Vi är bäst! er fyrsta mynd Moodyssons síðan árið 2009 en þá gaf hann frá sér myndina Mammut sem fékk blendnar viðtökur. Nafn Moodyssons vekur líklega enn í dag upp óþægilegar minningar vegna myndanna Lilya 4-Ever (2002) og Ett hål i mitt hjärta (2004), en þær eru, geri ég ráð fyrir, á listanum hjá fleirum en undirrituðum yfir góðar myndir sem maður mun aldrei koma til með að sjá aftur; meira en eitt áhorf er einfaldlega masókismi. En áhrifamáttur þessara mynda hefur að einhverju leyti skyggt á að tvær fyrri myndir hans Fucking Åmål (1998) og Tillsammans (2000) eru mun léttari og meiri feel-good myndir. Segja má að nýjasta mynd leikstjórans sé eins konar afturhvarf til fyrri hluta ferilsins, en Vi är bäst! er yfirdrifið jákvæð og bjartsýn.
Myndin, sem byggð er á sjálfsævisögulegri myndasögu eftir eiginkonu leikstjórans, Coco Moodysson, segir frá Bobo (Miru Barkhammer) og Klöru (Miru Grosin) tveggja utangátta unglinga sem ákveða í skyndingu og án mikillar íhugunar eða tónlistarhæfileika að stofna pönkhljómsveit í Stokkhólmi árið 1982 – þegar pönkið er löngu dautt. Æfingar þeirra ganga vægast sagt brösulega þar til þær fá annan ungling sem passar ekki inn í hópinn sökum kristilegs bakgrunns síns, Hedvig (Liv LeMoyne), til að ganga til liðs við sig, en hún er eins konar tónlistarlegt undrabarn. Við fylgjumst í framhaldinu með vinskap þeirra sem gengur í gegnum ýmislegt; m.a. misheppnaða klippingu, tónsmíðar („hata sport!“), strákavesen og fyrsta giggið í Västerås sem endar með ósköpum.
Vi är bäst! er fyrst og fremst óður til æskuáranna og þess sérkennilega heims sem unglingar lifa í og er ósamrýmanlegur heimi hinna fullorðnu. Myndin opnar til dæmis á senu sem lýsir þessu ágætlega. Við erum stödd í hefðbundnu sænsku afmæli. Skyndilega zoomar leikstjórinn inn á eina aðalpersónuna, Bobo, sem er augljóslega ekki þar af fúsum og frjálsum vilja. Þessa tækni nýtir leikstjórinn sér nokkrum sinnum í gegnum myndina til þess að sýna fram á bilið milli heims hinna fullorðnu og heims söguhetjanna. Moodysson leggur, strax í byrjun, áherslu á smæðina sem veröld þeirra einkennist af og heldur þessum fókus í gegnum hana alla.
Styrkur Moodyssons sem leikstjóra hefur ávallt legið í hæfileikanum til að setja sig í spor unglinga og draga upp mynd af heimi þeirra, eins og sást hvað best í Fucking Åmål. Einhverjir kvikmyndagagnrýnendur hafa af þessum sökum lýst honum sem eins konar John Hughes Skandinavíu. Þessi hæfileiki nýtur sín vel í Vi är bäst! Klara, Bobo og Hedvig eru eina stundina bestu vinir, aðra hnakkrífast þær og hata hverjar aðra en svo er allt gleymt og grafið stuttu síðar. Þegar Bobo verður hrifin af strák úr annarri pönkhljómsveit sem vill frekar vera með Klöru er eins og það verði heimsendir. Þessi raunsæja mynd af unglingsárunum vekur óhjákvæmilega upp vissa nostalgíutilfinningu.
Eins og áður segir er myndin byggð á endurminningum eiginkonu leikstjórans. Nú veit ég ekki hversu nákvæmlega leikstjórinn fer eftir upprunalegu sögunni, en það er athyglisvert hvernig hann ákveður að endurskapa tímann og tíðarandann, hvað hann leggur áherslu á. Þessi fortíðarsýn er eilítið of jákvæð og ógagnrýnin sem sat illa í mér. Því samfélagið sem birtist í myndinni er í rauninni nokkurs konar útópía sem ég efast stórlega um að hafi nokkurn tímann verið til. Fyrri hluti 9. áratugarins hefur hingað til ekki almennt verið talinn jákvæður og skemmtilegur tími en Moodysson virðist telja annað af mynd hans að dæma. Allar áhyggjur eru minniháttar og vandamál eru auðleysanleg og fljót gleymd.
Klara og Bobo skammast út í allt og alla og eru í uppreisn gegn einhverju sem við fáum ekkert að vita um, of miklum frítíma kannski? Við fáum örlitla innsýn inn í fjölskyldulíf Bobos, en móðir hennar er fráskilin og einmana. En hún finnur svo fljótt nýjan kærasta og allt er í lagi aftur. Bobo virðist eitthvað ósátt út í þessar nýju aðstæður en myndin kafar ekkert dýpra í þær. Athyglisvert er þegar Klara, í byrjun myndarinnar, setur sig á háan hest og skammast út í bekkjarfélaga sinn vegna áhugaleysis hennar á hættunni á kjarnorkustríði og pólitík en eftir því sem líður á myndina sjáum við að pönkið, fyrir Klöru og Bobo, er fyrst og fremst tískufyrirbrigði, gert til að stuða fólk og láta þær líða eins og þær séu betri en allir aðrir, frekar en að það sé drifið áfram af pólitískri vitund eða hugsjónum. Helsta togstreitan milli Klöru og Bobo annars vegar og Hedvig hins vegar er kristin trú hinnar síðarnefndu. Eitt eftirminnilegasta atriði myndarinnar eru kómískar „rökræður“ þeirra um gildi trúar, en leikstjórinn stoppar stutt við þetta atriði. Myndin sjálf virðist vera jafn áhugalaus um raunveruleg vandamál og aðalpersónurnar. Fókus myndarinnar er gleði og pínulitil sorg, en fyrst og fremst taumlaus gleði aðalpersónanna sem við eigum sjálfkrafa að falla fyrir og halda með.
Þessa skrýtnu fortíðarsýn er kannski hægt að afsaka með að benda á að við sjáum allt umhverfið í gegnum augu aðalpersónanna, unglingsstelpna sem eru svo sjálfhverfar að þær taka ekki eftir neinu sem gerist í kringum þær og hafa einungis áhuga á að skemmta sjálfum sér. Það er vissulega rétt, en þá er ekki alveg ljóst af hverju við eigum svona augljóslega að falla fyrir og samgleðjast þeim, lítil innistæða er fyrir því.
Það er líklega gleðin, sem smitar út frá sér og skilur áhorfandann eftir í góðu skapi eftir myndina, sem hefur gert það að verkum að hún hefur fengið einróma lof gagnrýnenda. En hún gerir myndina einnig hálf innantóma og hún skilur lítið eftir sig. Sérstaklega þegar við höfum í huga hvers konar myndir Moodyson er fær um að gera. Jafnvel Fucking Åmål, sem er líklega önnur mesta feel-good myndin hans á eftir þessari, hafði eitthvað raunverulegt að segja um erfiðleika þess að búa í vonlausum litlum bæ og íþyngjandi pressuna um að passa inn í hópinn og vera eins og allir aðrir. Í Vi är bäst! eru aðalpersónurnar í nokkuð svipaðri stöðu, þeim finnst þær ekki passa inn í, en myndin rétt dregur upp mynd af þessum aðstæðum áður en hún einbeitir sér að sigrum þeirra og barnslegri gleði. Moodyson virðist engan áhuga hafa á að fara ofan í saumana á neinu bitastæðu þrátt fyrir næg tækifæri til þess. Hann rétt snertir á ýmsum áhugaverðum málefnum áður en hann skautar framhjá þeim og snýr sér að öðru.
Því er erfitt að átta sig á hvað það nákvæmlega er sem vakir fyrir leikstjóranum með þessari mynd annað en að reiða fram einfalda afþreyingu fyrir áhorfandann og koma honum í gott skap. Myndin nær því markmiði. En það er merkilega yfirborðskennt útspil frá Moodysson miðað við fyrri verk hans og það kemur á óvart hversu jákvæða dóma myndin hefur fengið frá nánast öllum kvikmyndagagnrýnendum. En það skýrist mögulega af því að gagnrýnendur eru einfaldlega þakklátir fyrir að Moodysson neyddi þá ekki til að sitja í gegnum aðra mynd í líkingu við Lilya 4-Ever og ákváðu að launa honum greiðann.