Sunnudaginn 9. nóvember, um leið og Íslendingar fagna 82 ára afmæli gúttóslagsins, verður þess minnst í Þýskalandi og víðar að 25 ár eru liðin frá því að Berlínarmúrinn féll. Af tilefninu hefur Miðstöð um pólitíska fegurð — Zentrum fur Politische Schönheit — rænt minnisvörðum um fórnarlömb sem féllu við múrinn, sem þar til í síðustu viku stóðu við lóð þýska þingsins, Reichstag.
Samtökin létu vita af aðgerðinni nú á mánudag, 3. nóvember, nokkrum dögum eftir að hún átti sér stað. „Fórnarlömbum múrsins hefur nú verið komið í skjól fyrir hátíðahöldunum 9. nóvember,“ segir í tilkynningunni og myndbandinu sem henni fylgdi. Líklega má segja að allt hafi orðið vitlaust í kjölfarið. Enginn virðist þó hafa gert sér grein fyrir að minnismerkin væru horfin fyrr en tilkynningin barst. Þau láta enda lítið yfir sér, fjórtán hvítmálaðir viðarkrossar, um metri að hæð, skrúfaðir við girðingu milli þinghússins og árinnar Spree. Þar hafa þau staðið í ellefu ár.
Föstudaginn 7. nóvember (í dag) leggja rútur af stað frá Gorkí-leikhúsinu í miðri Berlínarborg að ytri landamærum Evrópusambandsins. Ekki hefur verið tilkynnt nánar um áfangastað. Tugir manna, ef ekki hundruð, munu ferðast með rútunum, með það yfirlýsta markmið að rjúfa vírgirðingu og hleypa flóttafólki inn. Aðgerðin er tengd alþjóðlegu leikhússhátíðinni „Voicing Resistance“ sem hefst við Gorkí leikhúsið sama dag.
Forsvarsmenn miðstöðvarinnar segjast þegar hafa sent krossana úr landi, til svæða utan Evrópusambandsins þar sem flóttamenn hafast við á leiðinni til Evrópu, og birta myndir því til staðfestingar. Krossarnir muni dvelja meðal flóttafólks framyfir sunnudag, til að vernda arfleifð fórnarlamba Berlínarmúrsins og minna á múrana sem reistir hafa verið í kringum álfuna, eftir að hann var rifinn niður. Síðast var reist landamæragirðing milli Búlgaríu og Tyrklands. Lokið var við hana nú í sumar sem leið. Henni er einkum ætlað að halda sýrlensku flóttafólki frá álfunni.
Með tilvísun til falls Berlínarmúrsins árið 1989 kallar hópurinn aðgerðina „Erster europäischer Mauerfall“ – Fyrsta evrópska múrfallið. Þau ráðgera að skila krossunum aftur að lóð Reichstag strax að loknum hátíðahöldunum í Berlín og aðgerðinni við landamærin.
Múrarnir
Berlínarmúrinn stóð í 28 ára, frá 1961 til 1989. Á því tímabili áætla opinberar tölur að strangt til tekið hafi 136 manns látið lífið vegna Berlínarmúrsins. Eru þá taldir þeir sem skotnir voru við flóttatilraunir, þeir sem frömdu sjálfsmorð eftir misheppnaða tilraun til flótta, þeir sem dóu af völdum varðliða án þess að hyggja á flótta, og þeir landamæravarðanna sem voru særðust til ólífis við störf. Fjöldi fórnarlamba er hins vegar umdeildur. Miðstöð um pólitíska fegurð segir þau hafa verið 1200.
Miðstöðin bendir á að á þeim 25 árum sem liðið hafa frá því að Berlínarmúrinn féll, hafa 30 þúsund manns látið lífið við tilraunir til að komast yfir ytri landamæri Evrópusambandsins.
Þau segja að krossum þeirra sem féllu við Berlínarmúrinn líði betur þar sem þeir eru nú: „Með múrfórnarlömbum morgundagsins, við ytri landamæri Evrópu, þar sem manneskjur láta lífið á degi hverjum.·“
Að minnsta kosti 3.200 manns létust á leið til Evrópu yfir Miðjarðarhafið það sem af er þessu ári, það vitað er. Í umfjöllun vefritsins VICE um aðgerð miðstöðvarinnar er bent á að frá árinu 2000 hafi að minnsta kosti 25 þúsund manns drukknað á þeirri leið. Að meðaltali eru það fimm fórnarlömb á dag, það vitað er.
Miðstöðin
Miðstöð um pólitíska fegurð hefur verið lýst sem þankaveitu um aðgerðalist og mannréttindi. Á vefsíðu miðstöðvarinnar er hún sögð vera „Stormsveit um uppbyggingu siðferðilegrar fegurðar, pólitískrar ljóðrænu og mannlegrar hugumprýði, reist á lærdómi helfararinnar.“
Listrænn stjórnandi Miðstöðvar um pólitíska fegurð er sem fyrr segir Philipp Ruch. Hann er fæddur í Dresden, nam pólitíska heimspeki og tók þatt í strafi rannsóknarhóps um sögu tilfinninga við Max-Planck stofnunina um mannlega þróun. Hann starfar sem leikstjóri. Á síðu miðstöðvarinnar eru verk hans sögð sýna fram á möguleika myndlistar og leikhúss á að vera hið fimmta vald ríkja.
Viðtökur
Í óformlegri könnun sem RBB, útvarp Berlínar og Brandenburgar, gerði um viðhorf til aðgerðarinnar, hefur rúmur þriðjungur hlustenda lýst sig hlynntan aðgerðinni en tveir þriðju segjast á móti henni. Enginn hefur enn sem komið er sagst ekki hafa skoðun á málinu.
Jurgen Hannemann, 76 ára eftirlifandi bróðir Axels Hannemann sem féll við Berlínarmúrinn árið 1962, sagðist hlynntur aðgerðinni, í viðtali við taz: „Ég skil vel að allir möguleikar séu nýttir til að vekja athygli á neyðinni við ytri landamæri Evrópusambandsins“. Hann sagði að það væri hræðilegt til þess að hugsa að þúsundir manna deyi á leið yfir Miðjarðarhafið. Hann sagðist aðeins vona að krossunum verði skilað aftur á upprunastað eftir notkun, eins og hópurinn hefur lofað.
Í Tagesspiegel heyrist aftur á móti í aðstandendum sem þykir aðgerðin „ljótur leikur“. Þeir benda líka á að á ljósmyndum sem birst hafa af krossunum í höndum flóttafólks utan Evrópu séu ekki borholur, og hugsanlega séu þar eftirlíkingar á ferð.
Berliner Zeitung ver nokkrum orðum í múrana sem risið hafa kringum Evrópu, og segir mikilvægt að vekja athygli á mannfallinu sem landamæravarslan veldur – en þriðja málsgrein fyrstu fréttar blaðsins hefst á orðunum: „Ósmekklegt er hins vegar að hópurinn hafi valið krossana frá Spree-bakkanum …“. Meginþorri fréttarinnar snýr að meintu smekkleysi, sem er í takt við fyrirsögnina: „Þjófnaður á við grafarspjöll.“
Popúlíska dagblaðið Bild gengur fyrirsjáanlega lengst í að hneykslast á aðgerðinni, sem það kennir aðeins við einn aðila hópsins, listræna stjórnandann Philipp Ruch. Í fréttatexta blaðsins er hann nefndur bæði „gervilistamaður“ og „sjálfskipaður listamaður“. Miðillinn leggur alla áherslu á þá vanvirðingu við hina látnu sem þeir segja að felist í aðgerðinni.
Klaus Wowereit, borgarstjóri fyrir hönd sósíal-demókrata, lýsti því yfir að „þessi svokallaða listaðgerð·“ væri „í sannleika sagt algjörlega smekklaus og heimskuleg. Að skreyta hana með pólitískum forsendum er vanvirðing við fórnarlömb múrsins.“
Þessum ávirðingum um vanvirðingu hefur Fegurðarmiðstöðin meðal annars svarað með ljósmyndum af ástandi minnismerkjanna áður en þau héldu á aðrar slóðir.
Í sósíalíska dagblaðinu Neues Deutschland, bendir Martin Hatzius hins vegar á að hópnum hafi þegar tekist að vekja mikla athygli á hlutskipti fórnarlamba hinna nýju múra. „Athygli. Það er mergur málsins. Það má væna aðgerðasinnana um ýmislegt, en ekki að þau hafi misst marks.“ Um leið segir hann að þeim hafi heppnast annað, aukreitis, sem þó hafi ekki endilega verið ætlunin: að vekja athygli á fórnarlömbum Berlínarmúrsins. „Hvarf hvítu krossanna frá Spree-bakkanum vakti enga athygli — þangað til „Miðstöð um pólitíska fegurð“ lét vita af aðgerð sinni. Áhugaleysi er það versta sem hent getur dauða. Það á enginn skilið sem skrimtir á bakvið múra.“
Vestrænni menningu til varnar
Í viðtali við VICE segist Cesy Leonard, sem stýrir áætlanagerð Miðstöðvar um pólitíska fegurð, ekki vera aðgerðasinni og ekki vinstrimanneskja heldur húmanisti. Hún segir það eiga við um hópinn í heild og verkefnið sé íhaldssamt uppátæki á grundvelli húmanískra gilda: „Við trúum á húmanísk gildi, á jöfnuð manna. Við erum listamenn og alls ekki vinstriróttæklingar. Við skiljum þetta allt sem sókn, til að leiða fram skilning milli þjóða Evrópu og heimsins og verja menningu Vesturlanda.“
Aðspurð um viðbrögð, sem hafi verið bæði jákvæð og afar neikvæð, bendir Leonard á að innan tveggja daga frá því að hópsöfnun hófst til að fjármagna verkefnið hafi safnast þreföld sú fjárhæð sem kallað var eftir. „Það þýðir að fólk vill sjá fyrsta evrópska múrfallið eiga sér stað, og það eindregið.“ Hún segir að meira fjármagns sé þó þörf, til að rúturnar, og þar með þátttakendur, megi vera sem flestar. „Vindurinn sem barst gegn okkur af breiðstrætinu var tiltölulega fyrirsjáanlegur.“
Hún bendir á að frá því að hópurinn lét vita af aðgerðinni, og fjölmiðlafárið hófst, yfir fjórtán táknum sem hafi verið numin á brott — „auðvitað stórum og mikilvægum táknum“ bætir hún við — þá hafi 24 manneskjur látist í flóttabát frá Istanbúl, og varla vakið nokkra athygli. „Við vorum hins vegar á forsíðum Þýskalands,“ segir hún. „Það rífur grímuna af andliti Þýskalandsbyggðar. Allir gráta sitt eigið mannfall. Um leið og einhver kemur annars staðar af, er það varla umhugsunarvert. Við getum þá aðeins minnst mannfallsins við múrinn á fyrri tímum af heilum hug, ef við minnumst þeirra sem falla við múra nú til dags líka.“
„Við höfum öll spurt ömmu okkar og afa: „Vissuð þið ekki hvað átti sér stað í þriðja ríkinu? Og hvers vegna gerðuð þið ekkert gegn því?“ Hvernig munu sagnfræðingar dæma okkur og okkar tíma eftir hundrað ár? Munu börn mín eða barnabörn kannski spyrja mig: „Hvers vegna gerðir þú ekkert gegn því að þúsundir á þúsundir ofan drukknuðu í Miðjarðarhafinu?“ … Þetta er risavaxin listræn áskorun fyrir okkur: Hvað munu sagnfræðingar segja um okkur eftir 200 ár? Og ég breytti eftir því sem mér virtist rétt. Ég var fyrir stuttu í Melilla, í flóttamannabúðum. Þeir minnisvarðar, sem við reisum okkur hér, standa í alls engu samhengi við lífsskilyrði fólksins þar. Þau eru barin með kylfum af lögreglunni og fá hvorki læknisaðstoð, mat né lyf.“
Framundan
Vefur miðstöðvarinnar.
Frétt á ensku.
Meira á ensku.
Síðasta mánudagsmorgun höfuð safnast 771 evra til verkefnisins. Eftir að kunnugt varð um brottnám minnismerkjanna fjölgaði framlögum ört og námu fimm þúsund evrum um eftirmiðdegið sama dag. Þegar þetta er skrifað, aðfaranótt föstudags, höfðu safnast rúmar 30 þúsund evrur, sem samkvæmt áætlunum Miðstöðvar um pólitíska fegurð dugir nær því fyrir þremur 55 farþega rútum, ásamt næringu og gistingu.
Á fimmtudag tilkynnti ákæruvald Berlínar að Philipp Ruch hefði verið birt ákæra. Þá hefur ríkisverndin, eða Staatsschutz, sem er samheiti yfir þær stofnanir sem verja ríkið sjálft fyrir pólitískum ógnum, látið sig málið varða.
Í upphafi mánaðarins tilkynnti Evrópusambandið um nýja áætlun til að verja landamæri Ítalíu að sjó. Áætlunin heitir Triton og mun taka við af aðgerðum ítalska ríkisins. Til hennar hefur verið úthlutað þriðjungi þess fjármagns sem Ítalir vörðu áður til gæslunnar. Samkvæmt vikuritinu Die Zeit er enda áætlað að draga verulega úr björgunaraðgerðum, og gert ráð fyrir að það muni leiða til aukins fjölda dauðsfalla meðal flóttafólks.