Mamma sagði alltaf að ég ætti ekki að lesa ljóðabækur spjaldanna á milli, maður bara dytti inn í þær svona hist og her. Kannski er það alveg rétt, hún hefur yfirleitt rétt fyrir sér. En ef maður er svona anal eins og ég og les þær síðu fyrir síðu, eitt ljóð á eftir öðru, þá kemur ýmislegt í ljós sem annars myndi eflaust vera manni hulið. Þemu, strengir sem binda verkið saman. Það hlýtur jú að vera einhver ástæða fyrir því hvernig þessum ljóðum hefur verið raðað saman. Eða hvað?
Ég hef átt erfitt með að skrifa um Sumartungl af því að ég skil ekki alveg uppröðunina á ljóðunum, sumt á svo vel saman, annað finnst mér enganveginn passa. Hér eru vissulega þemu, strengir sem binda verkið, en þeir eru úr mismunandi efnum og ég er ekki viss hvort sumir þeirra eigi beinlínis saman. Önnur uppröðun gæti hæglega gefið lesandanum auðmeltari takt eða tilfinningu sem leiddi að annarri, sans fyrir sögu sem leiddi mann frá fyrstu kynnum til bitra endaloka eða eitthvað álíka, en gegn því er spyrnt. Þetta þykir mér pínulítið miður, áhrifum textans er varpað á dreif. Sem heild er þó ákveðnum hughrifum komið til skila, best lýst með orðum úr ljóðinu Sumarsveifla „Júníblá sveifla milli svefns og vöku“ (s30).
Hvort sem maður les verkið hist og her eða „í réttri röð“ er margt sem getur gripið mann, svipmyndir úr lífi birtast, sorg, samviskubit, hrifning, gleði og hrífa mann með sér. Í uppáhaldi eru til dæmis ljóðin Steindrangi og Án þess að blikna:
Settu framtíðina á minn reikning
þótt ég viti eða þykist sjá
að borgunarmaður verði ég aldrei
fyrir því sem búið er og gert.Skrifaðu mig fyrir skuldabréfi
með óreglulegum afborgunum
svíkjandi láni með svimandi vöxtum
og hlut í hríðfallandi gengi.Ábyrgjast skal ég ennfremur
allt milli himins og jarðar
með því einfalda skilyrði
að þú fallir fram og tilbiðjir mig
gróðafíkilinn sem þú hefur alið
við brjóst þér án þess að blikna.(s. 48)
Annað er léttvægt, upptalningar á því sem fyrir augu ber í Reykjavík til dæmis vekja hugsanlega minningar lesandans á eigin upplifun af borginni en bæta litlu við (Borgardagur og Miðborg). Ljóð sem eru ljósmyndir án titils eða sýnilegs tilgangs, reyna að fanga hvernig eitthvað lítur út eða virðist vera en ná ekki að vera svo sértæk að lesandinn fái innsýn inn í hugarheim eða upplifun einhvers annars. Því hvað erum við að gera að lesa ljóð ef við viljum ekki sjá heiminn með augum annarra augnablik? Skilja eitthvað upp á nýtt? Ef aðeins í andartak? Það sem situr helst eftir hjá mér eru þau ljóð sem virðast nísta hjarta skáldsins, gefa blákalda innsýn inn í eitthvað sorglega satt.
Hann hefur þó kannski lítinn áhuga á hvað mér finnst. Samkvæmt ljóðinu Skáld með reynslu (sem Aðalsteinn hefur, þetta er hans tíunda ljóðabók) taka skáld „sjaldan mark á dómum nema skýr merki um sannleika birtist í þeim.“ Engin pressa.