„Ég skil það vel, að ef forsætisráðherra væri enn þá í sínum gamla dúr, sem hann var stundum í, þegar hann var að tala um hagfræðinga, þá mundi hann ekki gera mikið með þessa hluti. Þá var hann vanur að segja, þegar verið var að benda á einhverja hagfræðilega hluti, þá sagði hann: „Já, það er nú svo, fyrst kemur lygi, svo kemur haugalygi og svo kemur, hagfræði.“ Það var nú þegar það var. En það lítur út fyrir, að hann sé farinn að ganga svo mikið í barndóm núna, að nú sé hann farinn að taka hagfræðingana alvarlega, og það er það merki, sem mér þykir sárast að hafa séð á honum, að hann skuli vera farinn að taka mark á þeim. Hitt var þó betra, á meðan hann leit þannig á, að það væri þó yfir alla haugalygi, það sem þeir segðu. Bágast af öllu á ég með að skilja, þegar hæstvirtir ráðherrar eru að tala um, að þeir séu að gera þetta allt saman fyrir láglaunamennina. Já, þetta er líkingin, sem Leo Tolstoj einu sinni talaði um, þegar hann var að lýsa ríka manninum, sem sæti á herðum þess fátæka og segðist allt vilja fyrir hann gera nema fara af baki. Mér heyrðist á ríkisstjórninni, að hún vildi allt fyrir þá lægst launuðu gera nema létta af þeim kúguninni. Ég held hún væri jafnvel tilbúin að byggja fangelsi fyrir þá, hvað þá annað.“
Úr þingræðu Einars Olgeirssonar í umræðum um launamál á 84. þingi Alþingis, 1963–1964.