Stóra systir segir að ég giftist
þegar ég fæ brjóst
Stóra systir gaf mér
snyrtibuddu í fermingargjöf
og rúllur til að setja í hárið
svo ég geti lært að vera kona
Ekki seinna vænna
en á sjálfan fermingardaginn
að tína púður upp úr buddu
bláan augnskugga
bleikan lit á varir
dökkan maskara á ljós augnhárin
Þannig verð ég falleg
og fullkomin brúður
þannig vill mig einhver maður
þannig geng ég út
og verð aldrei ein
Góð snyrtibudda
bjargar mörgum konum
frá hörmungum einsemdar og ástleysis
segja mér konur í fjölskyldunni
segja mér systur og vinkonur á götunni
segja mér kvennablöðin
án snyrtibuddu verð ég ekki kona
án snyrtibuddu
fæ ég ekki inngöngu í sálufélag kvenna.
Sálufélag kvenna samanstendur
af lekkerum konum í aðsniðnum kjólum
sem kunna að láta mat oní sig
án þess að fitna
Sálufélag kvenna finnst
of mikil matarlyst sumra kvenna refsiverð
Sálufélag kvenna gerir sér mikinn mat
úr megrunarkúrum
Sálufélag kvenna gætir þess
að konur séu eingöngu konur
svo þeim haldist örugglega á körlum
Ég næ aldrei prófinu inn í sálufélag kvenna