Bíó vikunnar að þessu sinni er ítalska hryllingsmyndin Suspiria (Stunur) eftir leikstjórann Dario Argente. Myndin fjallar um unga bandaríska konu sem hefur nám í virtum dansskóla í Þýskalandi – en fljótlega kemur í ljós að það á sér stað eitthvað fleira í skólanum en bara dans og dillerí. Myndin sem kom út árið 1977 er sú fyrsta í trílógíu leikstjórans, sem hann kallar „Mæðurnar þrjár“ – en sú næsta, Inferno kom þremur árum síðar, 1980, en sú síðasta, La Terza Madre, ekki fyrren árið 2007. Sögurnar í trílógíunni eru lauslega byggðar á persónum úr prósaljóði Thomas de Quincey, „Suspiria de Profundis“. Í helstu aðalhlutverkum eru Stephanie Harper, Joan Bennett, Alida Valli og Stefania Cassini, auk þess sem hinn magnaði Udo Kier birtist í aukahlutverki.
Suspiria er sannkallaður hrollvekjuklassíker – hver einasti rammi í senn ógnarfagur og skerandi.
Um tónlist í myndinni sá ítalska progrokk-grúppan Goblin – og á hún ekki síðri þátt í æðisgengleika myndarinnar en restin. Sérstaklega er þemalagið flott.
Myndin var tekin upp þannig að leikararnir töluðu á sínu eigin tungumáli en svo voru allir döbbaðir til samræmis á þýsku, ensku eða ítölsku. Hér að ofan sjáum við ensku útgáfuna.