Hverju við trúum og hvernig

Í trúmálum gerir hver upp við sjálfan sig – eða Hverju trúum við og hvernig – viðtal við Guðrúnu Evu Mínervudóttur / Arnaldur Máni Finnsson

 

Saga af trúarupplifun sem stuðar samfélagið

Það má segja að það séu þúsund þræðir í Englaryki nýjustu bók Guðrúnar Evu Mínervudóttur og margir hverjir ögrandi. Það vekur þó eftirtekt að ögrunin felst að einhverju leyti í að fjalla um mjög nærtækt og aðgengilegt efni, ef við skoðum íslenskt samfélag dagsins í dag; eitthvað sem „allir kannast við“ í einhverju samhengi, trúarlega afstöðu fermingarstúlku og viðbrögð samfélagsins við þeirri upplifun sem hefur átt og er forsenda trúarsannfæringar hennar.

Verkið – sem grípur niður í sögu fjölskyldu í Stykkishólmi vetrarpartinn þar sem Alma, aðalpersóna bókarinnar gengur til prestsins – vekur upp margar spurningar um trú, trúleysi, efa og afstöðu þjóðkirkjunnar til sjálfrar sínar og boðskaps síns á „trúlausum tímum“ – þ.e.a.s. í samtíma sem vill líta á sig sem rækilega undirbyggðan af veraldlegum forsendum og formerkjum. En um leið er ótækt að halda því fram að sjálfsrækt eða almenn mannrækt, raunverulega andlega sinnuð afstaða til samtímans sé á undanhaldi, þar sem það er fyrst og fremst afstaða til skipulagðra trúarbragða og kennivalds trúarstofnannna sem hefur breyst.

Það má raunar halda því fram að viðbrögð samfélagsins hefðu væntanlega ekki verið þau sömu ef að andleg uppljómun Ölmu hefði ekki verið tengd Jesú Kristi, heldur jógaiðkun, einhverri rokkstjörnu eða Dalai Lama. Foreldrar hennar tala um að hún sé „langt leidd“, „fanatísk og skrítin“, það sé „eins og hún sé lasin“; litla bróður hennar Anton er strítt í skólanum, vinir Ölmu eru hættir að tala við hana og presturinn sem hún er í fermingarfræðslu hjá er hársbreidd frá því að ganga af trúnni. Af þessum aðstæðum sprettur áhugaverð tilraun í íslensku samhengi – þar sem bókmenntir og kvikmyndir takast sjaldan á við það verkefni að kanna hinnar trúarlegu víddir samtímans, hinar tilvistarlegu spurningar upplifunar af trúarlegum veruleika og skynjun.

Enn eru um 3 af hverjum 4 Íslendingum meðlimir í Þjóðkirkunni, stofnun sem við áttum okkur ekki alltaf á almennilega hvort að sé menningarstofnun eða trúfélag. Um 30 þús. (10%) eru svo sitt á hvað – skráð í ýmis önnur kristin trúfélög á Íslandi. Þetta er fjölbreytt landslag trúar sem er í kristnum farvegi og íslensk menning er að ákveðnu marki enn kristin án þess að trúarsannfæring sé frumforsenda þess að tilheyra. Í augum „heimsins“ er hinn trúaði e.t.v. alltaf galinn ef hann stígur út fyrir ákveðinn tjáningar- og túlkunarramma og því áhugavert að skoða samtímabókmennt þar sem þessir fletir eru kannaðir. Starafugl tók hús á Guðrúnu Evu til að ræða verkið og nálgun hennar á dögunum, mitt í stormi umræðu um allt aðra hluti.

Starafugl: Voru það spurningar um veruleikaskynjun eða afstöðu hins trúaða sem leiddu þig af stað með vinnslu þessarar bókar –- eða áhugi á spennunni á milli veraldlegs samfélags og allrar „heittrúarinnar“ í heiminum?

Ein af kveikjum bókarinnar var sú lítt um rædda staðreynd að andlegt fóður Íslendinga gegnum aldirnar voru ekki Íslendingasögurnar heldur fyrst og fremst rit af trúarlegum toga, Vídalínspostilla, Saltarinn og fleira af því tagi. En við hneigjumst til að líta frekar á okkur sem heiðna og hetjudýrkandi þjóð sem tók kristni aðeins að nafninu til, upp á punt ef svo má segja. Kristin trú er eitthvað sem við tengjum við útlönd og sér í lagi kaþólisma. Eins hef ég velt fyrir mér þeirri pínlegu stöðu sem við erum í nú þegar vísindin hafa að mestu tekið við hinu gamla hlutverki trúarbragðanna að útskýra heiminn og Guð og Jesú eru vandræðalegt tabú en næstum allir eru í þjóðkirkjunni eða öðru trúfélagi. Það er einfaldlega athyglisvert. En ég hef samt fyrst og fremst, í samhengi við Englaryk, áhuga á trú sem heimsafstöðu eða sýnar á lífið. Sá áhugi gerði að verkum að hugmyndin að þessari sögu höfðaði til mín. Það er upplifun Ölmu og skoðun hennar sem hrindir öllu í gang þannig að á endanum verður það ekki aðalatriðið hvort hún hitti Jesú í alvörunni eða hvort það var ímyndun. Þetta er eitthvað sem við getum aldrei vitað fyrir víst hvort sem er. Það er að segja; við getum hvorki sannað né afsannað tilvist Guðs og við getum heldur ekkert vitað um það hvort líf sé eftir dauðann. Að vísu gerði Elisabeth Kubler-Ross stórmerkilega rannsókn á fólki sem tekist hefur að lífga við eftir að hafa verið „látið“ í smástund, og skrifaði ritgerðir um líf eftir dauðann, en það er önnur saga.

 

Lífið snýst um meira en sæmilega afkomu

Sjálfri finnst mér aukaatriði hvort Jesú/Búdda/María mey/Óðinn og Þór séu til eða hafi verið til í alvörunni eða hvort þau sé aðeins að finna í hugarheimi okkar. Trú er í mínum huga fyrst og fremst sú hugmynd að lífið snúist um eitthvað meira en sæmilega afkomu og kannski tengist hún líka húmor og vissri tegund af léttúð í bland við djúpa alvöru. Ef léttúðina vantar verður vissan kannski hjákátleg, það að þykjast handviss um eitthvað sem engin leið er að vita fyrir víst. Þetta á við hvort heldur sem er um heittrúaða eða þá sem er mjög uppsigað við trú. Það þarf vonandi ekki að taka fram að ég geri greinarmun á annars vegar trú, sem persónulegri tilfinningu og sýn, og hins vegar trúarbrögðunum sem eru alltaf í heljargreipum pólitíkur og ekki endilega af fallegustu sort. Léttúðin kemur í veg fyrir trúarlegt egóflipp/undirgefni en alvaran snýr að traustum grundvelli, því að treysta lífinu á máta sem ekki er endilega augljós án trúar, nema þá að fólk leggi allt sitt traust á dauðann – að eftir dauðann sé ekkert og þar með engin þjáning. Ég tala um léttúð og Englaryk er á köflum fyndin en aldrei hæðin. Það stóð aldrei til að nota vitrun aðalpersónunnar Ölmu til að hæðast að heittrúuðum eða fletta ofan af „hræsni“ trúleysingja sem eru samt í þjóðkirkjunni eða neitt slíkt. Þetta er viðkvæmur efniviður og umfjöllunarefnið allt annað en einfalt. Það væri að mínu mati ekkert annað en hallærislegt að vera með einhvern predikunartón í svona bók og konkret niðurstaða er hreinlega ekki í boði.

 

Trúvana preststýpa mætir heitri trú

Starafugl: Það er raunar einlægt en áberandi að presturinn í bókinni lendir í vandræðum með að prédika trúnna, hann verður kannski fulltrúi afstöðu Þjóðkirkjufólks og presta sem Björn Þór Vilhjálmsson, gagnrýnandi lýsir í dómi sínum um Englaryk sem embættismönnum Guðs; „fagfólkið sem heldur utanum kristilega stofnanakerfið, innan hvers við erum skírð, fermd, gift og grafin, virðist ekki trúa nema miðlungsmikið í þeim skilningi sem hér er lagður í orðið“. Í íslenskum bókmenntum og kvikmyndum er oft að finna presta í persónugalleríinu sem fulltrúa einhverrar erkitýpu sem stendur fyrir hið breyska vald. Nú má segja að presturinn í verkinu sé á þessari línu en bakhliðin á honum er einhvernveginn afhjúpuð á annan hátt en venjulega þar sem „valdi“ hans er ögrað með heitri trú – en ekki vantrú eða veraldlegu samfélagi. Hann verður raunar fulltrúi hins veraldlega og stofnanalega frekar en hins trúarlega. Er fyrirmynd að þessum presti – eða er þetta einhverskonar samtal við Þjóðkirkjuna ef maður skoðar það í víðu samhengi?

Það er engin ákveðin fyrirmynd að prestinum, nema kannski að ég hugsa að ef ég væri prestur myndi ég bögglast með sömu spurningar og sjálfsefasemdir og hann. Ef ég væri prestur í nútímanum myndi ég líka sífellt spyrja mig hvert vald mitt væri og ábyrgð og hlutverk í samfélagi sem trúir helst bara þegar einhver deyr eða jafnvel ekki einu sinni þá en tekur samt þátt í kristilegri útför, enda fátt annað í boði. Það er skiljanlegt að hann lendi í vandræðum með Ölmu, enda vilja foreldrarnir væntanlega ekki að hann „frelsi“ fermingarbörnin. En hann kemur ansi vel út úr þessari þolraun og þegar hann á endanum slakar á og tekur aðeins undir með Ölmu má segja að honum takist það sem hinum tókst ekki með fortölum sínum, mútum og hótunum; að þagga niður í henni. Þar með er vandinn úr sögunni. Kannski má segja að ég sé að brydda upp á samtali við þjóðkirkjuna, án þess þó að vera brennandi af einhverju ákveðnu sem ég vil koma á framfæri við hana og alveg án þess að þykjast vita betur en það fólk sem hefur með hana að gera. Þjóðkirkjan er vissulega fyrst og fremst stofnun og sú stofnun á í vanda en hver lausin er veit ég ekki. Ég veit ekki einu sinni almennilega hver vandinn er, því hann er svo margþættur. Samt er ég með þessari skáldsögu meðal annars að vekja athygli á flækjunni og varpa ljósi á eitthvað sem við leiðum að mestu hjá okkur.

Starafugl: Það er áhugavert að presturinn lýsir hlutskipti sínu sem svo að hann hafi litið á sig sem einstakling sem hafi það hlutverk að trúa fyrir fjöldann í trúlausu samfélagi, hvíla öruggur í trúnni í einhverju samfélagslegu samhengi þar sem fólk geti síðan sótt til hans og trúað í gegnum hann þegar á bjátar. Án þess að ég fari sérstaklega út í það þá er það mjög kaþólskt sjónarhorn, nánast andlúterskt en um leið að einhverju leyti mjög í takt við það hvernig sumir upplifa sinn lúterska prest, og rímar vafalaust við það hvernig sumir prestar upplifa hlutverk sitt. Það sker sig aftur á móti kannski úr að hann fagnar ekki liðsmanninum í Ölmu heldur fyllist vanmáttarkennd. Trúarefinn mætir honum þegar trú hans er veikari en trú Ölmu og hann íhugar að hætta, þar sem hann hafi ekki það til að bera sem þarf í starfið. En hann finnur sátt og segist hafa sæst við hlutverkið; hann er „sá sem býr tilfinningum fólks siðaðan ramma og hefur umsjón með seremóníum. Hver segir að ég geti ekki gert gagn án þess að vera endilega brennandi af trúarsannfæringu?“ (63) Presturinn ávarpar þarna kirkjuna sem menningarstofnun sem hefur ákveðið hlutverk í samfélaginu og réttlætir efasemdir sínar með því en vill samt halda áfram að gegna þessu hlutverki. Hvaða sjálfsmynd upplifir þú að Þjóðkirkjan hafi almennt; er þetta menningarstofnun eða trúfélag í þínum augum?

Prestar eru mis-heittrúaðir og það hef ég ekkert út á að setja. Þeirra hlutverk er í mínum huga fyrst og fremst það að hafa umsjón með seremóníum og hlúa að þeim sem eiga um sárt að binda. Það hversu heit eða bókstafleg trú þeirra er kemur því hlutverki lítið við. Þessi tiltekni prestur, sögupersónan í Englaryki, er fyrst og fremst að reyna að vera ærlegur og stunda heiðarlega sjálfskoðun og sú tilhneiging hans þykir mér frekar tilefnið til vangaveltna hans og efasemda heldur en vanmáttarkennd. En þetta er auðvitað túlkunaratriði. Ég get vel ímyndað mér að margir fari í guðfræðinám af einskærum áhuga á siðfræði og siðferði og áhuga fyrir að koma skilningi sínum á góðum gildum í einhvers konar praktíska notkun. Einhverjir hafa kannski köllun til hlutverksins, að vera huggari, ganga í erfiðustu málin. Halda stuttar ræður um hin hinstu rök og andleg mál. Tala við fólk sem hefur til að mynda orðið fyrir óbærilegum missi.

En önnur ástæða þess að kirkjan virðist svo á skjön við nútímann held ég að sé sú að við viljum ekki láta segja okkur á hvað við eigum að trúa og hvernig. Trú er eitthvað sem hver og einn verður að gera upp við sjálfan sig. Annars er voðinn vís. Ef fólk lítur svo á að það eigi að trúa gagnrýnislaust því sem trúarstofnanir segja því er hægt að lauma alls kyns voðalegri pólitík með trúarboðskapnum og það endar bara með kúgun og ofsóknum. Því andlega valdið hefur oftast verið nátengt því veraldlega. Þess vegna vantreystir fólk trúarbrögðunum og vill heldur gera hlutina upp við sig í einrúmi heima hjá sér heldur en að fara í kirkju og signa sig í nafni föður, sonar og heilags anda.

 

Trúin er eitthvað sem hver og einn verður að gera upp við sjálfan sig

Starafugl:     Nú er almennt að verða viðurkennt í hinum vestræna heimi að trúmál séu einkamál. Það er afstaða prestsins – að einhverju leyti er það „sögulína“ bókarinnar – og það er krafan sem stendur uppá Ölmu. Hún má ekki vera opinská með afstöðu sína og afstaðan má ekki vera „réttlætingin“ fyrir því að gera hluti sem eru félagslega á skjön eða skrýtnir.

Já, Alma verður allt í einu eins og aðkomumaður í sínu eigin þorpi sem ögrar gildum heimamanna og semur sig ekki að þeirra siðum og venjum. Segjum sem svo að hún hafi raunverulega hitt Jesú og búi þar með yfir vitneskju og reynslu fram yfir aðra í kringum sig; hún er samt sem áður barn. Hún heldur að heimurinn sé einfaldari en hann er og þarfast enn leiðsagnar og verndar. Meydómsfórn hennar er til dæmis örugglega á misskilningi byggð og það er nú ekki margt sem hún getur gert til að hjálpa bæjarfyllibyttunni. En skjálftinn sem grípur um sig yfir því að hún sé svona opinská um trúarreynslu sína stafar líka örugglega af misskilningi. Alma þarf kannski bara að fá að tjá sig, það þarf ekki endilega að enda illa. Hún hefur jú ekkert vald til að fylgja sannfæringu sinni eftir. Mögulega er hún í uppreisn gegn tíðarandanum eða kannski er hún að athuga mörkin, hvort henni sér frjálst að vera á skjön eða hvort krafan um samsömun sé alger. Vandinn felst því að mestu í því að fólk skilur ekki hvert annað, en þannig er það líka svo oft.

Sagan af Ölmu er einmitt ekki saga um einelti. Fjölskyldan og samfélagið í kringum hana reyna eftir fremsta megni að rúma hana innan sinna raða. En fólk vill hvorki taka undir með henni né rífast við hana svo lendingin verður helst sú að þetta sé ekki rætt. Til dæmis kemur fram í bókinni samkomulag Ölmu og bestu vinkonu hennar, Ólínu, um að það sé um að gera að tala sem mest um meydómsmissi og vodkadrykkju en að nú verði ekki rætt meira um Jesú. Þannig tekst þeim að halda vináttunni gangandi. Kannski má segja að Alma hafi bara ekki vit á að láta fólk í friði sem kærir sig ekki um að ræða trúmál.

Starafugl: Fjölskyldan fyllist angist – og meðvirkni – og foreldrarnir vilja stúlkuna aftur úr trúaruppreisninni . Ef við lítum á söguna sem táknsögu fyrir uppreisnina – í og með – og segjum hana vera sögu af hverri annarri uppreisn unglings í borgaralegri fjölskyldu. Nú þykir það kannski á einum stað venjulegt að fylgja reglum trúarlega hlaðins gildisramma, en á öðrum stöðum þykir það róttæk afstaða að taka trú og vilja trúa. Alma virðist vera fulltrúi síðar nefnda hópsins. Heldurðu að þessi bók höfði til þeirra sem telja sig hafa höndlað sannleikann í trúnni?

Þessi bók getur örugglega styggt einhverja sem þykir vegið að sinni sannfæringu, hvort sem þeir trúa eða trúa ekki, einfaldlega vegna þess að hún teflir fram mörgum ólíkum röddum sem allar hafa nokkuð til síns máls. Á hinn bóginn vanmetum við oft hvert annað þegar kemur að einmitt þessum málaflokki. Vantrúaðir halda að hinir trúuðu hljóti að vera ofurviðkvæmir og vilji ekki ræða málin og trúaðir halda að vantrúaðir séu harðlokaðir fyrir samræðu um trú. En í fljótu bragði virðist mér, miðað við hljóðið í þeim sem hafa lesið bókina, að bæði trúaðir og vantrúaðir hafi áhuga fyrir málefninu sem slíku. Og ef maður hugsar málið aðeins er það ekkert skrítið. Auðvitað höfum við áhuga fyrir grundvallarafstöðu okkar sjálfra og annarra til lífsins. Eins og eldri bróðir Ölmu segir þegar mamma þeirra álasar honum fyrir að hvetja Ölmu í vitleysunni með því að senda henni fræðigreinar um Jesú og kristni. Hvers vegna hefurðu áhuga á þessu? spyr hún og hann svarar: Látum okkur sjá. Hvers vegna hef ég áhuga á þessu? Kannski vegna þess að trúarbrögð eru það sem mótar líf flestra í heiminum meira en flest annað og þess vegna væri beinlínis heimskulegt að hafa engan áhuga á þeim.

 

Andlegur áhugi blótaður á laun

Starafugl: Upplifir þú almennt aukin áhuga á trúarlegum spurningum, vangaveltum um trúarbrögð í íslensku samfélagi?

Ég hef alltaf orðið vör áhuga á andlegum málum í kringum mig. En sá áhugi er mikið til blótaður á laun og það er bara fínt. Sumt þarf bara að fá að þróast í friði á meðal fólks án þess að um það séu lagðar línur í stærra samhengi.

Starafugl: Kannski er næsta spurning stórtækari en svo að hún taki til sögunnar af Ölmu. En það er félagsleg og pólítísk vídd á bakvið söguna sem kallar raunverulega á hana.Afstaða hins trúaða til samfélagsins er e.t.v. fyrst og fremst mótuð af gildismati sem sprettur af trúarlegri sannfæringu. Þar sem Alma tekur skrefið sem fyrirmynd – hún réttir fram hjálparhönd til hinna útskúfuðu, hún fyrirgefur kvalara sínum osfrv. – er þá eðlilegt að gera þá kröfu á hina trúuðu í hinu félagslega rými að þeir láti eins og sannfæring sín sé bara einkamál sem komi engum við?

Við þurfum auðvitað siðferðlegan ramma og gildismat og við þurfum endalaust að velta fyrir okkur siðferði; hvað sé rétt og hvað rangt, hvað sé absalútt og hvað undantekningum háð. En mér hefur aldrei fundist að við þyrftum endilega trú, hvað þá trúarbrögð, til þess að vera góð. Síðferði okkar er að vísu mótað af kristni að miklu leyti. Ég held til dæmis að það hafi verið mjög róttæk hugmynd í frum-kristni að bjóða hinn vangann. Það er mjög ólíkt auga-fyrir-auga hugmyndinni um réttlæti í gamla testamentinu. Og það getur líka verið að trúin stýri fólki í einhverjum tilvikum frá niðurrífandi, kaldhæðnum hugmyndum um heiminn; að heimurinn sé hvort sem er svo vondur og ömurlegur staður að við getum alveg eins verið eigingjörn eða eitthvað slíkt. Ég er viss um að það er hægt að trúa ekki á neitt heilagt eða andlegt en taka samt mjög alvarlega hugmyndir um jöfnuð, réttlæti og manngæsku. En þá má kannski segja að fólk líti á jöfnuð og manngæsku sem eitthvað heilagt og jafnvel þess virði að fórna sér fyrir. Í tilviki Ölmu var það Jesú sem vakti hana til vitundar um eigið siðferði og fær hana til að spyrja sig hvað hún geti gert fyrir þá sem þjást. En það hefði getað verið eitthvað allt annað. Til dæmis kommúnísk frænka eða það að verða vitni að einhverju hræðilegu óréttlæti. En þá hefði fólki kannski frekar fundist hún með báða fætur á jörðinni og uppnámið ekki orðið svona mikið.

 

Töfraljóminn í hversdeginum

Starafugl: Að lokum er kannski eðlilegt að víkja aftur að byrjuninni. Skynjun hins trúaða.

Nærri lokum bókarinnar veltir Alma fyrir sér muninn á sinni eigin skynjun og annarra. Hún ímyndar sér að mamma sín sjái „líklega bara girðingar og byggingar og sprettandi fóður handa skepnum og aðra nytsamlega hluti en Alma sá gisinn feld og andadrátt landsins og rykið sem hjúpaði veginn, sinuna, grjótið, mosann og fjallstoppana. Hún ímyndaði sér að það hefði þyrlast af vængjum englanna, svona eins og duftið sem er á vængjum fiðrilda, nema englarykið hafði umbreytingarmátt. Allt sem það komst í snertingu við varð ljómandi, töfrandi og þrungið merkingu.“ (255)

Öryggið og traustið sem Alma lýsir. Er þetta í reynslubankanum hjá þér? Er þetta kannski tilfinning sem er hægt að líkja við aðrar? Er að trúa eins og að elska? Og getur þá ekki hófsöm og mild trú verið rækilega grundvölluð í einstakri upplifun á ákveðnum tíma, rétt eins og gott hjónaband getur byggt á upplifun af sannri og einlægri „ást við fyrstu sýn“ til lengri tíma?

Já, þetta er tilfinning sem ég tengi ósjálfrátt við trú, töfraljóminn á hversdeginum sem ég myndi helst ekki vilja vera án. En í bókinni leyfi ég mér að blanda við það dramatískum tilþrifum og sjálfhverfu sem mér þykir eðlileg í fari manneskju sem er á fjórtánda ári. Hún ber sína afstöðu saman við móður sinnar og finnst sín nýja afstaða vera betri en vegnestið úr föðurhúsum. Þetta held ég að sé eðlilegur partur af þroska okkar allra, að drepa foreldrana, svona óbeint.  „Eins og að elska“ er kannski ágæt samlíking. Trúarleg upphafning andans er þá eins og ástfengni en grunnafstaðan til lífsins svipuð og að ákveða að sýna hjónalegan trúnað í blíðu og stríðu.

Að þessu öllu saman sögðu er ekki úr vegi að hvetja áhugafólk um samræðu um trú og birtingarmyndir hennar í samtímanum til að glöggva sig á þessu áhugaverða verki, sér í lagi þar sem þversnið af þeirri umræðu kemur fram hjá hinum ýmsu persónum bókarinnar, í undirtexta sögunnar án þess þó að trufla framrás hinnar eiginlegu sögu. Einnig má vekja athygli á að Englaryk er tilnefnd til Fjöruverðlaunanna í ár, ásamt Lóaboratóríumi Lóu Hlínar Hjálmtýsdóttur og Engum dansi við Ufsaklett Elísabetar Jökulsdóttur. 

Arnaldur Máni Finnsson