Í sögum sínum hefur Steinar Bragi oft leitast við að afbaka heiminn, taka það sem er uppi á borðum flesta daga, það sem allir hafa reynt og séð, og komið því vel fyrir í bakgrunninum. Það sem er í forgrunni er það sem ekki er uppi á borðum.
Í nýjustu bók sinni segir höfundur, á bókarkápunni, að það sé í ástinni sem við gleymum smæð okkar, í framhaldi heldur höfundur eða forlagið því fram að í bókinni birtist ástin í öllum
sínum myndum.
Ég ætla ekki að mótmæla þeim staðhæfingum. Ást, í hinum ýmsu og oft einstaklega túlkanlegu og afbökuðu myndum, birtist í styttri eða lengri tíma í sögum bókarinnar. Hinsvegar leyfi ég mér að koma minni eigin skoðun að. Sorgin er límið sem heldur þessum sögum saman. Ég skora á hvern sem er, jafnvel höfundinn sjálfan, að lesa bókina yfir og vera mér ósammála að gegnumgangandi þráður bókarinnar sé ekki sorg.
Þar með mætti segja að á bókarkápu sé eitt uppi á borði og innan í bókinni læðist eitthvað annað fram í dagsljósið. Í sögunum glittir í eitthvað drungalegt og myrkt. Ég kýs að kalla það mannlegt eðli, íslenskra höfunda fremstur í að mála mynd af því er Steinar Bragi. Til varnar þeirri staðhæfingu er sagan “Ósýnileikinn”. Þá er ekki þar með sagt að mannlegt eðli sé, í eðli sínu, myrkt. Hinsvegar má halda því fram að jafnvel göfugustu málstaðir geta leitt af sér illvirki og oft þarf lítið til svo út af beri.
Í ósýnileikanum segir hann sögu af konu sem verður ósýnileg. Eiginleiki sem hún, í fyrstu, notar til að svala forvitni sem mér þykir líklegt að búi innra með okkur öllum, meðvitað eða ómeðvitað. Hvað gerir annað fólk þegar við erum ekki á staðnum, þegar það heldur að það sé eitt í herberginu. Það er spurningin sem aðalpersóna sögunnar fær svarað. Hvaða undarlegu hættir tíðkast í svefnherbergjum annarra, bak við luktar dyr. Með eiginleikanum vaknar svo önnur forvitni, heldur undarlegri og ónærgætnari í framkvæmd. Sagan tekur á sig þann einstaka blæ sem Steinar einn getur kallað fram, þ.e.a.s. hún fetar sig niður slóða sem fæstir hafa farið áður. Hún gæti vel vakið óhug einhverra, hinsvegar er raunin sú að ómögulegt er að slíta sig frá henni, rétt eins og flestum öðrum sögum Steinars.
Undirrituðum þykir óráðlegt að nefna það ekki að höfundi semur full vel við fyrstu persónuna, þrátt fyrir að hafa forðast hana mestallan sinn feril, að tveimur gríðarlega vel skrifuðum, ófáanlegum og lítt þekktum ritum frátöldum. Sumar sögurnar eru svo þrúgandi í frásögn sinni að við lesturinn gleymist að um skáldverk sé að ræða.
Betri umsögn veit ég ekki um bók en einmitt það, við lesturinn gleymist bæði staður og stund, lesandi fjarflyst inn í atburðarásina og þarf virkilega að hafa sig allan við til að komast heill heim.
Ég myndi hiklaust mæla með Allt Fer, þó hún sé nærgöngul er hún einnig áræðin, höfundur fylgir ímyndunarafli sínu og listrænu innsæi hiklaust eftir niður dimmustu stíga mannlegrar vitundar. Það er undir þér komið hvort þú fylgir honum eftir.