Auðvitað skiptir leikur öllu máli í svona verki og þeir Jóhann og Hilmar kunna list samleiksins vel. Þeir fengu fína æfingu í samhæfingu í Rauðu eftir John Logan í Borgarleikhúsinu í hittifyrra og virkilega smekklegt af leikhússtjóra að leyfa þeim að láta reyna á samvinnuna aftur. Hilmar dregur upp skýra mynd af Tómasi, góðum dreng en dálítið ráðvilltum, en gefur líka í skyn að ekki fáum við að vita allt um manninn á einu kvöldi. Í honum búi meira en við fáum að sjá enda hefur hann framtíðina fyrir sér. Jóhann er gegnheill í hlutverki Gunnlaugs; við þekkjum þennan mann inn úr, með öllum kostum hans og göllum. Jóhann nýtur þess í hlutverkinu hvað hann getur óendanlega mikið sem leikari og það er nautn að horfa á hann túlka þennan mann.
Silja Aðalsteinsdóttir skrifar via Karlafræðarinn : TMM.