Á rúmlega fjörutíu ára ferli hefur Stephen King skrifað 50 bækur sem allar hafa orðið metsölubækur. Nánast alla sína höfundartíð hefur hann verið utangarðs hjá bandarísku bókmenntaelítunni. Sumir segja að ástæða þess séu vinsældir hans og umfjöllunarefni bóka hans. Að hann sé hreinlega ekki hægt að taka alvarlega sem höfund. Hann á sér óteljandi óvini meðal bandarískra bókmenntapáfa sem svo gott sem fyrirlíta verk hans og telja þau vart pappírsins virði sem þau eru prentuð á.
Almennt skiptast bókmenntaunnendur í tvo flokka. Flokk þeirra sem lesa King spjaldanna á milli og hinna sem lesa hann ekki. Það segir meira en mörg orð um vistspor hans í bókaútgáfu á alþjóðavísu. Ég tilheyri fyrri flokknum. Svona að mestu leyti. Ég byrjaði að lesa bækur hans sem unglingur og síðan þá er ég alltaf til í að gefa honum sjens og lesa bækur hans.
Það verður að viðurkennast að reyfaraþríleikur hans, sem nú er á enda, er ekki meðal hans bestu verka. Reyndar verð ég að taka dýpra í árinni og segja hreint út að ég furða mig á því hversu slappur þríleikurinn er. King er augljóslega undir miklum áhrifum af Stig Larsson og samfélagsleg vídd skandíkrimmana er til staðar en eingöngu sem skraut.
Mr. Mercedes fjallar um mann sem ekur lúxusbíl af Mercedes gerð inn í þvögu fólks sem bíður fyrir utan ráðstefnuhöll eftir að atvinnuráðstefna hefjist. Efnahagsástandið er slæmt og mikið atvinnuleysi. En jafn gildishlaðinn og þessi hryðju/ofbeldisverknaður er þá gerir King ekkert úr honum. Verknaðurinn er ekki framinn af pólitískum hvötum – eiginlega er hann framinn vegna þess að þetta fólk hefur safnast saman á almannafæri. Það liggur vel við höggi. King hefði alveg eins geta valið röð á tónleika með Justin Bieber. Aðalpersónurnar eru líka slappt ljósrit af ljósriti. King er að skrifa í reyfarahefðinni en bætir engu við eða gerir betur en aðrir höfundar sem sækja á þessi mið. Önnur helsta aðalpersóna þríleiksins minnir óþægilega mikið á Lisbeth Salander en líkindin eru svipuð og með Sex Pistols og Blink 182. Það er ekki um neitt plott að ræða heldur kapphlaup við tímann sem verður hálfklént í meðförum hans.
Það áhugaverða við þríleikinn er yfirnátturlega víddin þar sem King er helst á heimavelli. En sá þráður nær aldrei að verða nema aukasaga. King hefur tekið þá ákvörðun að bækurnar ætti að geta lesist sem sjálfstæðar skáldsögur. Það er misráðið vegna þess að King missir algjörlega taktinn þegar hann þarf að vísa í hinar bækurnar til að gefa lesandanum upplýsingar svo hann haldi þræðinum í sögunni. En það versta er að þessar upplýsingaskylda springur hálfpartinn í andlitð á honum vegna þess að fróðleiksmolarnir skipta engu máli. Það er eins og King smelli þeim inn til að gera sögunna stærri eða merkilegri – en það bara tekst ekki.
Í Finders Keepers tekst King best upp í þríleiknum. Sem er létt verk. Mr. Mercedes og End of Watch eru það slappar í samanburði. Styrkleiki King hefur alltaf falist í höfuðátökum góðs og ills í yfirnáttúrulegri umgjörð. Hann reynir það að vissu leyti í þessum þríleik en það er bara svo ósköp lítið í húfi og persónurnar svo óspennandi að manni stendur alveg á sama. Þá fannst mér hann á betra róli í Dr. Sleep þar sem óværurnar voru blóðsugur í líki ellilífeyrisþega sem ferðast um Bandaríkin á húsbílum. Þá var ég með. En ekki núna.