Það hefir löngum talist slæm latína að blanda sjálfum sér inn í ritrýni. Samt sem áður ætlar undirritaður að gerast sekur um það hér og nú.
Árið 2005 fékk hann það verkefni að fjalla um skáldsögu Ófeigs Sigurðssonar, Áferð, fyrir miðil sem um þessar mundir er oft og tíðum spyrtur saman við fyrrverandi forsætisráðherra og Hádegismóa. Margir hverjir horfa og til þess miðils með fortíðarþrá í auga, einkum og sér í lagi til ákveðins hluta hans sem nefndur var Lesbók. Kemur það þó þessari umfjöllun samasem sem ekkert við.
Alltént er skemmst frá því að segja að ritrýnandi og undirritaður varð afar hrifinn af Áferð og jós verkið nær eintómu lofi. Var enda um afar hressandi lesningu að ræða. En þegar svo jákvæður dómur hefir verið látinn falla vonar ritrýnandi auðvitað í hégóma sínum að viðkomandi rithöfundur, sem fyrir lofausinu varð, komi til með að standa undir nafni í framtíðinni. Hann vonar sum sé að hann hafi komið auga á höfund sem í framtíðinni sendi frá sér ekki síðri verk.
Og nú tæpum níu árum eftir að hinn lofsamlegi ritdómur birtist fær undirritaður á ný tækifæri til að rýna í skrif Ófeigs og leggja dóm á ágæti þeirra. Og til að gera langa sögu stutta og fjarlægja þá spennu sem vafalítið hefir tekið sér bólsetu í brjósti lesanda þá er undirritaður ánægður með hina 342 blaðsíðna skáldsögu höfundar, og jafnframt hans fjórðu, Öræfi. Í reynd er hann, í sínum jarðbundna stíl, afar, einkar og mjög ánægður með skáldsöguna.
Áður en lengra verður haldið með útlistun þess hví undirritaður þeirrar skoðunar sé að Öræfi teljist frambærilegt verk skal formsatriði fullnægt: Ófeigur Sigurðsson er fæddur 1975. Eftir hann liggja í það heila tíu útgefnar bækur, skáldaðar. Þar af er um fjórar skáldsögur að ræða: Áferð kom út anno 2005, Skáldsaga um Jón & hans rituðu bréf til barnshafandi konu sinnar þá hann dvaldi í helli yfir vetur &undirbjó komu hennar &nýrra tíma anno 2010, Landvættir anno 2012 og svo auðvitað bók sú sem hér til umræðu er. Á síðasta ári kom út ljóðabókin Nokkrir kviðlingar og lausavísur. En auk hennar hafa verið gefnar út Ófeigs-ljóðabækurnar Provence í endursýningu anno 2008, Tvítólaveizlan anno 2008, Roði anno 2006, Handlöngun anno 2003 og Skál fyrir skammdeginu anno 2001. Teljast þetta vart slæm afköst.
Verk þessi fóru ekki hátt á bókmenntamarkaðnum og komu höfundi ekki í lúxusvillu á Arnarnesinu. Eigi að síður hlutu þau að mestu jákvæð viðbrögð kollega minna. Er og hverjum málsmetandi aðila ljóst, eða ætti að vera það, að Ófeigur er maður sem vel veldur penna. Hefir færni hans meira að segja verið verðlaunuð því fyrir Skáldsögu um Jón & hans rituðu bréf til barnshafandi konu sinnar þá hann dvaldi í helli yfir vetur &undirbjó komu hennar &nýrra tíma hlotnuðust honum Bókmenntaverðlaun Evrópusambandsins anno 2011. Verðlaun þessi komu höfundi á kortið og mætti segja, og á sama tíma halla sér að Öræfum og slengja fram óbeinni vísun í verkið, að höfundur sé orðin örnefni í íslenska bókmenntalandslaginu.
Skal nú förinni vikið til Öræfa.
I: Umgjörð verks og innihaldslýsing
Verkið hefst á formála ónafngreinds höfundar (eða söguhöfundar). Þar lýsir hann því hvernig hann kemst yfir öskju sem inniheldur langt bréf austurríska örnefnafræðingsins Bernharðs Fingurbjargar.
Að formála loknum tekur við úrvinnsla höfundar eða söguhöfundar á bréfinu. Sú úrvinnsla er jafnframt sagan. Bréfið eða úrvinnsla þess skiptist í fjóra mislanga hluta sem bera nafngiftirnar „I Draumar“, (bls. 7) „II Fjársjóðir“ (bls. 81), „III Leyndardómar“ (bls.190) og „IV Eftirleit“ (bls. 296). Er bókinni svo lokað með eftirmála höfundar eða söguhöfundar.
Hvað innihald varðar mætti byrja á að notast við káputexta bókar. Er hann svohljóðandi:
Vorið 2003 kemur ungur maður örmagna og blóðugur inn í þjónustumiðstöðina í Skaftafelli eftir hrakninga á öræfum. Hann heitir Bernharður Fingurbjörg, austurrískur örnefnafræðingur, og erindi hans til landsins var að halda í rannsóknarleiðangur inn á Vatnajökul og vitja um vettvang hroðalegs glæps sem framinn var tuttugu árum áður og bendist meðal annars að móður hans.
Lýsing þessi ætti að kveikja löngum hjá krimmaþyrstri þjóð til að festa kaup á verkinu og jafnvel að lesa það. Er það svo sem ekkert mikið verri ástæða en hver önnur. En þá sem þyrstir í glæpasögu -ísjökulkaldan blóðidrifinn öræfakrimma- verður að hryggja með þeim upplýsingum að Öræfi eiga fátt sameiginlegt með formúlukenndum og oft ferköntuðum reyfurum sem eiga til að ganga eins vel í mannskapinn og Rittersport-súkkulaðið í Þýskalandi. Verður og að segjast að ef sú hefði raunin verið, hefði það komið undirrituðum stórlega á óvart og aukinheldur ollið þeim hinum sama vonbrigðum.
Sú er líka langt í frá raunin að draga megi verkið í slíkan dilk. Nei, þessi bók er villifé.
II: Önnur tilraun til innihaldslýsingar sem og lýsingar á umgjörð verksins
Eins og áður gat er sagan sem slík bréf Bernharðar sem stílað er á höfund eða söguhöfund eða ölluheldur úrvinnsla höfundar eða söguhöfundar á bréfi Bernharðar. Liggur því beinast við að setja verkið í bréfasöguflokkinn og benda á tengsl við Skáldsögu um Jón & hans rituðu bréf til barnshafandi konu sinnar þá hann dvaldi í helli yfir vetur &undirbjó komu hennar &nýrra tíma. En þar er, líkt og hinn lýsandi titill gefur til kynna stuðst við bréfasöguformið. Í þessu samhengi er gaman að mega benda á að bréfasagan á rætur sínar að rekja til 18. aldarinnar og var einmitt Jón Steingrímsson, eldklerkur, raunveruleg persóna, þjóðsagnapersóna og söguhetja Ófeigs í téðu verki 18. aldar maður. En þetta er útúrdúr og kemur þessari umfjöllun ekki svo mikið við nema kannski til að benda á að Ófeigi er tamt að notast við sögupersónur sem einhvern tímann voru eða eru af holdi og blóði, eða öllu heldur byggja á lífi þeirra og sögum sem af þeim fara, eða fóru, og nýta sér við sköpun sína.
Reyndar, þegar að er gáð, er strembið að ætla sér að láta Öræfi falla fyllilega að bréfasöguforminu. Máski færi betur að tengja þau (Öræfi) við dagbókarformið þar sem bréf Bernharðar á ýmislegt sammerkt með því sem gæti þá leitt til samanburðar við Áferð, skáldsöguna sem undirritaður lagði lof á anno 2005 fyrir Hádegismóablaðið. Verk það ber óneitanlega keim af dagbókarfærslum, auk þess sem höfundur – er þá átt við Ófeig – sjálfur hefir bent á að hann hafi stuðst við dagbækur sínar þegar hann setti umrædda skáldsögu, Áferð, saman.
Hvað innihald varðar skal játa að það er bara hreinlega ekki hlaupið að því að ætla sér að snara fram burðugri innihaldslýsingu. Stafa þeir erfiðleikar ekki af því að berstrípaður söguþráðurinn sé svo flókinn. Nei, sú er ekki raunin. Og ef tilraun væri gerð til að berja saman innihaldslýsingu sem ekki liti út líkt og útmálun sakamálasögu er ekki óhugsandi að hún gæti verið á þessa leið:
Askja með löngu og ítarlegu bréfi austurríska örnefnafræðingsins Bernharðs Fingurbjargar finnst við Vatnajökul. Bréfið hefir að geyma ævintýralega ferðasögu og fróðlegar lýsingar Bernharðs á Öræfum og fólkinu, Íslandi, bæði landi og lýð en síðast en ekki síst allslags vangaveltur er lúta að jafn ólíkum efnivið og þjóðsögum, sagnfræði, dauðarokki, symbólisma, skáldskap, jarðfræði, ferðamennsku og áhrifum hennar, örnefnum, varúðarverðu villifé, sem Bernharður lendir í uppi á jökli. Síðast en ekki síst snýst þó bréfið um leit manns að sjálfum sér í viðsjárverðum heimi.
Þessi lýsing er þó ekki nándar því nærri eins spennandi og káputextinn og er satt að segja óralangt frá því að fanga anda verksins.
III: Þriðja tilraun til að takast á við innihald bókar
Það er kominn tími til að viðurkenna að Öræfi verða ekki með góðu móti bundinn á klafa skilgreiningaráráttu undirritaðs. Það verður líka að segjast eins og er að Öræfi eru vaðall (í jákvæðri merkingu). Vaðið er úr einu í annað og getur verið brösótt að fylgja þræði. Stafar það til að mynda af því að einatt virkar textinn óráðs-, draum- og fantasíukenndur og á hann, í ofanálag, til með að lemja miskunnarlaust á raunveruleikaskynjun lesandans (ímynda ég mér). Textinn er uppfullur af allslags ýkjum sem fengju hvern þann sem lætur persónur sínar kljúfa menn í herðar niður til að roðna, en þar að auki er hann á undarlegan hátt býsna jarðbundinn. Gæti sú jarðtenging stafað af tíðri notkun heimilda, vísana og frásagna af sögulegum persónum. Má og augljóst þykja að Ófeigur hefir skellt sér á heljarinnar lestarsvall og viðað að sér margvíslegum fróðleik um land og þjóð, einkum um Öræfi sem bókin er eftir allt tileinkuð, en einnig er boðið upp á allslags útúrdúra og ferðast í tíma og rúmi sem og til Grænlands, Austurríkis og fleiri staða þótt sagan eigi sér, því að gera, einvörðungu á Íslandi stað. Stundum mætti auk þess fá á tilfinninguna að um árbók eða sagnfræðirit, sem farið hefir laglega út af sporinu, sé að ræða. Þá hjálpar einnig afar tíð notkun aukasetninga , líkt og um Þjóðverja á örvandi lyfjum í aukasetningakeppni væri að ræða.
Enn fremur er vert að minnast á áðurnefnda úrvinnslu söguhöfundar á bréfi Bernharðs. Hún er athyglisverð þar sem hún er í og með úrvinnsla á úrvinnslu Bernharðs á frásögnum annarra persóna. Það er að segja frásögnin fer í gegnum lög frásagna. Til að mynda skipar héraðsdýralæknirinn Lassi vegamikla rullu í bókinni. Læknir þessi veitir Bernharði aðhlynningu þegar hann verður óhappi í byrjun bókar. Hann verður fyrir árás villihrúts. Lassi tekur til við að skrifa skýrslu um atvikið, með ótal útúrkrókum. Skýrslu þessa skrifar hún, að hluta, upp úr túlki sem þýðir það sem Bernharður hefir að segja og það þótt hann sé mælandi á íslensku. Þannig setja mætti frásagnarkeðjuna upp svona:
Bernharður – >túlkur – > Lassi – > söguhöfundur – > höfundur (ef við gerum greinamun á höfundi og söguhöfundi).
Allt skapar þetta hála braut sem auðveldlega er hægt að renna út af. En vitið þið hvað? Þetta er bara allt í lagi. Maður kemur sér bara aftur á brautina og heldur áfram að skauta enda veldur Ófeigur þessu fyllilega.
IV: Aðeins um persónur bókarinnar og svo verður þetta látið gott heita
Persónur sögunnar eru fjölmargar og væri of langt mál að tíunda þær allar. Segjast verður þó að þær eru undir sömu sök seldar texti bókarinnar. Þær eru fjölbreytar og óútreiknanlegar, með báða fætur niðri á jörðinni, höfuðið í skýjunum, sveipaðar þjóðsagnakenndum blæ, raunverulegar, líkar ævintýraverum, ástleitnar, argar, fróðleiksfúsar, vergjarnar … og svona mætti áfram telja. Látum því bara nægja að segja þær áhugaverðar, eins leiðinlega og það nú hljómar.
Eftirmáli
Eitthvað sem átti í byrjun að vera stutt rýni hefir laglega teygt úr sér. Og enn eru ótal hlutir sem segja mætti um téða bók sem hreinlega hrópar á orð og pælingar. Undirritaður ætlar bara að enda á því að leyfa sér að vona framtíðin beru í skauti sér fleiri verk úr smiðju höfundar sem eru jafn hressandi og þetta. Þetta er raunverulega skrambi góð bók!