Bítlarnir eða Stóns? Það er hin eilífa spurning á meðal tónlistaráhugamanna. Hjá mér hefur svarið alltaf verið Stóns. Það þýðir ekki að mér finnist Bítlarnir vondir, bítlaplaylistinn minn á Spotify er 94 lög sem ég valdi frá ferli þeirra sem hljómsveit og sólólistamanna. Hins vegar finnst mér Bítlarnir aldrei hafa gert plötu sem var góð frá upphafi til enda. Þeir komust nærri því á Abbey Road en eyðilögðu það með því að setja saman syrpu úr ókláruðum lögum sem mörg hver eru góðar hugmyndir en samt ókláruð og í heildina léleg.
Rollingarnir eru hins vegar, að mínu mati, ósnertanlegir frá Aftermath þar til Exile on Main Street sem rís hæst á annars risháum ferli. Að auki bæti sveitin rósum í hnappagötin með Some Girls og Tattoo You, Undercover átti líka ágæta spretti þá sér í lagi titillagið. Hins vegar fór að halla undir fæti hjá bandinu eftir það. Hljómsveitin fór að eltast við tískustrauma í tónlist í stað þess að valda þeim og ofvinna upptökur sínar. Hljómurinn varð of fágaður, lögin verri og plöturnar oft of langar. Mick Jagger er oftast kennt um þetta og hægt er að benda á sólóplötur hans og Keith Richards því til stuðnings.
Þegar Johnny Cash reis úr öskustónni með American Recordings plöturnar sínar var mikið pælt í því hverjir aðrir úr geira vinsællar tónlistar gæti afrekað slíka upprisu. The Rolling Stones var alltaf svarið. Það fór ekkert á milli mála að sveitin var enn skipuð vel spilandi hæfileikamönnum sem því miður voru orðnir ekkert annað en besta Rolling Stones tribute band í heimi í huga margra aðdáenda þeirra. Við biðum og biðum en hljómsveitin virtist engan áhuga hafa á að gera plötu sem væri eitthvað annað en afsökun fyrir enn einni leikvangatónleikaferðinni. Þar til nú.
Í byrjun árs héldu gömlu mennirnir í hljóðver á ný til að taka upp nýja plötu en voru ekki að finna sig og fannst hljómurinn ekki vera að gera sig. Þá tóku þeir upp á því að spila gömul uppáhalds blúslög til að spila sig saman. Á þremur dögum tóku þeir upp lögin sem er að finna á nýjustu plötu þeirra Blue and Lonesome. Afraksturinn er tólf laga plata sem tekur 42 mínútur frá upphafi til enda.
Það var víst erfitt að fá Jagger til að samþykkja það að gefa plötuna út sem manni finnst í raun alveg furðulegt því maðurinn á þvílíkan stjörnuleik hérna. Röddin hans er í toppformi og hljómar alls ekki eins og maður ímyndar sér rúmlega sjötugan söngvara. Munnhörpuleikur hans er líka vægast sagst stórkostlegur. Bandið sjálft er einnig í toppformi samleikur Keith og Ronny Wood er þéttur og þeir þvælast aldrei fyrir hvorum öðrum, svo eru Charlie Watts og Darryl Jones stöðugir í rytmanum. Eric Clapton kemur svo fyrir í tveimur lögum.
Það sem helst einkennir plötuna er hvað spilagleðin skín í gegn. Það er langt síðan ég hef heyrt Stóns plötu þar sem mér finnst þeir hafa gaman af þessu. Annað er að hún er hrá. Hljómurinn er crunchy og fellur vel að mínum eyrum. Samkvæmt öllu þá ætti ég samt ekki að hafa gaman af þessari plötu. Ég hef aldrei haft gaman að blústónlist og oft haldið því fram að blús sé leiðinlegt lag. En ég get ekki gert að því, mér finnst þetta skemmtileg plata. Meira að segja Eric Clapton, sem mér hefur alltaf fundist með leiðinlegri gítarleikurum, kemur vel út úr sínum lögum.
Það er fátt sem hægt er að setja út á þessa plötu. Það helsta er að umslagið er með eindæmum ljótt og í raun alveg furðulegt að bandið hafi látið þetta flakka svona. Annars hafa umslög þeirra verið ljót í nokkuð langan tíma. En þetta er ljótara en venjulega. Svo er það nú svo að þó að þetta sé skemmtileg plata að þá hefði verið enn skemmtilegra að fá ný lög spiluð af svona spilagleði. Mig grunar að þar hafi sjálfsagt tregða Jaggers við að gefa þetta út legið. Hann hefur áður lagst á móti því að hljómsveitin gefi út ábreiður.
Fyrir mína sök þá var ég búinn að gefa upp alla von að ég ætti nokkurn tíman eftir að heyra nýja Rolling Stones plötu þar sem viðbrögð mín væru ekki vonbrigði eina ferðina enn. Þannig að ég sætti mig fullkomlega við að fá þessa kóverlagaplötu af goðunum að spila tónlist sem þeir elska. Ég sætti meira segja við forljótt umslagið. Þetta er fyrsta flokks plata frá einni bestu rokkhljómsveit sem hefur stigið á svið og ánægjulegt en óvænt kombakk. Þar sem þeir halda því fram að þeir séu hvergi nærri hættir þá ætla ég að leyfa mér að vona að næsta plata verði í sama gæðaflokki og þeir haldi sig við það sem þeir gera best. Að spila hráa rokktónlist.