R&B séð í gegnum rangeygð gleraugu

Spaceland er fjórða breiðskífa Sin Fang og á henni tekur Sindri annan pól í hæðina, tónlistarlega, en við erum vön frá honum. Platan var samin á meðan hann þjáðist af kvíðaköstum og fannst hann við dauðans dyr hvern einasta dag. Hann sér sjálfur um allan hljóðfæraleik en fær í heimsókn nokkra vini sína til að syngja með sér. Það eru Jónsi, Sóley, Jófríður Ákadóttir og Farao sem leggja honum lið við sönginn. Platan var tekin upp í Reykjavík og LA. Morr Music gefur út.

Eins og fyrr sagði þá kveður við annan tón á Spaceland. Í stað indí poppsins á fyrri plötum hefur hann snúið sér að nokkuð hreinni R&B tónlist. Ég verð að viðurkenna að þegar ég heyrði, undirfara plötunnar, lagið Candyland, sem Jónsi syngur í, varð ég bara hálf skúffaður og slökkti er lagið var u.þ.b. hálfnað. Ef ég hefði ekki vitað betur hefði ég talið mig vera að hlusta á Justin Bieber en ekki Sin Fang. Svo vel fannst mér þessi R&B umbreyting takast hjá honum. En þar sem hann hefur áður gert þrjár eðalskífur sem finnst sóma sér vel í plötuskápnum í stofunni hjá mér þá fannst mér hann eiga það inni hjá mér að ég hlustaði aftur og ég vandist hljóðheiminum og lagið vann á.

Þetta ferli endurtók sig að nokkru leyti þegar ég hlustaði á plötuna í fyrsta sinn. Mér fannst sum laganna keimlík og átti erfitt með að halda athyglinni. En áður en fyrstu hlustun lauk var platan búin að opna sig fyrir mér. Ég gæti vel trúað að aðrir vanir Sin Fang hlustendur gætu gengið í gegn um það hið sama án þess að ég ætli að fullyrða neitt um það. En eins er hætt við að með því að taka þetta skref gæti hann misst hlustendur án þess að laða að nýja eins og The Byrds gerðu með plötu sinni Sweetheart of the Rodeo. Þar reyndi hljómsveitin að sameina rokk og kántrýtónlist með þeim árangri að missa meginhluta aðdáenda sinna þar sem þeim hugnaðist illa kántrýið en náðu fáum kántrýhlustendum þar sem þeim fannst þetta ekkert kántrý.

En alvöru listamenn láta slíkt ekki hindra sig þegar sköpunargyðjan kallar, enda styggir maður fyrr hlustendur en hana. Þrátt fyrir að mín óþjálfuðu R&B eyru hafi í fyrstu talið þetta nokkuð hreint popp af Biebergerð, þá varð mér fljótt ljóst að það væri nú samt séð í gegnum rangeygð indígleraugu. Þetta kemur kannski best í ljós í lögunum I Want You To Know og Down sem Jófríður Ákadóttir syngur með honum. Í því lagi sýnir Jófríður líka hvað hún er sterkur flytjandi þar sem það lag nánast verður að Pascal Pinion lagi á meðan hún syngur.

Þó að mér þyki platan góð, og ekkert lag á henni sem getur talist beint vont, þá eru lög á henni sem mér þykja enn heldur lík. Kannski er það einhvers konar R&B eiginleiki, enda þykja mér öll slík lög yfirleit heldur einsleit. Á móti þessum galla kemur að önnur lög eru hreint út sagt framúrskarandi. Bestu lög plötunnar þykja mér Never Let Me Know þar sem Sóley kemur við sögu, I Want You To Know og svo fyrrnefnt Down.

https://www.youtube.com/watch?v=9RLTjLgIQzc

Á fyrri plötum Sin Fang hefur gróður verið til staðar á umslögum en í þetta sinn fáum við mynd af Sindra með plastpoka yfir höfðinu. Þetta þykir mér fyrirtaks lýsing á breytingunni og á hvaða stað hann var í lífinu þegar hann samdi verkið.

Ég mæli hiklaust með þessari plötu þrátt fyrir smá einsleitni í fáum lögum. Þrátt fyrir einsleitnina eru þau fín lög og eiga sín góðu móment og á plötunni er að finna lög sem eru alveg jafngóð, ef ekki betri, og er að finna á fyrri verkum Sin Fang. Heildarmyndin er góð og ég vona að platan verði ekki fórnarlamb latra hlustenda eins og The Byrds lentu í á sínum tíma.