Tölurnar tala sínu máli. Fram kemur að af 24 sérhæfðum bókaverslunum eru verslanir Pennans þrettán talsins. Annar áhugaverður punktur er að matvöruverslanir sem selja bækur eru fleiri en sérhæfðar bókaverslanir (25 á móti 24) og að 16 þessara matvöruverslana eru verslanir Haga eða Kaupáss. Verslun með bækur fer þar af leiðandi að stórum hluta fram utan sérhæfðra verslana. Söluprósentur bóka milli þessara ólíku tegunda verslana eru afar árstíðabundnar (sem kannski eru svosem engin ný sannindi) en matvöruverslanirnar eru með um 35% af sölu í mánuðunum fyrir jól en ekki nema um 5% á öðrum tímum ársins.
Talnaefnið verður ekki síður áhugavert þegar kemur að bókaútgefendunum sjálfum. En í svo gott sem öllum liðum þar trónir Forlagið á toppnum. Ekki bara að það tróni á toppnum heldur eru aðrir svo langt á eftir að það er eiginlega varla hægt að tala um „samkeppni“. Ef við tölum t.d. um heildartekjur bókaútgefenda árið 2011 (tafla 3) þá voru heildartekjur Forlagsins 1.246.765.268 íslenskar krónur. Það ár var Edda útgáfa með næsthæstu heildartekjurnar uppá 306.200.000. Ef eigið fé bókaútgefenda árið 2011 er skoðað þá er Forlagið enn á toppnum með 1.077.117.323 krónur og næsti á listanum BF-útgáfa með 21.800.633. Eigið fé Eddu útgáfu það árið var hinsvegar neikvætt um rúma 41 milljón króna.
via Druslubækur og doðrantar: Íslenski bókamarkaðurinn – ábati og umfang.