Net- og nátttröllin hans Guðbergs Bergssonar

Í hvert skipti sem snákurinn Guðbergur Bergsson skríður slímugur út úr helli sínum og engist um í illskiljanlegum orðakrampa sem eflaust er ætlað að hrista upp í staðnaðri og nautheimskri íslenskri þjóð – beitir til að mynda annálaðri orðsnilli sinni til að gera grín að fórnarlömbum kynferðislegrar misnotkunar, nú, eða þá bara konum sem heild – rísa ævinlega upp nokkur æst net- og nátttröll áfjáð í að verja höfund skáldsögunnar Tómas Jónsson metsölubók. Tröllunum verður jafnan tíðrætt um mikilvægi þess að rithöfundar ögri, líkt og sagnorðið hafi ekki beint merkinguna „að bjóða einhverjum byrginn“ heldur í rauninni frekar merkinguna „að vera algjört fífl“. Eiginlega mætti segja að Guðbergur hafi í seinni tíð tekið að sér að vera konungur net- og nátttröllanna: eins konar fjasandi myrkrahöfðingi; lifandi sönnun þess að maður getur helgað sig bókmenntunum í sextíu ár og samt sem áður þaggað niður í sér alla hæfileika til að inspírera fólk eða upptendra aðra en net- og nátttröll (eins ótrúlegt og það þó kann að hljóma). Við skulum byrja á sakleysislegum, allt að því barnslegum athugasemdum Guðbergs í nýlegu viðtali en síðan kafa aðeins dýpra í vitleysuna. Nú síðast segir Guðbergur í einkennilegu viðtali við hinn mæta Eirík Guðmundsson á Rás 1 (12. feb. 2017): „Halldór Laxness er rithöfundur. Ég er skáldsagnahöfundur. Hann leitar í eitthvað sem er til — en ég bý til.“ Og ég spyr: Hvað í ósköpunum er maðurinn að tala um? Nú er Sjálfstætt fólk, að mínu viti, – og að öðrum höfundum íslenskum ólöstuðum – besta skáldsaga sem við eigum. En skyndilega er Halldór Laxness ekki skáldsagnahöfundur? Getur net- og nátttröllafylking Guðbergs varpar skýrara ljósi á orð meistara síns?

Þetta dæmi er aðeins eitt af mörgum úr þessu viðtali sem er eins konar flugeldasýning á himni vanhugsaðra athugasemda, sannkölluð fjarsjóðskista fyrir þá sem hafa unun og ánægju af óskiljanlegum – og oftar en ekki merkingarlausum – ummælum aldraðra spekinga sem hafa að keppikefli að virka glöggskyggnir, spes og ögrandi.

En hvert er tilefni viðtalsins? Jú, það er útvarpslestur höfundar Tómasar Jónssonar metsölubókar á (nema hvað?) Tómasi Jónssyni metsölubók  (guð má vita hversu langan tíma sá lestur hlýtur að taka). Ég skil svo sem vel að Tómas Jónsson metsölubók hafi verið hressandi sending um miðja 20. öldina og jafnvel „exi á íshafið innra með okkur,“ en ég veit svo sem ekki hversu vel hún hefur elst; það hvarflar ekki að mér ráðast á bækur skáldsins, þó að þær hafi aldrei heillað mig neitt sérstaklega. Tómas Jónsson metsölubók var, að sögn skáldsins, viðbragð við steinrunnu samfélagsástandi; Ísland hafi verið staðnað, bæði menningarlega og pólitískt séð, segir Guðbergur og hljómar ennþá reiður og hatursfullur yfir ástandinu í kringum 1966 þegar verkið kom út.

„Þetta var fullkomin þjóð,“ segir skáldið ívið yfirlætisfullt. „Átti svo marga bíla. Átti svo marga ísskápa. Við þurftum ekki á neinu að halda. Við þurftum ekki heldur á neinu að halda í bókmenntum. Ekki nokkurn skapaðan hlut. Við vorum svo ánægð í stöðnuninni. Sérhver maður, sem er rithöfundur og með eitthvað í höfðinu, finnur hvöt hjá sér að ráðast gegn þessari stöðnun.“

Og Guðbergur var sem sagt með eitthvað í höfðinu – ekki kemur fram hvort það var kremkex eða mjólkurhristingur – og út vall Tómas Jónsson metsölubók.

Guðbergur Bergsson úthýsir konum úr íslenskum skáldskap

Ástæða þess að ég skrifa þetta er þó hápunktur viðtalsins: Eins konar úrslitatúlkun Guðbergs á íslenskum bókmenntum.

(Taka skal fram að Eiríkur Guðmundsson stendur sig með sóma, honum fipast aldrei þó að svör Guðbergs verði æ sérkennilegri eftir því sem líður á spjall þeirra.)

Í sem stystu máli, þá fullyrðir Guðbergur sem sagt að í íslenskum skáldskap (og það frá upphafi, ef ég skildi hann rétt) séu aðeins tvær týpur: Bjartur í Sumarhúsum og svo Tómas Jónsson. Sem sagt: Íslenskar bókmenntir hafa að geyma hann Bjart okkar og svo persónu eftir Guðberg sjálfan. Engar kventýpur (nema Bjartur og Tómas spanni þær bara líka) og engar aðrar eftirtektarverðar, djúpristandi, minnisstæðar týpur í nokkurri einustu íslensku bók nema eitt stykki kynsveltur, þurrgeðja, þrár sauðhaus úti í sveit og svo eitt stykki semí geðbilaður, masandi, vægast sagt frekar óáhugaverður náungi í kjallaraíbúð. Beint í mark. Við stöndum öll í skugga Halldórs Laxness (ókei, samþykkt) … og Guðbergs Bergssonar? Á hvaða plánetu vaknaði ég?

„Á vissan hátt hef ég hatur á skáldskapnum,“ segir Guðbergur næst og er þá, ef marka má grobbtitringinn í eigin raddböndum, kominn á allnokkurt flug. Mig langar að vitna til einkennilegar runu sem hann lætur síðan út úr sér og ég vona að enginn annar á jörðinni taki sér til fyrirmyndar: „Hatrið er mjög mikilvægt sem sköpunarkraftur,“ segir Guðbergur. „Á nákvæmlega sama hátt og guð og djöfullinn. Djöfullinn, hann hefur meira notagildi en guð. Vegna þess að guð er óumbreytanlegur, en djöfullinn er það ekki. Þess vegna segi ég að Loki sé minn guð. Vegna þess að hann er óútreiknanlegur og rithöfundurinn á að vera það líka. Ef hann setur sig á háan sess, þá er hann eins konar guð og þá er hann búinn að vera. Þá á hann enga útleið – hið góða er endapunktur.“

Hið góða er endapunktur?

Og er Guðbergur ekki að setja sig á háan hest?

Og annað: Bara þessi pæling um hatrið eitt sér sem einhvers konar sköpunarlind og elixír?

Ég hef gúglað bæði guð og djöfulinn og finn ekki alveg fúttið – eða dýptina – í þessum orðum. Hatrið er vissulega mikilvægt sem sköpunarkraftur – og sem tortímingarafl. Flott að fá innskot frá slíkum kyndilbera á þessum síðustu og bestu: Áminningu um gæði hatursins – nokkuð sem ég þurfti einmitt á að halda eftir að hafa undanfarið tekið þátt í skipulögðum mótmælum gegn öðrum tilfinningadempuðum karli sem nýlega steig í valdastól Washington (þar með hegðaði ég mér sennilega mér eins og fyrirsjáanlegur endapunktur?). Hér er ekki úr vegi að rifja upp orð Ray Bradburys, þess fína bandaríska höfundar, sem sagði að maður ætti að skrifa um það sem maður bæði elskar og hatar; það sem maður vill hefja í hásæti annars vegar og steypa af stóli hins vegar. En munurinn á Guðbergi og Bradbury er sá að í tilviki hins síðarnefnda er gleðin/ástin elixírinn sem slekkur bál hatursins. Hatrið er ekki „endapunktur“ í sjálfu sér, svo að við notum tungutak skáldsins.

Ef það er eitthvað sem er útrunnið – sem er staðnað, útbrunnið, óþolandi – þá er það rithöfundurinn sem belgingslegur, karlkyns, guðs-kryfjandi, predikandi, gegnum-holt-og-hæðir-sjáandi besserwisser. Og Guðbergur virðist ekki fatta að hann er sjálfur orðinn að stöðnuðu trölli: bitrum hellisbúa sem grettir sig framan í sólina þá sjaldan hann skríður fram í dagsljósið, frá myrkrinu árið 1966 og til hækkandi sólar ársins 2017. Ég man eftir að hafa séð hann tala um „það ritóða kyn“ og gera grín að skrifandi, karlkyns besserwisserum. En ég sé satt að segja ekki alveg muninn á honum og þeim sem hann gagnrýnir.

Ég ætla bara að vera alveg hreinskilinn með þetta: Maður fyllist ískrandi beyg – og satt að segja hálfgerðri örvæntingu – þegar maður heyrir svona vitleysu koma frá öldruðum höfundi sem ætti með réttu að hafa náð miklum og víðfeðmum þroska, eftir heila ævi af lestri og skrifum, og vera í stíl við slíkan lífsstíl vitur, gjafmildur, inspírerandi, kærleiksríkur, réttsýnn. Ég hef heyrt fólk halda því fram að Guðbergur Bergsson sé einn mesti núlifandi höfundur á íslenska tungu og jafnvel „eini Nóbelsverðlaunakandídatinn“. Geta net- og nátttröllin fært rök fyrir slíkum niðurstöðum, því að ég rata ekki sjálfur á þá endastöð?

Og svo ég komi nú bara líka út úr skápnum með væminn og persónubundinn sannleika, þá fer nærri að maður – þ.e. ég: ungur höfundur rúmlega hálfri öld yngri en GB – leggi árar í bát, hætti alfarið að lesa og skrifa og fari að sýsla eitthvað allt annað, ef útkoman af sextíu ára þrotlausum ritstörfum og lestri „eina íslenska Nóbelsverðlaunakandídatsins“ er svofelld: vankaður þverhaus sem bylur óhindrað tóma vitleysu í síðasta vígi íslenskrar menningar, Rás 1. Til hvers að standa í þessu stappi ef blómlegur, íslenskur ritferill nær virkilega ekki lengra en þetta? Ef þessi gamli gullkálfur „bókaþjóðarinnar“ megnar ekki að ná hárri elli með meiri reisn en raun ber vitni?

Fallega hliðin á Guðbergi Bergssyni

Sko.

Ég skrifa þetta vegna þess að mér er annt um íslenskar bókmenntir (og framtíð þeirra). Ef þær eiga að haldast á lífi (og eiga sér einhverja framtíð), þá þurfum við að ræða um þær af ástríðu og ekki láta það líðast að svona þvæla streymi gagnrýnilaust út úr mönnum í (meintri) úrvalsdeild. Eflaust eru net- og nátttröllin ósammála mér, en þau verða þá bara finna mig í fjöru og annaðhvort skora á mig í sjómann (og tapa) eða reyna að leiða mér fyrir sjónir ágæti höfundarverks GB.

Ég hef reyndar lesið meira af skrifum Guðbergs Bergssonar en ég kæri mig ekki um að rifja upp hér – en ég skal gera það símleiðis ef fólk bara hringir – og það besta, sem ég hef rekist á eftir kauða, er fallegur formáli sem hann ritar að Samastað í tilverunni eftir Málfríði Einarsdóttur, þann ágæta höfund (kiljuútgáfa Forlagsins, 2008). Mikið vildi ég óska að Guðbergur Bergsson hefði kynnst fleiri manneskjum á borð við Málfríði, manneskju sem virðist ná að laða fram þá fallegu hlið á honum sem þar brýst í gegnum gremjuna og biturðina. Því að þetta er skrambi fínn formáli hjá honum.

Með því að leigja hjá Málfríði stóð ég á hátindi þeirrar blessunar sem skáldkonur geta veitt: Maður hættir að hlusta á sitt eigið fótatak og fer að rýna í tilveruna.

Sumir halda að það sé hlutverk höfunda að ögra og hrista upp í fólki – og það er alveg rétt. En hittir Guðbergur ekki þarna einmitt naglann á höfuðið? Vissulega má hrista upp í fólki á þúsund ólíka vegu og í þessum formála tókst Guðbergi í fyrsta skipti að hrista upp í mér. Kannski hann mætti rifja upp þessi orð sín?

„Ég sé hana fyrir mér núna í óraunveruleika minnisins,“ ritar Guðbergur um Málfríði,

í því sem var áður veruleiki, hvernig hún deplar augunum ótt og títt og horfir á jurt dapurleikans úti í stofuhorni. Á jurtinni – hún kallaði hana Ófreskjuna – voru flipuð blöð sem lufsuðust meðan ný uxu ofar, fyrst græn en sölnuðu eftir því sem þau færðust neðar. Málfríður undi sér við að horfa á hvernig þau leituðu dauðans, undust saman og enduðu sem rusl á gólfinu.

Ekki breytast í Ófreskjuna, Guðbergur. Ekki enda sem rusl á gólfinu.