans höfðu verið búsettir þar um áratugaskeið árið 1740. Miklu nær er að eigna Björgu textann, hann er sannarlega ekki skrifaður af barni og stíleinkennin ríma við þann kveðskap sem eftir hana liggur.

Hvers konar texti er þða svo sem hið görótta skáld kýs að senda frá sér á afmælinu sínu? Hann er galdur. Þetta er texti sem ljóst má vera að gegnir hlutverki þjófafælu, eins og Guðrún greinir frá. Hvernig í veröldinni komst textinn frá skemmuvegg á Látrum í umferð og var uppritaður í handritið sem Guðrún fjallar um? Um það er allt á huldu. Líklega er réttast að skila bréfinu á Látra? En Björg hefur skilið bréfið eftir þar sem líklegt væri að þjófur fyndi það. Textinn er skæð sending til þjófs. Það gengur á með galdri og óbótaskömmum í annarri persónu og klykkt er út með tveimur vísum þar sem bréfið sjálft talar til finnanda síns:

Sértu maður sjáðu mig,
sértu læs að gáðu mig,
sértu frómur segðu mig,
sértu þjófur eigðu mig.“ 2

Augljóslega voru talsverðar líkur á að þjófurinn á Látrum, hver sem hann var, væri læs. Og augljóslega voru nokkrar líkur á að hann hefði í sér ærlegan þráð, væri frómur og segði frá bréfinu svo það bærist áfram — sértu frómur segðu mig. En meginefni bréfsins er rammstuðlaður og rytmískur lausamálstexti. Nokkrar líkur hefur höfundur talið á að viðtakandanum væri viðbjargandi:

Taktu ráð mín í tíma, varastu vílgirni og vélgirni, flærðargutl og forvitni, en vertu hreinskilinn og hreinmennskusamur í öllum atburðum og láttu þér nægjast þitt lánað pund, án hugsýki, því blessan og búksorg eiga skjaldan sambýli.

Svo kynngimagnaður er þessi texti að maður verður agndofa, hann er uppfullur af skringiyrðum, flæðandi og æðandi áfram, blanda af galdraþulu og prósa, launhæðinn og meinfyndinn, gerólíkur klerklegum stíl síra Þorláks sem uppritarar bréfsins hafa þó viljað eigna textann, enda þótti liggja beinast við að skólagenginn karlmaður og viðurkennt skáld ætti höfundarlausa texta fremur en kona, hvað þá alræmd fordæða. Raunar er textinn svo mergjaður, svo biksvartur, svo innblásinn, svo gersamlega yfirgengilegur og svo ögrandi, svo furðulegur, svo gersneyddur allri aumingjagæsku og vílgirni, svo kolrangur andspænis rétttrúnaði, svo gegnumsýrður af stækri óbeit á falsi og flærð, svo meitlaður og hamraður og stuðlaður og rímaður, svo uppbyggilegur í bölsýni sinni, svo mergjaður í galdri sínum, að ekkert skáld getur hafa skrifað hann nema Látra-Björg. Ekkert annað skáld er líklegt til að segja lesanda sinn liggja á brjósti stjúpmóður andskotans:

Sælla væri þér að dúsa við dálkabruðning þinn og drekka þyrlaskólp í heimanáðum heldur en að snapa hér um gættir, snáfvís óþokki, hræsna, betla og hnupla, sjálfum þér til æfinlegrar skammar en ærudyggðugum náunganum til spotts, niðrunar og ama. Hefur þú ekki heyrt að stolið brauð gefi sand í gómana? En ef æruleysið jagar úr þér tanngarðinn, ætla ég fjandanum næst að tyggja í tannfellinginn, kannski hann láti þig njóta að þú brekar á brjósti hans stjúpmóður, bölvaðrar ágirndarinnar.

Íslendingar hafa eignast nýjan 300 ára prósahöfund, nýtt skrifandi skáld, nýtt stórskáld.
Og hvað er ég að upphefja mig á því? Ég geri það ekki nema samkvæmt skýrustu beiðni: „Sértu frómur segðu mig …“ Ég lít svo á, í fyllstu auðmýkt, að þetta bréf sé til mín. Ég furða mig á líkindunum við minn eigin texta, 300 síðna skáldsögu í annarri persónu. Ég lít svo á að þetta bréf sé til samtímans og eigi mikilvægt erindi. Ég lít svo á að görótt og göldrótt bréfið, ljúfmált og hljómfagurt, ofsafengið en blítt, yfirgengilega fyndið en flugbeitt, þetta bréf sem komið var fyrir á skemmuvegg fyrir ekki svo löngu, hitti samtímann fyrir þar sem hann er berskjalda: „Heftugur andskoti má það vera sem þig hefur áður blekkt og ófrægan gjört við þjófadontið, sé það sannspurt að hann skuli ennþá pússa þig sem hundeltan héra fram í hvört skammarforræðið af öðru.“ Ég lít svo á að minna megi á gamlan sannleik: Allur skáldskapur er í eðli sínu svartasti galdur.

Ég er fokin upp til hálfs
engum þó í hendi frjáls
utan lundi linna báls
sem lýsir mér án dylgju táls.

Birtist áður í Kvennablaðinu.

   [ + ]

1. Umfjöllun Guðrúnar um Látra-bréfið og uppritun hennar á brotum úr textanum er að finna á bls. 56-58 í bók hennar.
2. Aðalsteinn Eyþórsson skrifaði textann sem hér birtist úr Látra-bréfinu upp úr handriti (einu af mörgum) af þjóðdeild Landsbókasafnsins.