Góð vinaleg noja: Um Neyðarútgang

18,5 cm á hæð, er nokkuð óhugnanleg lengd á vænghafi skordýrs en tiltögulega eðlileg hæð fyrir, ljóðabók. Sama má segja um breiddina, 13,5 cm.

En þykktin! Tveir heilir sentimetrar, ef ekki meira – þetta er þykk ljóðabók.

[Mælingarnar eru settar hér fram til að sýna að rýnandi ætlar ekki að skreyta dóminn með persónulegum reynslusögum – heldur áþreifanlegum pseudo-vísindum]

Neyðarútgangur eftir Ewa Lipska er safn þýðinga á úrvali ljóða, eftir „eitt fremsta skáld þeirrar kynslóðar sem í Póllandi sem víðar er kennd við ‘68“ – eins og Geirlaugur Magnússon kynnir hana til leiks í pólska nútímaljóðasafninu Í Andófinu, þar sem mörg okkar lærðu að meta hana fyrst.

AUGNABLIKSGÁLEYSI

Ljóðskáld eru ekki til.
Til er aðeins augnabliksgáleysi

Orðaleikur á fjölfarinni akbraut.
Ef ljóð dúkkar upp
fyrir slysni.

Ewa Lipska, er fædd 1945 í Kráká, Póllandi, og gaf hún út sína fyrstu ljóðabók 1967. Í eftirmála Neyðarútgangs segir ritstjóri bókarinnar Olga Holownia að Ewa hafi alltaf lagt mikla áherslu á að vera „hvorki bundin straumum né stefnum“, en hafi þó, einkum í elstu verkunum, marga þætti sem einkenna hinu svokölluðu pólsku nýbylgju. Og Olga bætir við: „Það var einkennandi fyrir ljóðagerð nýbylgjuskáldanna hvernig þau umbreyttu algengum klisjum sem hin opinbera orðræða hvílir á“

Gakktu úr skugga um
að á eftir ákveðnum dagsetningum sé punktur.
Og eftir öðrum
mínútuþögn.

(úr ljóðinu Réttritunaræfing)

Það að fyrstu bækurnar komu út á tímum strangrar ritskoðunar í Póllandi, fær öll orð til að æpa enn hærra en ella – háskaleikur við tungumálið.  Það er allt annar raunveruleiki fyrir listamenn og skáld að starfa við slíkar aðstæður. Þeir allra jákvæðustu myndu segja það draum allra listamanna og skálda að starfa í einræðisríki – þar fái öll verk þeirra viðbrögð… Heh! Það er allla vegana áhugavert að skoða hvernig tungu- og myndmálið er ólíkt, sumt er ekki hægt að segja beint út.

Pólski gjörningahópurinn Akademia Ruchu flutti 1977 verkið Röð útúr verslun (Kolejka wychodząca ze sklepu) – þar sem nokkrir einstaklingar stóðu jú í röð fyrir utan verslun. Smá saman jókst fjöldi fólks í röðinni – án þess að nokkur vissi til hvers hún væri. Ég hef aldrei upplifað kommúnisma í Austur-Evrópu, né hef ég lesið margar einlægar reynslusögur um hann. En mér finnst þessi mynd, þessi litli gjörningur, vera á við mörg upphrópunarmerki.

LÆRDÓMUR

Ég reyni að læra mannganginn
þetta er sjötti dagurinn sem ég reyni að læra

mannganginn

ég les fræðibækur
freista þess að átta mig á alvöru málsins
tek virkari þátt í samfélagsmálum
æfi hendur mínar

nú vil ég hreyfa mann
en þá segir meistari minn
allt í einu:
– í skák þarf að kunna að máta
án þess að nota
hendurnar.

Afsakið útúrdúrinn með pólska-gjörningahópinn; Mér þykir það ekki langsótt að líkja ljóði við myndlist. Fyrst þegar ég byrjaði að lesa Neyðarútgang gat ég ekki annað en verið hugfanginn af fjölmörgum myndum af kommúnistaríkinu sem birtust mér, fjölmörg skot á einræðisríki – skot og myndir sem fengu að vera í friði þrátt fyrir allt. Sterkar myndir, líkt og Röð útúr verslun, sem lýstu fyrir mér Póllandi og kommúnismanum – regluverki, vörðum, myndavélum, röðum… eftirliti… úfff.

ÚR DRAUMABÓKINNI

Ef þig dreymir um vald
skaltu gæta tungu þinnar
í viku. 

Og þetta virtist einfeldningi eins og mér við fyrstu sýn framandlegt. Ég reyndi að lesa hratt í gegnum ljóðin. Las hratt eins og þetta væri glæpasaga. Óttaðist kannski að skáldið og lesandinn yrðu færð til yfirheyrslu. En eftir fyrsta lestur urðu landamæraverðinnir, og myndavélarnar, og skrumskælt tungumál stofnana, einnig eitthvað sem ég kannaðist við. Og valdið varð heimilislegt, og óttinn varð að vinalegri noju, smá hugaróróleika eftir gleðskap. Ah! Nú skildi ég. Ég er líka viss um að ef nokkrir tækju sig saman um að mynda röð útúr Bónus myndu margir hugsunarlaust standa í röðinni.

Að fylgjast náið með sér
í riffilsjónaukanum.
Að veita tungumálinu eftirför.

Miða.
Skjóta.
Verða að mold.

(úr VEIÐI)

Ég varð svo hrifinn af bókinni að ég óttaðist að ég hefði í raun ekkert að segja nema: VÁ. Og mig langar kannski ekkert að segja neitt meira en: Vá – en ég er tilneyddur til að eiga um hana mörg orð, mér finnst ég skulda bókinni svo margt. Samt er ég nokkuð óhrifnæmur og þægilega sama um allt.

Þetta er bók sem má lesa á marga vegu – að minnsta kosti las ég hana aftur og aftur. Hér er ekki einvörðungu átt við þær aðferðir sem hægt er nýta við lestur á flestum ljóðabókum, lesa í gegn í einum rykk, opna af handahófi, þreifa á pappírnum, horfa á hvíta-tómið, lesa annað hvert ljóð eða einungis titlana, lesa hvern einasta texta sem sjálfstæðan eða alla saman sem einhvers konar ferðasögu – þó vissulega henti allar þessar aðferðir bókinni vel eins og öðrum ljóðabókum.

Hérna er ég með í höndunum höfund sem ég þekki lítið sem ekkert, og ég get hoppað á milli áratuga með lítilli fyrirhöfn – mér finnast ljóðin hennar verða áþreifanlegri með árunum, og ég ætlaði að segja bjartari – en svo mundi ég að orðið gaddavírsleikföng er fyrir aftan miðja bók. Hmmm… samt óþægilega áþreifanlegt orð.

Og fremst er efnisyfirlitið, með útgáfuárum bókanna sem frumtextarnir voru í. Og mér finnst ég geta hoppað inní hugmyndasöguna á hverri síðu og mátað við þær hugmyndir sem ég hef um heiminn á þeim tíma, sem bækurnar komu út, mátað við þær hugmyndir sem ég hef um Pólland á þessum tíma.

Í lokin var ég farinn að reyna að finna einkenni þýðenda í textanum:

– Hah! Típískur Bragi.

– Team OLGA!

– Negldir þetta, Óskar.

– Áslaaaaaug!

– Nei, nei, þarna þekki ég þig, Magnús.

Ég hafði ekki nokkra hugmynd um hvort ég hefði rétt fyrir mér eða ekki, en ég sló samt sjálfan mig kumpánlega á öxlina og hrósaði mér fyrir að vera spottvís á blæbrigði textans (sem ég eflaust ekki er).

Hvernig er þýðingin? Hvort er kebabinnn betri á Mandy eða Alí Baba? Rétt svar er ekki hann er betri í Berlín og Istanbúl. Ég get ekki metið þýðinguna, og fjarlægðina/nándina við pólska textann, en ég get sagt: Þetta er góð bók – ég varð spenntur við lesturinn. Mér þykir gott að vita til þess að ég á hana í hillunni og róandi töflur í skápnum, ef allt fer á versta veg.

Og ef ég hef eitthvað vald sem rýnandi, þá vil ég óska þess að ég fái fleiri tækifæri til að lesa vel gerð ljóðaþýðingasöfn sem þetta, því fyrir mann eins og mig, sem er varla lesandi á annað en íslensku og emoji 🙂 😉 þá er frábært að fá tækifæri til að uppgötva gott skáld á jafn aðgengilegan og fallegan hátt.