Hinn umtalaði Óþelló

Fyrsti janúarpistill um leikhús

Þjóðleikhúsið bauð til hátíðasýningar á Óþelló eftir Svaninn frá Avon að kvöldi annars dags jóla. Frumsýningin var daginn fyrir Þorláksmessu svo örlítið var snúið upp á hefðina. Að minnsta kosti man ég ekki til þess að jólaleikritið í musterinu við Hverfisgötu hafi áður verið frumsýnt fyrir jól. Annar í jólum var ævinlega frumsýningardagur að því er ég best veit en það er pínulítið snjallt að hafa annan í frumsýningu á annan í jólum. Búið að skipta frumsýningargestum í tvennt hafði kunnur krítíker eftir miðasölustúlkum rétt áður en að sýningu kom og honum leist ekki á blikuna. Fannst semsé að lýsingin á skiptingu leikhúsgesta í tvennt minnti á hatrömm víg Íslendingasagna og þetta benti til að um nokkuð blóðuga aðgerð gæti orðið að ræða.

Auðvitað var þetta bara einhvers konar kerskni og grín í gagnrýnandanum en það var sannkölluð hátíðastemning í forsal leikhússins þegar gestir gengu þar inn þetta kvöld. Flestir í sínu fínasta pússi og bara dálítið smart í tauinu þótt auðvitað sé smekkur fólks á klæðaburði ólíkur og misjafn. En ég sá hvorki að nokkur maður væri ofskreyttur né leit ég nokkra konu í denímdressi svo þetta var bara dálítið hátíðlegt fannst mér.

Leikhúsið bauð upp á fordrykk sem mér sýndist að flestir þæðu. Ég drakk dýrindis rabarbarakristal, auðvitað óáfengan því að ég vildi vera með sem mestri rænu þegar sýningin hæfist. Sem ég sneri til hægri þegar inn úr anddyri leikhússins kom og ég leit glaður mér um öxl sá ég hvar Ari þjóðleikhússtjóri stóð og bauð fólk velkomið. Mér flaug í hug hvort það væri ekki dónaskapur að heilsa ekki manninum sem var gestgjafi okkar þetta kvöld. Hann var svo flottur og ánægður að sjá og ég minntist þess með gleði þegar við Ari sátum hlið við hlið í Kúlunni að horfa á fyrstu sýninguna á Stertabendu þar í húsinu. Þetta var eittthvað svo blátt áfram og vinaleg en aldeilis alveg óundirbúin athöfn.

Það varð samt ekkert úr því að ég tæki í höndina á Ara Matthíassyni áður en sýningin á Óþelló hófst þarna um kvöldið. Enda nóg annað að gera því að þarna var fólk saman komið til að sýna sig og sjá aðra eins og það er kallað. Ekki leiðinlegt að vera í svona fínum félagsskap hugsaði ég en fann um leið fyrir eðlislægri feimni og ákvað að vera ekkert að ryðjast mikið á fólk til að heilsa því og burðast við að láta mér einhver snjallyrði um munn fara. Það gladdi mig samt þegar einn af okkar ágætu leikstjórum heilsaði upp á mig og sagði mér að hann hefði fengið bókina mína um leikstjórnarferil Þórhildar Þorleifsdóttur í jólagjöf. Og lét það fylgja með að sér litist bara vel á hana.

Félagslegur gjörningur

Þessi móttaka Þjóðleikhússins á undan hátíðasýningunni á Óþelló minnti mig rækilega á að leiksýning er í sinni innstu gerð félagslegur gjörningur. Fólk kemur saman til þess að verða vitni að leiksýningu sem annar hópur fólks hefur eytt drjúgum tíma, orku og hugsunum til þess að skapa á leiksviðinu. Gestir koma í leikhúsið til þess að láta hrífast með sýningunni eða hneykslast á því sem fram fer, þeir vilja skemmta sér, láta snerta við tilfinningum sínum eða vitsmunum. Þegar best tekst til er leikhúsið í svo góðu sambandi við samfélagið utan þess að það talar beint til leikhúsgesta og þeir þurfa að taka tilfinningalega eða vitsmunalega afstöðu til þess sem fram fer fyrir augum þeirra og eyrum.

Fólk var svolítið lengi að ljúka úr glösunum þarna um kvöldið á annan í jólum svo það dróst örlítið í tíma að gestir gengju í salinn og sýningin gæti hafist. Held þetta hafi í allt dregist í nærri tíu mínútur og mér fannst við gestirnir ekki alveg nógu tillitssamir við leikarana sem þurftu að anda djúpt og gera jógapósur lengur en um hafði verið samið og ráð fyrir gert.

Töfrahljóð og skógarhögg

En svo byrjaði loksins sýningin. Einföld og falleg mynd blasti við; barrtré allstórt stóð í einhvers konar svörtum bing á miðju sviði. Upp hófst nú mjög falleg ljósaskreyting sem lék mjúkt við greinar trésins og til eyrna bárust hljóð og tónar sem unun var á að hlýða. Mér fannst ég þekkja þarna ýmis náttúruhljóð og önnur undur og það flögraði að mér andartak hvort auglýst hefði verið vitlaust Shakespeareleikrit. Lýsingin og leikmyndin – svo ekki sé minnst á hljóða- og tónaskúlptúrinn – minntu mig nefnilega á töfraeyjuna hans Prosperós þar sem um nætur má að sögn Kalíbans heyra margt undrahljóðið.

En svo gekk Ingvar E. Sigurðsson á svið og var að þessu sinni ekki að leika Prosperó heldur Óþelló og hjó niður tréð. Það féll á sviðið og mér fannst vont að sjá og heyra hvað þetta var létt tré og ekki eins massað og trén í Heiðmörkinni eða á Þingvöllum sem falla þung til jarðar séu þau höggvin.

Þetta var samt falleg sena og afskaplega ljúf fyrir augu og eyru eins og margt annað í þessari sýningu á Óþelló. Öll uppfærsla Gísla Arnar Garðarssonar og samverkamanna hans á leikriti Shakespeares bendir til afskaplegra vandaðra vinnubragða hvað allt hið sjónræna áhrærir. Plast og gólfefni sem minnir á eldfjallagjósku umlykja sýninguna á alltumvefjandi hátt og búningarnir eru hver öðrum smartari.

Dramatúrgískar stoðir vantar

Eftir sem áður snerti þessi sýning ekki við tilfinningum mínum svo neinu næmi og hún varð mér heldur ekki vitsmunaleg þraut eða unun. Ég hygg að svarið sé afar einfalt við því hvers vegna afbrýðisemi Óþellós og Jagóar (jú, þetta nafn beygist eins og Gógó og Sísí af því að það er kona – Nína Dögg Filippusdóttir – sem fer með hlutverk skúrksins í leikritinu) og dráp elskhuga og eiginmanns á Desdemónu hinni fögru og fríðu, ungu og saklausu, leið hjá mínum sjónum hreint eins og ekkert hefði skeð.

Það vantar semsé dramatúrgískar stoðir í sýninguna. Hefði Gísli Örn vandað jafnmikið til vals á dramatúrgískri ráðgjöf og hann hefur vandað sig við að velja leikmynda- búninga- og ljósahöfunda, að ógleymdum tónmeistara, þá hefðum við fengið að sjá gríðarlega magnaða sýningu í Þjóðleikhúsinu á annan í jólum.

Hjónakvartettinn var fjarri

Ég er ekkert sérstaklega handgenginn Óþelló Shakespeares. Hef þó séð þetta leikrit fáeinum sinnum á sviði auk einhverra bíómynda sem á því eru byggðar. Nokkrum sinnum hef ég lesið leikritið um Márann í Feneyjum eða hluta þess og mér finnst liggja í augum uppi að þarna er ekki sögð neitt sérstaklega flókin saga. En hún er býsna mögnuð í meðförum Shakespeares. Ég hef þá trú að grunnurinn að góðri dramatúrgíu í hvaða sýningu á Óþelló sem er sé best lagður með vandaðri greiningu og túlkun á hjónunum tveimur í þessu leikriti, Desdemónu/Óþelló og Emilíu/Jagó – og hinni bráðeitruðu dýnamík sem er í samskiptum þessa kvartetts. Slík greining lá að baki minnisstæðustu versjón sem ég hef séð af þessu leikriti, fjórdansi eftir Twylu Tharp, þar sem ekki komu við sögu aðrar persónur en þau fjögur. Og samt var einhvern veginn allt sagt sem segja þurfti.

En í uppfærslu Gísla Arnar Garðarssonar örlar ekki á neinni djúpgreiningu á samböndum þessa fereykis. Emilía er orðin að Emil sem settur er í hendur Ólafs Egils Egilssonar og horfnar eru þær replikkur eiginkonu Jagós sem úrslitum ráða um skilning á gerðum Óþellós og allri túlkun leikritisins. Í öðru atriði fimmta þáttar leikritisins kemur Emilía semsé aðvífandi þegar Óþelló hefur kyrkt konu sína og eftirfarandi orðaskipti eiga sér stað. Þýðingin er Matthíasar Jochumssonar:

Ótelló: Nú, hvernig var hún myrt?

Emilía: Já, hver veit þetta?

Ótelló: Þú heyrðir sjálf hún sagði, ekki ég.

Emilía: Hún sagði það, ég verð að vitna satt.

Ótelló: Svo hrapi hún þá til helvítis með lýgi;

því ég er sá sem hana drap!

Emilía: Því hreinni

engill er hún, en dekkri djöfull – þú!

Ótelló: Hún aðhylltist hið illa, drýgði hórdóm.

Emilía: Nei, þessu lýgur þú, og djöfull ertu.

Ótelló: Hún var sem vatnið ótrú.

Emilía: Þá ert þú

sem loginn ær, að ljúga´á hana svikum.

Ó, hún var trú, sem himnaríkis-engill.

Og Emilía veit alveg hvað hún er að tala um þegar þarna er komið sögu því að í lok fjórða þáttar hefur Shakespeare látið þær Emelíu og Desdemónu skiptast allítarlega á skoðunum um ótryggð í hjónabandi. Í því samtali kemur glögglega fram að þessar tvær konur greinir á um hvort framhjáhald geti átt rétt á sér. Í orðaskiptum þeirra leggur Shakespeare/Matthías meðal annars þessi orð í munn Emilíu:

Hver kona mundi ekki gjöra kokkál úr bónda sínum, til þess að hann yrði konungur? Ég vil þola hreinsunareldinn upp á það.

Desdemóna neitar að trúa því að til séu þvílíkar konur og atriðinu lýkur á því að hún biður drottinn um að vernda sig frá villu – svo hún læri ei vont heldur „gott af illu“. [Skyldi Indriði Einarsson sem var Shakespearefan hafa stolið þessum línum í bænina sína til hinnar mildu Maríu – bið þú þinn son að vernda oss frá villu – sem oft er sungin á jólum þótt textinn sé úr leikritinu Dansinn í Hruna og lagið leiksviðsmúsík?]

Sakleysið myrt

Nú kann vel að vera að samtímakonum og mönnum þyki sakleysi Desdemónu afskaplega ótrúlegt og súludansatriðið sem Aldís Amah Hamilton/Dedsdemóna er látin fremja í augsýn brúðkaupsgesta sinna og Óþellós bendir til þess að Gísla Erni leikstjóra og hans samverkamenn leggi ekki trúnað á sakleysi og einlæga tryggð Shakespearekaraktersins. Það er mjög miður því að með því að gefa í skyn að Desdemóna sé til í tuskið með fleirum en sínum ektakarli dettur botninn úr leikriti Svansins frá Avon.

Óþelló drepur Desdemónu nefnilega saklausa í margföldum skilningi orðsins. Jafnt hugur hennar og hold eru flekklaus. Og með því að kyrkja konu sína drepur Óþelló ekki bara þessa saklausu manneskju heldur er það einnig herforinginn sem hér myrðir sakleysið. Með þeirri dramatúrgíu sinni vísar Shakespeare langt út fyrir þetta eina leikrit og til allra þeirra hörmunga sem misþyrming sakleysis veldur í styrjaldarógnum og hversdagsheimsku mannanna. En þessi grunnboðskapur leikritsins fer fyrir ofan garð og neðan í uppfærslu Þjóðleikhússins. Þegar Óþelló leikrits Shakespears áttar sig á því að hann hefur myrt konu sína saklausa og svipt sakleysið sjálft lífi af því að hann hafði sjálfur orðið illmælgi og rógi Jagós að bráð á hann þann kost einan að kála sjálfum sér. Og leikritið verður að harmleik um hetjuna sem á bara tvo kosti og báða slæma.

Þannig er þetta ekki í uppfærslu Þjóðleikhússins að þessu sinni. Þar kyrkir Óþelló Desdemónu kviknakinn og hengir svo sjálfan sig í rauðri dulu sem á að tákna tryggðapant hans og eiginkonunnar. Kennslin sem Aristóteles lagði svo mikla áherslu á í kenningum sínum um harmleikinn og fyrrgreind orð Emilíu eru skálduð til þess að koma í kring eru brottnumin úr sýningunni. Og úr verður í besta falli dálítið væmið drama en ekki harmleikur.

Það er mjög sorglegt að þetta skuli hafa farið svona því að mikið er í sýninguna á Óþelló lagt og allur efniviður var til staðar til þess að úr yrði sannkallað sviðslistaverk. Ég veit þó ekki hversu góð þýðing Hallgríms Helgasonar er á leikritinu. Hann hefur sjálfur sagt eftir að sýningin varð umtöluð í ýmsum miðlum og á meðal fólks að mörgu hafi verið hnikað til á sviðinu frá þeirri gerð sem hann lét frá sér fara. Ugglaust rétt hjá honum og ósköp varð fljótt þreytandi að heyra leikarana staglast á ríðingum. Það eru til svo mörg önnur orð um þá athöfn sem við er átt – og Shakespeare fer fínna í þetta en svo að hann skrifi í sífellu helvítis fokking fokk.

Græna skrímslið

Í leikskránni er reyndar ein tilvitnun í leikritið – og ég reikna með því að þar sé vísað í þýðingu Hallgríms:

„… Afbrýðisemin er græneygða skrímslið sem að öllu hlær sem fitar það og nærir …“

Þessi setning er auðskiljanleg en mér finnst aldrei til prýði að skella einni tilvísunarsetningu svona beint aftan við aðra – og hygg að þessar línur hefði mátt þýða á mun glæsilegri hátt. Það er nú eitt – en eftirfarandi texti sem þessi tilvitnun er fyrirsögn á er held ég mesta steypa sem ég hef lengi rekist á á prenti:

Afbrýðisemi er auðvitað sammannleg og eðlileg tilfinning. En eins og aðrar tilfinningar getur afbrýðisemi orðið til trafala og hún getur jafnvel orðið hættuleg. Með því að hafa greiningarskilmerki fyrir geðröskun sem kölluð er hugvilluröskun með afbrýðisemi í greiningarhandbók sinni hefur bandaríska geðlæknafélagið viðurkennt þetta.

Þessi tilvitnun mun vera tekin af vef sem kallaður er heilahreysti.is

Ekki bendir orðalagið til neinnar sérstakrar hreysti heilans sem skellir svona orðalagi á veraldarvefinn en hvaðan sem tilvitnunin er upp runnin er hún afskaplega illa orðuð og vekur fátt annað en kjánahroll. Mér finnst með eindæmum einkennilegt að skella þessu orðaklúðri inn í leikskrá Þjóðleikhússins og veit ekki hvort ég á heldur að hlæja eða gráta yfir því.

Allir fullorðnir vita að afbrýðisemi er afskaplega vond tilfinning, bæði fyrir þá sem verða fyrir henni og ekki síður fyrir þá sem bera hana í brjósti og rækta hana með sér. Það þarf engin greiningarskilmerki hugvilluröskunar bandarískra geðlækna til þess að segja okkur frá þessu. Okkur er nefnilega öllum vel kunnugt að afbrýðisemi er gerð úr eyðandi og stórhættulegum krafti; og leikrit Shakespeares um Márann í Feneyjum er einhver besti skáldskapur sem um það hefur verið saminn. Hér ætti því leikritið að tala fyrir sig sjálft og ritstjóri leikskrárinnar átt að hugsa sig tvisvar um áður en hún kopípeistaði þessa dæmalausu steypu og lét prenta hana.

Og hinn félagslegi gjörningur heldur áfram

Samkoman sem hófst í Þjóðleikhúsinu frumsýningarkvöldið 22. desember og var fram haldið á áttunda tímanum að kvöldi annars dags jóla með gylltum og rauðleitum veigum til hressingar gestum hélt áfram að skjóta upp kollinum í ýmsum myndum eftir að leiksýningum lauk. Næsta atriði var að bíða eftir leikrýni úr ýmsum pennum og munnum og að þessu sinni varð þar úr nægu að moða. Sumt af því sem sagt var og skrifað um sýninguna fannst mér ekki laust við beiskju afbrýðinnar og annað ótrúlega hátíðlega orðað miðað við það sem um var fjallað.

Mér er að minnsta kosti ekki nokkur leið að líta á dramatúrgíuna í Óþelló Vesturports og Þjóðleikhússins sem afbyggingu á leikriti Shakespeares. Ég trúi því að raunveruleg afbygging verks leiði í ljós áður óþekktar víddir skáldskaparins sem tættur er í sundur til þess að finna leyniþræði sem ekki sjást á yfirborðinu. Í hátíðasýningu Þjóðleikhússins á annan í jólum síðastliðinn glitti ekki í neina slíka þræði. Þvert á móti var leikritinu tekið blóð svo máttur hvarf úr því. Og skrítinn fannst mér sá meinti femínismi að láta konu leika aðalskúrkinn í stykkinu.