1
Arkítektinn
Fótgönguliðar stjórnmála okkar og efnahags eru menn einsog arkítektinn Manolis Vournous. Hann er hávaxinn og grannur, með þykka bauga undir augunum. Honum finnst gott að hafa hluti í röð og reglu.
„Ég vil að fólk láti hluti gerast og vil ekki beita þrýstingi, eða að aðrir beiti mig þrýstingi,“ sagði hann mér í desember 2016. „Það verða að vera skipanir. Það verður að vera stigveldi. Ég geri þetta og þú gerir hitt; þetta er mitt starf og þetta er þitt, því annars búum við til svona óreiðu.“
Vournous stýrir grísku eyjunni Kíos, og óreiðan sem hann vísaði til sást allt um kring. Bakvið skrifstofuna hans mótmæltu króknandi flóttamenn í óupphituðum tjaldbúðum. Fyrir framan húsið komu fasistar saman til að syngja þjóðsönginn og krefjast hreinsunar eyjunnar. Á næturnar var stundum ráðist á flóttafólkið og börnin þeirra hrelld. Fjölþjóðleg samtök unnu allt um kring án skýrrar samhæfingar. Túrismi var horfinn, hótelin tóm, veitingastaðirnir fengu bara heimamenn og nokkra sjálfboðaliða í mat. Allt var í klandri og arkítektinn leitaði árangurslaust að díagramminu, lausninni, sem myndi koma honum úr flækjunni.
Vournous er rangur maður, á röngum tíma, í vitlausu húsi. Hann er menntaður erlendis og finnur sig greinilega ekki í vinagreiðapólitík Grikklands. Forveri hans þekkti alla á eyjunni, tók í hendurnar á fólki, heimsótti litlu þorpin, lofaði að redda málum fyrir kjósendur sína. Hann var kosinn úr embætti grunaður um fjárdrátt, en áformar að tileinka sér reiði fólksins og vinna aftur gamla sætið sitt.
Þegar Vournous horfir út á ráðhústorgið yfir fasistamótmælin, þá sér hann gjaldþrota verslunareigendur og fátæka bændur — bændur sem mega ekki við því að flóttamenn steli hænum og tómötum frá þeim, hversu svangir sem þeir kunna að vera. Heimamenn eru örvinglaðir, magnvana og reiðir. Í einum mótmælunum héldu þeir á borða sem á stóð að bráðum yrðu þeir sjálfir flóttamenn. Á öðrum borða stóð „VIÐ ERUM EKKI RASISTAR“.
Gjaldþrota bændum á eyjunni finnst ankannalegt hve mikla hjálp flóttamennirnir fá. Reiði þeirra beinist fyrst og fremst gegn öllum sjálfboðaliðunum sem aldrei komu til þeirra í grísku kreppunni, en koma í hrönnum þegar útlendinga ber að garði. Og Vournous þarf að fara varlega sjálfur. Daginn sem ég talaði við hann, rétt fyrir jól, var sveitastjórnin nýbúin að splæsa í upphitun fyrir tjöld flóttamannanna, sem er formlega ekki á þeirra könnu. Hann var stoltur af að hafa tekið afgerandi ákvörðun sem kann vel að hafa bjargað mannslífum, en heimamenn spurðu sig hvaðan þeir peningar yrðu teknir.
Eins og margir suðrænir teknókratar horfir Vournous norður á bóginn frá litlu eyjunni sinni, horfir yfir flókin vandamál fólksins heima og upp til Evrópusambandsins með stjörnur í augunum. „Það er langbesta samband ríkja og þjóða, langbesta, um allan heim og alla söguna,“ sagði hann við mig án nokkurrar kaldhæðni. „Allavega sögunni sem ég þekki!“ bætti hann við og skellti uppúr.
En á meðan hann heldur flóttamönnunum hjá sér, svo Angela Merkel og nágrannastjórnir hennar geti varist popúlistum uppi í norðri, fær hann litla hjálp á móti. „Nú er verið að biðja okkur að finna fleiri svæði til að leggja undir flóttamannabúðir. Við ætlum ekki að bjóða uppá neitt. Við segjum nei, fólkið á að yfirgefa eyjuna.“
Í sjálfu sér væri það ekki slæmt. Allir á eyjunni, frá flóttamönnum til fasista, eru sammála að það væri ágæt lausn. En af hverju gerist það ekki?
„Evrópusambandið segir nei, gríska ríkisstjórnin segir nei.“
Stigveldið, sem er Vournous svo kært, hefur svarað. Og þá á hann engin verkfæri eftir nema að beita þrýstingi.
Margir Grikkir kenna Angelu Merkel um ástandið. Fyrst bauð hún flóttamönnum til Evrópu með því að opna Þýskaland fyrir þeim haustið 2015. Nokkrum mánuðum seinna lét hún stoppa þá við jaðar álfunnar. Nú híma þúsundir útlendinga á grísku eyjunum og milljónir í Tyrklandi án þess að ríkari Evrópulöndin hafi sérstakar áætlanir fyrir þau. En Merkel hafði góðar ástæður fyrir þessu. Þegar flóttamenn komust í miðja Evrópu vildi hún ekki að mannréttindi þeirra yrðu brotin. Þess vegna fengu þeir góða meðferð. Svo var tekið til við að loka ytri landamærunum, þar sem mannréttindi skipta minna máli.
Merkel er ekki rasisti, heldur er hún listamaður prinsippleysisins, útséður verkfræðingur hins mögulega. Hún hefði ekkert á móti því að hleypa inn öllum þeim milljónum sem vilja koma til Þýskalands. Ekki því þau þurfa vernd, heldur vegna þess að Þýskaland vantar fólk. Evrópa er hætt að eiga börn, en löndin allt í kring eru með fjölda atvinnulausra ungmenna. Forstjóra og yfirmenn Þýskalands þyrstir í ungt blóð. Merkel hélt hún gæti slegið tvær flugur í einu höggi með því að vera mannúðardrottning og bjargvættur iðnaðarins, en hún vanmat óöryggið sem margir Þjóðverjar, sérstaklega í Austur-Þýskalandi, lifa við. Þegar hún áttaði sig á því snérist hún á hæl.
Stjórnmálamenn hér í norðri vita allt sem þeir vilja vita um ástandið við jaðar álfunnar. Í desember síðastliðnum kom sendiboði frá Brussel til Kíos að útskýra áform Evrópusambandsins. Þegar honum var bent á að fasistar væru að taka yfir eyjuna, og öfgahægrið að taka yfir allt Grikkland, svaraði hann því til að „ef það sem gerðist árið 2015 hefði haldið áfram,“ sumsé ef flóttamenn hefðu áfram komið í álfuna, „þá myndi öll Evrópa verða fasísk.“
Norðrinu skyldi bjargað með því að fórna suðrinu, fasisminn ekki sigraður heldur einangraður. Og spurningin er ekki hvort mannréttindi skulu brotin, heldur hvar.
2
Öskudagar
Þegar Gerhard Schröder sigraði þýsku þingkosningarnar 2002 var honum létt. Hann hafði næstum tapað fyrir nýliðanum Angelu Merkel. Svo litlu munaði að hún lýsti yfir eigin sigri um nóttina, í sjónvarpsútsendingu sem hún myndi sennilega helst vilja gleyma. Schröder gat þakkað sigurinn háværri andstöðu sinni við yfirvofandi Íraksstríð, en Sósíaldemókrataflokkur hans tapaði engu að síður nær fimmtíu mönnum af þingi. Efnahagurinn var enda í klípu og eina lausnin sem Schröder datt í hug voru aðhaldsaðgerðir á kostnað hinna verst settu og að fá Evrópusambandið til að leyfa sér að safna upp meiri skuldum. Og auðvitað gat Evrópusambandið ekki sagt nei við Þýskaland!
Efnahagsvandinn var ekki bara þýskur. Samkeppnishæfi Evrópu fór minnkandi, því Asíulönd höfðu tekið frumkvæðið í iðnaði. Atvinnuleysi hafði lengi verið hátt. Lausnin sem Schröder diktaði upp með Tony Blair, vígabróður sínum í Bretlandi, var einföld. Botninn yrði að falla úr vinnumarkaðnum, mörkin milli bótaþega og atvinnuleysingja að hverfa. Allir yrðu að vera mögulegt vinnuafl. Einsog tvíeykið orðaði það í stefnuskrá sem þeir undirrituðu árið 1999, „hlutastörf og láglaunastörf eru betri en engin vinna, því þau lækka þröskuldinn milli atvinnuleysis og starfs.“
Sósíaldemókratar í Þýskalandi afbeisluðu vinnumarkaðinn í fjórum bylgjum frá 2003 til 2005. Breytingarnar voru nefndar eftir arkítekt þeirra, mannauðsstjóranum Peter Hartz. Sú síðasta, Hartz IV, breytti bótakerfinu í illgjarnt foreldri sem reynir að losa sig við börnin sín með harðri hendi. Fyrirlitningin sem „working poor“ Þjóðverjar, margir í gamla Austur-Þýskalandi, verða fyrir, á margt skylt við skömmina sem svartir Bandaríkjamenn hafa þurft að lifa við. Og rétt einsog „gettó“ hefur orðið nafn yfir alls kyns lágstéttarömurð í Bandaríkjunum, þá hefur „Hartz IV“ orðið að merkimiða fyrir fólkið í Þýskalandi sem þiggur bætur nýja kerfisins, einhverskonar samheiti fyrir „aumingi“, „blóðsuga“ og „lágmenning“, það sem marxistar kölluðu áður tötraöreiga.
Í Bandaríkjunum hefur samþætting stéttar og kynþáttar eitrað stjórnmálin. Þegar frjálslyndir pólitíkusar hjálpa svörtum að yfirstíga aldagamla kúgun saka hvítir fátæklingar Washington um að hunsa sig. Þá sjá afturhaldsflokkar sér leik á borði, siga hvítu fólki á svart og draga alla fátækrahjálp til baka. Þessi stórhættulegi leikur að samfélagslegum eldi er nú daglegt brauð í Evrópu, eftir komu óvenju margra arabískra flóttamanna í álfuna haustið 2015. Stjórnmálamenn geta nú valið milli þess að finna góðar lausnir á erfiðum vandamálum, að ræða spillingu og rótleysi eigin flokka og að umbreyta efnahagsstefnu samfélagsins, eða að hía á fátækar raddlausar konur í búrkum. Fyrir marga er þetta einfalt val.
Sósíaldemókratar velja ekkert af ofangreindu, hvorki að breyta samfélaginu né að ráðast á útlendinga. Lágstéttirnar, sem áður kusu þá, finnst þessvegna að ótti þeirra við vont líf sé ekki tekinn alvarlega. Fágaða miðstéttin, sem er hvorki í samkeppni við flóttamenn né í vondu hlutastarfi, kýs enn sósíaldemókrata. Hún fitjar uppá nefið þegar talið berst að „Hartz IV-sjónvarpi“, þeim froðukenndu sápum og raunveruleikasjónvarpi sem atvinnuleysingjarnir horfa á. En hástéttin, til dæmis menn einsog Berthold von Freyberg, aristókrati og fjárfestir, setja Schröder í dýrlingatölu. „Schröder bjó í haginn fyrir þann auð sem við eigum núna,“ hefur Le monde diplomatique eftir honum. Og hann bætir við að Merkel sé fín, en „hún hefur ekki einu sinni gert fjórðung af því sem forveri hennar áorkaði þegar kemur að umbótum á vinnumarkaði.“
En Merkel hefur einfaldlega ekki þurft þess. Hún fylgdist með Schröder fórna sér fyrir liðið og sá sér leik á borði, dró Kristilega demókrata á eyrunum í átt til frjálslyndis, gerði flokkinn að mýkri, nútímalegri valkosti en hann hafði áður verið. Schröder hafði tætt sundur tekjuöryggi fátækustu kjósenda sinna. Þeir tvístruðust á aðra flokka eða gáfust uppá að kjósa. Merkel hefur sigrað allar kosningar síðan.
Af ávöxtunum hafa umbætur Schröders verið dæmdar. Fjöldi fólks í hlutastarfi meira en þrefaldaðist milli áranna 2000 og 2016. Hlutfall vinnandi fólks sem líður fátækt hefur hækkað um meira en fimmtung. Um 4,7 milljónir lifa á „mini-job“, skattfrjálsu örstarfi sem borgar að hámarki 450 evrur — um 55.000 krónur — á mánuði. Bótum er haldið lágum og bótaþegar þurfa að gefa upp persónulega hagi sína, innkaup, ferðalög og jafnvel bólfélaga.
Þetta á sumsé að vera vont líf, svo sem flestir reyni að sleppa úr því, hvort sem þeir geta það eða ekki. Mörkin hafa skerpst milli þeirra sem eru í stöðugri vinnu og með peninga aflögu, stjórnenda, prófessora og opinberra starfsmanna, og hins sístækkandi „precariat“, smálánastéttarinnar, fólksins sem er einni tannpínu frá gjaldþroti.
Vesturbæjarvinstrið, sem talar saman í greinum eins og þessari, er sjálft í öruggri fjarlægð frá svona nöturlegu lífi. Það kvartar yfir að tötraöreigarnir kjósi Sjálfstæðisflokkinn, en þegar öryrkjar og aldraðir stofna loks eigin flokk — Flokk fólksins — er hann litinn hornauga. Honum er jafnvel hrint til hægri. Örvænting þeirra er kölluð tækifærismennska, óöryggið hatur.
Um öll Vesturlönd er búið að kljúfa hina verst stöddu frá þeim sem lifa öruggu lífi í stöðugri vinnu. Fátæklingar eru hrelltir með öryggisleysi í starfi. Svo er þeim sigað á útlendinga og flóttamenn, þeim eru sagðar lygasögur um hvernig það sé aðkomufólk sem eyðileggur bótakerfið og brýtur niður samfélagið. Líbó og lífsglöð miðstéttin finnur ekki þá eyðileggingu á eigin skinni, þess vegna grasserar sá misskilningur meðal hennar að smálánastéttin sé vitlaus eða illa innrætt.
Vinnumarkaðsbylting Schröders virkaði. Þýskaland er með bullsjóðandi útflutningsgeira og iðnaður landsins drottnar yfir evrópskum efnahag. Byltingin hefur meira að segja gengið of vel. Lág laun í Þýskalandi, Bandaríkjunum og víðar svipta almenning kaupmætti, svo hann getur ekki verslað og efnahagurinn kemst ekki á fullt skrið. Seðlabankastjórar hafa bent á þetta eilítið klúðurslega vandamál undanfarið, enda er þeirra hlutverk að halda verðbólgunni við 2%. Hún hefur síðustu ár verið of lág. Hægri efnahagsstjórn er að drukkna í eigin árangri.
3
Böðullinn í Berlín
Fyrir nokkrum árum flutti Ermioni Frezouli til Kíos. Hún hafði fæðst þar og alist upp innanum hrjóstrug fjöllin og bjartar strendurnar og tómatatrén í görðunum. Hún man eftir eyjustjóranum, Vournous, frá því hann var krakki — smástrákur sem vakti kátínu hinna barnanna, því hann þéraði foreldra sína. Á meðan hún bjó í Aþenu hafði Ermioni stundað nám og gifst hippalegum blaðamanni með sítt hár. Hann heitir Alex, og þegar þau komu til Kíos tóku þau með sér tengsl við róttæku vinstrisenuna, fólkið sem seinna gekk í Syriza. Ermioni bauð sig fram með þeim gegn flokki hins unga arkítekts og tók sæti í sveitarstjórninni.
Syriza hugðist binda endi á kæfandi niðurskurðarstefnu gríska ríkisins, sem Evrópusambandið og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn kröfðust. Þeim fannst gríska þingið niðurlægt, það samþykkti einfaldlega lög sem Brussel bjó til og grísku ráðherrarnir voru orðnir einsog landstjórar ESB. Í skiptum fyrir möglulausa hlýðni fékk gríska ríkið sífellt ný neyðarlán sem fóru öll í að borga neyðarlánið á undan. En nú átti að breyta til, færa völdin aftur til fólksins, hætta niðurskurðinum og þykjustuleiknum, og byggja nýtt hagkerfi á rústum hins gamla.
Frægasti málsvari Syriza var Yanis Varoufakis, fjármálaráðherra hellenska vorsins. Hann útskýrði fyrir alþjóð hvernig Grikkland fékk fyrsta neyðarlánið til þess eins að borga þýskum og frönskum bönkum upp skuldir, og hvernig væri verið að kreista úr sárþjáðri þjóðinni síðustu evrurnar til að endurgreiða þessa fyrstu reddingu.
Allir voru sammála um að Grikkland gæti aldrei endurgreitt allar skuldirnar, þær væru einfaldlega of háar. En Angela Merkel hafði í mörg ár lofað kjósendum sínum að þeir myndu fá peningana sína aftur. Það var pólitískur ómöguleiki fyrir hana að svíkja það loforð. Þess vegna varð að fá Syriza til að svíkja sín.
Flestir Grikkir bundu miklar vonir við Syriza, enda landið löngu komið úr öskunni í eldinn. Atvinnuleysi var í fordæmalausum hæðum, heimilisleysi hafði aukist, sjálfsmorðum fjölgað, sprautufíkn breiddist út og eyðnismit margfölduðust. Enginn vildi fjárfesta í vöggu lýðræðisins, því allir sáu að Evrópusambandið var að keyra landið í þrot.
Varoufakis varaði Evrópu við þegar hann fór í sína fyrstu embættisferð til Berlínar að þetta ástand hefði galopnað stjórnmál landsins fyrir ásókn nasistanna í Gullinni Dögun. Þeir drepa flóttamenn á götum úti, brenna húsin þeirra, ráðast á vinstrisinna og marséra með kyndla á næturnar. Þeir gefa líka fátækum Grikkjum að borða og lofa þeim að endurheimta, í nafni grísku þjóðarinnar, heiður og stolt landsins.
Þess vegna reið á að Syriza tækist vel til. Meðferð flóttafólks batnaði stórum þegar flokkurinn tók völd. Lögreglan var beisluð. Varoufakis hannaði nýtt og betra bótakerfi fyrir hina verst stöddu í landinu. Allir sáu fram á betri tíð. Nema ráðherrar evrulandanna. Þeirra fremstur var böðullinn frá Berlín, fjármálaráðherra Þýskalands.
Wolfgang Schäuble deildi og drottnaði yfir fjármálum evrulandanna. Fjármálaráðherrar þeirra hittast reglulega og skipuleggja örlög hagkerfa undir leiðsögn Schäuble. En vorið 2015 var hann pirraður. Grikkir höfðu valið sér ríkisstjórn sem neitaði að taka lyfin sín, eins og hann kaus að líta á það. Þegar Varoufakis hitti Schäuble í fyrsta sinn neitaði Þjóðverjinn að taka í höndina á honum, heldur rauk inn í fundarherbergi og skipaði Grikkjanum að fylgja.
Það tók Varoufakis ekki langan tíma að sjá hvað konungur evrunnar vildi búa til í Evrópu: sveigjanlegri vinnumarkað. Það sem Schröder hafði gert fyrir Þýskaland, það ætlaði Schäuble að gera fyrir Evrópu. Stöðnuð bótakerfi skyldu brotin upp, reglum og lögum hrint úr vegi, fólki sparkað af sófum og sjúkrabeddum og inní einkavædda ráðningarþjónustu. Varoufakis skrifaði síðar að það væri „líkt og hann væri að segja mér að einhversstaðar þyrfti að byrja, og ‘einhversstaðar’ mætti allt eins vera Grikkland.“
Hin Evrópulöndin voru með á nótunum. Fjármálaráðherra Ítalíu hafði þegar komið lögum gegnum sitt þing sem gerði starfsfólk berskjaldað fyrir uppsögnum og leyfði ráðningu fólks á vondum kjörum og með lítilfjörleg réttindi. Í Frakklandi gekk forsetinn, sósíaldemókratinn François Hollande, gegnum eld og brennistein til að setja á sambærileg lög án leyfis þingsins, með tilskipun. Hann varð við það óvinsælasti forseti í sögu landsins, en fyrir lítið, því verkalýðsfélög náðu að halda aftur af honum. Nú hefur Emmanuel Macron tekið að sér að klára verkið.
Varoufakis leist ekki á blikuna og sagði við Schäuble að þetta væri galið ráðabrugg. Þeir yrðu að „alþjóðavæða félagsbætur og lífvænleg laun, ekki starfsóöryggi og fátækt vinnandi fólks.“ Viðbrögð Schäuble, að sögn Varoufakis, voru upprifjun á því að kommúnistar Austur-Þýskalands hefðu líka haft fallegar en óframkvæmanlegar hugmyndir.
Eftir fimm mánaða samningaviðræður var Syriza þvingað til frekari niðurskurðar og endurgreiðslu skulda uppí topp, undir pólitískum og efnahagslegum þrýstingi evrulandanna. Þjóðaratkvæðagreiðsla meðal Grikkja sem skilaði afgerandi svari gegn niðurskurði var hunsuð. Buguð ríkisstjórnin undirritaði uppgjafarbréf sitt. Niðurskurði yrði ekki hætt, hann myndi tvíeflast.
Ermioni segist varla hafa trúað þessu þegar fréttirnar bárust til Kíos. „Fólkið þarna á þinginu, fólkið í Syriza sem undirritaði niðurskurðarlögin, þetta er fólk sem ég þekki persónulega. Þau voru með okkur í baráttugöngum, einn þeirra passaði alltaf söfnunarbaukinn! Þetta er besta, áreiðanlegasta fólkið í hreyfingunni. Og svo skrifa þau undir þetta!“
Ég heimsótti Grikkland eftir þessa kúvendingu og komst að því að fólk var ekki sérstaklega reitt út í Syriza. Það var bara uppgefið og hafði misst vonina á betri framtíð. Þegar kallað var til þingkosninga um haustið náði flokkurinn endurkjöri á vonleysislegu loforði: að þau myndu vera blíðari böðull en forverar þeirra. „Björgunaraðgerðin“ varir enn í dag. Fjórtándi niðurskurðarpakkinn á sjö árum var samþykktur á gríska þinginu í maí síðastliðnum.
Ermioni hefur sumsé sínar ástæður til að vera reið Evrópusambandinu, þessu meinta bræðralagi friðar og mannréttinda. Hún hefur ferðast víða og er alþjóðlega menntuð einsog Manolis Vournous, en hún horfir ekki norður með glampa í augunum, heldur með armæðu og depurð.
„Ég ætla sko ekki í framboð aftur,“ sagði hún mér oftar en einu sinni. „Enginn myndi kjósa okkur.“ Það er ein ástæða. En kannski er hún líka búin að missa trúna á stjórnmálin. Hún hefur lengi reynt að benda eyjarskeggjum á hverjir bera ábyrgð á ástandinu. Hinir seku eru í Ankara, Damaskus, Berlín, Washington, Brussel. En það er einmitt meinið. Að segja fólki að vandamálið liggi svo langt í burtu jafngildir því að segja að við séum máttlaus. Og þá er auðveldast að slá niður á við, að gefa eftir gagnvart bræðinni og óttanum.
4
Sírenurnar
Margir fræðimenn hafa sagt að besta leiðin til að stoppa byltingu sé að gefa eftir sem hraðast. Ef valdastéttin sér að sér, lyftir lokinu af núðlusúpu samfélagsins áður en hún sýður uppúr, gefur fólki það sem það vill, þá geti allt farið vel að lokum. Kannski las einhver í Samfylkingunni þessa fræðimenn, eða kannski var það bara hyggjuvit, altént var ekki hálft ár liðið frá hruni þartil nýr formaður flokksins boðaði til kosninga. Fyrsta og eina vinstristjórn Íslandssögunnar tók við.
Að mörgu leyti voru ár vinstristjórnarinnar diet útgáfan af Grikklandi. Hagkerfið hrundi, traust á stjórnmálum hvarf og erlendar stofnanir tóku sér boðvald yfir hluta hagstjórnarinnar — Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn beint og brútalt, Evrópusambandið með slælegum hætti gegnum inngönguviðræðurnar. Þjóðaratkvæðagreiðslur voru í vissum skilningi hunsaðar, því flestir hafa jú meint „nei“-in sín í icesave-atkvæðagreiðslunum gegn samningum yfirleitt, ekki gegn þeim tilteknu samningum sem kosið var um. Og vinstristjórn gekk erinda alþjóðlegs fjármagns, holdgert í AGS. Hún gekk frá eftir síðasta fyllerí og lagði á borð fyrir það næsta. Tveir bankar í ríkiseigu voru einkavæddir og stefnt var að afnámi gjaldeyrishafta. Flestum húsnæðislánum var uppihaldið, að mestu óskertum.
Vissulega hefur Grikkland lent margfalt verr í því en Ísland, og samfélagið er ólíkt skemmdara fyrir vikið. Það er viðvörun um hvað hægt er að ganga langt í eyðileggingu mannlegrar reisnar á okkar dögum.
Þegar gervöll stjórmálin sammælast um að ræða ekki þarfir stórra hópa, þá verður til tómarúm sem popúlistar fylla uppí. Schröder hætti að berjast fyrir láglaunafólk og bótaþega. Syriza lagði upp laupana í stríðinu við Evrópu. Vinstristjórnin fiffaði í skuldamálum heimilanna, án þess að bylta þeim. Alternative für Deutschland, Gullin Dögun og „leiðréttingin“ hans Sigmundar Davíðs komu þá á hvítum gæðingi (eða á skellinöðru með eldsprengju í höndunum, í tilfelli Gullinnar Dögunar) og fylltu hvert í sitt tómarúm.
Popúlistar vilja endurheimta völd sem sagt er að almenningur megi ekki lengur hafa — stjórn á lánum, húsaleigu, stýrivöxtum, komu innflytjenda, bönkum og lífeyrissjóðum og svo framvegis. Þegar stjórnmálastéttin þegir um útbreitt vandamál eða hugðarefni er ekki annars að vænta en að einhver sem kallar sig „rödd fólksins“ byrji að tala um þau. Donald Trump er ágætt dæmi, nokkurs konar hríðskotabyssa þess sem ekki má segja. Fólkið sem langaði að segja þessa hluti kaus hann, og þar sem hann álítur sig hinn sanna fulltrúa fólksins eru allir sem eru ósammála honum ekki „fólkið“, heldur handbendi útlendinga og óvina, svikaranna og lygaranna. Enda segja popúlistar iðulega að fjárfestirinn (og gyðingurinn) George Soros fjármagni alla andstöðu við sig.
Undanfarnir áratugir hafa innleitt vonda tísku í stjórnmálum, þar sem stjórnmálamenn segjast vera ófærir um að breyta meginstoðum samfélagsins. Seðlabankar voru teknir úr lýðræðislegri umferð, rekstur opinberra fyrirtækja færður úr umsjá kjörinna fulltrúa. Innanríkisráðherra svipti sig ákvörðunarvaldi í hælismálum og stofnaði kærunefnd útlendingamála, sem gerði vonda og ósveigjanlega málsmeðferð verri og ósveigjanlegri. Spillingu og frændhygli var breytt í ósveigjanlega og sálarlausa teknókrasíu. Þetta hentaði stjórnmálamönnum, sem gátu þá firrt sig ábyrgð á sífellt versnandi ákvörðunum. Í Evrópu var ábyrgðinni varpað á skrifræði álfunnar, glerblokkirnar í Brussel og samningana um EES.
Þegar vald hefur verið tekið frá almenningi er lögmál að hann mun krefjast að fá það aftur. Ef stjórnmálastéttin neitar þeirri kröfu eru popúlistar síðasti öryggisventill lýðræðisins. Og einsog úr öryggisventlum getur komið úr popúlistum heitt loft og eiturgufur.
„Leiðrétting“ Sigmundar Davíðs er dæmigerð fyrir popúlisma okkar tíma. Skuldugu fólki var sagt að þau hefðu sjálf undirritað samninga, þau bæru ábyrgð á eigin ástandi, að lög væru lög. Inní valdaleysið og höfnunina kom sírenusöngur: skuldirnar ykkar eru óréttlátar, ég skal leiðrétta þær. Það var hlegið að Simma, sagt að þetta væri ómögulegt. Vinstrið tók ekki undir tillögurnar hans, heldur fitjaði uppá nefið og sagði einsog forhertustu kerfissinnar að svona væri ekki hægt og mætti ekki. Sigmundur Davíð var eftirlátinn Sjálfstæðisflokknum, sem passaði að „leiðréttingin“ færi í rétta vasa.
Hægrimenn víla ekki fyrir sér að stela verstu og gagnslausustu stefnumálum popúlista og snúa restinni í andstæðu sína. Þannig geta þeir beint athyglinni frá efnahagsmálunum, sem eru rót vandans. Undanfarið hafa miðjuflokkar í Austurríki og Hollandi „sigrast“ á popúlisma með því að taka upp ljótasta orðfæri hans. Repúblikanar hafa nýtt sér Trump sem flugeldasýningu meðan þeir hlaupa meðal gapandi múgsins og tína veskin úr vösum þeirra. Framsókn í bænum hatast við múslima þegar fylgið lækkar, Sjálfstæðisflokkurinn geltir á flóttamenn rétt nógu sjaldan til að halda fagmennskuyfirbragðinu. En á meðan hægriflokkar taka upp málefni öfgahægrisins, þá hafa ráðalausir sósíaldemókratar látið glóðarsteikja sig í ösku miðjustjórnmála og brunarústum þriðju leiðarinnar. Ef þeir þora ekki að taka slaginn sem Jeremy Corbyn hefur vaðið í, gegn aðhaldspólitík Bretlands, gegn rétttrúnaði markaðshyggju og einkareksturs, þá er framtíðin okkar einstefnugata til hægri.
Í Kíos er þetta ekki forspá heldur hversdagslegur veruleiki. Þar var leiðinni til mannúðar og jöfnuðar ekki lokað óvart, heldur viljandi, af ytri máttarvöldum. Ermioni háir baráttu fyrir litlum og persónulegum sigrum í þágu hinna verst stöddu. En á bak við tjöldin eru nú önnur öfl komin á stjá, skuggalegir kaupahéðnar og háttsettir lögfræðingar, nafnlausir menn sem senda Vournous ábendingar og viðvaranir. Þeir segja komu flóttamanna vera samsæri, íslamska innrás, að vernda þurfi eyjuna fyrir löngum armi Erdogans. Svona ískyggilegar fabúleringar og samsæriskenningar koma venjulega úr fulltrúum Gullinnar Dögunar. En hvaða máli skiptir merkimiðinn, ef innihaldið er eins?
Vesturlönd fengu árið 2008 áminningu að efnahagur þeirra var byggður á lygum. Ekkert var lagað, því engin kraftmikil öfl voru til staðar sem gátu ögrað stoðum hagkerfisins. Við höfum enn einkavæddan auðlindaarð, tekjulaus álver, skattfrjálsa yfirstétt og stjórntækan auðvaldsflokk. Kapítalismi Vesturlanda er í öndunarvél og sér ofsjónir: Seðlabankar dæla peningum í hagkerfið, samt eykst fátækt vinnandi fólks. Hagvöxtur rýkur upp en velferðarkerfi molna saman. Popúlistar tala máli hinna raddlausu en fá betri undirtektir hjá auðvaldsflokkum en gömlum alþýðubandalögum. Besta leiðin til að stoppa byltingu er kannski að gefa eftir sem hraðast. Á Íslandi höfum við meira svigrúm til þess en margar þjóðir. En ef bara hægrið tekur upp þráð popúlistanna, og allir þegja áfram um róttækar efnahagsbreytingar til að rétta hlut fátækra, stritandi snauðra og öryrkja, þá gæti dögun samfélagsins verið gullnari en við kærum okkur um.
Birtist fyrst á pistillinn.is