Ef lýsa ætti Millilendingu Jónasar Reynis í einu orði, þá væri það orð: raunsæ. Hinsvegar krefst gagnrýni annars og meira en eins orðs, jafnvel þó um rétt orð sé að ræða.
Bókin inniheldur allt sem góð millilending verður að hafa: bið, vandamál, óvissa, tilvistarkreppa og eftirsjá. Án þessara hráefna er millilending eins og hvert annað pit-stop í ferðalagi.
Millilendingar eiga það til að vera svarthol, tóm sem afneitar allri tilvist, með því má færa rök fyrir því að upplifanir og gjörðir í millilendingu hafi ekkert vægi; þær breyta engu þaðan sem þú komst og munu engu breyta þar sem för þinni er heitið. Fótspor þitt í snjónum fyrir utan flugvöllinn og sígarettustubburinn í blómapottinum munu engu breyta fyrir þetta útskot í lífi þínu, líklega mun reynslan skipta þig afar litlu máli eftir að hún er afliðin.
Þannig verða tilveruforsendur Maríu í grámyglulegum veruleika Reykjavíkur — Drykkja, sjálfsleit, nostalgía og litirnir hans Karls Kvarans — og teljandi stöðumælar samverustundanna að grunnstefi bókarinnar. Hún getur ómögulega gert upp við sig hver tilgangur hennar í Reykjavík er.
Stoppið vindur upp á sig merkingu með hverri illa rökstuddu og óheillalegu ákvörðun Maríu. Þar leiða sjálfseyðingarhvöt og sjálfsleit saman hesta sína svo hvert feilspor leiðir til uppgötvunar. Höfundi tekst afar vel að gera þessa þróun og persónurnar að raunhæfum myndum sem birtast lesandanum. Söguhetjan er óákveðin og óviss um það hver rétt stefna í lífi hennar er. Hún lætur sig dreyma um samband sem hún hafnaði og líf sem ekki er raunhæft til lengri tíma, það er varla hamingjuríkt samband milli tveggja aðila sem reyna að hittast eins lítið og mögulegt er.
Prósi Jónasar er hnitmiðaður og góður, hann er upplifun sem minnir á Steinar Braga þrátt fyrir að stíllinn og hugmyndirnar séu allt aðrar en hjá þeim höfundi. Hann veit algjörlega hvaða hlið raunveruleikans og hvaða kafla mannlegrar tilvistar hann vill sýna og fræða lesendur sína um.
Aðalpersónan, María, reynir að gera sér grein fyrir því hver hún vill vera. Minnimáttarkennd hennar heldur henni í klóm sjálfseyðandi hegðunar — þar sem allt sem ekki eyðileggur sig sjálft fær hjálparhönd — og ótti hennar við einsemd sér til þess að hún er umkringd fólki. Fólk sem getur ekki hjálpað henni og óvíst er hvort þau myndu hjálpa ef þau gætu. Hún á erfitt með að sjá fyrir sér rólegheit og stöðugleika og leitar þess vegna í félagsskap þeirra sem leitast ekki við að eiga neina framtíð, rótleysi og óreiðu.
Höfundur fer víða, fleytir hugmyndum um hin ýmsu málefni til lesandans. Honum tekst t.a.m. að gefa raunsanna mynd af eiturlyfjaneyslu — sér í lagi mikilvægi fyrsta skiptisins og sífelldan eltingarleik fíkla við júforíu fyrrnefnds skiptis — það hvernig talað er um annað skiptið í beinu framhaldi af fagri sögunni um fyrsta skiptið segir allt sem segja þarf um afneitun fíkla á hverfulleika hamingjunnar sem fólgin er í því efni sem þeir ánetjast.
Það er sjaldséð og vandmeðfarin fegurð fólgin í gróteskri makaleit hins fulla manns. Jónasi tekst að mála þá leit á striga af miklu listfengi. Þó maðurinn sjálfur, á myndinni, sé hvítur skuggi með hatt eru smáatriði og metnaður höfundar auðsjáanleg í öllu í kring. Þannig verður greining höfundar sú allra besta sem í boði er, ekki að það aftri okkur hinum við að spreyta okkur við hið sama.
Í grunninn má segja að hér sé komin raunsönn mynd af veruleika ungs fólks um helgar, bók sem líklega ætti best heima til sölu við barinn en þar á eftir sem skyldulesning í menntaskóla.