Ein-saga af einlægni sögð

- um Veraldarsögu mína, ævisögu hugmynda eftir Pétur Gunnarsson

Skáld og rithöfundar, listamenn og konur ganga að jafnaði með einhverskonar hugmynd um sig (rétt eins og aðrar opinberar persónur) og leggja margir nokkuð á sig við að skapa ímynd sína með verkum sínum eða gjörningum. Pétur Gunnarsson er íslenskum bókmenntaunnendum löngu kunnur og vinsældir verka hans nokkuð stöðugar að því að manni virðist. Pétur tilheyrir kynslóð skálda sem kom fram á áttunda áratugnum í íslenskum bókmenntum og hefur verið áberandi í veröld rithöfunda síðan, en hann gegndi m.a. formennsku í Rithöfundasambandinu á árunum 2006-2010. Að mörgu leyti vaknar sú spurning þegar höfundar hefja útgáfu endurminningabóka hvort að þá hylli undir að útgáfu frumsprottinna verka ljúki, hin eiginlega skáldskaparframleiðsla. Það má allt eins teljast ólíklegt að æviminningaverk Péturs sverji sig í þann hóp sérstaklega því verk hans hafa alltaf staðið í nánum tengslum við úrvinnslu úr atburðum og umhverfi sinnar eigin kynslóðar (líkt og nokkurra af skáldbræðra hans, Einars Más, Guðmundar Andra Thorssonar ofl.).

Sú ævisaga hugmynda sem hér er undir má að mínu mati telja sem þátt í hinu skáldaða höfundarverki hans, í flokki skáldævisagna ef maður vill setja það þannig fram, þar sem ævisagnaritun er alltaf aðeins leið til að endurskapa sagnfræðilegar heimildir í fagurfræðilegan búning. Af skáldskap geri ég ráð fyrir að fá meira af í framtíðinni þar sem einu af „stóru verkefnum hans“ er enn ólokið, og ber þar helst að nefna Skáldsögu Íslands I-III sem hófst með hinni stórgóðu Myndin af heiminum en hlé hefur orðið á verkum í þeirri röð frá árinu 2004 þegar Vélar tímans kom út.

Pétur hefur unnið að þýðingum og ritun áhugaverðrar tveggja binda ævisögu Þórbergs Þórðarsonar sem hlaut viðurkenningu Hagþenkis árið 2009 en síðan þá hefur komið út eitt ritgerðasafn (Péturspostilla 2010) og skáldsagan Íslendingablokk (2012).

Síðasta útgáfa verks eftir Pétur var stutt frumgerð þeirrar bókar sem rýnd verður hér á vegum Tungl-forlagsins en hún kom raunar aðeins út í 69 tölusettum eintökum og nefnist Veraldarsaga (mín) – aldarfarsbók (2013). En nóg um það! 1

Einlægt endurminningarverk

Það er alltaf hægt að enduróma almennar staðreyndir um stílfimi Péturs og auga fyrir hinu skondna og skemmtilega, en þar sem undirritaður sækist ekki endilega eftir því í bókum er ekki hægt að segja að þeir póstar hafi sérstök áhrif á lestur minn á þessari bók. Aftur á móti þá þýtur ljóðrænn og nostalgískur blær í gegnum þetta verk auk leiftrandi snarpra hviða í upprifjunarkafla þar sem kjarninn í hugmyndafræðilegri mótun hippatímabilsins birtist í skýrum myndum. Það gerir manni auðvelt fyrir hversu stíllinn er tær þegar ferðalag höfundarins rennur saman við mannkynssöguna í gegnum frásögn af ferðalögum um Evrópu á námsárunum. Þetta er spennandi og rómantísk saga sem birtir nærmynd af höfundinum á mótunarárunum en einnig félagssaga sem birtir enduróm af menningarkima með áhugaverðu sjónarhorni. Við höfum fengið að kynnast annari hlið og sjónarhorni inn á sama sviðið í Minningabók Sigurðar Pálssonar, og spennandi að heyra sín hvor sjónarhornin á svipaða þjóðfélagslega atburði í Frakklandi í kringum 1970. Einhverntíma í framtíðinni verður álíka hægt að lesa um búsáhaldabyltinguna eða álíka viðburði frá annarri kynslóð. Þegar líður á söguna eykst innsýn í hugljúfustu kaflana sem birta einlæga nærmynd af heimilislífi og ferðalögum Péturs og unnustu hans, Hrafnhildar Ragnarsdóttur. Þar fléttar höfundurinn listilega saman sína eigin persónulegu ástarsögu og lýsingar t.a.m. á dvöl í fjallaþorpi í Grikklandi, og er sérlega nostrað við myndbrotin af æskuástinni.

Skarpar stúdíur á fólki og aðstæðum eru aðall bókarinnar í viðbót við aldarfarslýsingu á mannlífi stúdenta í Evrópu. Glefsur úr bréfum bæði til og frá Pétri birtast í bókinni og eru sérlega æsileg skrif Ólafs H. Torfasonar um fyrstu ljóðabók hans áhugaverð fyrir margar sakir. Það væri virkilega fróðlegt að komast í 164 blaðsíðna viðbragð Ólafs við ljóðahandriti Péturs, en það hljómar eins og aldarfarslýsing sem gaman væri að lesa. Suma þræði þessarar bókar má rekja allt aftur í formála Péturs að ljóðsafninu Að baki daganna sem innihélt ljóðabókina Splunkunýr dagur (1973) auk ljóða og texta frá tímabilinu 1974-2001. Mynd höfundar af sjálfum sér og viðbrögðum sínum við undrum lífsins og augnablikum er áferðarfagur og lipur texti sem vekur mann til umhugsunar um muninn á þjóðfélagsmynd sem er fyllt af von og bjartsýni og þess samtíma sem er þröngvað ofaní kok hins upplýsta neytanda. Sveiflukenndar öfgar virðast einhvernveginn víðsfjarri. Það er einhverskonar stöðugleiki sem fylgir sjálfsskoðuninni sem minnir á nauðsyn andrýmis, nauðsyn þess að hugleiða verk sín en ekki bara framleiða. Þessvegna bendir verkið að mínu mati á nauðsyn þess að byggja á andlegum veruleika (sameiginlegu inntaki skapandi greina og t.a.m. trúarbragða) en fylgja ekki bara tíðarandanum. Því talar verkið almennt við mun fleiri en þá kynslóð sem upplifði tímabil óðaverðbólgunnar fyrir tíma verðtryggingarinnar.

Blanda af fræðum og fagurfræðilegri sýn

Fræðilegi eða pistlaskotni hluti verksins byggir á sögur af áhrifavöldum og þjónar sögulegum hluta þess, samhenginu sem teiknar upp mynd af heiminum í gegnum persónusögu einstaklings. Slíkar heimsmyndir birtast okkur eins í góðum skáldsögum og því er gefandi að lesa hana sem slíka. Og raunar er stíllinn miklu nær flæði skáldskapar en venjulegri ævisögu, þar sem tímaskynjunin er ekki einungis línuleg. Þetta er því fagurfræðilega mjög kompónerað verk sem er jafnt upplýsandi sem og gefandi að njóta á grunni ljóðrænna þátta þess, þar sem smáatriðin eru í forgrunni.

Það er undarlegur samhljómur með lýsingum í bókinni á djúpum tilfinningum sem varða vonir kynslóðar til að upplifa breytingar, við upplifun mína á hinum djúpu tilfinningum sem maður finnur fara um okkar ólgukennda þjóðfélag um þessar mundir. Undirtónn textans er þannig pólítískur að nokkru leyti og Karl Marx, Jesús Kristur og Halldór Laxness heimilisvinir. Þannig verður verkið að hlýlegu teppi til að draga yfir sig, ef maður finnur dug í sér til að slökkva á fésbókinni og kveikja á kerti. Vefnaður textans er brotinn upp af ljóðum úr fyrstu ljóðabók Péturs og yljandi að rekast á 40 ára gamlar perlur í því úrvali, eins og eftirfarandi:

(g)

verkamaður!
stöðvaðu hringinn
og spurðu
því líf þitt stendur utanvið

verkamaður!
sem færð hringinn til að snúast
hann snýst ekki þér

sundraðu kringumstæðum sem taka þig frjálsan
og ala þig upp þræl
við erum í brotum eins og pússluspil
og hlutar okkar ná ekki saman…

(f)

og þú verkakona
hver hugsar nokkurntíma um þig
enginn húsmæðraþáttur talar til þín
og enginn „fyrirmyndarkonuþáttur“ fjallar um þig
enginn gefur þér síðan kjól
og dansar við þig vals
bíómyndirnar eru ekki fyrir þig
draumar þínir fengnir að láni
þitt hlutskipti er slor og klám
börnin þín vitlaust hirt
ó þú sem sefur ekki fyrir tómu veski
þú sem fyllir tossabekkina
er ekki þinn vitjunartími kominn?
leggðu frá þér þorskinn
tvíhentu hnífinn
barki þjóðfélagsins öskrar!

(upphaflega úr Splunkunýr dagur 1973)

Ný hlið á hugmyndinni um Pétur

Kannski eru bókmenntirnar ættfræði og spurningin hvort að sú mjúka og hippalega mynd af Pétri sem þarna birtist myndi verða meira sannfærandi ef hann væri enn með síða hárið, jafnvel skeggið og reykti pípu. Þá væri hann svona krúttkynslóðar íkon. En þó að bókin sé snyrtileg og slípuð eins og ímynd Péturs sem höfundar þá veitir hún innsýn af einlægni inn í líf sem er fullt af bjartsýni á ærslafullan hátt. Þannig birtir Pétur í Veraldarsögu minni á sér hlið sem kemur einhverjum á óvart, öðrum ekki. Hann afhjúpar sig þannig að það kallast á við hugmyndina um einsöguna, þar sem bréf og dagbækur einnar manneskju eru opnaðar og settar í sagnfræðilegt samhengi, stundum með heimspekilegum eða fagurfræðilegum útúrdúrum. Myndir í frásögninni styrkja mjög það ljóðræna og stígandi tempó sem hnígur að þeim stóru tímamótunum að verða faðir og skáld. Það gerir lesturinn svona Bildungsroman-reynslu.

Í mínum huga tekst Pétri leiða lesandann um endursköpun sína á þessu ferli á mjög nærandi hátt í texta sem leyfir manni að detta inní þanka um hið skáldlega við lífið. Það er alltaf hollt og gott á hinum viðsjálverðustu tímum. Þetta er þessvegna mjög góð bók fyrir alla þá sem aðhyllast þá kenningu að vatn sé hollt og lífið skáldlegt.

   [ + ]

1. Fyrsta ljóðabók Péturs, Splunkunýr dagur, kom út 1973 en áður höfðu birst ljóð eftir hann í Tímariti Máls og menningar. Skáldsagan Punktur, punktur, komma, strik leit svo dagsins ljós 1976. Þorsteinn Jónsson kvikmyndaleikstjóri gerði eftirminnilega kvikmynd eftir bókinni sem naut mikilla vinsælda. Bókin var sú fyrsta af fjórum um söguhetjuna Andra en síðasta Andrabókin, Sagan öll, var tilnefnd til bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 1987. Eftir Pétur liggja fleiri skáldsögur og hafa tvær þeirra verið tilnefndar til Íslensku bókmenntaverðlaunanna, Hversdagshöllin árið 1990 og Myndin af heiminum árið 2000, auk fyrra bindis ævisögu hans um Þórberg Þórðarson, ÞÞ – Í fátæktarlandi. Pétur hefur einnig fengist við þýðingar og hlaut þýðing hans á Frú Bovary eftir Gustave Flaubert Menningarverðlaun DV 1996. Hann hefur einnig þýtt hluta af verki Prousts, Í leit að glötuðum tíma. Pétur hefur sent frá sér aragrúa greina um bókmenntir og menningarmál í fagtímaritum, skrifað um þjóðmál og menningarmál í dagblöð og haldið erindi á margvíslegum vettvangi. (Af bokmenntir.is)