Fyrir nokkrum árum bjó ég veturlangt í Västerås í Svíþjóð. Eitt af því sem vakti þá athygli mína, og ég áttaði mig síðar á að var í raun einkenni á fjölmennari þjóðum – jafnvel smáþjóðum einsog Svíþjóð – var hversu mikil umræða gat verið í kringum menninguna og hvernig fjölmiðlar nærðu hana, oft af meira kappi en forsjá. Þannig blés til dæmis Dagens Nyheter þennan vetur til hálfgerðrar styrjaldar um „hefðbundinn prósa“ og fékk hóp af ungum, íhaldssömum prósahöfundum til að skrifa manifestó gegn tilraunamennsku í bókmenntum.
Nýr áratugur er í augsýn: annar áratugur nýrrar aldar. Síðastliðin tíu ár hafa þrjár meiriháttar breytingar átt sér stað á sænskum prósa:
Frásagnarmáti raunsæisins hefur tekið sér bólfestu í glæpasögum og gellubókmenntum.
Mörkin á milli skáldskapar og sjálfsævisögu hafa þurrkast út.
Hin hreina og tæra frásagnarlist hefur verið sett til hliðar, bæði af höfundum og gagnrýnendum.
En það voru ekki bara borgaralegu blöðin sem blésu í herlúðra, stærstan hluta vetrar var tekist á um nýja þýðingu á Hinum Guðdómlega Gleðileik Dantes – með uppslætti á forsíðu og nýjum og nýjum innleggjum vikulega. Nokkru fyrr logaði allt stafna á millum í sænskum menningarheimi þegar deilt var um hvort myndlíkingin ætti nokkurt erindi í bókmenntum samtímans – enn er vísað í stóra „metafordebatten“ með talsverðri nostalgíu, svona einsog gamlir sjóhundar segja hetjusögur úr síldarævintýrinu. Nú í vetur hefur Yahya Hassan verið milli tannanna á fólki, ekki bara í Danmörku heldur á Norðurlöndum öllum, líkt og Starafugl hefur sagt frá. Sú hugmynd, sem oft heyrist, að fólk hafi ekki áhuga á fagurfræðilegum átökum – að þau séu einfaldlega ekki markaðsvæn, að menningarrýni skili ekki smellum og lesendum – stenst einfaldlega enga skoðun sé litið út fyrir landssteinana.
En tilgangur menningarfjölmiðlunar er ekki bara að selja blöð. Tilgangur menningarfjölmiðlunar hlýtur líka að vera að hvetja til samræðu um menninguna, frekar en einfaldra og endanlegra gildisdóma, og fjallar þegar allt kemur til alls ekki bara um hin tilteknu stykki og hversu vel allir stóðu sig. Góð menningarfjölmiðlun fjallar um samfélagið sitt, fjallar um heiminn, mennskuna, pólitíkina, fegurðina, ljótleikann, heimskuna, illskuna og svo framvegis. Hún gerir samfélagið ríkara með tilvist sinni. Hún er framlenging og viðbragð við verkinu og henni á helst ekki að ljúka við fyrsta dóm og hún á helst ekki að vera einsleit – þótt hún verði það einmitt mjög oft, maður fái jafnvel á tilfinninguna að gagnrýnendur eltist við að bergmála hver annan (og þetta á ekki síður við í Svíþjóð en á Íslandi, vel að merkja).
Leiklistargagnrýnandinn Jón Viðar Jónsson, sem sagði nýlega lausu starfi sínu á Fréttablaðinu vegna vanefnda á samningi – það var haft eftir Vigni Rafni Valþórssyni hér á Starafugli að það væri vegna þess að umfjöllun hans um Hamlet hefði verið stytt, en Friðrika Benónýs, menningarritstjóri Fréttablaðsins hefur hafnað þeirri skýringu, og bent á að henni hafi heldur alls ekki sjálfri verið ætlað að skrifa um Spamalot – altso, einn helsti kostur Jóns Viðars sem gagnrýnanda var sá að umfjöllun hans varð undantekningalítið til þess að vekja upp umræðu um þau verk sem hann rýndi í, sem annars hefði aldrei orðið. Jón Viðar bar sína fagurfræðilegu sýn á borð og henni gat annað leikhúsfólk, gagnrýnendur í öðrum miðlum, fólk á Facebook, virkir í athugasemdum og aðrir svarað, vegna þess að hún var á einhvern máta áþreifanleg, og þar með skerpt á sinni eigin sýn, ekki bara á miðilinn heldur á heiminn. Sá eða sú sem skerpir á fagurfræðilegri sýn sinni verður meiri manneskja fyrir vikið, skerpir á öllum skilningarvitum sínum og stækkar heiminn.
Jón Viðar er hins vegar ekki eini faglegi gagnrýnandi landsins og óþarfi að láta einsog svo sé. Þegar við bölsótumst út í fjölmiðla fyrir þunna, niðursoðna, snöggsteikta og lélega menningarumfjöllun – sem má vissulega finna víða – þá viljum við nefnilega gleyma því sem þó er vel gert. Undanfarin misseri hefur til dæmis verið gósentíð í leikhúsumfjöllun – fyrir utan Ríkisútvarpið, sem hefur alltaf staðið sig í þessu það best ég veit – má sérstaklega nefna þau Gunnar Smára Egilsson, sem skrifað hefur í Fréttatímann, og Hlín Agnarsdóttur sem tók við af Jóni Viðari á DV. Bókmenntaumfjöllun í jólabókaflóðinu á líka oft góða spretti – þótt hún mætti vissulega vera virkari á öðrum árstíðum líka.
Starafugl ætlar sér að vera vettvangur fyrir góða menningarumfjöllun – enn einn svoleiðis – vettvangur afdráttarlausrar umfjöllunar sem bregðast má við. Starafugl ætlar sér umfram annað að hvetja til samtals, hvetja til þess að menningarrýni sé svarað, helst aftur og aftur, svo úr verði samhangandi og margvíð umræða öllum til góða (og ánægju, skemmtunar, fróðleiks, uppljómunar).
Starafugl er vissulega í bágri stöðu með að vera unninn í sjálfboðavinnu – þetta er peningalaust blogg í grunninn. En komi sú tíð að inn í þetta ævintýri renni einhverjir peningar – í formi styrkja eða auglýsinga eða annars, sem er í athugun – þá munu þeir peningar renna til þeirra sem skrifa fyrir vefritið (að ritstjóra undanskildum). Þangað til njótum við hallærisins og reynum að hafa hátt.