Jenna Jensdóttir og Álfrún Gunnlaugsdóttir voru gerðar að heiðursfélögum í Rithöfundasambandi Íslands á aðalfundi sem haldin var í gærkvöldi. Báðar eru þær vel kunnar af verkum sínum; Jenna ekki síst fyrir bókaflokkinn um Öddu, sem hún skrifaði ásamt manni sínum Hreiðari Stefánssyni, og Álfrún fyrir skáldsögur sínar, ekki síst Yfir Ebrofljótið og nú síðast Rán.
Í tilefni af verðlaununum mælir Starafugl með viðtali við Jennu sem birtist fyrir þremur árum þegar hún vann samfélagsverðlaun Fréttablaðsins, þar sem hún segir meðal annars:
Amma mín sem ég elskaði mjög mikið hafði mikil áhrif á mig. Hún studdi mig óskaplega mikið til skrifta. Hún sagði mennt er máttur og sagði mér að ef ég kæmist í það ætti ég að fara út í heiminn. Og ég fór niður að sjónum og horfði á hafið og víðáttuna og hugsaði með mér að ég yrði að komast að því hvað væri að finna í heiminum.
Og ritdómi Hjalta Snæs Ægissonar um Rán, sem fluttur var í Víðsjá en má lesa á heimasíðu Hjalta, en þar segir t.d.:
Álfrún Gunnlaugsdóttir er einn fárra íslenskra skáldsagnahöfunda sem leitast við að tengja sagnaheim sinn stórviðburðum í mannkynssögunni. Þetta sést auðvitað best á Yfir Ebrofljótið, hinni epísku skáldsögu Álfrúnar frá árinu 2001, sem fjallar um spænsku borgarastyrjöldina. Það er alls ekki hefðbundið að sagnahöfundar smáþjóða geri atlögu að svo stórum viðburðum í verkum sínum, og það má sannarlega kallast hugrekki af hálfu Álfrúnar að stunda slíka tilraunastarfsemi.
Starafugl óskar Álfrúnu og Jennu til hamingju með nafnbótina.