Ég heyrði fyrst minnst á David Foster Wallace í póstsamskiptum við rithöfund (slík samskipti eru ögn erfiðari í framkvæmd en maður ímyndar sér, þar sem rithöfundar virðast gefa almennt skít í annað fólk ef það er ekki að gefa þeim undir fótinn eða að bjóðast til að auglýsa bókina þeirra). Hann nefndi í framhjáhlaupi kvikmynd byggða á smásagnasafni eftir Wallace – Brief Interviews With Hideous Men – smásögur og kvikmynd sem síðar breyttu hugsun minni á róttækan hátt.
Þannig byrjar árátta sem hefur varað í tæpt ár núna. Eftir að hafa horft á myndina las ég smásagnasafnið, sem svo skemmtilega vill til að ég fékk í afmælisgjöf frá rithöfundinum sem kynnti mig fyrir Wallace. Þar á eftir fór ég að kynna mér líf hans, lesa mér til um þennan mann sem mér fannst hafa einstaka innsýn í mannlegt eðli (hæsta lof sem ég get gefið nokkrum manni).
Raunin er sú að verandi ungur maður, kvíðinn og hlédrægur eftir að hafa hrist af mér galsa og heimsku æskunnar, sem skrifar sér til yndis vegna þess að allt annað skortir þann eiginleika sem skrifin hafa – að heimurinn hættir að vera til og ég get notið þess að vera einn með sköpuðum persónum, í aðstæðum og umhverfi sem ég er fullviss um að mér verði ekki meint af – þá lít ég ósjálfrátt upp til rithöfunda. Ég ímynda mér að ég hafi eitthvað að segja sem þeir hafa áhuga á að heyra, að túlkun mín og reynsla af ritverkum þeirra sé einhvers virði. Ég vonaði einnig að þeir hefðu einhvern áhuga á að miðla visku til yngri kynslóðarinnar, að framtíð bókmennta á Íslandi skipti rithöfunda landsins einhverju máli. Raunin varð sú að af þónokkrum rithöfundum sem ég hafði lesið, leit upp til og senti póst til, svöruðu mér tveir. Við tveimur af kannski tíu póstum, sendum á tveggja ára tímabili, barst svar. Út frá þessum samskiptum birtist svo David Foster Wallace í lífi mínu.
Wallace var tiltölulega kvíðinn maður, það best ég fæ séð. Ég er afar illa að mér hvað varðar ritverk hans, hafandi lesið smásagnasafnið fyrrnefnda og svo látið bækurnar hans vera þar til ég tók upp safn af blaðagreinum eftir hann í síðustu viku. Það sem heillar mig við hann er persónuleikinn, hve mjög hann talar til mín sem manneskja, hvernig hann andar snöggt frá sér áður en hann útskýrir sjónarmið sitt í annað sinn til að fullvissa sig um að viðmælandinn sé að skilja hann rétt. Hann skrifaði af hugsjón, þ.e.a.s. hann vissi hvað hann vildi segja með sögum sínum og hann sagði það. Í langri grein um áhrif sjónvarpsins á samfélagið, þá sérstaklega með tilliti til ungra rithöfunda og framtíð bókmennta í valdatíð sjónvarpsins, talar Wallace um það hvernig póstmódernísk sjónvarpsdagskrá og sjálfsgagnrýnandi sjónvarpsþættir gera manni nærri ógerlegt að deila á þá. Þessari hugmynd er ég fyllilega sammála, þrátt fyrir að vera ötull notandi sjónvarpsins (eitthvað sem Wallace kemur einnig inn á í þessari mögnuðu grein). Mér verður hugsað til orða Karls Popper: „Ef vísindaleg staðhæfing á við um veruleikann verður hún að vera hrekjanleg“. Að sama skapi er öll alvarleg og menningarleg sköpun gagnrýnanleg, að mér finnst. Ég er hinsvegar kominn út af sporinu og leyfi mér að mæla eindregið með greininni, E Unibus Pluram: Television and U.S. Fiction (PDF-hlekkur).
Bækur eru góð leið til að fatta að þú ert ekki einn í heiminum. Það á sér stað einhverskonar flutningur, samskipti sem á einhvern einstakan hátt eiga sér eingöngu stað þegar bók og lesandi koma saman, Stephen King kallar það hugsanaflutning. Þegar mér líður hvað verst er lítil svört bók sem ég tek upp og glugga í, hún heitir Útgönguleiðir og fyrir guðlega forsjón léðist mér eintak í bókabúð Máls og Menningar fyrir nokkrum árum. Bókina las ég á einu kvöldi, á þessum tíma „stundaði ég nám“ við HÍ eða eyddi öllum mínum tíma inni í 3 fermetra steypubúri lesandi og skrifandi.
Ég segi að bókin hafi komið inn í líf mitt fyrir guðlega forsjón af þeirri einskæru ástæðu að hún talaði svo til mín við fyrsta lesturinn að ég fann mig knúinn til að senda höfundi hennar – manni sem ég vissi nánast ekkert um en fannst ég þekkja eftir lesturinn – póst. Bókin tók á einsemd, oft og á allskonar vegu, í það minnsta túlkaði ég hana þannig. Seinna meir myndi þessi rithöfundur sem ég þekkti ekki neitt, fyrir tilviljun, nefna smásagnasafn á nafn.
Einhverntímann fyrir síðustu jól rakst ég á mynd á Netflix, The End of the Tour. Á plakatinu var mynd af tveimur tiltölulega þekktum leikurum sitjandi í bíl, annar með bandanaklút á höfðinu. Ég ákvað að skoða hana betur og sá þá að þetta var sannsöguleg mynd um einstakt fjögurra daga viðtal David Lipsky frá Rolling Stone við David Foster Wallace, sem var að ljúka kynningarferð fyrir nýjustu bók sína, Infinite Jest.
Með því að nefna The End of the Tour er ég aðallega að reyna að sýna fram á að þrátt fyrir að ég hafi hugsað gríðarlega mikið um David Foster Wallace síðastliðið ár þá virðist vera sem mér sé ætlað að hugsa um hann. Í hvert sinn sem ég hef farið að huga að öðru þá sprettur hann upp, í bókarformi eða kvikmynda. Ef ég hugsa til baka, þá mætir hann þegar ég er einmana, þegar einsemdin er hvað mest þrúgandi.
David Foster Wallace svipti sig lífi árið 2008. Hann hafði þá verið að kljást við þunglyndi og kvíða í fjöldamörg ár. Í skrifum hans þykist ég sjá skilning á því hvernig tilfinning það er að finnast maður vera einn um öll heimsins vandamál, af hverju einstaklingur lokar sig af og sökkvir sér í greiningu á eigin tilfinningum og óttum, vitandi að lausnin er ekki innra með honum.
Það eru tveir höfundar sem hafa slegið á þrákelkna einsemdartilfinninguna sem hefur grafið um sig innra með mér og neitar að hverfa á braut. Annar er látinn og hinn er þekktur sem höfundurinn sem eitt sinn var kallaður efnilegasti höfundur landsins.
There’s a thing in the book about how when somebody leaps from a burning skyscraper, it’s not that they’re not afraid of falling anymore, it’s that the alternative is so awful. And so then you’re invited to consider what could be so awful that leaping to your death would seem like an escape from it. I don’t know if you have any experience with this kind of thing. But it’s worse than any kind of physical injury. It may be in the old days what was known as a spiritual crisis: feeling as though every axiom in your life turned out to be false… and there was actually nothing. And that you were nothing. And that it’s all a delusion and you’re so much better than everybody ’cause you can see how this is just a delusion, and you’re so much worse because you can’t fucking function. It’s really horrible.”
– The End of the Tour
Ég fór að leggja það í vana minn í nóvember síðastliðinn að hlusta á viðtöl við David Foster Wallace fyrir svefninn, hlusta á hann ræða um þemu bóka sinna og ýmis málefni í Bandaríkjunum eða jafnvel er varða heiminn allan. Eins sorglega og það hljómar þá er ég ekki eins einmana þannig. Viðtöl við látinn mann og lítil svört bók full af örsögum um einstaklinga sem ráfa einir í gegnum lífið, eða í það minnsta þessi andartök sem sögurnar sýna. Af því sem ég hef lesið eftir þessa tvo menn, sem báðir koma inn í líf mitt fyrir tilstilli æðri máttar eða tilviljana, þá hafa þeir báðir haft sín kynni af einsemd. Í gegnum skrifin eiga sér stað þessi samskipti, þau hlekkja okkur saman. Þegar ég les finn ég hvernig léttir á mér, ég finn fyrir samhug og skilning. Allt verður bærilegra. Það birtir yfir landslaginu. Í stað þess að vera einn erum við orðnir þrír saman, þrír samhuga menn í einsemd.