7. KAFLI
Mikilvægasta tilraun mannkynssögunnar
Ópus er 12 ára strákur sem sannfærist um að vindurinn sé lifandi tilfinningavera. Þessi kafli gerist þegar Ópus hefur skorið niður stórt segl sem stendur á víðavangi í því skyni að bjarga vindinum úr prísund.
Ópus hafði aldrei verið jafn hræddur. Hnén urðu að brauði, jörðin var skyndilega óstöðug. Eitt augnablik hvarflaði að honum að hlaupa eins og fætur toguðu, en hann leiddi hugmyndina strax hjá sér. Ekki bara af því að hann þóttist viss um að lögreglan myndi ná honum, heldur líka því honum fannst það óheiðarlegt. Á maður ekki alltaf að horfast í augu við afleiðingar gjörða sinna? Auk þess hafði hann ekki gert neitt rangt. Það hlaut að vera góðverk að bjarga vindinum
úr prísund – eða hvað? Hann hafði ekki hugsað út í það fyrr en núna, en líklega átti einhver þetta segl. Var hann kannski búinn að eyðileggja eitthvað?
Þið megið ekki handtaka mig. Ég er bara strákur, hljóðaði hann um leið og hann lét öxina falla á jörðina.
Þegiðu! bauluðu lögreglumennirnir.
Þeir settu hann í handjárn og skelltu honum upp í aftursætið á einum bílnum. Öxina settu þeir í sönnunargagnapoka og svo brunuðu þeir af stað beina leið upp á lögreglustöð.
Vindurinn skók lögreglubílinn, ýlfraði fyrir utan gluggann, en komst ekki inn. Nú var það Ópus sem var í klípu en vindurinn gat ekki hjálpað honum.
Hver sendi þig? spurði lögreglustjórinn þegar þeir komu á lögreglustöðina. Drengurinn sat handjárnaður við lítið skrifborð fyrir framan lögreglustjórann og leið eins og stórglæpamanni. Það var dimmt í herberginu en lítill lampi lýsti upp skrifborðið.
Það sendi mig enginn, svaraði Ópus gráti nær. Hann gat ekki hugsað sér að reyna að útskýra fyrir þessum mönnum að vindurinn hefði beðið hann um aðstoð. Hann yrði bara álitinn jafnbilaður og Súsanna.
Kjaftæði, urraði lögreglustjórinn. Hann var stór og feitur maður með fýlulegan svip. Þegar hann hallaði sér fram á borðið gnæfði hann yfir Ópusi eins og fjallgarður. Í kringum þá stóðu nokkrir lögreglumenn í viðbót en Ópus sá illa framan í þá því ljósið við skrifborðið blindaði hann og andlit þeirra voru í skugga.
Hvað veistu mikið? spurði lögreglustjórinn.
Ég veit ekkert. Ég sver það.
Hvers vegna skarstu þá niður seglið?
Út af vindinum. Ég get ekki útskýrt það, en vindurinn bað mig um það, svaraði Ópus miður sín af hræðslu við að vera álitinn brjálæðingur. Það er hættulegt að fanga vindinn. Það á að sýna honum virðingu, hélt hann samt áfram.
Ekki snúa út úr, svaraði lögreglustjórinn kaldranalega. Reyndu ekki að kjafta þig út úr þessu. Það verður bara verra fyrir þig. Hver sendi þig?
Enginn! Ég er ekki að plata! Ég var bara að hlusta á vindinn.
Og þannig hélt yfirheyrslan áfram, sömu spurningarnar aftur og aftur. Lögreglumennirnir trúðu ekki orði af því sem Ópus sagði. Hann fékk á tilfinninguna að hann hefði framið meiri háttar glæp, en enginn sagði honum í hverju glæpurinn fólst nákvæmlega.
Allt í kringum þá stóðu lögreglumenn og pískruðust á. Sumir fóru út en aðrir komu inn og Ópus heyrði aldrei hvað þeir sögðu. Hann var bara tólf ára, en þeir létu eins og hann væri útsmoginn lygari úr innsta hring mafíunnar.
Yfirheyrslan dróst á langinn og smám saman varð Ópus þreyttur á því að endurtaka alltaf það sama. Hugur hans varð dofinn og hann langaði svo til að komast burt. Hann var farinn að íhuga að samþykkja hvað sem væri, bara til að komast burt frá þessum reiðu mönnum.
Ertu njósnari? spurði lögreglustjórinn.
Ópus svaraði ekki.
Fyrir hvern ertu að njósna? spurði hann óðamála, sannfærður um að nú væri hann kominn á rétta sporið.
Í stað þess að svara fór drengurinn að gráta. Hann gat ekki meira. Auðvitað var hann ekki að njósna um neinn. Auðvitað ætlaði hann ekki að gera neitt af sér. Þegar hann skar niður seglið hélt hann að það væri góðverk. En hér trúði honum enginn.
Lögreglustjórinn reis ógnandi á fætur eins og hann ætlaði að þrífa í drenginn og hrista hann. En þá opnuðust dyrnar að herberginu og inn gekk óeinkennisklæddur maður með hatt. Hver einasti lögregluþjónn tók viðbragð og spratt á fætur eins og gormur.
Það fyrsta sem hann gerði var að kveikja ljósin í herberginu. Hann leit á lögreglufulltrúana, einn af öðrum og svo fór hann að hlæja, hátt og snjallt.
Ha ha ha. Þið þurfið nú ekki að gera þetta í myrkri. Ha ha ha.
Hláturinn var smitandi svo allir flissuðu með.
Ópusi leið strax betur. Rýmið var ekki jafn skuggalegt og ógnvekjandi í birtunni. Lögregluþjónarnir voru bara venjulegir karlar með bumbu. Þeir báru greinilega mikla virðingu fyrir þessum manni.
Hann skipaði þeim strax að leysa Ópus úr handjárnum.
Og svo ætla ég að biðja alla að fara út, nema þennan unga dreng, bætti hann við af mikilli stillingu. Það var eins og maðurinn væri sá fyrsti sem veitti því athygli að Ópus var bara barn.
Málrómur mannsins var í senn vinalegur og ákveðinn. Hann var greinilega vanur því að gefa skipanir og það var á einhvern hátt ómögulegt að óhlýðnast.
Á meðan lögregluþjónarnir tíndust út stóð maðurinn hreyfingarlaus og horfði á Ópus. Hann var í síðum frakka, alveg svartklæddur og minnti helst á skugga. Það var ekki víst að nokkur tæki eftir honum ef hann gengi um stræti borgarinnar á dimmu vetrarkvöldi. Undir frakkaerminni glitti í risastórt armbandsúr úr gulli sem kostaði eflaust meira en íbúðin hans Ópusar í heild sinni. Sjálfur var maðurinn grannur og myndarlegur með hárið snyrtilega greitt aftur.
Hann lokaði dyrunum á eftir lögregluþjónunum og brosti meðan hann sneri hattinum sínum milli handanna. Brosið dofnaði reyndar aldrei, það var eins og það væri límt á andlitið.
Voru þeir að hræða þig?
Drengurinn kinkaði snöktandi kolli.
Ég vil ekki hræða þig, segir hann. En þú verður að segja mér allan sannleikann. Því að þú varst að eyðileggja mikilvægustu tilraun mannkynssögunnar.
Hjarta Ópusar hökti. Þetta hlaut að vera misskilningur. Hann hafði bara skorið niður yfirgefið segl á víðavangi. Eða það hélt hann. Hvaða hörmulegu vandræði var hann búinn að koma sér í?
Ég átti þetta segl, sagði maðurinn. Veistu hvað svona segl kostar?
Ópus vissi það ekki.
Þú skuldar mér mikla peninga fyrir þetta segl. Veistu hvað er gert við menn sem geta ekki borgað skuldirnar sínar?
Ópus vissi það heldur ekki.
Þeir eru settir í fangelsi, sagði maðurinn með silkimjúkri röddu.
Nú varð Ópus ógnarhræddur, því hann vissi vel að móðir hans gæti alls ekki borgað háar skuldir. Frekar færi hann rakleiðis í fangelsi. Vonandi yrði mömmu hans ekki stungið í steininn líka.
Maðurinn fylgdist brosandi með honum og lagði hattinn frá sér. Hann var með gullhring á hverjum fingri og gullarmbönd og ábyggilega með hálskeðjur úr gulli í þokkabót, en þær sáust ekki því frakkinn var hnepptur upp í háls. Eftir dálitla stund skellti hann upp úr.
Ha ha ha. Þú þarft ekki að hafa neinar áhyggjur. Ég fer ekki að rukka þig! Ég á nóg af peningum. Ha ha ha.
Ópus var svo feginn að heyra þetta og hláturinn var svo smitandi að hann fór sjálfur að hlæja, þótt hann vissi ekki beinlínis hvers vegna. Hann hló með tárin í augunum.
Við skulum bara láta eins og þetta hafi aldrei gerst. EF – og maðurinn lagði mikla áherslu á þetta ef – þú segir mér hvers vegna þú skarst seglið niður.
Ég er búinn að segja það, svaraði drengurinn. Ég var að hlusta á vindinn. Hann vill ekki vera fastur í seglum. Ég ætlaði að bjarga honum.
Ólíkt lögregluþjónunum, þá trúði maðurinn Ópusi og spurði af einlægum áhuga: Af hverju hélstu að þú þyrftir að bjarga vindinum?
Af því að það á að sýna honum virðingu. Annars verður hann reiður. Einu sinni drekkti hann manni – manninum hennar Súsönnu – bara því hann gleymdi að þakka vindinum fyrir lognið, útskýrði Ópus.
Eitt augnablik horfði maðurinn furðu lostinn á Ópus. Svo sprakk hann úr hlátri. Ha ha ha, glumdi í herberginu. Og Ópus skellihló með honum. Hann var alveg farinn að treysta þessum manni og þótti hann skemmtilegur.
Hvaða vitleysa, sagði maðurinn þegar hann var búinn að ná sér. Það er ekki eins og vindurinn sé á lífi. Kenna þeir ekkert lengur í þessum skólum? Ha ha ha. Vindur er bara steindautt loft sem flæðir á milli staða í heiminum. Trúðu mér. Ég er búinn að rannsaka þetta mjög vel. Það er til endalaust af vindi í heiminum. Og ég ætla bara að fanga pínulítið af honum – til að beisla vindorku.
Satt að segja vissi drengurinn ekki hvað honum átti að finnast um þetta. Hvers vegna ætlaði hann að beisla vindinn? Og hvernig? Og hvað myndi vindurinn gera í þjónustu mannsins?
Maðurinn fann greinilega hvað drengurinn var tortrygginn því hann hallaði sér fram og brosti af trúnaðartrausti:
Ég ætla að segja þér leyndarmál. Ég á fyrirtæki sem heitir STORMSKER ehf. Og ég er búinn að kaupa þúsund svona segl og láta smíða þúsund staura sem fyrirtækið ætlar að reisa um alla eyjuna.
Ópus var hættur að hlæja. Hann sá fyrir sér frumskóg af siglutrjám og seglum. Og satt að segja leist honum ekkert á blikuna. Það var greinilegt að vindurinn átti ekki að fá neitt pláss til að blása í friði um eyjuna.
Til hvers? spurði Ópus hikandi.
Til þess að framleiða tíma, svaraði maðurinn sigri hrósandi. Venjulegur 24 klukkustunda sólarhringur er alltof stuttur. Fólk nú til dags kemur tilverunni ekki fyrir í svo stuttum sólarhring. Fólk vantar fyrst og fremst tíma!
Ópus gapti. Framleiða tíma? Var þetta galdramaður?
Maðurinn hló og sagðist vera ríkasti fjárfestir í heimi. En það var tímafrekt að vera fjárfestir og þess vegna hafði hann sjaldan tíma fyrir fjölskylduna. Til dæmis var hann á viðskiptaráðstefnu þegar sonur hans varð níu ára og komst ekki heim fyrr en seint um kvöldið.
Og þá var sonur minn sofnaður. Hann hafði beðið allan liðlangan daginn eftir mér til að halda upp á afmælið, sagði maðurinn og þó að brosið væri líkt og frosið á andlitinu náði það ekki til augnanna. Konan mín yrti ekki á mig og gat ekki fyrirgefið mér að missa af veislunni. Því mér hafði tekist að særa drenginn. Honum þótti ekkert í heiminum merkilegra en að verða níu ára og vildi helst af öllu deila gleðinni með mér. En ég missti af því.
Svona er þetta. Tíminn er alltaf liðinn áður en manni gefst tími til að lifa lífinu sínu, því lífið er svo tímafrekt, sagði maðurinn og brosti á ný.
Þetta var greinilega mjög djúp speki. Ópus botnaði eiginlega ekkert í henni. En eitt skildi hann þó. Tíminn var af of skornum skammti í þessari veröld. Móðir hans var til dæmis alltaf svo upptekin að það var langt síðan hún hafði veitt Ópusi raunverulega athygli.
Það er svo erfitt að vera fullorðinn í dag, hélt maðurinn áfram. Dagarnir eru svo stuttir og fullorðna fólkið þarf að gera svo margt að hvert andartak breytist í kapphlaup við klukkuvísana. Börn taka ekki þátt í þessu kapphlaupi og þess vegna gleymast þau bara. Ég væri sjálfur búinn að kaupa mér viðbótarklukkustund í sólarhringinn, bara ef það væri hægt. En úr því það var enginn að selja klukkustundir, þá ákvað ég einfaldlega að framleiða þær sjálfur.
Með siglutrjám og seglum? spurði Ópus. Það er ekki hægt.
Víst, svaraði maðurinn. Ég er búinn að rannsaka þetta hávísindalega í mörg ár og það er víst hægt. Og nú skellihló hann á nýjan leik eins og hann vissi ekkert skemmtilegra en að framleiða aukaklukkustundir. Hann greip upp blað og penna og rissaði upp skýringarmynd fyrir Ópus.
Ástæðan fyrir því að sólarhringurinn er 24 klukkustundir er sú að jörðin er akkúrat svo lengi að snúast einn hring í kringum sjálfa sig. Hún snýst í austur, eða í þessa átt, og hann teiknaði örvar í kringum hnöttinn.
Ég ætla að hægja á snúningnum, með því að reisa seglabúnað og reka siglutrén djúpt niður í jörðina. Og þegar vindurinn blæs á móti snúningi jarðarinnar, sem sagt úr austri, og hann teiknaði punktalínu á móti hinum örvunum. Þá ætla ég að draga upp seglin og beisla afl vindsins til að stemma á móti snúningi jarðarinnar. Þá verður jörðin lengur að snúast um sjálfa sig og fyrir vikið verður meiri tími í hverjum sólarhring. Að minnsta kosti tuttugu og sex klukkutímar og jafnvel þrjátíu. Ha ha ha.
Ópus skoðaði myndirnar uppnuminn og sá að þetta hlaut að vera rétt. Í austanátt blés vindurinn á móti snúningi jarðarinnar, og þá var ekki nema rökrétt að nógu stór segl gætu hægt á snúningnum.
Nú varð maðurinn skyndilega strangur á svip.
Seglið sem við drógum upp í dag átti að vera fyrsta tilraunin í þessa áttina. Við vorum búnir að reikna út að þetta eina segl myndi lengja sólarhringinn um 12 sekúndur. Því miður var það ekki búið að vera lengi uppi þegar skemmdarvargur birtist og skar það niður – það er að segja: þú.
Maðurinn hvessti augun á Ópus sem skammaðist sín óskaplega og átti von á miklum reiðilestri. En í stað þess að hella sér yfir drenginn, þá birti yfir manninum á ný og hann fór aftur að flissa:
Ha ha ha. Hafðu ekki áhyggjur. Sem betur fer virðist seglið hafa verið nógu lengi uppi til að lengja daginn í dag um eina sekúndu. Það sýnir að útreikningar okkar eru réttir. Bráðum getum við reist heilan seglafrumskóg og gefið öllum í heiminum fullt af tíma. Ha ha ha. Líka mömmu þinni. Þá getur hún átt einn eða tvo tíma á dag til að slaka á og fara í göngutúr með þér.
Það glampaði á skjannahvítar tennurnar þegar maðurinn brosti. Það var eins og hann vissi nákvæmlega hvað skipti Ópus mestu máli. Svo bætti hann við:
En þá má náttúrlega enginn skemma seglabúnaðinn þegar hann rís.
Ópus ljómaði. Þetta voru ef til vill bestu fréttir sem hann hafði fengið. Hann var viss um að þessi maður væri snillingur og ábyggilega skemmtilegasti maður sem Ópus hafði kynnst.
Hvað heitirðu eiginlega? spurði Ópus af einskærri forvitni.
Maðurinn hló eins og honum fyndist spurningin barnaleg.
Ha ha ha. Heiti? Ég heiti ekkert. Ég hætti að nota nöfn fyrir löngu. Nöfn þvælast fyrir mér, sagði hann.
En hvernig getur maður þá talað um þig? spurði Ópus.
Maður getur það ekki, svaraði hann. Ég vil ekki að fólk tali um mig. Og þá er best að heita ekkert. Ha ha ha. En þú mátt kalla mig Forstjórann. Og mundu, þetta er leyndarmálið okkar. Það má enginn frétta af þessu fyrr en seglin verða dregin upp.
Forstjórinn blikkaði Ópus, setti upp svartan hattinn á ný og hvarf út um dyrnar líkt og hlæjandi skuggi í nóttinni. Drengurinn sat einn eftir. Það var fyrst þá sem hann mundi eftir vindinum. Var þetta ef til vill baráttan sem vindurinn hafði spáð fyrir um? Baráttan um hvort það mætti fanga vindinn í segl og hægja á jörðinni eða ekki?
Ópus ýtti hugsuninni frá sér. Hann myndi fá tækifæri til að verja meiri tíma með móður sinni. Forstjórinn ætlaði að gefa öllum heiminum meiri tíma til að lifa og slappa af! Var það ekki mikilvægara en vindurinn? Vindurinn hafði alveg nóg pláss til þess að blása frjáls úti á hafi og yfir öðrum löndum. Það gerði ábyggilega ekkert til þó hann þyrfti að sveigja fram hjá nokkrum seglum á þessari eyju.
Birkir Blær Ingólfsson fékk Íslensku barnabókaverðlaunin 2018 fyrir skáldsöguna STORMSKER – fólkið sem fangaði vindinn. Hann hefur áður gefið út non-fiction bókina (Þjóðar)sálin hans Jóns míns, smásöguna El Dorado og ljóðaforritið Vísur í samstarfi við Vísi.is. Hann starfar sem handritahöfundur hjá Sagafilm og vinnur að tveimur sjónvarpsþáttaröðum sem stefna í framleiðslu.